Það gengur á með éljum. Spáin gerir ráð fyrir suðvestanstormi og varar við ferðalögum. Jafn mikið og tækninni fleygir fram í veðurspám get ég ekki skilið hversvegna það virðst vera minna að marka veðurspár núna en var fyrir nokkrum árum. Ég hef fylgst með veðri undanfarið ár vegna ísbúðarinnar en salan fer mjög eftir veðri og við verðum að skipa vaktirnar eftir því hversu mikið er að gera. Við treystum því á veðurspár en hending virðist ráða hvort þær rætast.
Kannski við ættum bara að fá okkur beina línu á veðurklúbbinn í Dalvík, það er hópur aldinna borgara sem spáir í veðrið eftir gömlum aðferðum. Ætli það sé nokkuð verra. Páskahretið árlega átti þó eftir að koma fram og sennilega er þetta það sem gengur nú yfir. Við ákveðum það allavega og væntum vorsins í framhaldi.
Nú er páskadagur og því fylgir páskaeggjaát... yfirleitt. Hér á bæ eru engin páskaegg þetta árið. Allir eru í aðhaldi við fitupúkann og hann elskar páskaegg og því er honum haldið soltnum þetta árið og sjá til hvort hann hypji sig ekki.
Það er ekki hægt að skrifa um páska án þess að minnast hvaða gildi þeir hafa fyrir kristna trú. Það má segja að ef upprisan hefði aldrei orðið hefði kristin trú aldrei orðið til heldur. Grundvöllur kristninnar er upprisan. Það er því í hæsta máta eðlilegt að þeir sem alls ekki trúa upprisunni, hafni þar með kristninni. Hvaða gildi hefði Kristur annað en að hafa verið merkilegur maður innan um alla hina merkismennina sem fæðst hafa, ef ekki nyti upprisunnar? Hvar væri kristin trú? því er auðsvarað, hún væri ekki til.
Ég hef oft velt því fyrir mér hversvegna páskahátíðin er ekki meiri hátið en hún er í raun. Jólin eru miklu meiri hátíð í augum alls þorra manna, þar á meðal mín. Það er þó á páskum sem grundvöllurinn varð til. Kannski hefur þetta að gera með kúltúr þjóðarinnar, en jólin eiga sér líka rætur aftur í heiðni að því leyti að á þessum tíma var því fagnað að sólin færi að rísa á ný en í kristni þýða þau, eins og allir vita, fæðingu frelsarans. Þessi tvöfalda rót lengst ofan í þjóðarsálinni hefur að líkindum vægi. Páskarnir ættu samt að vera á hærri stalli meðal kristinna þjóða en þeir eru, það er lógísk pæling, svo mikið er víst. Annars virðist ekki þurfa einhverja aldalanga sögu til að festa hátíðir í sessi, verslunarmannahelgin á sér enga svoleiðis sögu en er heilmikil hátíð, innmúruð og naglföst.
Þessi morgunþanki er bara smá hugarflug um tilgang eða tilgangsleysi hlutanna eins og svo sem flest sem ég hendi hér niður. Lítil stórhátíð sem ætti að vera á hærri stalli? Það er bara svo skrítið að eldast og skilja um leið betur og betur hvað við vitum lítið. Það er þó eitt gott við að velta fyrir sér tilgangi hlutanna, það skerpir stundum sýn á hvað er hismi og hvað eru hafrar.
Gleðilega páska vinir mínir, njótið súkkulaðisins - það er gott.
sunnudagur, apríl 24, 2011
föstudagur, apríl 22, 2011
Allra helgastur...
Þessi dagur ársins er sá allra helgasti í mínum huga. Í sveitinni heima var okkur kennt að þennan dag ætti ekkert að gera nema það allra, allra nauðsynlegasta. Hvað ungur nemur gamall temur, það er merkilegt hvað situr eftir úr uppeldinu kominn yfir fimmtugt. Raunar er það þannig að við mótum okkur auðvitað sjálf þegar foreldrahendinni sleppir. Ég fór ungur að heiman og byrjaði því uppeldishlutverkið á sjálfum mér snemma.
Það er samt þannig að ég hef alltaf haldið við þessari hugsun að föstudagurinn langi, dagurinn sem Jesú var krossfestur, sé sá dagur ársins sem við höldum helgastan. Það mótast af því að krossfestingin eins ljót og hún er, er áhrifavaldurinn sem gerir kristni að því sem hún er. Krossfestingin varð að vera undanfari upprisunnar til að um væri að ræða fórn til friðþægingar mannkyni.
Það er því umhugsunarefni hversvegna svo margir kristnir horfa framhjá þessu verki og predika lögmálskenningar fram í rauðan dauðann. Í mínum huga er það átroðsla og vanvirðing við fagnaðarerindið sem í krossfestingunni og síðan upprisunni felst.
Ég ætla þó ekki að fara að predika heldur geng ég sáttur út í daginn vitandi að orð Krists á krossinum "það er fullkomnað" eru í gildi og ég lifi undir þeirri náð sem í því felst.
Eigið góðan dag og njótið páskanna gott fólk.
Það er samt þannig að ég hef alltaf haldið við þessari hugsun að föstudagurinn langi, dagurinn sem Jesú var krossfestur, sé sá dagur ársins sem við höldum helgastan. Það mótast af því að krossfestingin eins ljót og hún er, er áhrifavaldurinn sem gerir kristni að því sem hún er. Krossfestingin varð að vera undanfari upprisunnar til að um væri að ræða fórn til friðþægingar mannkyni.
Það er því umhugsunarefni hversvegna svo margir kristnir horfa framhjá þessu verki og predika lögmálskenningar fram í rauðan dauðann. Í mínum huga er það átroðsla og vanvirðing við fagnaðarerindið sem í krossfestingunni og síðan upprisunni felst.
Ég ætla þó ekki að fara að predika heldur geng ég sáttur út í daginn vitandi að orð Krists á krossinum "það er fullkomnað" eru í gildi og ég lifi undir þeirri náð sem í því felst.
Eigið góðan dag og njótið páskanna gott fólk.
fimmtudagur, apríl 21, 2011
Minningargrein
Ég er búinn að bíða eftir þeim um hríð. Ekkert hefur bólað á þeim ennþá en þau ættu að vera komin fyrir þó nokkru síðan. Svæðið þeirra er nú óvarið og grágæsir vappa yfir "heimilið" þeirra til margra ára sem nú er bara lítil óhrjáleg hrúga. Það er eftirsjá í þeim enda skemmtilegir nágrannar. Nína og Geiri eru öll.
Kannski gáfust þau upp yfir hafinu, orðin of lúin til að komast á leiðarenda, eða borið beinin á breskri grund, það væru ill örlög.
Það rann að mér sá grunur í fyrra að þau væru orðin gömul því síðustu tvö ár hafa þau ekki komið upp ungum þó þau hafi mætt á staðinn sinn, gert upp óðalið (flottara orð en dyngja) og tekið þátt í varpi eins og undanfarin ótiltekin árafjöld. Þegar við fluttum hingað fyrir fimm árum átti ég tal við gamla konu sem bjó í húsinu hér fyrir neðan, hana Boggu gömlu, sem dó fyrir tveimur árum. Hún sagði mér að þessar álftir hefðu orpið þarna í fjölda ára áður en við komum hingað.
