fimmtudagur, apríl 23, 2009

Með sól í sinni, sól í hjarta

Sumar heilsar með vætu og morgunsvala. Vætan er góð fyrir unga frjóangana sem gægjast út í vorið og bera með sér fögur fyrirheit um hækkandi sól og græna tíð. Veturinn, mildur hvað veðráttu varðar, allavega miðað við þann síðasta, hefur kvatt í bili. Brumin á trjánum hér í garðinum og ástarleikir fuglanna hér fyrir opnum tjöldum bera því gleggst vitni.
Vorið er góður tími. Við verðum vitni að hringrás lífsins einu sinni enn og sjáum hvernig lífið í sinni einföldu mynd er eins hjá öllu sem lifir. Að fæðast, lifa um stutta stund, og deyja.

Það eru lífsgæði að fá að vera áhorfandi að þessu fallega undri í kringum sig. Allt er í raun afstætt og tíminn ekki síst þegar fylgst er með heilu æviskeiði á jafnstuttum tíma sem íslenskt sumar er. Æviskeið okkar er jafn afstætt þegar maður hugsar til þess hvað bernskan fjarlægist hratt í árum talið. Ég get farið að tala um hálfa öld. Ég er þakklátur hverju nýju ári sem bætist við. Sumum finnst eitthvað hræðilegt við að eldast, verum fegin að fá að eldast. Ég upplifi lífið eins og spennandi bók þar sem skrifaður er nýr kafli hvern einasta dag.

Auðvitað eru kvartilaskipti í lífinu og veturinn, þó hann hafi verið góður veðurfarslega, hefur verið mörgum erfiður. Atburðir vetrarins í efnahag landsins snerta margan illa. Það er þó ofurnauðsynlegt að gera sér grein fyrir að þrátt fyrir allt búum við í landi fádæma gæða. Það vita innflytjendurnir sem nú streyma til okkar vængjum þöndum frá fjarlægari löndum og sýna okkur með þeirri fyrirhöfn, hvers virði landið er. Þessi eyja sem hefur alið okkur sem þjóð í árþúsund við misjafnan kost, hefur síðustu áratugi opnað fyrir okkur auðlindasjóði sína sem aldrei fyrr, sem allar þjóðir öfunda okkur af. ESB horfir til okkar á biðilsbuxum einmitt vegna þessara gæða landsins. Það er á grundvelli þessara gæða sem við munum rísa fljótt upp úr vandræðunum þrátt fyrir að vandinn sé sennilega allra þjóða mestur. Við búum vel að eiga slíka gersemi.
Njótið sumarsins í hvívetna vinir mínir og munið að áhyggjur auka ekki einum degi við aldurinn.....nema síður sé.
Gleðilegt sumar

Engin ummæli: