miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Vinna vinna

Það er þannig. Búið að vera ótrúlega mikið að gera undanfarið. Hver segir að skóli sé ekki vinna?
Praktíkin allsráðandi í verkefnum annarinnar.
Njótið daganna....

mánudagur, febrúar 01, 2010

Föðurland og Mýrdalur

Ég var á Föðurlandi um helgina, einn -grasekkjumaður fram á sunnudag. Ég notaði tímann til að lesa námsefnið. Ég skrapp líka í myndatökutúr inn í Fljótshlíð. Fljótshlíðin er endalaust myndefni enda fallegasta sveit á Íslandi. Ég set tvær hér að gamni, svo eru þrjár nýjar á Flickr síðunni minni. Ég hefði getað skroppið á þorrablót í Goðaland en ég nennti ekki konulaus. Við Erlan höfum oft talað um að gaman væri að skreppa, sérstaklega fyrir mig og hitta sveitungana. Það er alger snilld að vera í kofanum - einn eða fleiri.
Efri myndin er tekin við Bleiksá og sú neðri er tekin af hrafntinnustein fyrir utan bústaðinn, speglunin í steininum er af umhverfinu.

Erlan fór í húsmæðraorlof austur í Mýrdal. Ein skólasystir hennar úr Árbæjarskóla bauð þeim nokkrum skólasystrum í heimsókn en hún rekur bændagistingu á bænum Steig í Mýrdal. Þær skemmtu sér vel við upprifjun gamalla minninga.
Erla kom svo á Föðurland seinnipart sunnudags og svo keyrðum við saman heim um kvöldið.
Skólinn fór af stað með gauragangi og eins og við var að búast hefur verkefnavinnan komið á færibandi síðan. Helgin var góð hjá okkur báðum.
Hafið það gott vinir í íslensku veðursældinni.

sunnudagur, janúar 24, 2010

Plús átta

Það er hressandi fyrir sálartetrið að hafa svona einstaka tíð eins og nú er. Að horfa út um gluggann hér á skrifstofunni minni er ekki eins og hefðbundið janúarútsýni, miklu frekar eins og apríl. Allt marautt og ekki frost í jörð. Það liggur við að maður komist í vorfíling en það væri auðvitað bara plat.

Við vorum í árlegu þorrablóti fjölskyldunnar í gærkvöldi, núna hjá Hlyn og Gerði. þau gerðu þetta vel og maturinn var frábær, svo sem eins og venjulega. Hann er þó misgóður. Við systkinin höfum viðhaft þennan sið í 33 ár sem er alveg ótrúlegt því ég man svo vel eftir fyrsta skiptinu, um það leyti sem ég var að koma með Erluna inn í ættina. Lengst af vorum við með krakkana okkar með eða þangað til húsin okkar dugðu ekki lengur fyrir allan fjöldann og við færðum þetta til upphafsins og hittumst nú bara systkini og makar. Það er samt synd eins og mamma hefði sagt. Tilhugsunin um að þetta hverfi með okkur er ekki góð. Það þarf að viðhalda svona góðum sið, finnum aðferð til þess...!
Þeim leiddist ekki konunum í fjölskyldunni að tala um Boston ferðir. Þær fóru allar þangað í fyrra í ferð sem virðist hafa verið frekar skemmtileg af hlátrasköllunum að dæma. Betra að vera ekki fyrir þegar þær komast á flug í endurminningunum...! Það er gott að hafa góðar minningar til að skemmta sér yfir - ekkert nema gott um það að segja.
Framundan er svo annað þorrablót í Erlu fjölskyldu. Það vantar ekki að maður hafi möguleikana til að fitna þótt talað sé um kreppu. Maður ætti kannski að fara að skoða líkamsræktarprógrömmin....?
Í bili ætla ég samt bara að halda áfram með skólaskylduna, er að lesa sakamálasögu núna - bara gaman.

Njótið daganna gott fólk.

þriðjudagur, janúar 19, 2010

Boston var það....