Álftir maka sig til lífstíðar og halda tryggð við maka sinn ævilangt. Þær eru aldrei langt undan ef eitthvað kemur upp á og verja hvort annað af hörku ef þarf. Það er skemmtilegt umhugsunarefni hvað það er sem stýrir þessu. Er þetta innbyggð eðlisávísun til að viðhalda stofninum eða er þetta trúnaður og traust.... kannski kærleikur? Gæti allavega verið mörgu mannfólkinu til eftirbreytni :-)
Hvað sem ræður för þá er þetta fallegt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim koma heim eftir langt flug yfir hafið saman og fylgjast með þeim undirbúa fjölgun ættleggsins síns. Fallegur dansinn þeirra á vatnsfletinum og hljómmikill lúðrablásturinn á björtum sumarnóttum hér við ána ásamt endalausri þolinmæði við útungun eggja og natnina við ungana sem að lokum skriðu út hefur verið falleg ástarsaga að fylgjast með.
Það er söknuður af þeim. Kannski flytja afkomendur þeirra hingað, hver veit?
Njótið dagsins vinir.
Kannski gáfust þau upp yfir hafinu, orðin of lúin til að komast á leiðarenda, eða borið beinin á breskri grund, það væru ill örlög.
Það rann að mér sá grunur í fyrra að þau væru orðin gömul því síðustu tvö ár hafa þau ekki komið upp ungum þó þau hafi mætt á staðinn sinn, gert upp óðalið (flottara orð en dyngja) og tekið þátt í varpi eins og undanfarin ótiltekin árafjöld. Þegar við fluttum hingað fyrir fimm árum átti ég tal við gamla konu sem bjó í húsinu hér fyrir neðan, hana Boggu gömlu, sem dó fyrir tveimur árum. Hún sagði mér að þessar álftir hefðu orpið þarna í fjölda ára áður en við komum hingað.
Álftir maka sig til lífstíðar og halda tryggð við maka sinn ævilangt. Þær eru aldrei langt undan ef eitthvað kemur upp á og verja hvort annað af hörku ef þarf. Það er skemmtilegt umhugsunarefni hvað það er sem stýrir þessu. Er þetta innbyggð eðlisávísun til að viðhalda stofninum eða er þetta trúnaður og traust.... kannski kærleikur? Gæti allavega verið mörgu mannfólkinu til eftirbreytni :-)
Hvað sem ræður för þá er þetta fallegt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim koma heim eftir langt flug yfir hafið saman og fylgjast með þeim undirbúa fjölgun ættleggsins síns. Fallegur dansinn þeirra á vatnsfletinum og hljómmikill lúðrablásturinn á björtum sumarnóttum hér við ána ásamt endalausri þolinmæði við útungun eggja og natnina við ungana sem að lokum skriðu út hefur verið falleg ástarsaga að fylgjast með.
Það er söknuður af þeim. Kannski flytja afkomendur þeirra hingað, hver veit?
Njótið dagsins vinir.
mánudagur, apríl 18, 2011
Hér er hávaði og læti...
...og hamagangur á hóli. Rólegheitin sem hér tipla á tám flesta daga hafa yfirgefið húsið og verkefni dagsins verður líklega að hafa ofan af fyrir þremur stelpuskottum sem eru í heimsókn hjá afa sínum og ömmu.
Skilningur minn á forgangsröðun lífsins eykst með árunum og mér er kristalljóst hversvegna skaparinn ákvað að barneignir skyldu vera á ákveðnum fyrriparti ævinnar. Það er auðvitað til þess að maður geti verið afi og amma á síðari helmingnum... ;-)
Það hefur marga augljósa kosti að vera afi og amma. Það væri ábyrgðarlaust af mér að upplýsa foreldra um það hér að uppeldisaðferðir afa og ömmu geta verið frjálslegri en tíðkast í foreldrahlutverki eins og þetta með afanammið og annað en um það ræðum við ekki hér.
Börn eru það yndislegasta sem til er.
Skilningur minn á forgangsröðun lífsins eykst með árunum og mér er kristalljóst hversvegna skaparinn ákvað að barneignir skyldu vera á ákveðnum fyrriparti ævinnar. Það er auðvitað til þess að maður geti verið afi og amma á síðari helmingnum... ;-)
Það hefur marga augljósa kosti að vera afi og amma. Það væri ábyrgðarlaust af mér að upplýsa foreldra um það hér að uppeldisaðferðir afa og ömmu geta verið frjálslegri en tíðkast í foreldrahlutverki eins og þetta með afanammið og annað en um það ræðum við ekki hér.
Börn eru það yndislegasta sem til er.
sunnudagur, apríl 17, 2011
Stelkurinn, Hrossagaukur...
...og ég vöknuðum árla í morgun. Þeir voru báðir vaknaðir á undan mér en sáu um að ég svæfi ekki yfir mig. Vorið er komið og grundirnar gróa... Dagurinn brosti með mér þegar ég lá og hlustaði á þessa vini mína. Stelkurinn, með sitt hvella hljóð var svo nálægt að hann minnti mig á gamla tíma þegar ég var lítill drengur austur í sveit, fetandi grösugan lækjarbakkann með orm úti, búinn að tendra kveikiþráðinn að veiðidellunni sem síðar varð, vitandi návæmlega punktinn sem silungarnir kæmu undan bakkanum og tækju agnið og Stelkurinn, það fylgdi oftast, lék sér í kringum mig með sínum hvella hávaða. Svona eru minningarbrot bernskunnar, þau brjótast stundum fram og raðast jafnvel í heillega mynd, gjarnan af litlum strák að veiða og veiða meira og veiða enn meira.
Svona fæddist nú veiðidellan. Útiveran og fuglagargið ;-) það er grunnurinn. Hugurinn fer alltaf á flug þegar ég heyri þessi vorhljóð. Ég lá lengi vakandi áður en ég tímdi að fara á fætur. Það er eitthvað svo gott að hlusta á þessa fiðruðu tvífætlinga sem boða manni betri tíð og blóm í haga.
Njótið dagsins vinir.
Svona fæddist nú veiðidellan. Útiveran og fuglagargið ;-) það er grunnurinn. Hugurinn fer alltaf á flug þegar ég heyri þessi vorhljóð. Ég lá lengi vakandi áður en ég tímdi að fara á fætur. Það er eitthvað svo gott að hlusta á þessa fiðruðu tvífætlinga sem boða manni betri tíð og blóm í haga.
Njótið dagsins vinir.
þriðjudagur, apríl 12, 2011
Við Andrés önd...
...berum báðir þennan sérstaka munnsvip. Það þurfti að skera aðeins í vörina á mér og því er ég svona skemmtilega kyssilegur eins og hann.
Ég er að bíða eftir vorinu eins og þið öll en gullvagninn sem dregur vorið hingað er eitthvað seinn á ferðinni í ár.
Ég sé samt teikn á lofti... farfugla sem eru að týnast hingað. Þeir láta ekki plata sig og koma hvernig sem viðrar.
Annars erum við í góðum gír hjónin, sjáum glasið hálffullt fyrst það er valkostur. Hálftómt glas er eitthvað svo dapurlegt.
Bretar og Hollendingar eru í fýlu út í okkur, við finnum út úr því. ESB líka en við finnum út úr því líka. Við erum enn "best í heimi", við eigum fallegasta kvenfólkið, sterkustu karlmennina og svo erum við klárust.
Hvað sem öllu líður, eins og klettur í hafi og hvernig sem vindurinn blæs er Ísland besta land í veröldinni....!
Ég er að bíða eftir vorinu eins og þið öll en gullvagninn sem dregur vorið hingað er eitthvað seinn á ferðinni í ár.
Ég sé samt teikn á lofti... farfugla sem eru að týnast hingað. Þeir láta ekki plata sig og koma hvernig sem viðrar.
Annars erum við í góðum gír hjónin, sjáum glasið hálffullt fyrst það er valkostur. Hálftómt glas er eitthvað svo dapurlegt.
Bretar og Hollendingar eru í fýlu út í okkur, við finnum út úr því. ESB líka en við finnum út úr því líka. Við erum enn "best í heimi", við eigum fallegasta kvenfólkið, sterkustu karlmennina og svo erum við klárust.
Hvað sem öllu líður, eins og klettur í hafi og hvernig sem vindurinn blæs er Ísland besta land í veröldinni....!
sunnudagur, apríl 10, 2011
Fæst orð...
... bera minnsta ábyrgð svo ég ætla ekki að taka jafn djúpt í árinni eins og mér er innanbrjósts. Nú liggur fyrir að meirihluti þjóðarinnar sagði nei í kosningunum. það er ekkert við því að gera annað en að sjá hvað verður. Eitt er samt dagljóst, þetta þýðir framlengingu á kreppunni.
Núna finnst mér blasa við það sem ég kastaði fram hér um daginn að málið átti ekkert erindi í þjóðaratkvæði því að allur þorri fólks hefur ekki forsendur til að mynda sér skoðun á málinu af viti, málið er allt of flókið sem sést best á niðurstöðunni, Hættan við svona flólkið lögfræðilegt mál er sú að það sé reynt að klæða það í einfaldan búning, sem það passar ekki í, til að hafa áhrif á hvernig fólk kýs. Það gefur auga leið að það er auðveldara að segja fólki með frösum að það hafi ekki flogið með einkaþotum eða siglt á lystisnekkjum og því eigi það að segja nei. Eða að það eigi ekki að borga fyrir óreiðumenn. Eða að það eigi ekki að láta kúga sig og þar fram eftir götunum, en að segja því að það sé ódýrara og farsælla að semja um málið og snúa sér að uppbyggingu samfélagsins.
Vigdís Finnbogadóttir var góður forseti, hún sagði já vegna þess að það væri farsælla fyrir landið og þjóðina. þar hitti hún naglann á höfuðið með einni setningu.
Það er ekki orði eyðandi á núverandi forseta, sá pólitíkus og skrautfjöður útrásarvíkinganna sem settu okkur á hausinn er sennilega meiri skaðvaldur en víkingarnir sjálfir. Ég sakna Vigdísar, skarpgreindur og hæfur forseti. Við værum ekki að svamla í þessari for ef hún væri við stýrið.
Ég ætla samt ekki að eyða dögunum í pirring yfir þessu floppi okkar heldur lít ég bjartsýnn fram á veginn.
Það er reyndar lengra í sumarið en ég vonaði.
Núna finnst mér blasa við það sem ég kastaði fram hér um daginn að málið átti ekkert erindi í þjóðaratkvæði því að allur þorri fólks hefur ekki forsendur til að mynda sér skoðun á málinu af viti, málið er allt of flókið sem sést best á niðurstöðunni, Hættan við svona flólkið lögfræðilegt mál er sú að það sé reynt að klæða það í einfaldan búning, sem það passar ekki í, til að hafa áhrif á hvernig fólk kýs. Það gefur auga leið að það er auðveldara að segja fólki með frösum að það hafi ekki flogið með einkaþotum eða siglt á lystisnekkjum og því eigi það að segja nei. Eða að það eigi ekki að borga fyrir óreiðumenn. Eða að það eigi ekki að láta kúga sig og þar fram eftir götunum, en að segja því að það sé ódýrara og farsælla að semja um málið og snúa sér að uppbyggingu samfélagsins.
Vigdís Finnbogadóttir var góður forseti, hún sagði já vegna þess að það væri farsælla fyrir landið og þjóðina. þar hitti hún naglann á höfuðið með einni setningu.
Það er ekki orði eyðandi á núverandi forseta, sá pólitíkus og skrautfjöður útrásarvíkinganna sem settu okkur á hausinn er sennilega meiri skaðvaldur en víkingarnir sjálfir. Ég sakna Vigdísar, skarpgreindur og hæfur forseti. Við værum ekki að svamla í þessari for ef hún væri við stýrið.
Ég ætla samt ekki að eyða dögunum í pirring yfir þessu floppi okkar heldur lít ég bjartsýnn fram á veginn.
Það er reyndar lengra í sumarið en ég vonaði.
fimmtudagur, mars 17, 2011
Þabbara eins og kominn sé vetur...!
Janúar og mars hafa skipt um hlutverk. Janúar heldur að hann sé vormánuður og mars að hann sé janúar. Virðist vera að koma vetur hér.
Eru ekki allir að gera upp hug sinn varðandi Icesave? Ég vona að allir vinir mínir séu nógu hugsandi til að setja já á kjörseðilinn. Nú er meira að segja nauðsynlegt að mæta á kjörstað með jáið sitt til að minnka hættuna á framhaldskreppu eða jafnvel öðru hruni. Snillingurinn forsetinn sem ýtti okkur út á þennan hála ís hefur aldrei verið vinsælli. Merkilegt hvernig hjarðeðlið getur blindað sýn hugsandi fólks, eða er fólk kannski ekkert að hugsa, annað en það sama og fyrir hrun að við séum mest og best, hinn ósigrandi her. Eins og ég sagði um daginn þá er fólk kannski ekki endilega fífl.... en svakalega eru til margir áhættusæknir kjánar...!
Eru ekki allir að gera upp hug sinn varðandi Icesave? Ég vona að allir vinir mínir séu nógu hugsandi til að setja já á kjörseðilinn. Nú er meira að segja nauðsynlegt að mæta á kjörstað með jáið sitt til að minnka hættuna á framhaldskreppu eða jafnvel öðru hruni. Snillingurinn forsetinn sem ýtti okkur út á þennan hála ís hefur aldrei verið vinsælli. Merkilegt hvernig hjarðeðlið getur blindað sýn hugsandi fólks, eða er fólk kannski ekkert að hugsa, annað en það sama og fyrir hrun að við séum mest og best, hinn ósigrandi her. Eins og ég sagði um daginn þá er fólk kannski ekki endilega fífl.... en svakalega eru til margir áhættusæknir kjánar...!
föstudagur, mars 04, 2011
Orð dagsins
Að lifa ánægður við lítinn auð, að sækjast eftir glæsileika í stað glingurs, fágun í stað tískufyrirbæra. Að vera verðugur en ekki aðeins virtur, auðugur en ekki ríkur, að læra mikið, hugsa í hljóði, vera varkár í orðum, heiðarlegur í gjörðum. Að hlusta á stjörnurnar og fuglana, á smábörn jafnt sem stórmenni með opnum huga og opnu hjarta. Að láta lífsgleðina ráða ríkjum og hafa hugrekki til athafna. Að grípa tækifærin þegar þáu gefast, hafa engar áhyggjur...
Uppfyllirðu þetta vinur minn ertu í öllum skilningi... enginn meðalmaður.
William Ellery Channing
Uppfyllirðu þetta vinur minn ertu í öllum skilningi... enginn meðalmaður.
William Ellery Channing
þriðjudagur, mars 01, 2011
Formleg opnun Basicplus
Jæja þá er búið að opna búðina. Hún kemur vel út og er bara flott. Það verður gaman að sjá hvernig viðtökurnar verða. Nú er bara að klára það sem eftir er ísbúðarmegin og smíða lagerpláss á bakvið fyrir föt. Það verður gott þegar þetta er allt búið og hægt að snúa sér að öðrum vekefnum.
Svo er nú stórafmæli í fjölskyldunni á morgun. Eygló og Arna verða þrítugar. það er alveg ótrúlegt þegar litið er til þess hvað við erum ung...! Þær sjá um að uppfylla jörðina líkt og við sjálf. Það eru stórkostleg forréttindi að sjá hópinn sinn stækka svona eins og raunin er. Það er alvöru, alvöru, fljótandi auðlegð.
Kallinn er kátur með tilveruna.
Svo er nú stórafmæli í fjölskyldunni á morgun. Eygló og Arna verða þrítugar. það er alveg ótrúlegt þegar litið er til þess hvað við erum ung...! Þær sjá um að uppfylla jörðina líkt og við sjálf. Það eru stórkostleg forréttindi að sjá hópinn sinn stækka svona eins og raunin er. Það er alvöru, alvöru, fljótandi auðlegð.
Kallinn er kátur með tilveruna.
föstudagur, febrúar 25, 2011
Basicplus
Það er að síga á seinnihlutann á þessari vinnutörn. Lífið er stundum skondið. Við ákváðum um áramótin síðustu að þetta skyldi verða framkvæmdalítið ár eftir afar annasamt ár í fyrra. það er nú einhvernveginn þannig að maður sér stundum fleyg orð rætast, t.d. þetta að "Mennirnir áætla en Guð ræður" því oft virðist mér að lífið sjálft taki aukaspor í dansinum okkar sem gerir hann skemmtilegri og fjölbreyttari en maður sjálfur hefur ákveðið.
Við opnum Basicplus á mánudaginn með smá foropnun frá klukkan 18 - 20 þar sem (kven)vinum og vandamönnum er boðið að koma og versla meðan allt er fullt út úr dyrum af nýjum vörum.
Stelpur á öllum aldri, þið eruð velkomnar í smá fyrirpartý.
Við opnum Basicplus á mánudaginn með smá foropnun frá klukkan 18 - 20 þar sem (kven)vinum og vandamönnum er boðið að koma og versla meðan allt er fullt út úr dyrum af nýjum vörum.
Stelpur á öllum aldri, þið eruð velkomnar í smá fyrirpartý.
mánudagur, febrúar 21, 2011
Icesave og kosningarnar
Fólk er fífl... segja sumir. Ég er ósammála fullyrðingunni í megindráttum, ég tel frekar að upp til hópa sé fólk ágætlega að sér og alls ekki fífl. Er þá ekki fagnaðarefni að fólk fái að greiða atkvæði um Icesave, er það ekki besta mál? Ég held reyndar að niðurstaðan blasi við fyrirfram og það þurfi nánast ekki að kjósa um þetta mál, hún verður sú sama og síðast nema að framhaldið verður dómstólaleiðin sem verður öllum líkindum farin í þetta sinn. Það er þá vilji fólksins sem ræður, svo hvert er þá vandamálið?
Spurningin hlýtur að snúast um hvort fólk hafi nægar forsendur til að taka afstöðu af einhverju viti. Er það eitthvað til að hræðast?
Afhverju ræður fólk arkitekt og verkfræðing til að teikna hús? Er ekki bara nóg að vera þokkalega ágætur í teikningu og komast bara sjálfur fram úr því? Fólk þekkir reyndar ekki reglugerðina sem þarf að fylgja eftir í þaula eða burðarþolsfræðin svo húsið fjúki ekki í næsta roki eða hristist ekki í sundur í næsta jarðskjálfta, eða eðlisfræðina bakvið þéttingu lofts þar sem kalt og heitt loft mætast og loftunarkröfur til að mæta rakamettuninni sem þá verður óhjákvæmilega – margir vita ekki einu sinni hvað loftun er. Eða kröfur um brunafrágang, hvar þarf eldvarnarveggi eða brunaop, hvað er brunaop? Fjöldinn kann yfir höfuð ekkert um byggingamál.
Icesave snýst um snúin og flókin lögfræðileg álitaefni. Ekki einfaldari en fræðin á bakvið eina húsbyggingu, öðru nær. Við fáum fræðinga til að sjá um húsateikningarnar fyrir okkur en ætlum sjálf að teikna upp bestu lausn í Icesave, því við erum snillingar, eins og best sást þegar við lögðum heiminn að fótum okkar í þenslunni. Málið er svo flókið að hæfustu lögspekingar hafa eytt mánuðum í að kafa í málið til að átta sig á landslaginu og hafa fundið út að vafasamt sé að fara dómstólaleiðina. Hættan er raunveruleg, sú að þjóðin skjóti sig í fótinn og sitji eftir með sárt ennið, margfalda skuld og flekkað mannorð í samfélagi þjóðanna.
Við teiknum húsin okkar ekki sjálf af því við teljum sérfræðingana þekkja betur til verka. Nokkrir okkar hæfustu lögfræðinga hafa gefið út að mjög varasamt sé að láta reyna á dómstólaleiðina. Líkurnar eru okkur ekki hliðhollar. ESA nefndin, með stóð lögfræðimenntaðra sérfræðinga innanborðs hefur komist að þeirri niðurstöðu að okkur beri að borga Icesave kröfur Hollendinga og Breta að lögum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. ESA mun sækja mál á okkur fyrir EFTA dómstólnum fyrir samningsrof og síðan munu Bretar og Hollendingar væntanlega sækja skaðabótamál og beita fyrir sig jafnræðisreglunni sem er í fullu gildi og skyldar okkur til að borga erlendum innistæðueigendum á sama hátt og innlendum. Þeir geta einnig notað orð Forsætisráðherra í ríkisstjórn sem lýsti því yfir 2008 að öll skuldin yrði greidd en sú yfirlýsing er væntanlega bindandi að þjóðarrétti. Við höfum innleitt meirihluta regluverks Evrópusambandsins inn í okkar landsrétt í gegnum EES og höfum því ekki val, við lútum þeim reglum.
Hvati þessa pistils er þessi þungi tónn í þjóðfélaginu. Fólk telur sig vita betur en hæfustu lögvitringar, það er tilefni kjánahrolls niður hrygglengjuna að hlusta á slíka einstaklinga, enda.... má segja að ef einhverjir falla undir upphafsorð þessa pistils þá eru það sennilega þessir.
Ég get ekki tekið undir hallelújakórinn í kringum forsetann fyrir að synja lögunum staðfestingar. Þvert á móti tel ég hann vera á harðahlaupum að gambla með fjöregg þjóðarinnar og taka áhættu fyrir okkar hönd langt út fyrir skynsemismörk.
Ég tek undir orð ritstjóra DV í dag (22. feb.)„Þjóðarskútan leggur nú á djúpið þar sem óvissan ein er fararnestið“. Í boði forseta vors, lesandinn athugi það.
Það er ekki víst að við verðum jafn heppin og síðast. Tíminn mun leiða það í ljós. Það er þá alltaf hægt að vera foxillur út í ríkisstjórnina, það er þjóðaríþrótt.
Ég mun segja já í kosningunum.
Spurningin hlýtur að snúast um hvort fólk hafi nægar forsendur til að taka afstöðu af einhverju viti. Er það eitthvað til að hræðast?
Afhverju ræður fólk arkitekt og verkfræðing til að teikna hús? Er ekki bara nóg að vera þokkalega ágætur í teikningu og komast bara sjálfur fram úr því? Fólk þekkir reyndar ekki reglugerðina sem þarf að fylgja eftir í þaula eða burðarþolsfræðin svo húsið fjúki ekki í næsta roki eða hristist ekki í sundur í næsta jarðskjálfta, eða eðlisfræðina bakvið þéttingu lofts þar sem kalt og heitt loft mætast og loftunarkröfur til að mæta rakamettuninni sem þá verður óhjákvæmilega – margir vita ekki einu sinni hvað loftun er. Eða kröfur um brunafrágang, hvar þarf eldvarnarveggi eða brunaop, hvað er brunaop? Fjöldinn kann yfir höfuð ekkert um byggingamál.
Icesave snýst um snúin og flókin lögfræðileg álitaefni. Ekki einfaldari en fræðin á bakvið eina húsbyggingu, öðru nær. Við fáum fræðinga til að sjá um húsateikningarnar fyrir okkur en ætlum sjálf að teikna upp bestu lausn í Icesave, því við erum snillingar, eins og best sást þegar við lögðum heiminn að fótum okkar í þenslunni. Málið er svo flókið að hæfustu lögspekingar hafa eytt mánuðum í að kafa í málið til að átta sig á landslaginu og hafa fundið út að vafasamt sé að fara dómstólaleiðina. Hættan er raunveruleg, sú að þjóðin skjóti sig í fótinn og sitji eftir með sárt ennið, margfalda skuld og flekkað mannorð í samfélagi þjóðanna.
Við teiknum húsin okkar ekki sjálf af því við teljum sérfræðingana þekkja betur til verka. Nokkrir okkar hæfustu lögfræðinga hafa gefið út að mjög varasamt sé að láta reyna á dómstólaleiðina. Líkurnar eru okkur ekki hliðhollar. ESA nefndin, með stóð lögfræðimenntaðra sérfræðinga innanborðs hefur komist að þeirri niðurstöðu að okkur beri að borga Icesave kröfur Hollendinga og Breta að lögum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. ESA mun sækja mál á okkur fyrir EFTA dómstólnum fyrir samningsrof og síðan munu Bretar og Hollendingar væntanlega sækja skaðabótamál og beita fyrir sig jafnræðisreglunni sem er í fullu gildi og skyldar okkur til að borga erlendum innistæðueigendum á sama hátt og innlendum. Þeir geta einnig notað orð Forsætisráðherra í ríkisstjórn sem lýsti því yfir 2008 að öll skuldin yrði greidd en sú yfirlýsing er væntanlega bindandi að þjóðarrétti. Við höfum innleitt meirihluta regluverks Evrópusambandsins inn í okkar landsrétt í gegnum EES og höfum því ekki val, við lútum þeim reglum.
Hvati þessa pistils er þessi þungi tónn í þjóðfélaginu. Fólk telur sig vita betur en hæfustu lögvitringar, það er tilefni kjánahrolls niður hrygglengjuna að hlusta á slíka einstaklinga, enda.... má segja að ef einhverjir falla undir upphafsorð þessa pistils þá eru það sennilega þessir.
Ég get ekki tekið undir hallelújakórinn í kringum forsetann fyrir að synja lögunum staðfestingar. Þvert á móti tel ég hann vera á harðahlaupum að gambla með fjöregg þjóðarinnar og taka áhættu fyrir okkar hönd langt út fyrir skynsemismörk.
Ég tek undir orð ritstjóra DV í dag (22. feb.)„Þjóðarskútan leggur nú á djúpið þar sem óvissan ein er fararnestið“. Í boði forseta vors, lesandinn athugi það.
Það er ekki víst að við verðum jafn heppin og síðast. Tíminn mun leiða það í ljós. Það er þá alltaf hægt að vera foxillur út í ríkisstjórnina, það er þjóðaríþrótt.
Ég mun segja já í kosningunum.
föstudagur, febrúar 11, 2011
Stóru orðin, sögðu þeir veðurfræðingarnir...
Ofsaveður.... Þannig var spáin í gær. Ég fór árla á fætur til að fylgjast með ofsanum. Hér er bálhvasst og rignir mikið en það fer lítið fyrir ofsanum. Ofsi þýðir eitthvað brjálað. Ætli maður megi samt ekki vera ánægður með að veðrið er ekki á þeim skalanum því ofsi á það til að skemma hluti. Kári "vinur" minn, sem ég vitna oft í er sjaldan svo kræfur.
Það er samt þannig að ég og veðurhæð erum tengd ósýnilegum tryggðaböndum. Ég veit ekki hvers vegna ég hef svona gaman að veðri þ.e. vondu veðri og fæ sennilega aldrei neinn botn í það. Það er sennilega frummaðurinn í mér. Tilfinningin að eiga sér skjól fyrir látunum, hafa fjölskylduna sofandi inni í skjólinu og vera sjálfur á kíkkinu að allt sé í stakasta lagi. Gamli hellisbúinn líklega...!
Hér sit ég með rjúkandi kaffibolla við skrifborðið mitt og rýni út í sortann, réttu megin við glerið, og hlusta á regnið berja rúðurnar og vindinn rífa í húsið án þess að verða nokkuð ágengt... og hugurinn fer á flug.
Mikið á ég gott.
Að hafa fæðst í þessu landi sem ber í sér öll þessi lífsgæði. Íslensk hús eru sterkbyggð og hlý og allir, eða því sem næst, hafa húsaskjól. Langflestir eiga í sig og á. Flestir eiga farartæki sem ber þá um landið í hlýju og notalegheitum, það er ekki lengur vosbúð að ferðast milli staða. Landið er fljótandi af gæðum, heitt vatn, nægt ferskvatn, fiskur í sjónum, gríðarleg orka, náttúrufegurð, hreint loft, byggingarefni og góð hús. Nýjasta tækni á öllum sviðum.
Hér sit ég og set niður þankagang minn á skjá sem von bráðar verður sýnilegur þeim sem vilja, sendibréf... hvað var það nú aftur.
