sunnudagur, september 18, 2005

Rólegheit eru þetta...

Ég ranka allt í einu við mér og fatta að ég sit einn í stofusófanum við lesturinn.
Hér iðaði allt áðan af lífi en nú er eins og dottið hafi á logn. Ég lít upp og sé að líklega hefur drottning hússins “her majesty” lagt sig síðdegislúr.
Stúlkurnar fóru í bæinn sem endranær, en það virðist vera skemmtileg iðja. Allavega ef taldar eru ferðirnar þeirra þangað.
Úti er logn og sól, ég sé það á veðurvitunum mínum, en það eru fánarnir fyrir utan Kaskó. Þeir eru eins og strompurinn á Sementverksmiðjunni á Akranesi, fínir veðurvitar, allavega vindhanar.
Litir haustsins eru algerlega að ná yfirhöndinni. Trén hér úti skarta fallega gulum og rauðum litum þessa stundina. Þetta er fallegt, en jafnframt tímanna tákn.
Brátt hvín í hæðum og frostbitnum melum. Þá er gott að muna að kuldaboli er líka nauðsynlegur lífríkinu hér og getur verið mjög skemmtilegur. Margar af mínum fallegustu minningum er einmitt kaldir og kyrrir vetrardagar. Þá renndi maður sér á járnplötu eða skautaði niður frostbólgna læki ásamt krakkaskara sem ekkert vantaði á í Kotinu í gamla daga.
Nú finnst mér góður tími. Þó ég kunni reyndar best við vorið þá er svo margt við þennan tíma sem mér líkar vel. Þetta er t.d. besti veiðitíminn. Nú er sjóbirtingurinn að vaða upp í árnar, gæsaveiðin er líka upp á sitt besta. Það má kannski segja að mér líki svona vel við þannan tíma vegna sveitamannsins í mér, það er uppskerutími. Eða kannski er ég bara svona yfirmáta jákvæður.
Nú færum við í hús fyrir veturinn.
Verð líklega að skreppa í smá veiðitúr áður en langt um líður.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þetta er svo sannarlega skemmtilegur tími, allavega uppáhaldstíminn minn, þ.e.a.s haustið.. Svo kósý e-ð og notalegt! Og það er nú alltaf gaman að veiða líka,það skemmir ekki fyrir :) Hafðu það best.. Þín dóttir Eygló

Nafnlaus sagði...

"VERÐ líklega að skreppa í smá veiðitúr áður en langt um líður".


Margar eru raunir manns, en Drottinn frelsar hann frá þeim öllum...híhíhí....

Sirrý litla

Erling.... sagði...

Já maður leggur ýmislegt í sölurnar svo fólkið manns svelti ekki...!