..... í tilefni fimmtugsafmælis Erlunnar minnar. Þó hún beri það ekki með sér þá varð hún fimmtug þann 14. janúar sl. Við ákváðum að hafa eina veislu og eina reisu í tilefni afmælanna okkar, það er styttra á milli okkar í aldri en sýnist.
Ferðin var afar góð. Boston er öðruvísi amerísk borg en ég hef séð áður. Falleg, hrein og skemmtileg. Með urmul af góðum matsölustöðum og margt fallegt að skoða.
Eins og nærri má geta er ekki erfitt að dekra þessa konu. Hún ber bara með sér þannig persónuleika að annað er ekki hægt.
Við eyddum afmælisdeginum í ýmislegt skemmtilegt m.a. settumst við niður á Cheers barnum fræga, kíktum aðeins í búðir skoðuðum falleg hús og margt fleira.

Fimmtug.... varla, hlýtur að vera vitlaus kennitala.

Við enduðum svo daginn á glæsilegum veitingastað uppi á 52. hæð, með glæsilegu útsýni yfir Boston. Lukkan var með okkur því þjónninn tjáði okkur að þeir ættu Vagyu naut, besta nautakjöt veraldar sem væri mjög erfitt að fá. Það þurfti ekki að dekstra okkur með það. Kjötið var.... og nú vantar nógu sterk lýsingarorð, himneskt, kemst kannski næst því. Algjört lostæti, steikingin fullkomin, kryddunin líka og meðlætið. Ég ætlaði að panta bragðmikið spánskt rauðvín Marqués de Riscal með en það leist þjóninum ekki á og vildi velja fyrir okkur vín sem hæfði þessu kjöti, það var látið eftir þrátt fyrir hjáróma mótmælanöldur úr vasanum mínum, veskið lætur stundum svona. Ég sá ekki eftir því að láta hann velja - þetta var nálægt fullkomnun. Eftirrétturinn var franskur Créme brulée, líka alveg eins og hann á að vera. Topp topp toppp...staður! Afar rómantískur með ofboðslega flottu útsýni. Sælkerarnir við, vorum í essinu okkar þarna.

Við höfðum ákveðið að þetta yrði ekki verslunarferð -alveg satt, Erla jú hún var líka með í ráðum...! Hinsvegar ætluðum við að nota tímann og prufa veitingastaði, við erum svoddan matarunnendur og nutum þess í tætlur. Fundum æðislegan ítalskan stað í ítalska hverfinu þar sem við borðuðum snilldar pastarétti. Fórum á Cheesecake factory og brögðuðum frægu ostakökurnar þeirra - skildi þá hversvegna þeir eru frægir fyrir þær ...yummy. Hafnarsvæðið er líka gríðarlega fallegt, gamlar byggingar og sagan allsstaðar.

Ánægjulegast við þetta allt var samt samfélagið við þessa yndislegu konu sem ég var svo lánsamur að finna fyrir meira en þrjátíu árum. Erlan hefur öll árin staðið hjarta mínu næst og gengið þétt við hlið mér hvernig sem hefur árað hjá okkur - gegnum súrt og sætt eins og sagt er. Hún er minn besti vinur og alger sálufélagi.

Ljúf og góð ferð. Það er von mín og bæn til Guðs að við fáum að ganga saman í þessum góða takti þangað til sólin okkar rennur í hinsta sinn.
Það er óhætt að segja að þessi Bostonferð hafi birt mér nýja sýn á Bandaríkin. Það hefur ekki verið efst á vinsældarlistanum hingað til að fara vestur um haf.
Erlan er engri lík.

laugardagur, janúar 09, 2010

pakkað saman

Jólunum pakkað ofan í kassa. Það verður alltaf hálftómlegt þegar öllu jóladótinu er komið í geymsluna aftur. Samt er líka alltaf gott þegar þetta er búið og nýja árið heldur af stað með hversdagsleikann sinn og dagarnir fljóta framhjá eins og áin hér fyrir neðan. Veit ekki hvort þeirra fer hraðar. Áin er tímalaus, hefur haldið þessari ferð sinni áfram í árþúsundir. Löngu áður en nokkur maður hafði stigið fæti sínum hér á landi. Dagarnir enn tímalausari. Það er bara hjá okkur mannfólkinu sem tíminn er til og skiptir máli.
Árið byrjar allavega fallega og ekki er kuldanum fyrir að fara lengur. Hiti eins og í maí. Skólinn byrjar eftir helgina, væntanlega með látum. Síðasta ár námsins að hefjast.
Er strax farinn að hlakka til vorsins það er besti tími ársins.

laugardagur, janúar 02, 2010

Meðalhiti þessa árs...

