miðvikudagur, september 21, 2005

Apaspil?

Segir Jóhannes Jónsson í Bónus um Baugsmálið. Það á eftir að koma í ljós hvort hann hefur lög að mæla. Að vissu marki má segja að það sætir undrun að eftir þriggja ára rannsóknarvinnu og undirbúning skuli málið ekki vera dómtækt.
Ég persónulega get ekki neitað frekar óljósum grun mínum um að málið lykti af Davíðskri pólitík.
Ég hef jafnframt vonað að það sé hin mesta firra og stjórnendur Baugs hafi í raun verið að brjóta lög sem þeir verða að svara fyrir.
Spyrjum að leikslokum segir Jón H B Snorrason saksóknari ( Jón kenndi mér réttarfar síðasta vetur) Jón kemur fyrir sem vandaður maður í hvívetna. Hann er Eyfellingur, sonur Snorra sundkennara á Skógum sem meðal annars kenndi mér að synda þegar ég var smá putti. Hann virðist vera viss í sinni sök. Það á hinsvegar eftir að koma í ljós hvað Hæstiréttur segir um málið.
Ég vona að í ljós komi að Jón hafi rétt fyrir sér.
Ef hinsvegar Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdómara þá þykir mér Jón og hans embætti vera í vondum málum. Þó hann geti lagað ákærurnar og lagt þær fyrir dómara aftur (sem lögfróðum mönnum reyndar greinir mjög á um) er hætt við að dómstóll götunnar dæmi hann úr leik, með blóðþyrsta blaðamenn í forystu. Sem helgast af því að sú krafa er auðvitað meira en réttmæt að ríkissaksóknari kunni að undirbúa mál fyrir dómara.
Sú niðurstaða héraðsdóms að 18 af 40 kæruliðum eru ekki dómtæk ber allavega ekki vitni um vandaða stjórnsýsluhætti hjá embættinu.

Ef reyndin verður sú að málið sé af ætt Davíðs og pólitísk angan er af málinu, þá er heldur betur kominn tími til að taka til í stjórnkerfinu.
Ljós punktur í því öllu væri samt að íslenska réttarkerfið virkar eins og það á að gera. Dómarar búa við þann kost að ekki er hægt að reka þá, nema þeir brjóti af sér í starfi og þá þarf að setja þá af með dómi. Það er gert til að tryggja hlutleysi þeirra. Þeir geta dæmt ríkinu í óhag án þess að þurfa að óttast um vinnulega framtíð sína.
Ef Baugsmenn reynast saklausir þá var auðvitað illa með þá farið. Þá verða líka vinnubrögð saksóknara þjóðinni dýrkeypt. Himinháar skaðabætur verða þá dæmdar á ríkið að greiða þeim, og ríkið - það erum VIÐ.
Eru Baugsmenn sekir eða saklausir?
Hefurðu skoðun á því?

5 ummæli:

Íris sagði...

Ohh, ég hef ekkert verið að fylgjast með þessu máli, vissi ekki einu sinni að Héraðsdómur væri búinn að dæma :( Verð að fara að kynna mér þetta. Er eins og álfur út á hól þegar verið er að tala um þetta í skólanum!
Þannig að ég hef ekki skoðun á því hvort þeir séu saklausir eða sekir!

Erling.... sagði...

Smá föðurleg áminning.
Þetta mál er mjög athyglisvert fyrir laganema að fylgjast með. Þú getur fylgst með risamáli sem verður í kennslubókum framtíðar klárlega í réttarfari, skaðabótarétti og refsirétti og jafnvel fleiri greinum lögfræðinnar.

Nafnlaus sagði...

Saklausir...? Slæmt mál fyrir ríkissaksóknarembættið! Ásamt ýmsum kauðum...

Sekir...? Slæmt mál fyrir feðgana í Bónus og þeirra orðstír... :(

Annars tek sama streng og elskan mín, hef ekki fylgt með málinu en finnst það loðnara en loðið ef heil 3 ár eru lögð í að undirbúa málið fyrir dóm og vera svo ,,vísað" út með þessa n(m)iðurstöðu...
1 er víst: annað liðið er að svindla! Spurningin er hvaða?

Með bruðlkveðju,

Karlott

Nafnlaus sagði...

Verður þetta líka kennt í þjóðarrétti í framtíðinni psbbi??? Hehehehe.. Hryllilega var þetta fyndið!! Pulsa og kók..... Ég hef ekki mikla skoðun á þessu Baugsmáli en sekir??? Örugglega að einhverju leiti.... Jæja gangi þér vel í skólanum :) Þín Eygló

Nafnlaus sagði...

ég þekki ekki Jón Snorrason, en Hlynur bróðir hans er mér mjög vel kunnugur. Hlynur starfar sem rannsóknarlögreglumaður á Ísafirði. Hlynur er afar vandaður og vel gerður maður og ef bróðir hans er sömu gerðar þá finnst mér afar langsótt að ætla honum að reyna að sakfella saklausa menn. Fyrir mér er því ekki spurning um að þeir hafa einhversstaðar farið út af sporinu.

Ég hef heldur ekki neina trú á því að Davíð komi þessu máli neitt við, eða aðrir stjórnmálamenn yfirleitt.

En hvað veit ég svo sem.