Það var sérstök ánægja fyrir okkur Erluna að sjá þessa vængjuðu nágranna okkar komin á svæðið. Það hefur verið hálfgerður beygur í okkur frá því í vetur eftir að álftin var skotin hér fyrir ofan frosin föst á ísnum. Sem betur fer var það..... ókunnug álft. Við fylgdumst með þeim hjónunum Nínu og Geira koma í dag í hólmann hér úti í á. Þreytt eftir langt flug yfir Atlantshafið, ganga með stóískri ró að ólögulegu óðalinu sínu frá í fyrra. Þau skoðuðu vel hvernig það kæmi undan vetri, spjölluðu saman á lágu nótunum og kroppuðu aðeins og löguðu það eitthvað til. Annað þeirra rölti svo aftur niður að á og fékk sér smá sund og gott í gogginn af botninum meðan hitt hélt áfram að taka til.
Þau virðast hafa allan heimsins tíma og taka lífinu með mikilli stillingu. Lötra niður að á og synda saman í rólegheitum og reigja hálsinn með tignarlegu yfirbragði, taka svo land og rölta upp að óðali, laga það aðeins til, spjalla, lötra svo aftur niður að á, synda og fá sér í gogginn. Allt látbragð þeirra er friðsælt og fallegt. Þau eru kóngur og drottning í ríki sínu. Ég held að þau hafi ekki enn frétt af kreppunni.
Við munum fylgjast grannt með þeim eins og fyrri árin hér við ána.
þetta er óður til lífsins.
2 ummæli:
Skemmtilega ritaður pistill hjá þér pabbi =)
Það er örugglega gaman að fylgjast með þeim þarna :)
Kveðja Eygló
... og hvenær kemur svo út bók eftir þig Erling?
Þú ert góður penni!
Kveðja, Karlott
Skrifa ummæli