...er mínus átta gráður sem komið er og verður að teljast til kaldari meðalhita. Nýja árið heilsaði með fallegum frostmorgni og stillu. Bærinn var iðandi af lífi enda allt okkar fólk hér sem er eins og flestir lesendur síðunnar vita, orðin hálfgerð ætt. Þetta minnir mig á þá tíma þegar við vorum ótrúlega mörg saman í Kotinu í gamla daga. Við borðuðum saman á gamlárskvöld og skutum svo upp fyrir börnin. Það er fölskvalaus ánægja sem skín úr andlitum barnanna þegar púðrið brennur með fallegum blossum. Skrítið hvað þetta breytist með aldrinum. Flugeldar áttu alla mína athygli þegar ég var krakki. Í dag finnst mér þetta allt í lagi. Best ef nágrannarnir skjóta miklu upp þá get ég notið en þeir borga - mjög kreppuvænt.
Íris og Karlott eru hér enn, þau gistu aftur í nótt enda verður veisla hér í dag, árlegt pálínuboð ættarinnar minnar hér í Húsinu við ána. Ég veit ekkert hvað koma margir en síðustu tvö árin hafa verið hér milli 50 og 60 manns.
Það er gott að koma svona saman og styrkja ættarbönd sem vilja trosna ef ekki er hugsað um að viðhalda þeim.

Ég er sagður bjartsýnismaður, það er rétt, ég hallast yfirleitt frekar að bjartari tónum tilverunnar. Ég vil samt frekar kalla mig jákvæðan raunsæismann. Sú skoðun mín byggir á því að yfirleitt eru tvær hliðar á teningnum og önnur bjartari en hin. Oftast er svo valkostur hvora maður aðhyllist.
Ég vel t.d. í byrjun þessa árs að horfa á heiðan himin milli skýjabólstranna og trúa því að með tímanum fjúki bólstrarnir burt í stað þess að halda að þeir þykkni út í það endalausa og hér verði almyrkvi og ólífvænlegt að búa, það viðhorf hef ég heyrt hjá fólki sem hefur leyft fröken svartsýni að setjast á öxlina á sér.
Ég held að hún sé leiðinlegur lífsförunautur.
Ég vona að þið lesendur síðunnar minnar njótið daganna og lítið björtum augum til framtíðar.
Ég ætla að fara að undirbúa komu ættingja minna.

fimmtudagur, desember 31, 2009

Áramót enn einu sinni

Ár sem hóf göngu sína undir óveðursskýjum er að renna sitt skeið. Það hefur einkennst af stjórnmálasviptingum og átökum meðal þjóðarinnar og á þannig séð, fáa sína líka. Allt hefur tekið breytingum sem engan óraði fyrir. Ekki allar slæmar heldur á margan hátt góðar. Þó finna megi til með þeim sem verst fara fjárhagslega út úr hruninu stendur upp úr sá ljósi punktur að undan kálinu kemur eitthvað nýtt og betra eins og kartöflubændur þekkja best. það gamla deyr og nýtt verður til.

Maður leyfir sér að vona að lífsgildi landans verði önnur og heilbrigðari nú þegar mesta gruggið sígur til botns og sýn skerpist. Framundan er tími til að byggja upp eitthvað varanlegt og gott. Hver og einn er sinnar gæfu smiður í þeirri byggingastarfsemi.

Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma, er einkunnarorð mitt fyrir næsta ár. Pössum okkur að detta ekki í ormagryfju depurðar og vonleysis, Ísland er engu líkt að gæðum.

