miðvikudagur, september 28, 2005

Ég var klukkaður....!

svo ég er'ann.
Ég geri ekki ráð fyrir að manni líðist að skorast undan svo ég set eitthvað hér inn í kvöld - eftir lestur og verkefnavinnu dagsins.

Hér kemur það svo:

1.
Mér þykir hvítlaukur góður, þó það hafi verið eitt hræðilegasta bragð sem ég man eftir frá ungdómsárum mínum. Man sérstaklega eftir einni ungri myndarlegri konu sem mér fannst hræðileg herfa, bara vegna þess að hún hafði snætt hvítlauk.
Hann er líka meinhollur, þó það sé ekki tilgangurinn.

2.
Ég er feitur og pattaralegur. Þegar ég var að vaxa upp fannst mér mesta hörmungin í lífi mínu að vera svona grannur eins og ég var. Pabbi hafði um það þessi orð:
Erling hann er mjór og smár
Horkrangi og rindill
Óþekkur og feikna þrár
Þessi litli dindill.
Óskaði mér alltaf að ég væri feitari en ég var. Nú er samt svo komið að spegillinn minn lætur mig ekki í friði og æpir á mig stöðuglega að ég þurfið að grennast. Ég hef látið mér detta í hug að ég ætti kannski að fara að gefa gaum að því sem hann er að segja. Nei annars – það er alveg tilgangslaust.

3.
Ég er forfallinn veiðiidjót. Það byrjaði allt þegar ég var fimm ára er ég eignaðist meterslangt prik með meterslöngu girni bundið á endann. Sakkan var ró og öngullinn var boginn nagli. Á þetta veiddi ég minn fyrsta fisk, hann kokgleypti naglann og ég náði honum ekki af. Ég dró hann eftir læknum alla leið heim og sótti mér hjálp til að losa hann. Benni bróðir kom og losaði hann af og.........grýtti honum svo í stein og drap hann. Ég man enn hvað ég var svekktur og reiður, ég ætlaði að gefa honum líf. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og ég er enn að veiða. Hef ekki getað lært aftur hvernig á að sleppa fiski - öðruvísi en ofan í poka. Ég læknast sennilega aldrei af þessari dellu - enda til hvers?

4.
Þegar ég var barn í sveit hugsaði ég oft hvað væri hinum megin sjóndeildarhringsins. Það var ekki ferðast mikið í þá daga í sveitinni. Ég fann oft til fiðrings í magann við tilhugsunina um að fara til framandi slóða. Í dag er ég forfallinn ferðaidjót. Ég hef skyggnst aðeins bak við sjóndeildarhringinn. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri í lífinu og þá ekki síst hérlendis. Verð að viðurkenna að ef ég mætti velja um utanlandsferð eða jafnlanga ferð að eigin vali um Ísland, yrði Frón fyrir valinu.
Tilgangslítið...?

5.
Alinn upp á sveitaheimili við sveita andlits heimilismanna. Langt frá munaði og listisemdum, skil ég ekki alveg hvaðan kominn er þessi frábæri fagurkeri og lífskúnster sem mér til undrunar, ég finn oft í sjálfum mér. Áhorfandi að óendanlegum fjölbreytileika lífsins, get ég gleymt mér í lotningu fyrir sköpuninni, því óþekkta og órannsakaða sem mér finnst liggja á hægri og vinstri allt í kringum okkur, ég hlýt að vera svona frábær náungi....!

Átti þetta kannski ekki að vera ritgerð.....?

1 ummæli:

Íris sagði...

Gaman að lesa þetta hjá þér pabbi, reyndar vissi ég þetta flest allt saman, nema að þú værir feitur, hef aldrei litið á þig sem feitan. Þú ert bara orðinn svona pattarlegur og það passar best við afa að hafa eitthvað utan á sér.
Sjáumst ;)