Gæðin eru yfirþyrmandi. Samt held ég að hvorki ég né aðrir núlifandi Íslendingar gerum okkur grein fyrir hversu gott við höfum það. Þetta segi ég þrátt fyrir matargjafir og annað sem viðgengst í dag sem margir frussa út úr sér að sé yfirmáta sorglegt og argast yfir því hvað allt sé hér ömurlegt en gleyma í leiðinni að við erum að rísa úr öskustó allsherjarhruns. Það út af fyrir sig eru gæði að matur sé til. Allavega miðað við milljónirnar úti í heimi sem eru deyjandi vegna matarskorts og myndu ekki víla fyrir sér að standa í röð ef matur væri á hinum endanum. Ég get ekki tekið undir að hér sé allt á vonarvöl. Við erum nálægt toppnum hvað lífsgæði varðar í samfélagi þjóðanna.
Fyrir það ættum við að vera þakklát og hætta öllu víli.
Við Kári höfum átt fínasta samfélag þennan morguninn en Ofsi... hann lét ekki sjá sig.
Eigið góðan dag.
Það er samt þannig að ég og veðurhæð erum tengd ósýnilegum tryggðaböndum. Ég veit ekki hvers vegna ég hef svona gaman að veðri þ.e. vondu veðri og fæ sennilega aldrei neinn botn í það. Það er sennilega frummaðurinn í mér. Tilfinningin að eiga sér skjól fyrir látunum, hafa fjölskylduna sofandi inni í skjólinu og vera sjálfur á kíkkinu að allt sé í stakasta lagi. Gamli hellisbúinn líklega...!
Hér sit ég með rjúkandi kaffibolla við skrifborðið mitt og rýni út í sortann, réttu megin við glerið, og hlusta á regnið berja rúðurnar og vindinn rífa í húsið án þess að verða nokkuð ágengt... og hugurinn fer á flug.
Mikið á ég gott.
Að hafa fæðst í þessu landi sem ber í sér öll þessi lífsgæði. Íslensk hús eru sterkbyggð og hlý og allir, eða því sem næst, hafa húsaskjól. Langflestir eiga í sig og á. Flestir eiga farartæki sem ber þá um landið í hlýju og notalegheitum, það er ekki lengur vosbúð að ferðast milli staða. Landið er fljótandi af gæðum, heitt vatn, nægt ferskvatn, fiskur í sjónum, gríðarleg orka, náttúrufegurð, hreint loft, byggingarefni og góð hús. Nýjasta tækni á öllum sviðum.
Hér sit ég og set niður þankagang minn á skjá sem von bráðar verður sýnilegur þeim sem vilja, sendibréf... hvað var það nú aftur.
Gæðin eru yfirþyrmandi. Samt held ég að hvorki ég né aðrir núlifandi Íslendingar gerum okkur grein fyrir hversu gott við höfum það. Þetta segi ég þrátt fyrir matargjafir og annað sem viðgengst í dag sem margir frussa út úr sér að sé yfirmáta sorglegt og argast yfir því hvað allt sé hér ömurlegt en gleyma í leiðinni að við erum að rísa úr öskustó allsherjarhruns. Það út af fyrir sig eru gæði að matur sé til. Allavega miðað við milljónirnar úti í heimi sem eru deyjandi vegna matarskorts og myndu ekki víla fyrir sér að standa í röð ef matur væri á hinum endanum. Ég get ekki tekið undir að hér sé allt á vonarvöl. Við erum nálægt toppnum hvað lífsgæði varðar í samfélagi þjóðanna.
Fyrir það ættum við að vera þakklát og hætta öllu víli.
Við Kári höfum átt fínasta samfélag þennan morguninn en Ofsi... hann lét ekki sjá sig.
Eigið góðan dag.
laugardagur, febrúar 05, 2011
Vetur kóngur
Það telst til tíðinda að snjói. Í gærdag snjóaði allan liðlangan daginn svo nú er hér allt á kafi í snjó. Það er eðlilegt, það er febrúar. Það er öllu óvenjulegra að þetta er nánast fyrsti snjór vetrarins. Eitthvað eru veðrakerfin að breytast. Hér á landi til góðs en til hins verra víða annarsstaðar á jarðarkúlunni.
Þótt hann snjói þá er orðið stutt í vorið góða grænt og hlýtt.
Þessa dagana er ég að vinna við að breyta húsnæðinu okkar á Íslandus ísbar. Ég er sem sagt að stúka það í tvennt. Basic plus er að flytja til okkar í þann helming sem minjagripirnir voru. Við verðum eigendur að helming á móti Rakel og Sævari.
Það verður gaman að vinna þetta með þeim og ég hef góðar væntingar.
Í kvöld verður svo þorrablótið okkar systkinanna í 34 skipti held ég. Góður siður sem verður ekki aflagður.
Dagurinn verður góður, njótið hans, það ætla ég að gera.
Þótt hann snjói þá er orðið stutt í vorið góða grænt og hlýtt.
Þessa dagana er ég að vinna við að breyta húsnæðinu okkar á Íslandus ísbar. Ég er sem sagt að stúka það í tvennt. Basic plus er að flytja til okkar í þann helming sem minjagripirnir voru. Við verðum eigendur að helming á móti Rakel og Sævari.
Það verður gaman að vinna þetta með þeim og ég hef góðar væntingar.
Í kvöld verður svo þorrablótið okkar systkinanna í 34 skipti held ég. Góður siður sem verður ekki aflagður.
Dagurinn verður góður, njótið hans, það ætla ég að gera.
föstudagur, janúar 14, 2011
Afmælisbarn dagsins

Tíminn æðir á öðru hundraðinu og við hlaupum með. Á sautján ára afmælisdaginn hennar trúlofuðum við okkur. Börn, sögðu sumir, það fannst okkur ekki, endist ekki lengi sögðu aðrir, þið eruð alltof ung.
Tíminn er afstæður og spurning hvað er löng ending. Ég vil frekar kalla þetta farsæla vegferð því árin hafa verið góð þótt auðvitað hafi oft gefið á bátinn, enda má spyrja, hver fer yfir hafið án þess að fá á sig pus annað slagið?
Erlan er persóna sem auðvelt er að umgangast og enn auðveldara að elska. Í mínum augum, gimsteinn sem ber af öðrum gimsteinum, þess vegna passa ég svona upp á hann.
Það eru mín forréttindi að fá að hafa hana sem förunaut í gegnum lífið. Við höfum nú skilað 33 köflum skrifuðum af sögunni okkar, jafnmörgum og Kristur lifði hér á jörð.
Ég vona að við fáum að skrifa söguna okkar áfram á góðu nótunum og sameiginleg ósk okkar um lokakaflann rætist... og þau lifðu hamingjusöm til æviloka og gengu saman inn í sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd...
Það er lýsandi um karakter Erlu að hún gerði orð sveitunga míns Þorsteins Erlingssonar að sínum:
Mig langar að sá
enga lygi þar finni
sem lokar að síðustu
bókinni minni.
Ef þetta er gerlegt er Erla góður kandidat. Elsku Erla mín til hamingju með daginn þinn.
laugardagur, janúar 01, 2011
Hvað boðar nýárs....
blessuð sól, eða dagrenning? Enn einn hringurinn á byrjunarreit og enn eitt óskrifaða blaðið rétt upp í hendur manns. Stærsta óskin mín er að næstu áramót verði jafnmikið þakkarefni og þessi. Ef okkur auðnast að skrifa söguna okkar án stóráfalla, ef hún verður slysalaus, sjúkdómalaus og allir verða hamingjusamir þá erum við á réttri leið. Hamingjan er að hlakka til næsta dags sagði stórskáldið Halldór Laxness. Það er auðvelt að taka undir það. Hver nýr dagur með hversdaginn innanborðs er sumum ævintýr en öðrum víti.
Ég vona að árið gefi okkur hvern einasta dag tilefni til að brosa við tilverunni og hlakka til næsta dags, þá verð ég kátur.
Með þakklæti kveð ég gamla árið og þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir samfylgdina á árinu og bið ykkur Guðs blessunar á nýju ári.
Ég vona að árið gefi okkur hvern einasta dag tilefni til að brosa við tilverunni og hlakka til næsta dags, þá verð ég kátur.
Með þakklæti kveð ég gamla árið og þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir samfylgdina á árinu og bið ykkur Guðs blessunar á nýju ári.
mánudagur, desember 27, 2010
Át tíðin mikla
Ég hef sjaldan eða aldrei snætt jafnmikinn og góðan mat og þessi jólin. Kannski er ég orðinn svona hömlulaus að ég ræð mér ekki við kjötkatlana eða maginn svona þroskaður að hann sjái um að melta fæðuna hraðar þegar mikið er á boðstólum, tel mér trú um það síðarnefnda.
Við höfum átt góð jól, aðfangadagur í rólegheitunum með yngstu dótturina með okkur og svo alla ættina okkar á jóladag og fram á annan í jólum en veðurspáin var mjög varhugaverð og því gisti hópurinn hjá okkur. Mér sýndist á öllu að börnunum allavega leiddist það ekki svo ýkja mjög. Allavega fékk ég þau komment frá Petru Rut þegar ég sagði að það væri bara skollið á með logni að það væri mjöööög vont veður á fjallinu ennþá og ekki nokkurt vit í að reyna að fara heim og sitja þar fastur og því borgaði sig að allir myndu gista. Ég var auðvitað sammála þessum sterku rökum og þar með var það ákveðið.
Dagurinn í dag var tekinn rólega því á morgun hefst alvaran. Við fórum í gönguferð um bæinn okkar og enduðum í kaffi hjá Tedda og Kötu. Hressandi að fá loft í lungun og hreyfa sig aðeins eftir át tíðina.
kvöldið verður líka á rólegu nótunum, lestur góðra bóka eða eitthvað annað jafn skemmtilegt.
Já lífið er gott.
Við höfum átt góð jól, aðfangadagur í rólegheitunum með yngstu dótturina með okkur og svo alla ættina okkar á jóladag og fram á annan í jólum en veðurspáin var mjög varhugaverð og því gisti hópurinn hjá okkur. Mér sýndist á öllu að börnunum allavega leiddist það ekki svo ýkja mjög. Allavega fékk ég þau komment frá Petru Rut þegar ég sagði að það væri bara skollið á með logni að það væri mjöööög vont veður á fjallinu ennþá og ekki nokkurt vit í að reyna að fara heim og sitja þar fastur og því borgaði sig að allir myndu gista. Ég var auðvitað sammála þessum sterku rökum og þar með var það ákveðið.
Dagurinn í dag var tekinn rólega því á morgun hefst alvaran. Við fórum í gönguferð um bæinn okkar og enduðum í kaffi hjá Tedda og Kötu. Hressandi að fá loft í lungun og hreyfa sig aðeins eftir át tíðina.
kvöldið verður líka á rólegu nótunum, lestur góðra bóka eða eitthvað annað jafn skemmtilegt.
Já lífið er gott.
laugardagur, desember 25, 2010
Upp er runninn jóladagur
Ákaflega hvítur og fagur. Það snjóaði í nótt og nú er allt hvítt og fallegt. Ekki einu sinni bílför á götunni. Ég vaknaði við snjóþekju sem rann fram af þakinu og krumma vin minn sem flögraði framhjá glugganum mínum og krunkaði svo ég svæfi nú ekki fram á dag.
Ég átti góðan aðfangadag í gær með öllum siðunum og formfestunni sem einkennir þennan dag. Hrund fékk möndluna, í fyrsta sinn í fimm ár sagði hún. Ég fékk þrjár bækur svo ég þarf ekki að láta mér leiðast. Furðustrandir eftir Arnald, Ég man þig eftir Yrsu og svo fékk ég bók um Sigga tófu sem var refaskytta í mínu ungdæmi. Það verður skemmtilegt að glugga í hana.
Ég vaknaði saddur eins og gjarnan á þessum degi. Eftir fullfermi af hamborgarahrygg kemur hrísgrjónabúðingurinn (eins og mömmu) sem er saðsamur og ekki hægt að borða lítið af honum - átak eftir jólin takk. Við settumst svo og horfðum á jólatónleikana í Fíladelfíu, flottir að vanda svo í framhaldinu skoðuðum við Frostrósartónleika frá því í fyrra svo það var tónlistarveisla hjá okkur í gærkvöldi og fram á nótt.
Dagurinn í dag verður líka samkvæmt hefðinni. Hingað kemur ættleggurinn okkar allur og við borðum saman hangikjöt seinni partinn. Það verður gaman að fá þau hingað - mikið gaman mikið fjör. Ég geri ráð fyrir að barnabörnin þurfi að segja okkur eitt og annað af jólunum sínum og kannski sýna okkur eitthvað líka.
Lífið er gott og jólafriðurinn býr hér í Húsinu við ána.
Njótið dagsins... í æsar.
Ég átti góðan aðfangadag í gær með öllum siðunum og formfestunni sem einkennir þennan dag. Hrund fékk möndluna, í fyrsta sinn í fimm ár sagði hún. Ég fékk þrjár bækur svo ég þarf ekki að láta mér leiðast. Furðustrandir eftir Arnald, Ég man þig eftir Yrsu og svo fékk ég bók um Sigga tófu sem var refaskytta í mínu ungdæmi. Það verður skemmtilegt að glugga í hana.
Ég vaknaði saddur eins og gjarnan á þessum degi. Eftir fullfermi af hamborgarahrygg kemur hrísgrjónabúðingurinn (eins og mömmu) sem er saðsamur og ekki hægt að borða lítið af honum - átak eftir jólin takk. Við settumst svo og horfðum á jólatónleikana í Fíladelfíu, flottir að vanda svo í framhaldinu skoðuðum við Frostrósartónleika frá því í fyrra svo það var tónlistarveisla hjá okkur í gærkvöldi og fram á nótt.
Dagurinn í dag verður líka samkvæmt hefðinni. Hingað kemur ættleggurinn okkar allur og við borðum saman hangikjöt seinni partinn. Það verður gaman að fá þau hingað - mikið gaman mikið fjör. Ég geri ráð fyrir að barnabörnin þurfi að segja okkur eitt og annað af jólunum sínum og kannski sýna okkur eitthvað líka.
Lífið er gott og jólafriðurinn býr hér í Húsinu við ána.
Njótið dagsins... í æsar.
föstudagur, desember 24, 2010
Glaður maður
Jólin eru að koma. Aðfangadagur og allar seremoníurnar sem honum fylgja. Seremoníurnar eru góðar, þær eru erfðagóss. Það eykur á gleði mína að skólagöngu minni er lokið, fékk það staðfest í gær. Þá hefst næsti kafli... sálfræðin. Erla var reyndar eitthvað að malda í móinn svo ég þarf að tækla það einhvernveginn. Nema hugsanlega að ég láti hér staðar numið í námsfýsi minni og segi stopp ;o)
Aðfangadagur er einn "fallegasti" dagur ársins. Hann er svo fullur hefða að það hálfa væri mikið, sem við höfum bæði fengið að láni úr foreldrahúsum og skapað sjálf. Þótt við séum ekki lengur með fullt hús barna sem skreyta jólahaldið óneitanlega, þá höldum við jólin með sama sniði og venjulega. Hrísgrjónagrauturinn er fastur liður sem alla hlakkar til borða. Hamborgarhryggurinn með sama sniði og venjulega, meðlætið allt - reyndar höfum við breytt einu eftir að Bjössi hennar Eyglóar kom í ættina. Hann gerir afar gott rauðkál sem við höfum bætt í hefðina okkar.
Erla er að brölta á efri hæðinni, hún er yndislegt eintak. Ég hlakka til að sjá jólaglampann í augunum á henni þegar hún kemur niður enda leitun að öðru eins jólabarni. Hrundin var á næturvakt í Vallholti í nótt svo hún sefur eitthvað fram eftir degi.
Hér vil ég að gamli hátíðleikinn ríki, með fjárhirðana og boðskapinn um fæddan frelsara og frið og fögnuð á jörðu sem engillinn boðaði á völlunum. Það er hinn sanni hátíðarandi sem pakkajólin og ofátið fær aldrei toppað.
Þið sem lesið síðuna mína ennþá - eigið góðan aðfangadag og gleðileg friðarjól.
Aðfangadagur er einn "fallegasti" dagur ársins. Hann er svo fullur hefða að það hálfa væri mikið, sem við höfum bæði fengið að láni úr foreldrahúsum og skapað sjálf. Þótt við séum ekki lengur með fullt hús barna sem skreyta jólahaldið óneitanlega, þá höldum við jólin með sama sniði og venjulega. Hrísgrjónagrauturinn er fastur liður sem alla hlakkar til borða. Hamborgarhryggurinn með sama sniði og venjulega, meðlætið allt - reyndar höfum við breytt einu eftir að Bjössi hennar Eyglóar kom í ættina. Hann gerir afar gott rauðkál sem við höfum bætt í hefðina okkar.
Erla er að brölta á efri hæðinni, hún er yndislegt eintak. Ég hlakka til að sjá jólaglampann í augunum á henni þegar hún kemur niður enda leitun að öðru eins jólabarni. Hrundin var á næturvakt í Vallholti í nótt svo hún sefur eitthvað fram eftir degi.
Hér vil ég að gamli hátíðleikinn ríki, með fjárhirðana og boðskapinn um fæddan frelsara og frið og fögnuð á jörðu sem engillinn boðaði á völlunum. Það er hinn sanni hátíðarandi sem pakkajólin og ofátið fær aldrei toppað.
Þið sem lesið síðuna mína ennþá - eigið góðan aðfangadag og gleðileg friðarjól.
fimmtudagur, desember 16, 2010
Gráð, hiti tvö stig.
Það lygnir smátt og smátt í huganum eftir hvassviðrið undanfarnar vikur. Ég gat samt ekki sofið út í morgun frekar en fyrri daginn. Ég verð einhverja daga að fatta að ég þurfi ekki að rífa mig upp og halda áfram að vinna. Ég skilaði af mér ML ritgerðinni í gær. Ég er meðvitaður um að þessi hraði færir mér líklega lægri einkunn en ella. Það verður samt að segjast eins og er að hugsunin um að þetta sé búið vegur upp þau vonbrigði, ef það verður þannig.
Það var svolítið skrítin tilfinning að labba um í skólanum í gær - síðustu skrefin sem nemi. Erlan gekk með mér þessi síðustu skref sem er táknrænt því hún á svo stóran þátt í því að þetta gekk upp. Svo gengum við saman í takt út aftur og lokuðum þar með dyrum þessa skólagöngutímabils "okkar". Já það er ljóst, ég er vel gefinn ;o) ...Erlunni minni og er þakklátur fyrir hana.
Nú liggur fyrir að koma í horf þeim verkefnum sem ég hef ekki sinnt undanfarið, svo sem að skipta um ljósaperur í bílnum, hengja upp jólaljósin ásamt ýmsu öðru. Ég hef ekki verið sá iðnasti við skyldustörfin.
Við vorum í Reykjavíkinni í gær í blíðskaparveðri, það hefur verið vorblíða undanfarið og alls ekki eins og það séu að koma jól. Þau eru víst handan hornsins samt og eins gott að fara að lát sig detta í jólagírinn. Það liggur fyrir að setjast niður og skrifa jóla og áramótakveðju til vina og vandamanna, þetta er fimmta árið sem við sleppum kortakaupum en sendum smá fjölskylduannál í staðinn, bara gaman að því.
Það verður aftur farin kaupstaðarferð í dag, smá dekur fyrir matargötin. Við ætlum að eyða gjafabréfi sem við eigum ennþá eftir fimmtugsafmælin okkar.
Svo er bara að setja sig í jólagírinn og fara að njóta lífsins.
Hvet ykkur til að gera það sama vinir.
Það var svolítið skrítin tilfinning að labba um í skólanum í gær - síðustu skrefin sem nemi. Erlan gekk með mér þessi síðustu skref sem er táknrænt því hún á svo stóran þátt í því að þetta gekk upp. Svo gengum við saman í takt út aftur og lokuðum þar með dyrum þessa skólagöngutímabils "okkar". Já það er ljóst, ég er vel gefinn ;o) ...Erlunni minni og er þakklátur fyrir hana.
Nú liggur fyrir að koma í horf þeim verkefnum sem ég hef ekki sinnt undanfarið, svo sem að skipta um ljósaperur í bílnum, hengja upp jólaljósin ásamt ýmsu öðru. Ég hef ekki verið sá iðnasti við skyldustörfin.
Við vorum í Reykjavíkinni í gær í blíðskaparveðri, það hefur verið vorblíða undanfarið og alls ekki eins og það séu að koma jól. Þau eru víst handan hornsins samt og eins gott að fara að lát sig detta í jólagírinn. Það liggur fyrir að setjast niður og skrifa jóla og áramótakveðju til vina og vandamanna, þetta er fimmta árið sem við sleppum kortakaupum en sendum smá fjölskylduannál í staðinn, bara gaman að því.
Það verður aftur farin kaupstaðarferð í dag, smá dekur fyrir matargötin. Við ætlum að eyða gjafabréfi sem við eigum ennþá eftir fimmtugsafmælin okkar.
Svo er bara að setja sig í jólagírinn og fara að njóta lífsins.
Hvet ykkur til að gera það sama vinir.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)