Ég þakka öllum samferðamönnum mínum góða samleið á árinu og óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári

sunnudagur, desember 27, 2009

Jólin

Afar friðsæl jól að ganga til viðar. Skemmtileg líka og gefandi samfélag við þá sem mér þykir vænst um. Vikan framundan er að einhverju leiti vinnuvika en er samt slitin sundur af áramótum. Svo tekur við vinna fram að skóla sem hefst 11. janúar. Ég er lukkunnar pamfíll, það get ég svarið.

fimmtudagur, desember 24, 2009

Hátíð í bæ

Aðfangadagur rann upp bjartur og fallegur en kaldur. Mesta hátíð ársins vítt um heim. Dagurinn sem alltaf virðist hafa sömu óþreyju áhrif á börnin okkar. Hvenær opnum við pakkana mamma, er spurning sem flestar mömmur fá að heyra. Minningar úr bernsku bera með sér að ekkert hefur breyst. Minningum og tilfinningum sem tengjast hátíðarskapi og frið þar sem pakkaopnunin var stóra málið eins og í dag en líka sagan um Jesúbarnið í jötu. Jólin eru fjölskyldutími, samverutími sem verður dýrmæt minning þegar fram í sækir.

Ég á bara góðar og ljúfar minningar af jólum. Saga jólanna og minningarnar tengjast saman. Jólin heima snerust um Jesúbarnið. „En svo bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.....“ þetta hefur hljómað í mínum eyrum hver jól í fimmtíu ár. Við höfum það fyrir sið hér á þessum bæ að lesa saman jólaguðspjallið. Það er undanfari pakkaopnunar. Það gefur hátíðinni meira innihald að minna sig á hversvegna við höldum jólin.

Núna er ilmur af jólum í bænum. Hamborgarhryggurinn á leið upp úr potti og enn hangikjötseymur eftir suðu gærkvöldsins. Við erum ekki með smábörn hér lengur en vorum svo lánsöm að Hrundin kom heim frá Þýskalandi öllum að óvörum svo við verðum ekki einí kvöld eins og leit út. Hrund er eins og mamma sín mikið jólabarn og ég fæ að njóta þess með þeim.

Fésbókin virðist vera aðalsamkomustaður vina og vandamanna en þeim ykkar sem lesið enn síðuna mína óska ég gleðilegrar jólahátíðar með friði og fögnuði.

föstudagur, desember 18, 2009

Prófalok o.fl.

Já það er ljúft.
Það er eins og detti á logn eftir storm þegar síðasta prófi lýkur. Vinna við það sem ég kann best, smíðar, er eins og frítími. Kann það allt utanbókar, ekkert að hugsa, bara vinna.
Smíðaði í gær eins og ég ætti lífið að leysa til að geta verið í fríi í dag. Við erum búin að njóta morgunsins út í æsar. Vorum að spjalla um hvort við ættum ekki að fá okkur eins og fjórar hænur til að sjá heimilinu fyrir eggjum, já okkur dettur nú ýmis vitleysan í hug - og látum oft verða af henni líka. Veðrið er svo fallegt núna sól og bjart, frost og alger lognstilla. Áin sallaróleg með íshröngli fljótandi í rólegheitum niður eftir henni. Það er svona friður og kyrrð yfir öllu einhvernveginn, gott andrúm.
Prófin gengu vel... að ég held. Þær einkunnir sem eru í höfn eru í fína lagi allavega.

Ég er að fara út að hengja upp jólaljósin á húsið og trén í garðinum. Það hefur ekki verið tími til þess fyrr en núna, jólabarnið á bænum ætti að kætast vð það.
Svo er það bara vinna í jólafríinu. Ég hef nóg að gera sem betur fer og sýnist mér veiti ekki af tímanum sem ég hef í fríinu til að komast yfir það sem ég er búinn að lofa.

Njótið lífsins vinir - það er gott

sunnudagur, nóvember 29, 2009

Bíddu... eru jólin að koma strax....?

það er engu líkara en að jólin séu á næsta leiti. Ég er búinn að sitja með nefið á kafi í verkefnum undanfarið og varla litið upp. Hrekk svolítið við þegar ég heyri að jólalögin eru komin á fullan snúning hér á bæ. Það þýðir bara að aðventan er að byrja og Erlan komin í jólagírinn. Hún er algjört jólabarn stelpan. Hún fer í annan ham þegar aðventan byrjar. Tekur meira og minna niður allt dótið okkar, pakkar því saman og setur upp allskyns jóladót í staðinn sem við höfum safnað að okkur í gegnum árin. Ég nýt góðs af þessu, því ég er ekki sama jólabarnið og hún. Ég met þó mikils að fá að fljóta með og fá svona jólaland án mikillar fyrirhafnar. Ég reyndar fæ að skreyta húsið að utan sem felst í að hengja jólaseríur hringinn í kringum húsið og í nokkur tré og runna í garðinum. Er að reyna að humma það fram af mér eitthvað meðan ég er í mestu törninni.

Ég er reyndar búinn að vera að gjóa öðru auganu annað slagið út um gluggann hér á skrifstofunni minni og fylgjast með snjóbylnum úti. Gatan er líklega orðin ófær núna. Hér eru bílar búnir að vera að festa sig eða öllu heldur bílstjórarnir bílana sína.
Það er ekki laust við að fari um mig notalegir straumar við að þurfa ekkert að fara af bæ þegar veðrið lætur svona. Naga mig samt svolítið í handarbökin að hafa skilið jeppabúrið eftir í bænum.

Snjórinn úti og jólalögin sem óma um notalegt húsið við ána núna gera andrúmið hér ævintýralegt og fallegt. Meira yndið þessi kona. Held ég verði að taka mér smá pásu - ætla að koma jólabarninu á óvart og hita súkkulaði - sykurlaust...? Nei original.

Njótið aðventunnar vinir mínir.

sunnudagur, nóvember 22, 2009

Annir

Það er orðið nokkuð um liðið síðan hér var settur inn pistill síðast. Það er búið að vera mikill annatími í skólanum. Hvert verkefnið hefur rekið annað og sum hver skarast svo sólarhringurinn hefur stundum orðið of stuttur í annan endann. Nú er kennsla annarinnar að klárast og prófatörn framundan svo þetta er ekki búið. Ég verð, ef að líkum lætur, ekki mjög viðræðuhæfur næstu vikurnar.

Dagurinn í dag er samt frekar í notalegri kantinum. Ég svaf óvenjulengi í morgun sem kannski mótast af því að sumir dagar vikunnar hafa lengst hressilega fram yfir miðnættið, sem hæfir mér illa því ég er morgunmaður og fellur illa að vinna á næturnar. Uppsafnaður lúi. En ég er nú samt búinn að sitja hér niðri dágóða stund yfir morgunmat og dagblöðum.
Við förum bæjarferð á eftir í afmæli Katrínar Töru sem verður fimm ára 3. des nk. Íris er alveg á kafi í námsefninu og próf að byrja, því hentar að hafa veisluna núna.
Það verður gott að geta aðeins slakað á eftir þá törn.

Við Erla erum búin að halda upp á afmælin okkar. Samhjálparsalurinn var leigður og Binni kokkur sá um að elda fyrir okkur. Ég er ánægður með hvernig til tókst. Held allir hafi farið heim saddir og brosandi. Takk, þið sem eydduð kvöldstundinni með okkur.

Jæja, Erlan er komin niður og kaffivélin iðar í skinninu.........

