Það heilsar fallega. Það er hlýtt, skýjað en vorlegt. Ég tók eftir því í gær að gróðurinn er farinn að gægjast upp úr moldinni og brumin á trjánum farin að teygja úr sér eftir langan vetrarsvefn. Það kveikir alltaf í mér að sjá vorið læðast í garð. Í mig kemur alltaf einhver fiðringur, sem er einhverskonar blanda af tilhlökkun, viðkvæmni og gleði. Eins og strokið sé yfir fiðlustreng á ljúfu nótunum.
Ég hef setið yfir refsiréttinum í morgun. Ég þarf svolítið að beita mig hörðu til að fara ekki frekar út í vorið og njóta þessara gæða sem það býður upp á.
Þessari törn fer að ljúka Ég held að elskuleg konan mín sem hefur ekki séð mikið af sínum manni undanfarið, verði fegin. Eeeh... ég vona það allavega.
Ætla að gera eitthvað skemmtilegt fyrir hana þegar þetta er búið. Hún á mikinn heiður skilinn fyrir þolinmæðina og stuðninginn. Hörkudugleg konan sú. Hún er á fullu í “líkami fyrir lífið” átaki. Það er sniðugt líkamsræktar kerfi. Man ekki eftir að hafa fyrr séð hana jafn ákveðna í að ná árangri og nú.
Gangi þér þetta vel Erla mín.
Þetta er orðin ágætis pása og ekki til setunnar boðið lengur.
.....áfram með lesturinn gói minn.
1 ummæli:
Gleðilegt sumar og gangi þér vel í prófunum minn kæri vin.
Skrifa ummæli