laugardagur, ágúst 30, 2008

Nokkur orð í minningu mömmu

Það var bjartur morgunn með fyrirheit um góðan dag. Vindur lék í laufi trjánna í fallegum garði Vífilsstaða. Sólin reis í austri, þetta reyndist vera síðasta sólarupprásin í lífi móður minnar. Mamma átti orðið afkomendur á níunda tug. Allir vildu þeir svo gjarnan geta snúið við stundaglasi hennar sem tæmdist að Vífilsstöðum þennan morgun og fá að hafa hana lengur. En ekkert megnar að snúa við stundaglasi lífsins. Tíma okkar hér á jörð lýkur einn daginn og ekkert fær því breytt.

Eftir standa minningar. Minningar um „stóra“ konu sem fór frá okkur í litlum líkama. Konu sem gaf okkur allt sem hún átti, konu sem alltaf var skjöldur og hlíf, konu sem var okkur betri en best og stærri en stærst að innræti.
Konu sem sleit barnsskónum á vestfirskri grund varð síðan húsfrú og móðir átta barna í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Hún varð þetta stóra nafn “Mamma” sem leit á það sem æðsta hlutverk sitt að annast og umvefja.
Mamma var alltaf til staðar með vökul augu yfir velferð barna sinna. Klettur í hafi þegar gaf á bátinn. Lét sig alltaf varða um velferð annarra. Heillynd og sjálfri sér trú. Hreinskilin um menn og málefni og taldi sannleikann alltaf sagna bestan hvort sem undan sveið eða ekki.
Mamma lifði sínu trúarlífi á þann hátt að prédikun hennar situr eftir í hjörtum okkar sem eftir lifum. Prédikun sem sjaldnast var sett fram í orðum, heldur með verkum. Falslaus eins og dúfa en gat hvesst sig ef henni fannst hún eða börn hennar órétti beitt.

Mamma hafði aldrei góða sjón og síðustu árin var hún blind. Það breytti ekki þessu rótgróna innræti hennar eða móðurlegri umhyggju. Hún gerði alltaf eins og hún gat.
Líf hennar er okkur sem eftir lifum til eftirbreytni. Arfleifð hennar er okkar sómi.

Þegar sól rann þennan dag, var mamma farin í sína hinstu ferð. Þarna voru leiðarlok og við höfðum fengið tækifæri til að kveðja hana. Sólarlagið skartaði sínu fegursta og minnti okkur á að lífið heldur áfram og nýr dagur rís aftur að morgni.

Ég drúpi höfði í virðingu fyrir mömmu minni, þessari mikilfenglegu íslensku konu og er fullur þakklætis fyrir líf hennar.
Takk fyrir... mamma.

Minningargrein, birt í Mbl. 29 ágúst 2008

föstudagur, ágúst 15, 2008

Andlát

Mamma mín, ljúfust, lést í morgun.











Falslaus eins og dúfa, gegnheill karakter...........!
Stærsti örlagavaldur í lífi heillar ættar. Betri en best, stærri en stærst ....að innræti.

sunnudagur, júlí 27, 2008

Sem endranær....

....var helgin hlaðin skemmtilegheitum. Föstudeginum var varið í 6 ára afmæli elsta barnabarnsins okkar Daníu Rutar. Hún er því að fara í skóla í haust. Það er skrítið að hugsa til þess að eiga barnabörn sem eru að fara í skóla. Það er svo stutt síðan okkar dætur stigu fyrstu sporin sín í skóla. Við Erla vorum að rifja þetta upp í gærkvöldi, þá komin á Föðurlandið.


Við ákváðum að þeysast á fáknum austur í góða veðrinu. Það er alltaf jafngaman. Við vorum þar í nótt og nýttum svo daginn í dag í hjólatúr.


Fórum m.a í Skálholt, kíktum á minningarreitinn hans Jóns Arasonar þar sem hann var hálshöggvinn árið 1550 ásamt sonum sínum. Ég minntist þess að hafa skoðað þennan reit þegar ég var barn með pabba og mömmu þrátt fyrir að ferðalög hafi verið fátíð í þá daga.
Veðrið lék við okkur og við stoppuðum vítt og breitt. Við tókum ákvörðun um að fara hringinn á næsta ári, hjólandi. Það verður snilld. Lítill farangur, aðeins það nauðsynlegasta verður með í för. Gist í bændagistingum kringum landið. Þetta verður kannski 10 til 12 daga ferð. Verð að segja að ég hlakka strax til.

Vinna framundan og svo verslunarmannahelgi. Kofinn verður ekki íveruhæfur fyrir helgina. Það verður að hafa það. Við keyrum bara heim á kvöldin, ekki svo langt að fara, enda “hálfnuð í sveitina heima hjá okkur” eins og ein frænka mín komst svo skemmtilega að orði þegar við fluttum á Selfoss.

Húsið við ána hefur enn þetta gríðarlega aðdráttarafl á okkur. Við erum alltaf jafn ánægð hér og líður stórkostlega, enda ekki hægt annað.
Sólarlagið var stórkostlegt á Fitinni í gærkvöldi, vantaði myndavélina mína en tók nokkrar á símann minn. Ein komin á Flikr síðuna.....

sunnudagur, júlí 20, 2008

“Láttu mig bara í friði”

Ég átti hálfan dag í veiði í þverá í Fljótshlíð. Það er gaman að veiða þarna. Í gamla daga var aldrei lax í þverá, bara stöku staðbundinn urriði og einstöku sjóbirtingur á haustin. Núna er búið að rækta lax í ánni. Það er því svolítið skrítið að veiða lax þarna.
Ég setti í tvo laxa og náði báðum. Báðir nýrunnir, annar meira að segja lúsugur sem segir að hann hefur ekki verið lengur en tvo til þrjá daga í ánni.

Hansi kveikti svona í mér, hann fékk einn 18 pundara nokkrum dögum á undan. Mínir voru ca 6 punda, fínir matfiskar og gaman að veiða þá.


Ég ásamt Hlyn og Karlott vorum í Þórisvatni í síðustu viku. Þar var yndislegt að vera eins og fyrri daginn. Öræfin heilla mig. Íslensk eyðimörk en samt full af lífi. Ég saknaði vælsins í Himbrimanum. Það hefur verið árvisst við veiðar þarna að Himbriminn vælir í kyrrðinni á kvöldin og næturnar. Það er í mínum huga einhvernveginn tákn öræfanna, fjallavatna. Reyndar getur svanasöngur á heiðum haft sömu áhrif á mig.
Við veiddum mun minna en venjulega. Ég kenni því um að við vorum mánuði seinna á ferðinni en vant er. Gamall maður sem ég hitti einu sinni við þórisvatn, hafði stundað vatnið í áratugi sagði mér að veiðin væri best á vorin svo smá minnkaði hún fram á haust.
Fengum samt ágætis afla.
Við brugðum út af venjunni og kíktum í annað vatn, Fellsendavatn. Þar er silungurinn mun stærri og talsvert af honum. Ég veiddi einn þar nær 5 pundum. Gríðarlega sterkur og skemmtilegur fiskur. Alveg eins og veiðivatnasilungurinn, rauður á holdið og góður.

Fyrirsögnin að greininni þarfnast smá útskýringa. Þar sem ég var við veiðar í Þveránni kom kolvitlaus kría sem lét mig ekki í friði. Hún var svo viðskotsill að ég var í mestu vandræðum með hana, húfulaus og lítið hár til varnar.
Ég var marg búinn að reyna að reka hana frá mér án árangurs. Svo er ég að fara milli hylja og heyri að hún kemur hneggjandi aftan að mér svo ég lyfti stönginni upp... það small í stönginni og krían hrúgaðist niður við fæturnar á mér. Ég hafði hitt hana svona algerlega óvart. Ég fann til með greyinu hún var bara að verja ungviðið sitt, klappaði henni á kollinn og sagði við hana “æ fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að meiða þig, láttu mig bara í friði”
Kastaði svo í hylinn og leit svo á hana aftur, þá var hún flogin og ég sá á eftir henni í loftköstum hverfa í burtu. Ég sá hana ekki meir.....hún skildi mig.

Gærdagurinn var viðburðaríkur í Erlu armi fjölskyldunnar. Lítill drengur fæddist, Theodór Ísak Theuson. Thea mín, innilega til hamingju með frumburðinn og þið hin öll í fjölskyldunni með litla kútinn. Þar með eru Teddi og Kata komin í afa og ömmufélagið. Svo er það mikill heiður (talandi af reynslu) að fá nafna Teddi minn, til hamingju með það.
Það var líka gifting í fjölskyldunni. Snorri Sigtryggsson sonur Sirrýar giftist Ingu Huld sinni.
Þau giftu sig í Fríkirkjunni með pomp og prakt.
Til hamingju með daginn öll.

Við skruppum á Skagann eftir brúðkaup. Fórum hjólandi í góða veðrinu. Barbro og Siggi fóru svo með okkur í hjólatúr kringum Akrafjallið og svo rúntuðum við um bæinn. Þau tóku vel á móti okkur eins og alltaf. Vinátta okkar hjónanna spannar orðið yfir þrjátíu ár og hefur aldrei skugga borið á, vinátta sem stendur tímans tönn eru mikil verðmæti. Mér þykir óhemju vænt um þau.
Við vorum svo komin heim á öðrum tímanum í nótt, svolítið vindbarin eftir langan hjólatúr.... en þetta var góð ferð.

Dagurinn í dag er svo enn einn nýr náðardagur. Við verðum heima, eigum von á gestagangi, bara gaman.

mánudagur, júlí 07, 2008

Helgin

Eftir hlýtt veður um helgina var komin þoka á leiðinni heim í gær. Við vorum á Föðurlandi eins og fyrri daginn og ætluðum varla að hafa okkur af stað heim vegna blíðunnar. Enn er verið að reyna að pota verkinu áfram. Við Karlott bárum viðarvörn á nýja kofann og ég kláraði sperrurnar.
Við fengum fullt af heimsóknum. Alltaf gaman að fá gesti. Svo skruppum við Hlynur og Karlott upp í Fiská. Ætluðum að hrella þar vatnabúa sem reyndust síðan hrella okkur frekar. Ferðin var samt góð eins og öll útivera í íslenskri náttúru.

Tvær dætranna voru á móti í Kotinu. Við skruppum þangað eina kvöldstund. Það vakti athygli mína hversu fáa ég þekkti af viðstöddum. Nánast ekki sála úr Fíladelfíu, en fullt af fólki sem virtist hafa það eitt markmið að nálgast Guð og lofa hann. Það er kannski skrítið að segja það en mér þótti ánægjulegt að þekkja svona fáa, það segir mér bara að það eru hlutir að gerast hér á landinu okkar. Mér fannst þetta fara vel fram og ekkert sem stakk minn gamla pinnsa, annað en, full hávær tónlist. Segir kannski helst til um aldur minn.

Núna erum við að melta orð sem okkur voru færð. Orð sem kallast boðskapur eða þekkingarorð.
Það rétta er að taka svoleiðis og kryfja það með biblíuna og sannfæringu sína að vopni.
Við munum skoða þetta vandlega.

Ég þurfti reyndar að segja einum manni upp í morgun. Sá var nýráðinn en ég vissi að hann átti við vanda að etja. Honum finnst vodki góður, óhóflega góður. Honum var gert ljóst að hann yrði að stunda vinnuna 100% ef hann ætlaði að vinna hjá Lexor. Því stefna fyrirtækisins er gæði, gæði, gæði. Í morgun kom hann svo ekki til vinnu og því fór sem fór.

Við erum í fríi í dag hjónakornin. Sitjum hér í eldhúsinu. Erlan að lesa blöðin en ég að tölvast. Setti myndir teknar um helgina inn á Flickr síðuna ef einhver hefur áhuga á því.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Vinnuhelgi á Föðurlandi

Síðasta helgi var sannkölluð vinnuhelgi. Unnið var við húsið, festingar negldar, borið C-tox á viðinn, settar upp rólur fyrir yngstu meðlimina og rennibraut. Tré sótt til Hansa og söguð niður í eldivið svo nú er orðinn myndarlegur eldiviðarhlaði við gaflinn á salerniskofanum, eins og sjá má.

Ásamt ýmsu fleira gagnlegu.

Það er ekki ofsögum sagt að Fljótshlíðin sé falleg. Sérstaklega þegar maður á rætur sínar þar og spor.


Þrátt fyrir vinnu var helgin notaleg. Barnabörnin (Írisar) voru með og skreyttu tilveruna litum regnbogans. Þau glitra af lífi og fjöri og greinilegt að þau njóta sveitarinnar okkar í botn. Næstu helgi verða Örnudætur þarna í útilegu, Veðurstofan spáir algerri bongóblíðu þá, 20 - 25 gráðu hita og sól.


Ég hef grun um að þessi reitur eigi eftir að verða enn meiri paradís allri fjölskyldunni þegar fram í sækir.

Ekki síst barnabarnanna sem virðast njóta sín vel þarna.

Ég er geysilega ánægður með þennan reit sem foreldrar mínir gáfu mér fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. þá var þetta bara tún og ógróinn sandur.

Það er stutt síðan, en mikil breyting. Við höfum plantað flest árin. græðlingar teknir hér og þar og stungið niður. Þeir eru orðnir að trjám sem skýla okkur og prýða annars snauðan jarðveginn.
Lítill kostnaður en.... góð uppskera.

miðvikudagur, júní 25, 2008

"Lífið er nú svona og svona...

...suður í henni vík", syngur mamma gjarnan þegar maður hittir hana. Það er satt, lífið er hverfult, svo mikið er víst.
Það er vont þegar fólk á besta aldri þarf að kveðja þetta líf. Sveitungi minn, Jón Ólafsson (Nonni á Kirkjulæk) lést í fyrrakvöld, allt of ungur. Krabbamein lagði hann. Hann var dugmikill og áberandi karakter sem fór gjarnan ótroðnar slóðir og framkvæmdi það sem honum datt í hug. Þetta er blóðtaka fyrir sveitina hans og erfitt fyrir marga að horfa upp á. Fjölskylduna mest.

Ég skrapp austur á Föðurland áðan. Fór með kamínu sem mér áskotnaðist nær gefins. Ég settist á veröndina og hugsaði til baka. Horfði yfir sveitina mína sem, þrátt fyrir áfall, heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Tjalds hjón með unga voru á vappi á lóðinni. Þau voru með sitt hvorn ungann að kenna þeim að finna ánamaðka. Merkilegt að sjá. Heyskapur í gangi á bæjunum og fólk á ferð í bílum sínum.
Þessi fallega sveit sem hefur fóstrað svo marga og séð á eftir svo mörgum. Hringekja sem ekkert er umkomið að hægja á. Hver nýr dagur í lífi manns, að kvöldi kominn, er þakkarefni. Einn dagur í viðbót sem manni er gefinn á þessu fagra landi.

Ég votta þeim sem nú syrgja, mína innilegustu samúð.

þriðjudagur, júní 17, 2008

"Birna...

Bjarnardóttir" átti síðasta færsla auðvitað að heita. Endaði með kúlu í stað deyfipílu. Það var ekki við þetta ráðið. Birnir eru ekki gæludýr og eins gott að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Annars áttum við afar notalegan og rólegan þjóðhátíðardag. Veðrið fallegt svo af bar og góðar heimsóknir á pallinn. Teddi og Kata ásamt Theu sátu með okkur og nutu sólar og kaffiveitinga á pallinum. Svo komu Rúnar og Júlíana í heimsókn. Þau voru á hraðferð svo þau stoppuðu stutt. Rúnar kom með kúlur sem ég hafði beðið hann um að renna fyrir mig. Ég ætla að nota þær í sófaborð sem ég ætla að smíða.
Daginn enduðum við Erlan mín með göngutúr upp með á, hinum megin brúar. Fegurðin meðfram ánni er engu lík, það eru forréttindi að búa hér á þessum stað.

Smellti nokkrum myndum, Það er kvöldsett, logn og hitastig hátt. Notalegt og rómantískt.

Hendi einni mynd hér inn að gamni.


Njótið daganna vinir.

Björn Bjarnarson

Það er mikill munur á aðstæðum núna eða um daginn þegar björninn var skotinn. Þá var þoka og björninn á ferð og auðvelt að missa sjónar á honum. Hann var miklu nær þéttri byggð. Hann var við veg þar sem m.a. hjólreiðafólk var á ferð. Það var fullt af fólki að þvælast þarna í kring. Hann var soltinn og sýndi viðbrögð á þann veg að hann hljóp að fólki sem kom of nálægt.


Þessi björn er aftur á móti saddur af eggjaáti og liggur á meltunni eins og dýr gera eftir át. Hann er fjarri þéttri mannabyggð. Hann er fjarri þjóðvegi og það er bjart yfir og auðvelt að fylgjast með ferðum hans, ef hann fer eitthvað af stað.
Hvítabirnir eru alfriðuð dýr og í útrýmingarhættu. Ég er því mjög hlynntur þessum aðgerðum núna að reyna að fanga hann í stað þess að skjóta.

Ég áttaði mig samt ekki alveg á fréttinni um að erfitt gæti verið að flytja hann til síns heima vegna reglna um flutning dýra yfir landamæri, þess í stað yrði hann líklega fluttur í dýragarðinn í Kaupmannahöfn....!!!! Hver skilur svona?

Ég var líka hissa á fréttum um að 16 hvítabirnir hefðu heimsótt okkur á síðastliðnum 30 árum. Ég man ekki eftir svo mörgum! En hvað um það, það verður gaman að fylgjast með aðgerðinni.
Vildi helst að ég væri þáttakandi í þessu.

sunnudagur, júní 15, 2008

Útskrift HR

Það var hátíðarstund í gær í Vodafone höllinni að Hlíðarenda. Háskólinn í Reykjavík var að útskrifa nemendur sína á ýmsum sviðum. Skólafélagar mínir úr lagadeild sem héldu strax áfram með masterinn stóðu þarna útskrifaðir með mastersgráðuna sína. Flott hjá þeim. Ég var hins vegar ekki viðstaddur þarna þess vegna.

Ástæða veru minnar þarna var Íris dóttir mín. Hún var að útskrifast með BA gráðu í lögfræði. Það var skrítið að horfa á stelpuna sína ganga fram og taka við prófskírteini í lögfræði. Föðurleg ánægja bærðist í brjósti mínu og stolt yfir þessum árangri hennar.
Hún hefur sýnt fádæma elju og dugnað við námið, með tvær litlar dætur fyrri hlutann og meðgöngu og lítinn strák að auki seinni hlutann. Þetta virðist ekki hafa komið niður á einkunnum hennar sem voru henni til sóma. Tók gamla í nefið.

Ég verð að geta þess hér, Karlott til hróss, að hann á gríðarlega stóran hluta í þessu öllu saman, því án skilnings og hjálpar hans hefði þetta aldrei gengið upp. Ég hef dáðst að þeim hjónunum, og verið ánægður með, hvernig þau hafa staðið saman að þessu eins og ein manneskja. Það verður gaman að sjá þau uppskera eljuna síðar meir. Í framhaldi af útskriftinni var flott veisla heima hjá þeim. Þar komum við saman fólkið hennar og fögnuðum með henni.
Innilegar hamingjuóskir elskurnar mínar, þetta er glæsilegt, ykkur til sóma.

Systursonur minn, Maggi, hennar Gerðu, var líka að útskrifast með BA í lögfræði. Ég átti því líka stolta systur í Hlíðarendanum í gær. Til hamingju með áfangann, þetta er flott.
Það fer að verða varasamt að bögga okkur fjölskylduna sýnist mér........

Við fórum svo austur í gærkvöldi til að fagna með Christinu sem var að útskrifast sem kennari úr kennaraháskólanum. Henni gekk mjög vel, með fínar einkunnir. Sérstaklega flott einkunnin fyrir lokaritgerðina 10.0 varla hægt að gera betur! Til hamingju með flottan árangur.
Gylfi hélt fyrir hana þessa fínu veislu í skálanum sem hún vissi ekkert um. Gaman að svoleiðis, tala af reynslu.
Vorum svo í kofanum í nótt. Heiðar og Sigrún kíktu á okkur í gærkvöld, áttum notalegt spjall frameftir með þeim.

Góð helgi að baki. Hlakka til vikunnar framundan........

fimmtudagur, júní 12, 2008

Fituhugleiðing

Það er ávani að borða of mikið. Maður bætir jafnt og þétt ofan á kjörþyngd sína, einn bita í einu. Maður notar sömu aðferðafræði að grenna sig....einn bita í einu,
bara færri.
Að minnka skammtinn um tvo bita í hverri máltíð, gæti dugað........

sunnudagur, júní 08, 2008

Borgarstjórnarkómedían

Það glittir í smá vonarglætu hjá borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna. Ég hef ekki getað skilið hversvegna Hanna Birna var ekki fyrir löngu gerð að oddvita og borgarstjóraefni. Ég sá í henni sterkan leiðtoga fyrir mörgum árum síðan. Loksins að eitthvað var gert af viti.
Ég vona að henni verði gefinn vinnufriður svo hún geti farið að koma einhverju skikki á borgarmálin sem eru orðin öllum kjörnum fulltrúum þar til skammar. Ég var farinn að hallast að því að vinstri meirihlutinn væri orðinn illskárri kostur.
Sjáum hvað setur, hef trú á henni.

laugardagur, júní 07, 2008

Selfoss... lifandi bær!

Við Erlan sátum úti á verönd í gærkvöldi undir hitaranum. Það er fátt notalegra en það. Árniðurinn verkar róandi og gróðurlyktin í garðinum ásamt graslyktinni eftir slátt gærdagsins gerði þetta mikla gæðastund. Það hreyfði varla vind og hitastigið var í hærri kantinum.
Um tíuleytið kom hressilegur kippur. Hríslurnar skulfu eins... og lauf í vindi. Það er raunar orðið svo hversdagslegt að finna jörðina skjálfa hér og heyra drunur með að maður er hættur að kippa sér upp við það. Þetta er bara lifandi og skemmtilegt.
Jörðin hefur ekki stoppað hér síðan stóri skjálftinn kom hér um daginn. Þetta eru samt allt minniháttar kippir, smá titringur oftast, þó stundum komi stærri skammtur og ruggi. Það getur verið skemmtilegt að pæla í þessum ógnarkröftum sem eru að verki. Ótrúlegt að eitthvað skuli þess umkomið að hrista þessa milljarðatrilljarða tonna af grjóti og mold...!

Í gær kom hér maður frá tryggingafélaginu að meta skemmdir á innbúi. Þær eru víðtækari en við héldum í fyrstu, margt sem brotnaði. Við eigum svo von á öðrum manni sem skoðar skemmdir á húsnæðinu sjálfu. Þar er helst parketið sem skemmdist talsvert þegar hlutir féllu á það. Stigahandriðið er líka hoggið og svo er eitthvað af sparsl sprungum í veggjum, ekkert alvarlegt samt og vel sloppið miðað við marga.

Við förum bæjarferð á eftir. Kúturinn hann Erling Elí varð eins árs 3. júní sl. Foreldrarnir halda upp á áfangann í dag með pomp og prakt. Það er makalaust hvað tíminn líður hratt, ótrúlega stutt síðan hann kom í heiminn. Hann er mikill sjarmör og bræðir alla sem kynnast honum. Til hamingju með daginn elsku kúturinn minn..... börn eru það besta sem okkur hlotnast í lífinu.

Það rignir, gróðurinn eins og í júlí, allt er grænt og vænt.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Ísbjarnarblús

Ég var 8 ára þegar ísbjörn gekk á land í Grímsey forðum. Fréttin hræddi mig svo óskaplega að ég átti verulega bágt. Ísland var svo lítil eyja að ég var sannfærður um að þeir hefðu verið fleiri og væru komnir suður yfir heiðar. Ég dró þessa ályktun sjálfur og spurði auðvitað ekki fullorðna fólkið, enda orðinn átta. Mamma bað mig að erindast eitthvað út á verkstæði, átti að flytja pabba einhver skilaboð. Man alltaf hvað ég hljóp hratt því mér fannst ísbjörn vera másandi á hlaupum á eftir mér á leiðinni heim.

Ísbirnir eru stórhættulegir fólki. Við eigum ekki roð í þá ef þeir ákveða að éta mann. Það er auðvelt að sitja heima í stofu og átelja lögregluna skagfirsku fyrir að láta skjóta björninn. Það var þoka og hann var í nánd við þétta byggð, svangur bangsinn.
Mér segir svo hugur að skagfirska lögreglan hefði fengið á sig stærri ákúrur ef hún hefði látið bangsa fara og hann hefði fundið fólk á förnum vegi og satt hungrið á skagfirsku mannakjöti.

Fólk sem lætur hæst ætti að setja sig í spor þessara manna sem þurftu að taka ákvörðun á staðnum frammi fyrir þessu vali.
Ég veit að þeir eru friðaðir... en þeir eru líka fljótir að drepa. Deyfilyf var ekki til staðar né þekkingin hvernig ætti að fara með slíkt. Það var gott og rétt að hann var skotinn, annað var ekki hægt í stöðunni.

sunnudagur, júní 01, 2008

Grill

Erlan hefur í mörg ár verið í “saumaklúbb”.... set það í gæsalappir til að gæta sannsöglis.
Einu sinni á hverju vori hittast þær með okkur köllunum. Þá er grillað og haldin veisla.
Okkur veittist sá heiður að hýsa grillveisluna þetta árið. Það leit kannski ekki of vel út því eins og lesendum síðunnar er kunnugt varð íbúðin okkar eins og eftir sprengjuárás tveimur dögum fyrir grill. Stelpurnar okkar ásamt Erlunni tóku á sínum stóra og gerðu kraftaverk, enda var íbúðin komin í samt lag þegar gestina bar að garði klukkan hálf átta. Aðeins þvottahúsið og gestaherbergið eftir.

Sá háttur er hafður á að hver kemur með sitt kjöt og meðlæti, svo er grillað og steikt og hitað og soðið af krafti. Litla grillið er afkastamikið enda hægt að kynda það ótæpilega svo það tókst að láta alla snæða á sama tíma.
Félagsskapurinn var góður enda fátt skemmtilegra en góðra vina fundur. Nota tækifærið og þakka þeim ykkar sem kíkja hér á síðuna, fyrir komuna.

Bæjarlífið er að komast í samt lag aftur eftir stóra skjálftann. Vatnið er óhreint svo Rauði krossinn er hér við brúarsporðinn með vatnsbirgðir á flöskum sem deilt er ókeypis til íbúa. Gott framtak hjá þeim.
Ég er ánægður með framgang allra þeirra sem eiga að vera til staðar við svona atburði Rauðakrossinn, Almannavarnir, hjálparsveitirnar, sjúkraflutningamenn, landhelgisgæsluna og lögreglu. Allt virtist vera framkvæmt fumlaust. Brúm lokað þangað til búið var að kanna skemmdir, leiðum haldið opnum fyrir neyðarflutninga, gengið í hús til að kanna ástand á fólki, veitt áfallahjálp og hverskyns aðstoð. Gott að sjá.

Hrundin mín lenti í kröppum dansi þegar skjálftinn reið yfir. Hún vinnur á heimili fyrir fatlaða einstaklinga hér á Selfossi. Þær voru tvær að vinna þegar allt fór á tjá og tundur. Þungir skápar hentust um koll, sjónvörp þeyttust út á gólf og brotnuðu með reyk og eldglæringum og ærandi hávaði. Hún þurfti að halda andlitinu og vera róleg vistmanna vegna. Þær hófust strax handa við að taka sjónvörpin úr sambandi og koma fólkinu út. Hrund tók svo myndir af öllu áður en þær fóru að sópa saman.
Yfirmanneskja hennar á Svæðisskrifstofunni tjáði okkur að hún hefði staðið sig ótrúlega vel. Svo róleg og yfirveguð, sem var svo gott fyrir skjólstæðingana. Hún sagði Hrund svo yndislega að hún vildi ættleiða hana.... “þau plögg verða ekki undirrituð” sögðum við bæði í kór.
Hrund stóð sig gríðarlega vel undir miklu álagi, svo mikið er víst. Ég er stoltur af þér dóttir góð.

Hér hefur haldið áfram að skjálfa, eftirskjálftarnir taldir í þúsundum, sumir allsnarpir.
En hér er gott að vera.
Jafn fallegt og fyrir skjálfta, jafn vænt fyrir sálina.

fimmtudagur, maí 29, 2008

Katastrofa...

....segja þeir í Póllandi. Ég var fjarri þegar skjálftinn reið yfir. Var akandi á leið til byggingafulltrúa á Hvolsvelli með teikningar.
Ég fékk hinsvegar símtal rétt mínútu eftir skjálftann og brunaði af stað á Selfoss.
Aðkoman..... vægt til orða tekið... allt í skralli.

Húsið okkar er samt alveg óskemmt en glingrið hennar Erlu endaði margt tilveru sína. Verst með það glingrið sem á sér sögu, keypt í ferðum okkar víða, tengist margt góðum minningum.
Ég set hér nokkrar myndir, þær segja meira en mörg orð.







Efri hæðin .......











Fjölskyldumyndirnar....











Þvottahúsið




















efri hæðin aftur













Eldhúsið....

sunnudagur, maí 25, 2008

Helgin og minningar

Ilmandi graslykt leggur inn til okkar úr garðinum. Ég sló flötina í dag og eins og alltaf, fylgir því svona indæll grasilmur. Fyrir mér er þetta ekki bara einhver lykt heldur tengi ég einhverjar ljúfar gamlar minningar við hana. Ég sé fyrir mér sólríka daga í sveitinni þegar ég var lítill snáði í hvítbotna gúmmískóm, alltaf hlaupandi og lífið allt framundan. Hænsni liggjandi í gömlum haugum sem á óx arfi, gerandi sér holur sem þær rótuðu í á sinn sérstaka hátt liggjandi ofan í holunni. Þær rótuðu mold einhvernveginn upp um vængina, eins og þær væru að reyna að moka henni ofan á sig, kroppuðu svo makindalega með hálflokuð augun af vellíðan í sólinni.
Þessi hey- eða graslykt sem var svo megn í hitanum ásamt maðkaflugusuði sem lét einhvernveginn svo vel í eyrum, gerir þessi minningarbrot friðsæl, ljúf og áhyggjulaus.

Eitthvað í þessa veruna skýst upp í hugann við ilmandi töðulykt.

Annars vorum við á Fitinni í gær. Ég er að reisa annan kofa á lóðinni. Eins og þið vitið sem þekkið mig er ég orðinn hálfgerður ættargúrú. Á orðið heila ætt eða hér um bil. Fjölskyldan hefur stækkað hratt og pínulitli kofinn rúmar fáa.

Ég steypti undirstöður á föstudaginn og vann svo í gólfgrindinni í gær, þangað til við fórum í fimmtugsafmæli Auju mágkonu minnar. Afmælið var haldið í veislusal á Hellishólum í Fljótshlíð. Merkilegt hvað hægt er að gera fjós vistlegt. Þetta var ærleg veisla með veislustjórn og öllu. Þarna hitti ég nokkra gamla sveitunga mína sem gaman var að spjalla við. Eins áttum við gott samfélag við afmælis”barnið” og aðra meðlimi fjölskyldunnar.

Veðrið var yndislegt á Fitinni í morgun, glampandi sól og hiti. Við fórum samt snemma eða um hádegisbilið. Önnur afmælisveisla var í sigtinu. Thea dóttir Theodórs varð tvítug. Það var líka fínasta veisla og samfélag vina og vandamanna. Við áttum svo samfélag hér í húsinu við ána með nokkrum dætra okkar, öðrum tengdasyninum og barnabörnum. Það er gott að fá að vera hluti af svona sterkri heild, fjölskyldu sem stendur saman gegnum súrt og sætt.

Ég er ríkur maður, blessaður með miklu barnaláni og giftur þvílíkri gersemi.

sunnudagur, maí 18, 2008

Prjónað af fingrum fram.

Ég er að skipta um þak á bernskuheimili mínu þessa dagana. Þar býr Hansi bróðir minn eins og lesendum þessarar síðu er flestum kunnugt. Hann hefur nefnt þetta við mig í nokkurn tíma hvort ég geti skipt um þakið fyrir hann.
Það verður gaman að sjá húsið með nýjan hatt. Það verður háreistara, þar sem þakið hækkar um 25 cm. Eins verða settir verklegir þakkantar hringinn í kring. Ég hlakka til að ljúka þessu verki. Ég held að húsið verði mun fallegra við þessa breytingu. Það vekur athygli mína að sjá að pabbi hefur líklega smíðað þakið í nokkrum áföngum. Það er prjónað á húsið jafnóðum og hann hefur byggt við. Það hefur ekki skipt öllu máli hvort hallinn væri sá sami á þekjunum, aðalmálið að rigningin héldist úti. Praktíkin allsráðandi. Ég verð að nota sömu aðferðafræði. Nýja þakið er prjónað ofan á gamla, alveg eins í laginu.

Ég var fyrir austan áðan. Var að hjálpa Hlyn að koma reisningu nýja hússins af stað. Þetta verður mun betra hús en gamla húsið (verðum við að vona). Það þarf reyndar ekki að vera mjög gott til þess...! Ég sá að maðkurinn er farinn á stjá í víðinum hjá mér fyrir austan svo ég verð að fara að eitra fyrir honum svo hann geri ekki skaða eins og fyrir tveimur árum. Ég fór hjólandi auðvitað. Alltaf jafngaman.

Er nýkominn heim, búinn að snæða og spjalla við fólkið mitt sem var í heimsókn. Núna er ég sem sagt sestur niður og farinn að skrifa. Ég sit við opinn gluggann og hlusta á vorhljóðin utandyra. Góður tími vorið.

Það er mikið að gera hjá mér þessa dagana svo það er gott að gíra niður í stóíska leti hér á árbakkanum. Húsið við ána er afstressandi, það gerir árniðurinn og nálægðin við náttúruna.

Hér er ró og hér er friður, hér er gott að setjast niður.

mánudagur, maí 12, 2008

Helgin var góð.

Við skruppum í kofann á laugardags eftirmiðdag. Það var ljúft að vanda. Núna er fuglalífið í algleymi. Ótrúlega skemmtilegt að vakna við sinfóníuna þeirra. Ég vaknaði upp um sex leytið á sunnudagsmorguninn við nótu sem átti ekki að heyrast í þessari sinfóníu. Ég lá og hlustaði hvort ég hefði heyrt rétt, og jú það var rétt, þarna einhversstaðar í nágrenninu var hani að vekja sínar hænur til morgunverka.
Hanagal, rammíslenskt eins og í gamla daga. Ég verð að segja að mér fannst það bara vinalegt og skemmtileg aukanóta í sinfóníuna.

Á sunnudeginum voru gestakomur. Gylfi og Christina kíktu óvænt, voru í bíltúr og sáu að við vorum komin, þau voru drifin í kaffitár. Meðan þau voru hjá okkur hringdi síminn og Kjartan og Sue boðuðu komu sína. Þau birtust einni mínútu síðar, voru rétt hjá okkur. Alltaf gaman að fá gesti. Hildur systir kíkti svo þegar þau voru að fara.
Hjalli bróðir var í sínu húsi ásamt konu og einhverju af börnum. Við sátum góða stund og spjölluðum við þau og Hansa og Auju sem kíktu líka þangað.
Þar sem Erla hefur ekki verið sérlega hress (kvefuð) undanfarið ákváðum við að drífa okkur heim í eftirmiðdaginn. Það er alltaf gott að koma heim. Grilluðum svínahnakkasneiðar fyrir okkur og youngsterinn sem var heima að læra, enda á kafi í prófum.

Í dag komu svo allar hinar skvísurnar okkar með sitt fríða föruneyti, nema stelpurnar hennar Örnu en þær voru hjá pabba sínum. Það var glatt á hjalla eins og venjulega þegar við hittumst öll. Einstaklega gott að vera svona saman. Við enduðum daginn með sameiginlegum kvöldverði.

Ég skrapp samt í útreiðatúr á sleggjunni (nafnið á hjólinu mínu). Sá skreppur endaði í Fljótshlíðinni. Veðrið var einstakt í dag og gaman að hjóla. Vindurinn hlýr og vorlykt í lofti. Því fylgir mikil frelsistilfinning að þeysa svona með vindinn í fangið.

Núna eru bara róleg notalegheit hér í húsinu við ána, Erlan mín að raða Egyptalandasmyndum í hinni tölvunni og youngsterinn er úti á palli að læra. Henni finnst ekkert notalegra en að læra undir berum himni undir hitaranum á veröndinni. Enda, hvað er betra en íslenska fjallaloftið, árniður og fuglasöngur.

sunnudagur, maí 04, 2008

Hvunndagshetja...

...heldur upp á afmælið sitt í dag þótt hún fylli ekki árið fyrr en á miðvikudaginn næsta 7. maí.
Móðir mín verður 87 ára. Hún er nú á hjúkrunarheimilinu á Vífilsstöðum. Þar hefur hún dvalið undanfarin ár. Henni líður vel þar enda vel um hana hugsað. Hún er með alsheimer sjúkdóminn sem smátt og smátt dregur hana fjær raunveruleikanum og býr henni til nýjan veruleika, eigin hugarheim. Hún á til að þekkja ekki fólkið sitt þó ég hafi ekki lent í því sjálfur ennþá. Oftast er hún kát og hress og syngur mikið.
Ég lít til hennar sem hetju. Lífið hefur sýnt henni á sér tvær hliðar. Önnur er hrjúf og óblíð, krappra kjara og mikils vinnuálags, hin vafin fallegum minningum sveitarómantíkurinnar, bæði í vestfirskri bernsku hennar og svo á góðum stundum í Kotinu þar sem hún naut vina og vandamanna. Oftast þó þjónandi öllum.
Hún kom okkur á legg, átta einstaklingum, við bágan fjárhag og kröpp kjör, oftast. Að auki tók hún oft, ásamt pabba, einstaklinga inn á heimilið. Einstaklinga sem áttu um sárt að binda, gjarnan fjötraðir í áfengi og afbrot.
Aldrei man ég eftir að hafa heyrt hana minnast á þessa hluti eða finnast hún hafa skilað góðu dagsverki.
Þessvegna minnist ég á þetta hér. Hvunndagshetjur eru þessarar gerðar.
Mamma er ein þeirra. Ég setti saman kvæðisstúf fyrir nokkrum árum sem lýsir mömmu vel, hann má finna á þessari slóð: http://erlingm.blogspot.com/search?q=sokka

Ég óska henni til hamingju með afmælið og bið Guð um sérstaka blessun yfir hana.