sunnudagur, nóvember 01, 2009

Gæsadagur

Margir veiðimenn láta nægja að skera bringuna af gæsinni áður en henni er hent. Það er sóun. Mér áskotnuðust 80 gæsir sem höfðu verið bringuskornar. Kokkurinn sem aðstoðar okkur við veisluna okkar í nóvember sagði mér nefnilega að hann gæti gert ótrúlega góðan rétt úr gæsalærum ef ég gæti útvegað þau. Nú er ég auðvitað að upplýsa hluta af matseðlinum í veislunni, en það er allt í lagi. Það verður m.a. villibráð, gæs og silungur.
Dagurinn hefur því farið í að slíta læri af endalaust mörgum gæsum, og auðvitað skera þær á kvið og sækja lifrina. Hún er, það sem alvöru sælkerar sækjast hvað mest eftir til að leika sér með í matargerð.
Ég á alveg stórgóða uppskrift að andalifrarkæfu sem ég smakkaði fyrst í Perlunni á villibráðarkvöldi, en við karlarnir í Erlu ætt höfum farið í Perluna í nokkur ár á villibráðarhlaðborð. Þeir kunna að kokka þar. Því miður kemst ég ekki þetta árið, en tek upp þráðinn, væntanlega á næsta ári ....eða þar næsta.
Danni bróðir kom hér um miðjan dag í heimsókn. Ólukkans fyrir hann, lenti hann í gæsaaðgerðinni með mér... óvart auðvitað. Hann er duglegur kallinn og það munaði mig heilmiklu að fá aðstoð, takk Danni minn.
Jú jú nú er maður orðinn fimmtugur eins og ALLIR landsmenn vita. Við Erlan áttum miða í Óperuna í kvöld. Ég var orðinn svo lúinn að ég nennti ekki í bæinn. Aldurinn? Eða bara hreinræktuð leti? Miðana eigum við inni hjá Óperunni svo við gerum okkur dagamun síðar.
Núna erum við að spjalla við Hrundina okkar sem var að koma úr frábærri ferð til Parísar. Skype-ið er algjör snilld.
Hafið það ætíð sem best vinir mínir.

föstudagur, október 30, 2009

Afmæli o.fl.

Já nú er ég orðinn 50 ára. það er aldrei, hefði mamma sagt. Ég er himinlifandi með það, eiginlega í orðsins fyllstu. Það voru nú engar flugeldasýningar á afmælisdaginn. Það var mér að kenna þar sem ég vildi ekkert tilstand þótt tilefnið gæfi kannski ástæðu til þess. Við ætlum nefnilega að halda smá veislu núna í nóvember fyrir okkur bæði. Það hentar vel - ein veisla/tvöfaldar gjafir :0) En svona án gríns þá er stefnan að vera einhversstaðar á erlendri grund á afmælisdaginn hennar Erlu. Verst samt hvað henni leiðist alltaf svoleiðis.

Skólinn er alveg að kæfa mig núna. Endalaus verkefnavinna. Mál tekin fyrir sem eru í deiglunni hverju sinni. Búinn að taka fyrir sr. Gunnars málið, myntkörfulánin, morðmálið í Hafnarfirði í haust ofl ofl. Þetta gengur samt vel og ég er sáttur við að hafa drifið mig í mastersnámið í kreppunni.

Kreppan já, hún snertir víst flesta. það er dýrara að lifa, dýrara að greiða af lánum, keyra bílinn sinn o.fl. Hún bankar víða.
Ég er samt bjartsýnn. Mér finnst þeir menn sem smíðuðu þennan Icesavemonster nálgast að vera landráðamenn. Og ég er alls ekki sáttur við framgang þeirra sem núna stýra þjóðarskútunni. Icesave átti að fara fyrir dóm. Svo finnst mér algerlega ótækt að ríkisstjórnin skuli semja um greiðslu á þessari óráðsíu án þess að gæta til ítrasta, lagalegs réttar þjóðarinnar að þjóðarrétti. Þann rétt er búið að semja frá okkur. Það var hetjulegt.

Við Erlan njótum samt sem áður daganna. Þeir eru góðir.

þriðjudagur, október 13, 2009

Ekkert volæði núna

Ég var í Vola í gær ásamt Bjössa og Karlott. Nú veiddist..... setti smá pistil í veiðihornið hjá mér.

sunnudagur, október 11, 2009

Tilveran...

...er eins og veðrið. Það þjóta krappar lægðir yfir með stormum og stórsjóum... svo lygnir...!

sunnudagur, október 04, 2009

Allt fram streymir....

... endalaust, ár og dagar líða, nú er komið hrímkalt haust, horfin sumarblíða. Mér finnst nú frysta full fljótt þetta árið verð ég að segja. Við erum búin að fara einu sinni í bæinn í vetrarófærð.
Ég sem á eftir að fara í allavega eina veiðiferð. Ég er að vona að ég fái góðan dag í veiðina en sæmilegt hitastig getur gert útslagið.
Hvað sem haustinu líður þá fer vel um okkur hér í húsinu við ána. Það má segja að hver árstíð gæli við okkur á sinn hátt. Núna eru litir haustsins gríðarlega fallegir þó það verði fljótt að breytast héðan í frá. Veturinn fer að taka yfir.

Hér verður mikið líf og fjör í dag. Sláturdagurinn mikli er í dag. Ég keypti 20 slátur í fyrradag fyrir okkur og stelpurnar. Nú á að reyna að finna réttu samsetninguna með uppskrift sem ég fékk hjá Gerðu systir sem kemst sennilega næst því hvernig mamma gerði slátrið. Mamma var einstaklega lunkin við að gera bragðgóðan mat. Það var eins og hún hefði sérstakt innsæi í það hvernig blanda ætti saman hráefninu til að það bragðaðist vel.
Er ekki alveg frá því að það eymi af þeim hæfileika í genabankanum okkar systkinanna. Allavega eru systur mínar snjallir kokkar.
Ég hlakka til í kvöld en þá verður auðvitað sett upp slátur í pott og haldin uppskeruveisla.
Njótið daganna gott fólk.....

fimmtudagur, september 24, 2009

Þar fór í verra

Ég, veiðiklóin sjálf, kom heim með öngulinn í rassinum. Á ekki við mig, en svona er veiðin, ekki alltaf á vísan að róa. Hlynur fékk tvo fiska, annar ágætur hinn lítill en Hansi fékk einn 12 punda urriða. Flottur fiskur - jafnstór mínum stærsta í fyrra. Ég á annan dag í haust sem vonandi gengur betur.

Þá er bara að venda nefinu ofan í bækurnar aftur.
:0)

þriðjudagur, september 22, 2009

Volinn á morgun

YYYYhaaaa.
Loksins að maður kemst í veiði. Hef verið langt frá mínu besta í sumar. Er að vonast eftir góðri veiði. Set inn myndir af aflanum ef þannig verkast.

sunnudagur, september 06, 2009

Enn að fjallabaki...

Fjöllin heilla okkur Erluna meira en margt annað. Það er gaman að ganga á fjöll. Við byrjuðum á því í vor og höfum gengið á nokkra tinda í sumar. Það er líka gríðarlega gaman að ferðast um íslenska hálendið og skoða þann fjölbreytileika sem þar er að finna. Við fórum í gær með stóran hóp með okkur um Syðri fjallabaksleið að Hungurfit og þaðan suður Fljótshlíðar afrétt.
Það leit ekki vel út með veður fram eftir vikunni en rættist úr og við fengum flott veður í ferðinni.
Við stoppuðum oft við hina og þessa staðina sem vert var að skoða betur en unnt er út um bílgluggann og vegna litla mannfólksins sem var með í för, þau þurfa að hreyfa sig. Ég held að það sé börnunum afar hollt og nauðsynlegt að fá að kynnast Íslandi "eins og það kemur af kúnni" það kemur kannski í veg fyrir að þau búi sér til of neikvæða mynd af landinu sínu, sem mótast af endalausum neikvæðum fréttaflutningi.

Ævintýrin gerast í svona ferðum og brekkurnar verða stundum of brattar. Þá getur verið gott að vera ekki einbíla. Við lentum í ýmiskonar skemmtilegheitum, vöð yfir grýttar ár, klettaklungur þar sem er mjög þröngt og erfitt að koma bíl í gegn, brattar brekkur o.fl. Svona kryddar bara ferðirnar.
Ég heyri af dætrum mínum hvað ferðir þeirra um landið á uppvaxtarárunum hefur haft mikil áhrif á þær, og skapað góðar minningar.
Ferðin í gær var eins og endranær, skemmtileg og nærandi. Bæði var samfélagið við fólkið okkar afar gott og svo virðist landið okkar búa yfir þeim einstöku töfrum að næra sálina og skapa vellíðan þegar maður á samfélag við það.

Góð ferð, í góðra vina hópi, um fallegasta land veraldar - er hægt að biðja um meira?