miðvikudagur, apríl 06, 2005

Bensínið......

Ég hef ákveðið að halda tryggð við Atlantsolíu þó verðið sé nú dýrast hjá þeim þessa stundina.
Ástæða þess er sú rótfasta skoðun mín að þetta litla félag er valdur þess að bensínverð er ekki hærra nú en það er. Atlantsolía er ekki að lækka verðið núna eins og hinir. Ástæðan er ekki ýkja flókin. Þeir hafa ekki efni á því, þeir eru svo litlir að þeir verða að fá einhverja álagningu á hvern lítra sem þeir selja. Nú reynir á neytendur.

Hin félögin öll eiga nóg af peningum eftir áralangan vel skipulagðan þjófnað og misnotkun á okkur neytendum og láta sér ekki muna um að borga með lítranum tímabundið ef vera mætti að það gæti orðið til að litla félagið legði upp laupana – eða yrði til sölu þegar reksturinn þyngdist. Gleymum ekki að stolnu milljarðarnir liggja enn inni á sjóðum félaganna og upplagt að eyða smá hluta af þeim í þetta.
Þetta er þekkt aðferðafræði á markaði þegar ráðandi fyrirtæki vilja minnka eða drepa samkeppni. Þau treysta á að kúnnarnir elti krónurnar sem þeir niðurgreiða, oftast tímabundið eða þangað til Lilli litli gefst upp.
Ég vona að Samkeppnisstofnun grípi í taumana nú og kanni innkaupsverð vs. söluverð, en Atlantsolía fullyrðir að félögin greiði með lítranum ídag – ég trúi þeim.
Ef það er reyndin þá eru þeir enn að brjóta samkeppnislög.
Enginn skyldi gleyma því að Orkan er Skeljungur, ÓB er Olís og Ego er ESSÓ. Þetta eru bara dótturfélög ætluð til að slá ryki í augu neytenda.

Virk samkeppni á bensínmarkaði verður ekki tryggð nema neytendur horfi í gegnum svona fléttur risanna og passi uppá nýja sprotann, hann þarf að nærast til að vaxa. Það verður hollara buddunni til lengri tíma litið. Ekki spara aurinn í dag til að kasta krónunni síðar.
Ég segi nei takk við þjófana - kurteislaga, með því að versla ekki við þá.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr! Mættu fleiri horfa þessum augum á málið. Ég fylgi þínu fordæmi frændi kær.

Kveðja Hrafnhildur

Karlott sagði...

Uss!

Ég verð að játa eitt...
... ég lét blekkja mig!!!

Um daginn fórum við fjölskyldan að fá okkur bensín á skutluna og förinni var haldið til Atlantsolíu, en þar höfum við verslað síðustu misseri og ætíð haldið tryggð við. Þegar við lullum þarna að sjálfsafgreiðslustöðinni sjáum við okkur til mikillar gremju að verð á lítranum var komið í 101.2 kr. (að mig minnir)... Ég missti kjálkann niður á læri... Bíddu við, Atlantsolía með svona gróðapokaverð... Verð að viðurkenna, mig sárnaði aðeins. Haldandi að okkar ódýri þjónustuaðili hafði villst af vegi og ákveðið að temja okkur kúnnana með inn á braut gróðahyggju og alles, neeeiii þetta vil ég ekki! Svo við skunduðum að næstu stöð, Orkuna, verð: 97,7 kr.!! Með trega í hjarta dældi ég á bílinn fullan tank af drykk samkeppnisaðilans, kyngj...

Eftir lestur þessa ágæta pistils, ætla ég að láta mig sannfærast um heiðarleika Atlantsolíu og hugsa mig eilítið um áður en ég stekk á fáki mínum í gryfju svikamyllu og forapyttsgróðahyggju... uss og sveiattan!!!!!!

Áfram Atlantsolía!

ps: svei mér þá ef þessi pistill er ekki dagblaðahæfur.....