....átti afmæli 9. apríl sl. Í tilefni þess var haldin þessi flotta veisla honum til heiðurs í gærkvöldi. Veislan var í samhjálparsalnum og tókst svona snilldar vel í alla staði.
Lamb var á boðstólum með tilheyrandi. Það var við hæfi, enda hefur mér skilist á Birgi "bónda" að lamb standi höfði og herðum hærra annarri fæðu og er þó af ýmsu góðu að taka. Ásta hans Kidda eldaði matinn sem bragðaðist eins og best verður gert.
Teddi mágur minn stýrði veislunni og fórst það vel. Það er vandi að stýra veislu svo vel sé, vandrataður meðalvegurinn milli hátíðleika og gríns og glens. Að standa á sjötugu er flottur áfangi. Það er enn flottara ef árin hafa skilið eftir sig eitthvað sem hefur snert við lífi fólks. Það var samnefnari þeirra ræða sem haldnar voru í veislunni að tengdapabba hafi tekist það. Það er gæfa sem hlotnast ekki öllum. Það byggir reyndar ekki á neinni heppni heldur á lögmálinu um sáningu og uppskeru. Ýmsir stóðu upp og héldu honum tölu. Ég var ánægður fyrir hans hönd með það sem kom fram í máli manna...og kvenna. Orð sem flest voru án innistæðulauss kurteisisskjalls, heldur meint eins og þau komu af kúnni.
Það er með ánægju og hlýju sem ég get litið yfir árin 33 sem ég hef tilheyrt fjölskyldunni og get sannarlega tekið undir orð einhvers sem tjáði sig, hversu ég er feginn að þau hittust Ella og Biggi....! Það atvik er orsakavaldur mestu gæfu minnar, hvorki meira né minna.
Til hamingju með árin öll,
og enn frekar með uppskeruna sem þú hefur komið í hús.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli