miðvikudagur, febrúar 25, 2009
Meiri samsuðan
Enn ótrúlegra er að sjá þessa minnihlutastjórn klúðra svona tækifæri sínu, rétt fyrir kosningar, til að sýna takta sem fólk myndi kaupa.
Ef þau sneru sér að alvöru málum, fólkinu í landinu sem er að missa allt sitt. Fyrirtækjum sem eru að fara á hausinn og örva atvinnulífið svo fólkið hafi vinnu.
Þess í stað fer öll orkan í að koma Davíð úr Seðlabankanum, sem þau ráða ekki einu sinni við.
Hlustaði á viðtalið við Davíð í tölvunni áðan. Ég verð að segja, eftir hlustunina, og eftir lestur nokkurra bloggfærslna þar sem fólk er æft út í hann, að reiði þjóðfélagsins út í Davíð er fyrst og fremst leit að blóraböggli og hungur í hefnd.
Auðvitað á hann þátt í þessu öllu eins og aðrir stjórnmálamenn sem setið hafa við völd. En eftir því sem meiri viðbjóður kemur í ljós í bankasukkinu, kemst ég nær þeirri hugsun að útrásarvíkingarnir hafi, upp til hópa, verið ótýndir glæpamenn. Það elur af sér pælingar um sekt eða sakleysi yfirvalda. Kannski svipuð pæling og að það verður seint löggunni að kenna þó fólk fremji glæpi.
Kannski var Davíð eins og Derrick, sá ýmislegt og reyndi að tala við yfirlöggurnar en...... Hver veit hvað er satt eða logið?
þriðjudagur, febrúar 24, 2009
Oft hef ég....
Hinsvegar getur umfang verkefnanna orðið ansi mikið ef þannig verkast. Ég er að koma úr vinnutörn núna sem krafðist eiginlega meira en hollt getur talist. Sérstaklega var einstaklingsverkefni í Auðlindarrétti strembið. Því er lokið sem betur fer...á réttum tíma.
Allt í lagi með það. Var líka í hópaverkefnum í samstarfi við gott og skemmtilegt fólk.
Ég hef samt gaman að þessu. Bætir í sarpinn smátt og smátt.
Hef varla haft tíma til að fylgjast með þjóðmálunum. Sumt fer samt ekki framhjá. Framsókn var að minna á sig. Kannski er það samt þetta sem vantar meira af hjá þingmönnum, svo þingið verði valdameira og skilvirkara. Maður er vanari að þingmenn sitji fast bundnir í sínum flokksböndum og þori ekki að umla sjálfstæða sannfæringu sína. Verð að segja að þetta ýtir aðeins við viðurkenningartakkanum í mér. Næstum sama hvert málefnið væri....þó ekki alveg.
Datt í hug stubbur úr ljóði eftir Árna Grétar Finnson:
Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.
Er samt ekki að kommenta á málefnið með þessu þar sem ég veit varla um hvað það snýst. Veit þó að þessi gírugi framsóknarmaður Höskuldur Þórhallsson vildi bíða eftir niðurstöðu nefndar Evrópusambandsins um breytingar á regluverki um seðlabanka. Sé ekki að það velti einhverju hlassi, finnst það bara skynsamlegt í ljósi þess að við erum nú þegar aðilar að hluta Evrópusambandsins í gegnum EES. m.a. megninu af regluverkinu þeirra.
Sýnist þessi ríkisstjórn ætla að ná að klúðra þessu einstæða tækifæri til að rústa næstu kosningum. - Fengnir til að bjarga málum - eftir klúður fyrri ríkisstjórnar og ætla að renna á rassinn með flest sem þeir hafa haldið á lofti, digurbarkalega. Það fer ekki mikið fyrir alvöru aðgerðum, verð ég að segja, eða hvað?
Annars erum við í góðum gír hér í húsinu við ána. Erla heldur vinnunni sinni sem betur fer. Vinnur fyrir mér svo ég geti látið skóla mig til.
Ég er farinn að hlakka til vorsins hér. Daginn lengir og tíminn líður hratt. Bráðum kemur betri tíð með vor og yl og angan í haga. Þá verður mótorfákurinn tekinn fram og viðraður.... með Erluna aftan á.
sunnudagur, febrúar 08, 2009
Góðra vina þorrafundur


32 ár hafa sett mark á hópinn eins og gengur. Ég set hér inn myndir teknar í gærkvöldi. Efri myndin er af okkur systkinunum, sú neðri af mökum.

Kannski ekki svo mikill munur? Aðallega háraliturinn :o=)
og motturnar, kannski nokkur kíló líka, sumstaðar allavega.
Gaman að þessu.
Njótið daganna gott fólk......
þriðjudagur, janúar 27, 2009
Vindasamt
Jóhanna hefur sýnt og sannað að hún lætur verkin tala, hún er ekki bara orðaflóð eins og pólitíkusum er svo lagið. Líst bara vel á að hún stýri fleyinu um stund.
Svo hefst kosningabaráttan strax á morgun með öllu skruminu sem því fylgir. Það verður úr vöndu að ráða hvað á að kjósa. Sjálfstæðismenn eiga of stóran þátt í þjóðarþrotinu til að fá mitt umboð svo mikið er víst. Nú þarf að grandskoða stefnur flokkanna og fólkið sem stendur að þeim. Einhver hlýtur að vera skárri en annar.
föstudagur, janúar 23, 2009
þriðjudagur, janúar 20, 2009
Lögfræðingurinn Obama...
En svona er veröldin uppfull af óskiljanlegum hlutum. Vonandi tekst Obama að koma málum í horf aftur, það hefur gríðarleg áhrif út um allan heim hvernig honum tekst til - líka hér.
Ég sjálfur, fagna þessum forsetaskiptum í Bandaríkjunum.
sunnudagur, janúar 18, 2009
Lærdómur
Dagurinn hefur farið framhjá bjartur og góður. Eftir notalegan morgunn við blaðalestur og kaffi fórum við Erlan í göngutúr upp með á. Umhverfið var fallegt eins og venjulega, jafnvel fallegra. Sólin skein og glampaði svo fallega í ánni. Það var gott að fá ferskt loft í lungun, hressti heilasellurnar. Annars hefur síðdegið helgast af lestri og tölvuvinnu fyrir morgundaginn. Málstofa í auðlindarétti í fyrramálið, áhugavert fag um ferli hugmyndar að framkvæmd í íslensku lagaumhverfi. Annars fer skólinn vel af stað. Ein vika liðin og ég er búinn að fara í tíma í öllum fögum annarinnar. Líst vel á þau öll og veturinn leggst vel í mig. Það verður nóg að gera eins og endranær.
Vonandi verður botninum náð hjá okkur í efnahagslífinu í vetur og ég vona líka að bjartsýni og von fæðist með þjóðinni með hækkandi sól. Ég verð samt að taka undir að ástandið er ekki gott. Það hlýtur samt að fara batnandi fyrst svona margir skvetta málningu á opinberar byggingar. Svona lítur nú hver sínum augum á vandann.
Vikan verður fljót framhjá og það er stutt í næstu helgi
Njótið daganna
fimmtudagur, janúar 15, 2009
Enn afmæli í húsinu við ána
sunnudagur, janúar 11, 2009
Afmæli

Núna sitjum við Erlan með kaffi og lesum blöðin á þessum fallega sunnudagsmorgni. Það er svolítið hvasst úti og hiti um frostmark, Kári gnauðar á gluggunum og vinkona okkar Ölfusáin er svolítið hryssingsleg, það frussar á henni eins og hún sé hálf geðvond. Kannski ekki nema von, búin að búa við vorveður svo lengi.
Morguninn gefur fyrirheit um góðan dag.
Njótið hans vinir
sunnudagur, janúar 04, 2009
Góðra vina fundur...
Ég er ánægður með góða mætingu, enda þeirrar skoðunar, sérstaklega núna eftir fráfall mömmu, að við þurfum að leggja vinnu í að viðhalda tengslum okkar. Ýmsar uppákomur líkt og þessi getur virkað eins og lím í fjölskylduna. Fyrirhugaður útileguhittingur annarrar kynslóðar í sumar er mér mjög að skapi. Gott að yngra fólkið finni hjá sér hvöt til að hittast og þannig viðhalda ættarböndunum.
Það var ánægjulegt að sjá allan barnaskarann sem fylgir unga fólkinu, efniviður framtíðarinnar, nýju brumin á trénu, hluti af okkur sjálfum, sem munu svo vaxa upp og fæða af sér nýjar greinar á ættartréð. Gott mál.
Ég er ánægður með mitt ættfólk og þakka fyrir skemmtilegt og gefandi samfélag.
fimmtudagur, janúar 01, 2009
Nýtt ár 2009

Ég þakka gestum síðunnar samfylgdina á árinu og trúfastar heimsóknir.
Það er alltaf gaman að líta um öxl við áramót og skoða hvað markverðast hefur gerst á árinu. Mamma lést á árinu eftir löng veikindi, við geymum fjölda minninga um hana í hjörtum okkar, þær eru demantar í minningasafninu.
Við fjölskyldan getum þakkað fyrir gott ár. Engin slys eða alvarleg veikindi hafa komið upp á árinu. Við byggðum nýjan kofa á Föðurlandi. Við ferðuðumst og nutum lífsins á Ölfusárbökkum.
Við fylgdum auðvitað inn í kreppuástand eins og aðrir Íslendingar. Ef spá hagfræðinga rætist verður nýtt ár líklega nokkuð ólíkt mörgum undanfarinna ára. Allskyns uppgjör verða. Ekki aðeins hjá helstu áhrifavöldum kreppunnar heldur líka hjá almenningi sem neyðist til að horfast í augu við nýtt landslag í sínum persónulegu fjármálum. Margir munu mæta meiri fjárhagslegum hremmingum en þeir hafa áður upplifað.
Í þessu myrkri eru samt glætur sem munu bara stækka, og fyrir rest lýsa eins og sólin. Ég er að tala um ný viðhorf, ný gildi. Kannski rennur upp sú tíð á árinu að menn munu spyrja "hvað ertu" í stað "hvað áttu". Upp úr hruni íslenska loftbólugullkálfsins mun rísa, trúi ég, heilbrigðara og betra mannlíf en við höfum búið við hingað til. Kannski verður horfið til hverfandi gilda eins og "sígandi lukka er best" og hin gleymdu viðhorf "nægjusemi" og "ráðdeild" sett í öndvegi og kannski verður það aftur álitin dyggð að spara.
Hvaðan sem á er litið er allavega ljóst að Ísland eins og við þekkjum það mun taka miklum breytingum.
Ég hef góðar væntingar til nýs árs þrátt fyrir kólgubólstra. Nú liggur leiðin í Háskólann á ný eftir tveggja ára hlé. Það verður skemmtilegt en um leið erfitt. Við Erlan ætlum að halda áfram að njóta augnablikanna í lífinu sem sjaldnast þarf að kosta peninga, bara að ganga með augun opin.
Við ætlum að rækta garðinn okkar sem aldrei fyrr. "Nær er skinnið en skyrtan" segir máltækið og því munum við sem fyrr leggja mesta áherslu á blómin sem næst okkur standa, enda liggur ábyrgðin okkar stærst þar. Áherslan er líka á að rækta vináttu fjartengdari í ríkari mæli en hingað til.
Húsið við ána er áning á Selfossi fyrir alla sem telja sig vini okkar, það er því undir þér komið sem lest, hvort þú tekur þetta sem heimboð ;)
Ég óska ykkur fljótandi gæfu og yfirflæði blessana á nýju ári.
þriðjudagur, desember 30, 2008
Tjött
Síðasti dagur ársins á morgun, hreint magnað, svo stutt frá síðustu áramótum. Áramótin verða góð ef að líkum lætur. Við verðum saman hér í húsinu við ána, allur minn ættleggur, að fagna nýju ári. Ekki nóg með það, hér mun allur ættleggurinn gista.
Íris er hér ásamt sínum börnum að lesa undir próf, Arna er hér líka og Thea. Mér sýnist húsið við ána toga í fleiri en okkur Erluna, er reyndar ekkert hissa á því.
Við ætlum að hafa jólaboð hér, eins og í fyrra, fyrir afkomendur pabba og mömmu. Það verður frá klukkan 15:00 á laugardaginn, eins lengi og hver nennir. Í fyrra var þetta mjög notalegt og gefandi samfélag.
Á von á því sama nú og hlakka til.
.....Smá eftirmál. Þegar ég las þetta yfir sá ég að ég hafði verið ofan í tunnu að salta hálfan hest........!
Það var sem sagt ekki þannig, ég saxaði niður hálfan hest og saltaði bútana ofan í tunnu :-)
sunnudagur, desember 28, 2008
Vorlegt
Áin er róleg núna eftir skot í henni um jólin. Asahláka eins og gerði í jólabyrjun þýðir flóð hér. Áin er fljót að taka við sér, hvort sem hún vill stækka eða minnka, aldrei eins, síbreytileg eins og íslenska veðrið. Við verðum í fríi að mestu milli jóla og nýárs svo makindin hér halda áfram og við að njóta þeirra.
Hér var líf og fjör í gær. Íris kom með ungana sína. Hún fékk að lesa hér í rómantíkinni undir próf meðan við litum eftir börnunum.
Við fengum líka góðan gest, Gunnhildur Haraldsdóttir kíkti hér við. Hún var eitt sinn gift Danna bróður og er móðir frænku minnar Hafdísar Daníelsdóttur. Það var gaman að spjalla við hana um heima og geima.
Jólin hafa annars verið afar góð, þau hafa liðið hratt eins og gjarnan er með gæðatíma. Ég er að klára Myrká eftir Arnald, ágætis bók, en skilur ekki mikið eftir sig. Innihaldsríkari bækur höfða meira til mín. Arnaldur er samt góð afreying.
Arna skilaði dætrunum til pabba síns í gær svo nú er bærinn barnlaus. Einhversstaðar segir að slíkur bær sé daufur. Það er kannski daufara yfirbragð, en samt - hér er svo gott að vera.
Áramótin framundan. Kalkúni verður á matseðlinum í fyrsta skipti í mörg ár. Sjáum til hvort tekst að gera hann bærilegan. Vantar uppskrift að góðri fyllingu, ef einhver lúrir á slíku er það vel þegið.
miðvikudagur, desember 24, 2008
Aðfangadagur

Hér í húsinu við ána ríkir eftirvænting, sérstaklega í hugum litlu barnabarnanna, Örnudætrum, sem skreyta daginn ríkulega með einlægri tilhlökkun til kvöldsins. Við áttum notalegan matartíma í hádeginu að vanda, en vaninn er að baka smábrauð og bera fram, ásamt rúgbrauði með ýmsu góðgæti, laxi, kæfu, síld, eggjum, ostum og fleira í hádeginu á aðfangadag.
Núna er matseldin í gangi undir jólalögum. Hamborgarhryggurinn var að fara upp úr pottinum. Erlan er að sjóða grautinn og ég er að fara að gera sírópið fyrir karamellusósuna út á grautinn. Allt eftir gömlum hefðum sem má ekki brjóta. Ég er óendanlega þakklátur fyrir þessi gæði sem við búum við að geta haldið jól með þessum hætti. Margt af þessu er erft úr foreldrahúsum okkar Erlu. Það er svo ómetanlegt að sjá sama braginn erfast til okkar eigin barna.
"Sjá ég boða yður mikinn fögnuð.... Yður er í dag frelsari fæddur" sögðu englarnir forðum. Munum tilgang jólanna. Ég óska lesendum mínum gleðilegar hátíðar og friðar.
þriðjudagur, desember 23, 2008
Skatan
Við Hlynur bróðir höfum farið til nokkurra ára í Gallerý fisk í skötuveislu. Að þessu sinni var hún alveg passleg og vestfirski hnoðmörinn sérlega góður. Ég var með einhverja magalumbru þegar ég mætti á staðinn, en eftir skötuna var öll lumbra farin veg allrar veraldar, allra meina bót skatan. Svo sótti ég youngsterinn minn til vinkonu sinnar, við skruppum svo saman í smá innanbæjarleiðangur, þann síðasta fyrir jólin.
Erum nú komin heim í sveitina okkar. Mikið af snjónum farið og gatan hér næstum auð. Arna kemur í kvöld með restina af skvísunum sínum. Danía Rut fékk smá forskot og fékk að fara með afa sínum og ömmu í sveitina í gær. Hún nýtur sín hér, enda dekruð eins og prinsessa af ömmu sinni.
Komið að Bónusinnkaupum fyrir morgundaginn. Ýmislegt sem vantar til að viðhalda jólahefðunum sem hér ríkja. Við látum okkur hafa að fara í Bónus í Hveragerði, búðin þar er mun betri en hér.
sunnudagur, desember 21, 2008
Nína eða Geiri....?

fimmtudagur, desember 18, 2008
Heima

Í kvöld er svo árlegt kaffihús í höfuðborginni. Við höfum farið í nokkur ár saman á kaffihús á aðventunni, ég og dæturnar, og fengið okkur heitt kakó og kaffi og eitthvað jólalegt með. Kakóið er vinsælla hjá kvenþjóðinni en ég er allur í kaffinu. Ég hlakka til samfélagsins með þeim.
Njótið dagsins.
þriðjudagur, desember 16, 2008
Matarboð
Takk fyrir okkur.....!
miðvikudagur, desember 10, 2008
Toppurinn á tilverunni?

Til stóð að fara jólaferð til Köben eins og við höfum gert undanfarin ár. Núna var það vinnustaðaferð með vinnufélögum Erlu.
En í veðrasömum ólgusjó íslensku krónunnar, ákváðum við að það væri ekki með nokkru móti verjandi að vera þarna úti með dönsku krónuna í 25 kalli......! Svo við breyttum danmerkurferðinni sem átti að vera til Köben í “danmerkurferð”, á jólahlaðborð í Hótel Örk í Hveragerði með vinnufélögunum og svo við tvö á Föðurland í Fljótshlíð. Þar vorum við svo þá daga sem ferðin út hefði tekið. Það má fullyrða að þetta var hagstæðasta danmerkurferð sem við höfum farið. Enginn visa reikningur, engar búðir og enginn hreimur til að jafna sig á.


Fljótshlíðin er falleg, hvort sem hún er í vetrar- eða sumarbúningi, um það þarf ekki að fjölyrða. Það er því gott að þurfa ekki að standa frammi fyrir sama vali og Gunnar kallinn þurfti forðum.
Það er jú fjármálakreppa en hverju fáum við breytt í því? Látum ekki áhyggjur af því sem við getum ekki breytt, skemma dagana.
Verum jákvæð og njótum aðventunnar.
þriðjudagur, desember 02, 2008
Aðventa
Hér er orðið afar jólalegt enda ekki við öðru að búast. Erla hefur alltaf varðveitt jólabarnið í sér sem hefur eflaust haft mikið varðveislugildi fyrir jólabarnið í mér.
Það gleður mig alltaf þegar hún hefst handa við að taka úr hillum og kitrum og setja upp ýmislegt jóladót í staðinn sem við höfum sankað að okkur á löngum búskap. Mikið af okkar jóladóti hefur fylgt okkur lengi og tvinnast saman við söguna okkar. Margt sem kemur uppúr kössum hjá henni skapar því notalega nostalgíu sem yljar hjartanu.
Við erum íhaldsöm þegar kemur að endurnýjun á þessu dóti. Sagan er okkur of mikils virði til að við getum hent til að kaupa nýtt.
Enda er það svo að stelpurnar okkar þekkja þessa hluti líka vel frá uppvaxtarárum sínum og hætt er við að heyrðist hljóð úr horni ef við færum að skipta þessu út.
Ég var heima í dag. Vann við að setja upp ruslatunnustatíf sem hefur vantað hér. Kannski ruslatunnan verði til friðs þegar hvessir hér eftir. Bætti líka í jólaljósin í garðinum. Setti í einn runna í viðbót. Fann seríu sem vantaði bara réttan straumbreytir. Átti einn sem passaði ekki en tókst að mixa það saman.
Það er ekki laust við að um mig fari einhverjir notalegheitastraumar, sitjandi hér í stofunni, hlustandi á jólatónana flæða úr eldhúsinu. Ég veit að frammi er jólabarn að leika sér. Hrundin situr við tölvuna að læra, hún er í prófum núna og gengur vel að vanda.
Þetta hús gælir einhvernveginn við okkur af fágætum rausnarskap. Kannski er það staðurinn, áin ... eða er það félagsskapurinn? Hallast að því síðastnefnda.
Það geisar kreppa.... úti.
Hér inni er eins og hún sé víðsfjarri, líkt og norðankulið.