Páskarnir hafa verið ánægjulegir hjá okkur. Við byrjuðum hátíðina með því að fara í Föðurland í Fljótshlíð á skírdag. Ég kláraði nokkur handtök sem þurfti, til að gera enn notalegra í kofanum okkar. Var m.a. búinn að færa eldhúsið yfir og tengja klósett og handlaug á baðinu. Svo nú er að nálgast að allt sé til alls í nýja kofanum. Heiðar og Sigrún komu svo á föstudaginn og gistu fram á laugardag. Við grilluðum saman og rifjuðum upp góðar fellihýsastundir undanfarinna ára. Danni og Ankie kíktu á okkur á laugardeginum og Benni og Una líka. Við kíktum líka aðeins í heimsókn til Hlyns. Gerða systir rak inn nefið og fleira gott fólk hittum við.
Á páskadag vorum við svo með páskalamb fyrir alla fjölskylduna okkar heima í húsinu við ána. Lambið (læri og hryggur) hafði fengið að vera við stofuhita í nokkra daga til að meyrna. Það var ljúffengt eins og lamb er alltaf, erfitt að klúðra því.
Í dag fórum við svo til Reykjavíkur á mótorfáknum okkar. Það var hressandi og skemmtilegt. Kíktum á tengdó og aðeins til Heiðars og Sigrúnar. Nú erum við komin heim. Tvær dætranna, Arna og Hrund, voru að koma heim . Merkilegt hvað þær nenna að vera með okkur gamla settinu. Við hljótum að vera svona skemmtileg.
Kvöldið verður því notað í spjall og samveru.
Það leiðist mér ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli