þriðjudagur, nóvember 30, 2010

Dritgerð...

...er réttnefni. Er að vinna þetta á mikilli hraðferð. Er farinn að efast um að þetta sé hægt. Ætla samt að halda fullum dampi fram á síðasta metra. Ef það skýrist þar að ég hafi þetta ekki... þá bít ég í það súra epli og kyngi...

þriðjudagur, nóvember 16, 2010

Dagur íslenskrar tungu

Í tilefni dagsins er hér eitt fallegast kvæði okkar Íslendinga. Það fjallar um sveitina mína, Fljótshlíð, þegar Gunnar (frændi) á Hlíðarenda snýr við og fær ekki af sér að yfirgefa landið sem fóstraði hann...

Kvæðið er Gunnarshólmi eftir Jónas Hallgrímsson.

Jónas segir sjálfur:
„Sunnan á Íslandi, í hjeraði því, sem gjeingur upp af Landeíum millum Eiafjalla og Fljótshlíðar, er allmikjið sljettlendi, og hefir firrum verið grasi gróið, enn er nú nálega allt komið undir eirar og sanda, af vatnagángji; á einum stað þar á söndum, firir austan Þverá, stendur efptir grænn reitur óbrotinu, og kallaður Gunnarshólmi, því það er enn sögn manna, að þar hafi Gunnar frá Hlíðarenda snúið aptur, þegar þeir bræður riðu til skjips, eins og alkunnugt er af Njálu. Þetta er tilefni til smákvæðis þess, sem hjer er prentað neðan við.“

Skein yfir landi sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtæru lind.
Beljandi foss við hamrabúann hjalar
á hengiflugi undir jökulrótum
þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.

En hinum megin föstum standa fótum
blásvörtum feldi búin Tindafjöll
og grænu belti gyrð á dalamótum;
með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
horfa þau yfir heiðavötnin bláu
sem falla niður fagran Rangárvöll;
þar sem að una byggðarbýlin smáu,
dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.

Við norður rísa Heklutindar háu.
Svell er á gnípu, eldur geisar undir,
í ógnadjúpi, hörðum vafin dróma,
Skelfing og Dauði dvelja langar stundir.
En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
Þaðan má líta sælan sveitarblóma;
því Markarfljót í fögrum skógardal
dunar á eyrum, breiða þekur bakka
fullgróinn akur, fegurst engjaval
þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka
glitaða blæju, gróna blómum smám.

Klógulir ernir yfir veiði hlakka;
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í lofti birkiþrastasveimur
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
Þá er til ferðar fákum snúið tveimur
úr rausnargarði hæstum undir Hlíð,
þangað sem heyrist öldufallaeimur;
því hafgang þann ei hefta veður blíð
sem voldug reisir Rán á Eyjasandi,
þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
Um trausta strengi liggur fyrir landi
borðfögur skeið með bundin segl við rá;
skínandi trjóna gín mót sjávargrandi.
Þar eiga tignir tveir að flytjast á
bræður af fögrum fósturjarðarströndum
og langa stund ei litið aftur fá,
fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
útlagar verða vinaraugum fjær;
svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.

Nú er á brautu borinn vigur skær
frá Hlíðarenda hám; því Gunnar ríður,
atgeirnum beitta búinn – honum nær
dreyrrauðum hesti hleypir gumi fríður
og bláu saxi gyrður yfir grund;
þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
Svo fara báðir bræður enn um stund;
skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti,
Kolskeggur starir út á Eyjasund.

En Gunnar horfir hlíðarbrekku móti,
hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
óvinafjöld, þó hörðum dauða hóti.
„Sá eg ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga
alla sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!“ – Svo er Gunnars saga.

Því Gunnar vildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðarströndum.
Grimmilegir fjendur, flárri studdir vél,
fjötruðu góðan dreng í heljarböndum.
Hugljúfa samt eg sögu Gunnars tel,
þar sem eg undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógnabylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.

Þar sem að áður akrar huldu völl
ólgandi Þverá veltur yfir sanda;
sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda;
flúinn er dvergur, dáinn hamratröll,
dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;
en lágum hlífir hulinn verndarkraftur
hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.

(Jónas Hallgrímsson 1837)

mánudagur, nóvember 15, 2010

Skrifstofan heima...

... er tilveran mín þessa dagana. Ekki að það sé svo slæmt. Aðstæður leyfa mér ekki annað en vera með hugann við ritgerð dagana langa. Ég lít samt upp, er til dæmis að fara í dansinn á eftir. Við erum að æfa okkur fyrir nemendasýningu sem verður í lok námskeiðsins - hehe eins gott að maður haldi takti.
Það gengur nokkuð vel með ritgerðina, er kominn með 18 þúsund orð af 25-30 þúsund og fjórar vikur til stefnu. Er farinn að anda rólegar, held þetta náist.

Eins og þið sjáið á þessari færslu nær tilverna mín ekki mikið út fyrir ritgerðina svo ég læt allar hugleiðingar um lífsins gagn og nauðsynjar bíða betri tíma, þó af nógu sé að taka, tilveran er alltaf litrík.
Njótið daganna.

laugardagur, nóvember 06, 2010

Skrifað í óminni

Hvað á maður að segja..... Horfandi á dagatalið telja niður dagana fer um mig hrollur, 5 vikur og verkið ekki hálfnað. Á einhver flug gír handa mér?

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Grasekkill...!

Frúin er í London. Ég er, svo sem, hvort sem er með nefið ofan í ritgerð þessa dagana. Það var djarft að ætla að klára mastersritgerð á átta vikum. Þetta er ekki hrist fram úr erminni einn tveir og bingó. Ég fæ svona kjánahroll annað slagið yfir því hvernig mér gat dottið þetta í hug? Maður fer stundum langt á bjartsýninni og hálfnað er verk þá hafið er segir máltækið. Það hefur gengið vel að skrifa hingað til en nú eru tæplega sex vikur í skil þann 15. des.

það snjóar í höfuðborginni. Hér hefur ekki komið snjókorn ennþá, ég er mjög sáttur við það. Það er aftur á móti búið að vera kalt sem sést best á ánni sem er orðin hrímuð, allavega flýtur klakaður krapi eftir henni sem gerir hana mjög vetrarlega. Eins og fyrri daginn virðast fuglar finna sér mikið æti þrátt fyrir klakaburð því þeir hamast að kafa eftir einhverju milli íshrönglsins.

Ég átti svolítið bágt með mig að fara ekki austur að Gígju og sjá hlaupið en lét þó skynsemina ráða, mér veitir ekki af hverjum degi sem ég hef til að skrifa þessi dægrin.
Ég er orðinn langeygður eftir fríi... það kemur að því geri ég ráð fyrir.
Hafið það gott vinir.

miðvikudagur, nóvember 03, 2010

"Gott atlæti er gjöfum betra..."

Aðeins til umhugsunar í gráum kreppuhverdagsleikanum. Gjafir eru afstæðar en hlýtt viðmót kemur frá hjartanu og talar hærra.

fimmtudagur, október 28, 2010

Undarlegt ferðalag þetta líf...

Annir á annir ofan... Bara svona ef einhver lítur hér inn ennþá þá er þetta afsökun á bloggleysi mínu undanfarið. Eins og ég hef sagt er lífið laglína sem hljómar ekki alltaf eins. Hann er hraður kaflinn um þessar mundir. Ég sagði ykkur í síðustu færslu að ég hefði ákveðið að teygja ritgerðina mína fram á næstu önn og klára hana í vor. Ég sem sagt hætti við að seinka henni og ákvað að spýta frekar í lófana og er kominn á fleygiferð með hana, sem sagt ritgerð númer tvö, því ég þurfti að hætta við þá fyrri.
Mitt í þessum önnum hversdagsleikans er ég samt ánægður með lífið eins og það er. Grámuskan er jafn nauðsynleg og allar hinar nóturnar í flórunni.

miðvikudagur, október 06, 2010

Dásamleg veiðidellan og dansinn

Þetta sumar ætlar ekki að verða eins slæmt og sýndist um daginn. Veiðigyðjan hefur skilað genunum mínum sem ég saknaði hér um árið. Ég hef veitt vel síðsumars og er orðinn forfallinn Volamaður. Volinn eins og hann lætur lítið yfir sér er ekki auðveldasta veiðiá sem ég hef veitt en með þeim skemmtilegri. Ég barði vatnið í allan gærdag og kom heim með sex gullfallega birtinga, ekki af minni gerðinni eða frá 7.5 - 12 pund. Að veiða svona boltafiska er kannski ekki hollt til lengdar þar sem aðrar ár verða ekki eins spennandi fyrir vikið. Enn á ég einn dag eftir á þessu svæði. Það verður allavega fiskur á boðstólum í vetur hvað sem öðru líður.

Erlan er þessa stundina í Zumba dansi eða á ég að kalla þetta leikfimi? Svo erum við saman að læra samkvæmisdansa. Það verður að segjast eins og er að mér líkar það betur en ég átti von á eftir fyrstu kynni, kallinn meira að segja farinn að halda takti og muna sum spor - allt í áttina.

Ég er búinn að ákveða að teygja ritgerðina mína yfir tvær annir og nota líka næstu vorönn til að skrifa. Það kemur til vegna of lítils tíma sem ég hef getað setið við skriftir og tíminn til jóla er orðinn skammur. Ég sem hélt ég væri ofurmenni.
Svona breytast áætlanir manns eins og vindurinn. Það er reyndar bara styrkur að geta hagað seglunum eftir því hvernig hann blæs.

Kvöldið er fagurt, sól er sest og veðrið er ekki eins og októberveður heldur er hér logn, hiti og þrastasöngur. Lífið er til að njóta þess. Það er svo ótalmargt sem hægt er að gera til að skreyta dagana sem ekki kostar peninga.
Ég ætla að njóta kvöldsins sem aldrei fyrr í samfélagi við flotta konu.

sunnudagur, september 26, 2010

Fagurgul og rauð...

...er tilveran mín þessa stundina. Út um gluggann minn sé ég bílinn okkar hristast í takt við vindhviðurnar og regndropana á lakkinu flýja undan rokinu án þess að finna skjól. Vindgnauðið hér í kofanum í bland við taktfast tifið í gömlu klukkunni er óhemju vinaleg laglína. Úti er dæmigert haustveður, rok og rigning og litirnir hér á Föðurlandi eru líka í takt við árstíðina, fagurgulir og rauðir og öll flóran þar á milli. Það er verst þegar gerir svona rok snemmhausts þá vill þetta skraut gjarnan fjúka út í buskann og berangurslegir stofnarnir standa einir eftir. Ég nýt hverrar árstíðar mjög enda er ég sá lukkunnar pamfíll að fá að eyða hverri þeirra með lífsförunaut sem ég elska og dái.
Litið til baka um farinn veg sjást fingraförin okkar beggja á öllu sem við eigum og höfum afrekað. Fátt finnst með fingrafari annars okkar. það er ljúft að eiga svona náinn förunaut. Hún var að skríða á fætur þessi elska þótt langt sé liðið að hádegi, en það er nú ekkert nýtt. Það er þakklátur kall sem skrifar þessar línur.

Við ákváðum að taka okkur frí og skreppa í kofann eina nótt. Grilluð hrefna og gott rauðvín var kvöldsnarlið okkar í gærkvöldi. Smakkaðist vel og ómega 3 fitusýrurnar úr hvalnum gera okkur gott. Við ætlum að vera hér í þessum notalegheitum eitthvað frameftir degi, ég ætla að kveikja upp í kamínunni til að fullkomna notóið.

Gerið eins og við - lifið og njótið.

fimmtudagur, september 23, 2010

Ritsmíðar

Jæja nú er ekki til setunnar boðið lengur...eða kannski frekar, nú kallar skyldan til setunnar. Ég er að reyna að skyrpa í lófana og halda áfram með ritgerðarskrif. Það hefur ekki reynst mikill tími afgangs til skrifa undanfarið vegna annarra verkefna. Ég sat fyrirlestra í Háskólanum í dag um vinnulag við ML ritgerðir. Maður getur lengi á sig blómum bætt og margt kom fram sem gott er að hafa bak við eyrað. Ritgerðarskil eru 15. des. svo ég verð að nota hverja stund.
Sumarið og haustið hafa verið óvenju annasöm hjá okkur hjónunum. Við erum samt ánægð með afrakstur sumarsins - alltaf gaman að skapa eitthvað nýtt.
Nú erum við að leita að nýjum vörum í stað minjagripanna þar sem túristatíminn er liðinn þetta árið. Brainstorming er málið.....

Veiðiferðin okkar bræðranna gekk bærilega, endur og laxar lágu í valnum. Ég er búinn að smjörsteikja önd sem smakkaðist hmmm.... veeeeel, og fara með laxana í reyk. Ég sótti þá í Reykofninn í dag og hafði m.a. reyktan lax í kvöldmatinn, taðreykingin virkar vel maður lifandi, þetta er meira nammið.
Enn er einn veiðidagur eftir áður en vetur kóngur gengur í garð, Volinn bíður - einu sinni, einu sinni enn, það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Jæja kannski ég ætti að fara að snúa mér að ritgerðarsmíðum frekar en að leika mér hér á blogginu.
Eigið góðar stundir gott fólk.

fimmtudagur, september 09, 2010

Ég veiddi, ég veiddi

Smá blogg um það í veiðihorninu mínu hér neðar til vinstri....

þriðjudagur, september 07, 2010

Endurtekið efni.... Voli

Eins og ég hef margsagt ykkur þá er hlutverk karldýrsins fyrst og fremst að veiða fyrir hellisbúa svo þeir svelti ekki yfir veturinn. Ég tek þetta hlutverk mitt allajafna mjög alvarlega. Nú er ég enn á leið til veiða. Þeir sem lesa síðuna mína vita að ég fer stundum í Vola. Svo rík er ábyrgðartilfinningin gagnvart fjölskyldunni að maður lætur sig hafa það þótt spái rigningu og komið sé harðahaust og varla manni út sigandi, ég fer samt og kem færandi hendi heim - skulum við segja.

Hvað sem öllum gorgeir líður hlakka ég til. Veiðarnar eru mér í blóð bornar, líklega að vestan þar sem afi minn var hinn mesti veiðimaður og án gríns þá hafði hann þetta hlutverk sem ég var að guma mig af hér að framan. Hann veiddi árið um kring til að hafa mat fyrir fjölskylduna. Alltaf var nóg til að borða því hann tók hlutverk sitt alvarlega og veiddi vel ofan í sitt fólk.

Ég læt ykkur vita hér á síðunni hvernig gengur á morgun. Mér fellur illa að koma heim með öngulinn í óæðri endanum svo ég er búinn að tryggja mig fyrir því að það gerist aldrei - Fiskbúðin á Eyrarveginum er tryggingin ef allt annað bregst.

Njótið síðsumarsins - það geri ég.

sunnudagur, september 05, 2010

Sumri hallar

Þær vitna um það greinarnar á Reynihríslunum sem hér svigna undan þungum blóðrauðum berjaklösum svo stórum að ég hef ekki séð annað eins. Litir laufanna bera með sér sama vitnisburð. Það þýtur í laufi trjánna hér og vindurinn minnir á þetta sama, það er að koma haust.
Fuglasinfónían sem einkennir sumur hér á Föðurlandi er að þagna og litlu snillingarnir sem leika sinfóníuna eru að gera sig ferðbúna á suðlægari slóðir. Allt er þetta gott en minnir mann alltaf á hversu ævin er stutt og nauðsyn þess að fara vel með tímann sinn. Það er nefnilega þannig að við fáum bara eitt tækifæri til að lifa lífinu og árin styttast í réttu hlutfalli við hækkandi aldur.

Ró og friður eru hverfandi gæði. Það er hinsvegar til mikils að vinna að koma sér á þann stað að njóta þeirra hverfandi gæða. Við Erlan erum forréttindafólk að þessu leiti að eiga okkur athvarf í Fljótshlíð. Kofinn okkar er ekki stór og sómir sér kannski illa sem eitt af sumarhúsum Fljótshlíðar þar sem hver höllin tekur við af annarri. Við höfum samt allt hér sem þarf til að skapa gamaldags og sveitalega friðsemd og ró og njótum þess vel.

Haustið er ekki síðri tími en annar til að njóta. Hver árstíð hefur sinn sjarma og veður hefur ekki haldið okkur héðan jafnvel þó frost sé og funi. Það er jafnvel enn notalegra að dvelja hér um harðavetur í frosti og fjúki en á fallegum sumardegi.

Kári blæs núna og fyllir fánann okkar vel svo hann nýtur sín í allri sinni fegurð. Íslenski fáninn fyllir á einhvern þjóðernisbikar innra með manni þegar hann blaktir svona fallega. Þjóðarstolt og ást á landinu er það sem ég finn fyrir. Já og það þrátt fyrir kollhnýs útrásarinnar. Forfeður okkar og gjöfult land hafa sett okkur á stað sem kallar á öfund annarra þjóða - Ísland er best.

Við Erlan höfum átt annasamt sumar og haft fá tækifæri til að dvelja hér svo við ætlum að njóta verunnar hér í dag, hlusta á gömlu klukkuna telja mínúturnar og lesa góðar bækur, kannski skreppa í heimsókn, hver veit.
Þið sem ratið hér inn á síðuna mína - takk fyrir innlitið og njótið dagsins eins og við.

miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Baugstaðaós

Kallinn kom alsæll heim eftir velheppnaðan veiðitúr í Baugstaðaós. Það er eitthvað við það að vera á ósasvæði við veiðar. Maður veit ekkert á hverju er von þegar bítur á. Baugstaðaósinn fellur vel að þessu. Ég veiddi 7 birtinga og einn lax.
Þarna er öll flóran sem finnst í íslenskum veiðiám. Á háflóðinu var eins og allt færi á suðu. Þá fór hann að taka eins og vitlaus í smástund og svo datt það niður aftur.
Ég hef aldrei séð aðra eins töku og gerðist hjá Hansa bróður. Hann var aðeins úti í vatninu þegar fiskur tekur með svo miklum látum að Hansi hálfsnerist og var nærri dottinn undan átakinu. Þetta var gríðarvænn birtingur sem sleit girnið eins og tvinna. Betra að hafa hjólið rétt stillt. Þarna var bremsan allt of stíf. Það hefði verið gaman að sjá þennan fisk koma á land.

Það verður víst seint sem veiðidellan fer af manni, þetta er veirusýking sem ekki hefur fengist lækning við ennþá. Það vegur samt kannski þyngst að ég hef ekki áhuga á lækningu.
Veiðin er heilbrigt og hollt sport og náttúruskoðun í leiðinni. Big like á það eins og sagt er.

þriðjudagur, ágúst 10, 2010

Pása

þá er það kærkomin pása. Okkur hefur aldrei leiðst Danmörk að ráði ef marka má fjölda ferða okkar þangað. Það má alveg segja að danskurinn hafi hitt okkur sérlega í mark með matargerð og fleiru sem hefur fallið að smekk okkar í gegnum tíðina.
Nú er ferðinni enn heitið þangað. Við bregðum út af vananum í þetta sinn og gistum hjá Bitten og fjölskyldu en Bitten er gömul pennavinkona Erlu frá ómunatíð. Við höfum hist annað slagið og kunningsskapur haldist í gegnum árin.
Síðan förum við norður til Óla og Annette og við náum líka Tedda og Kötu áður en þau koma heim.
Fyrst og fremst er þetta kærkomið frí frá önnum sumarsins. Það verður gott að taka sig frá og njóta þess að vera til, hafa engar skyldur nema að hafa það gott.

Íslandus er í góðum höndum Hrundar á meðan við erum í burtu ásamt starfsfólki sem er farið að ráða betur og betur við starfið.

Njótið daganna gott fólk á meðan við erum í burtu.

mánudagur, ágúst 09, 2010

Gangaþankur

Ég sá um daginn einhversstaðar að kristindómur og Kristur ættu orðið fátt sameiginlegt. Hef hugsað annað slagið um þetta síðan þá.
Margir telja sig kallaða til að prédika kristindóminn og hafi til þess sérstaka hæfileika og óskorað umboð, líkt og Farísear töldu sig hafa forðum. Mér virðist einhvernveginn of fáir þessara útvöldu eiga innistæðu í prédikun sinni fyrir orðunum "gerðu eins og ég geri" í stað "gerðu eins og ég segi".

Það getur svo sem verið að enginn hafi innistæðu til að hvetja til eftirbreytni við sjálfan sig - og þó. Ég gæti bent á örfáa sem ég teldi uppfylla skilyrðin. Þeir aftur á móti, einhverra hluta vegna fara með trú sína eins og gullegg og passa betur upp á hana en öll heimsins gæði og enginn þeirra prédikar - úr púlti. Prédikun þeirra er samt svo hávær að ég heyri ekki til þeirra sem mest láta fyrir þessum lágstemmdu og hógværu prédikurum sem einungis með lífi sínu og verkum fara á stall með Kristi sjálfum. "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá".
Þá er ég kominn að kjarna þessa örpistils. Orð eru innantómt bergmál þegar verkin segja annað.
Kristindómur snýst gjarnan um orðræður og endalaust meiri orðræður. Kristur talaði líka en verkin undirstrikuðu orðin, hann var m.ö.o. maður orða sinna.

laugardagur, ágúst 07, 2010

Skrapp í veiði

Mér áskotnaðist hálfur dagur í Þverá í Fljótshlíð. Það var gaman eins og alltaf. Ég fékk reyndar engan lax á land þó ég missti fjóra eftir talsverða baráttu við hvern þeirra. Þeir eru nýrunnir núna og silfraðir og því mjög sterkir og sprettharðir.
Heiðar fékk að fara með og fékk maríulaxinn sinn. Hann komst ekki hjá því að bíta veiðiuggann af og kyngja eins og sönnum veiðimönnum ber að gera á fyrsta laxi. Kyndugur svipurinn á andlitinu en hann lét sig hafa það.
Ég fékk hinsvegar fallegan urriða, sennilega nær 5 pundum. Hann var sterkur og gaman að landa honum.

Veiði sumarsins er vonandi ekki þar með lokið enn. Ég hef reyndar oftast veitt mest á haustin þegar sjóbirtingurinn er kominn í árnar. Ég á dag í Baugsstaðaós núna síðar í mánuðinum og svo á ég daga í Vola seinna í haust. Ég er því ekki alveg búinn að gefa upp alla von um að mér takist að safna birgðum fyrir veturinn.
Í millitíðinni ætlum við að skreppa til danaveldis og heimsækja þá bræður hennar Erlu sem þar búa.... ennþá. Það er alltaf gaman að heimsækja Danmörkuna þó ekki vildi ég búa þar.
Það er búið að vera mikið að gera í ísbúðinni í dag þótt hér hafi rignt meira í dag en elstu menn muna. Það hefði dugað að fara með sjampóbrúsann út í morgun og taka sturtuna utandyra.
Við ætlum samt að fara að koma okkur út aftur eftir smá pásu heima. Hrundin er í búðinni núna ásamt starfsfólki.
Gerið eins og ég gott fólk og njótið lífsins.

sunnudagur, ágúst 01, 2010

Síðsumar

Þó mér finnist vorið varla liðið er komið fram á síðari hluta sumars. Annirnar hafa verið þvílíkar að sumarið fram að þessu hefur þotið framhjá á tvöföldum hljóðhraða.
Það er gott að hafa nóg fyrir stafni hef ég alltaf haldið fram og segi það enn. Það er þó allt gott í hófi - vinnan líka.
Við eyddum gærkvöldinu á Fitinni í góðra vina hópi. Ættargrillið var haldið hjá Hildi og Jóa þetta árið og við tókum okkur hlé frá önnum og nutum góðs matar og samfélags við fólkið okkar. Það er svo gott þegar fjölskyldan hittist svona því þetta vefur fjölskylduböndin fastar og hnýtir okkur saman.
Við gistum svo í kofanum í nótt og vorum mætt í ísbúðina um 10 leytið í morgun.

Það er svolítið skemmtilegt hvernig mannskepnan er innréttuð. Til að kunna að meta hlutina rétt þarf maður að hafa eitthvað andstætt til að miða við. Ég segi þetta því það var eitthvað svo óvenjulega góð tilfinning að bruna austur og eiga þessa klukkutíma í frí eftir þessa miklu vinnutörn.

Veðrið hefur verið einstakt í sumar og þessi helgi var engin undantekning. Allt tal um að ekki sé hægt að dvelja í Fljótshlíð eða halda mót vegna ösku blæs ég á.
Ekki væsti um tjaldbúa í Hellishólum og á Langbrók um helgina eða alla hina Fljótshlíðingana sem búa í þessari fallegu sveit og kvarta ekki, enda gróðurinn mikið til búinn að hylja alla ösku - sumt er bara vitlausara en annað, og ekki orð um það meira.

Við erum heima núna að gera vaktaplan fyrir ágústmánuð. Við missum margt af starfsfólkinu okkar í skóla kringum 20. ágúst. Við erum búin að auglýsa eftir vetrarfólki í fulla vinnu og höfum fengið þrjár umsóknir....?
Það vekur furðu okkar að ekki skuli fleiri sækja um í atvinnuleysinu. Eru Íslendingar orðnir svona latir að þeim þyki betra að vera á bótum og gera ekki neitt en að hafa vinnu. Ég held svei mér þá að þetta meinta atvinnuleysi sé stílfærður vandi, að innihaldið sé frekar haugur letingja sem ekki nenna að vinna. Allavega mæla umsóknirnar ekki mikið atvinnuleysi.

Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína í ísbúðina um helgina. Fólk er að uppgötva ísréttina okkar sem við erum mjög stolt af. Við merkjum það í mikilli aukningu í sölu. Það léttir lund að fá svona mikið af jákvæðum kommentum á það sem við erum að gera.
Erla er að klára vaktaplanið, ég ætla að hætta að blogga og færa henni eitthvað gott - hún á það svo skilið þessi duglega kona sem ég á.

fimmtudagur, júlí 29, 2010

Verslunarmannahelgi

Hann heitir víst frídagur verslunarmanna þótt rangnefni sé því sennilega er engin starfsstétt vinnusamari um þessa helgi en einmitt verslunarmenn. Það kemur auðvitað til vegna þess hversu landinn er duglegur að skemmta sér þessa helgi og krefst mikillar þjónustu í kringum það.

Of oft hefur þessi helgi verið sá tímapunktur hjá mörgum sem allt breyttist. Of margir hafa séð á eftir ástvinum sem hafa látið lífið á þjóðvegunum, þeir vildu að þessi helgi hafði aldrei runnið upp. Of margir koma heim með tilveruna í molum eftir afleiðingar nauðgana og ofbeldis, þeir vildu líka að þessi helgi hefði aldrei orðið.

Í lífinu gilda hin fornu sannindi "hver er sinnar gæfu smiður". Að hafa vaðið fyrir neðan sig er að gera ráðstafanir fyrirfram. Að láta ekki kringumstæðurnar stýra ferðinni heldur stýra kringumstæðunum sjálfur.

Ég vona að þessi helgi verði góð og laus við vondar fréttir á mánudaginn. Farið varlega með ykkur gott fólk og gangið hægt um gleðinnar dyr.

mánudagur, júlí 26, 2010

Nýtt útlit

Gamla útlitið var orðið þreytt. Hvernig lýst ykkur á þetta?
Ég á kannski eftir að fríska aðeins upp á þetta meira en orðið er. Ég verð að segja eins og er að ég sakna bloggaranna. Það er eins og fésið hafi yfirtekið hug flestra. Þar er samt svo sjaldan eitthvað sagt af viti.
Svona er maður gamaldags....