þriðjudagur, mars 30, 2010
Páskafrí
Ég ætla að koma mér nær gosinu á Fimmvörðuhálsi um páskana. Óróinn í beinum mínum þarf útrás. Kannski flýg ég þangað eða fæ mér göngutúr eða jafnvel bíltúr, fékk reyndar slæmar fréttir af færð á jöklinum, skoða það betur. Er ákveðinn í að taka Erluna með ;o)
Svo ætla ég að njóta þess að vera til og eiga samfélag við skemmtilegt fólk.
Lífið er gott, það er gefið okkur til að njóta þess.
miðvikudagur, mars 24, 2010
Að grípa gæsina....
Það má til dæmis nefna að bankarnir eiga núna fyrirtæki á kippum sem þeir vilja svo gjarnan koma frá sér til einstaklinga sem geta og vilja reka þau. Þessi fyrirtæki eru á lágmarksverði, nánast á brunaútsölu miðað við hvað í þeim býr.
Það eru líka tækifæri núna sem voru ekki í þenslunni til að starta rekstri sjálfur. Kosturinn við það er að þá er hægt að velja sér hvaða svið menn vilja hasla sér völl á. Fyrir hrun var allt í boði og yfirleitt var offramboð á öllum hlutum. Það er yfirleitt ekki lengur.
Okkur Erlunni bauðst loksins húsnæði á frábærum stað hér við Austurveg á Selfossi til að opna rekstur. Þar verður glæsileg ísbúð þar sem fólk getur sest niður og notið þess að borða ísinn sinn í notalegu umhverfi. Svo verður minjagripaverslun og internetkaffi í sama húsnæði með opið á milli.
Við teljum eftir mikla rannsóknarvinnu að þetta muni bera sig vel. Þetta er líka tækifæri fyrir Erlu að vinna á staðnum en hún hefur keyrt til vinnu í Reykjavík síðan við fluttum austur. Erla verður rekstrarstjóri yfir þessu og mun stýra daglegum rekstri.
Ég fer svo auðvitað bara að veiða og svoleiðis..... held ég. Hugsanlega skoða ég hvort ég sinni einhverri lögfræðiþjónustu hér fyrir austan eftir nám. Hvert formið verður er ekki enn ákveðið.
En ég hlakka til að fá ykkur í ísbúðina okkar - þangað verða allir velkomnir.
mánudagur, mars 22, 2010
Jökullinn gýs

Nú gýs hann aftur. Í mínum huga var gos í Eyjafjallajökli alltaf eitthvað mikið og stórfenglegt. Þetta gos er afar langt frá mínum hugmyndum um það. Af fréttamyndum að dæma hefur mér fundist þetta helst líkjast ágætri áramótabrennu.
Við Erlan fórum í gær að skoða þetta. Með því að fara áleiðis upp í Tindfjöll kemst maður á mjög fínan útsýnisstað. Ég verð að viðurkenna að þetta bjargaði heilmiklu. Þetta er ekki lengur gamlársbrenna.
Eldarnir voru mjög tignarlegir og teygðu sig langt í loft upp, margir mjög efnismiklir og flottir.
Það kitlar mig alltaf þegar gýs, get ekki að því gert. það á vafalítið rætur að rekja til uppvaxtaráranna minna. Þegar ég var 3ja ára 1963 byrjaði Surtseyjargosið sem blasti við út um herbergisgluggann minn. Myndin af risa gosstrók og eldingum og dynkjum er enn fersk, það gos varði í 4 ár. Svo gaus Hekla 1970. Ég sá augnablikið þegar gosstrókurinn kom upp fyrir brúnir Þríhyrnings, hljóp inn og tilkynnti að Hekla væri byrjuð að gjósa. Svo var farið á staðinn - og skoðað, ég man enn eftir dynkjunum úr gosinu, eins og járnbrúsum væri slegið saman. Síðan gaus í Vestmannaeyjum þremur árum seinna. Nóttina sem það byrjaði vorum við vakin upp kl. 6 með þeim fréttum að eyjarnar væru sprungnar og væru að sökkva í sæ. Það sem blasti við í myrkrinu var eins og blóðrautt sólarlag, risaeldur, allur himininn logaði og hugsunin um að fólkið í Eyjum væri að farast var yfirþyrmandi og til að undirstrika kraftinn í gosinu þá heyrðust miklar drunur og dynkir og það hrikti í gluggum og hurðum hjá okkur. Það fór sem betur fer vel eins og allir vita. Gosið var ótrúlega tilkomumikið og magnað.
Mývatnseldar byrjuðu svo 1975 með mörgum eldgosum á 9 ára tímabili. Við Erla komumst í mikið návígi við gosið 1980...hmm tölum ekki nánar um það. Hekla gaus líka 1980. Við brunuðum þangað um leið og fréttist af gosinu og vorum þar um nóttina í návígi við gríðarlegt gos. Aftur gaus Hekla 1990 og enn árið 2000. Öll þessi gos hef ég séð og alltaf fundið fyrir einhverri lotningu gagnvart þeim.
Það er kannski ekki furða þó eldgos hafi skipað sér stóran sess í mínum huga. Mér sýnist nú Erlan hafa smitast talsvert af mér, allavega var hún búin að vera á refresh takkanum á skjálftavaktinni fram að gosi núna og uppfærði mig reglulega.
Það var gaman að sjá þetta í gærkvöldi og upplifa að þetta er alvöru eldgos sem er þarna á ferðinni á Fimmvörðuhálsi. Hugmyndin var að ganga hálsinn í sumar, við sjáum til með það. kannski verður það bara enn meira spennandi ef hægt verður að skoða gos í návígi í leiðinni :o)
Nótið daganna.
laugardagur, mars 20, 2010
Laglína
Er þetta kannski þannig? Er vöggugjöfin okkar allra nótnaborð en engar nótur til að spila eftir? Uppvaxtarárin æfingatími undir leiðsögn og svo spilar hver eftir sínu eyra. Ætli laglínurnar okkar séu svona misjafnar þessvegna. Hver er sinnar gæfu smiður gæti þá hljómað - hver er sinna nótna smiður.
Sónatan mín er allavega ljúf þessa dagana þó ég geti auðvitað kveinað yfir lærdómnum, annað væri ekki búmannlegt. Enginn er búmaður nema hann barmi sér.....!
Það getur samt verið erfitt að vera kvartandi búmaður í þessu umhverfi sem mér hefur verið plantað í. Þessi reitur hér er sá besti á jarðarkúlunni fyrir okkur. Hér við bæjardyrnar verð ég vitni að fegurstu tónum tilverunnar á hverju vori þar sem náttúran sjálf spilar tónverkið. Ég horfi hér á sköpunarverkið í beinni - þessa ótrúlegu smíð sem virkar frá smæstu mögulegu einingum upp í tröllslegar víddir. Allt vaknar til lífsins og endurnýjast. Maður stendur hjá, opinmynntur og langeygur, hvaða ógnar hugsun er á bak við þetta allt. Ég hef ekki svarið en nýt þess bara að fylgjast með.
Ég..... átti að vera heima og læra. Er auðvitað löngu vaknaður og búinn að sjá maganum fyrir sínum morgunskammti því hann er ekki skemmtilegur félagi ef hann fær ekki sitt.
Íris er á leiðinni hingað. Hún ætlar að fara í kofann okkar til að finna ró og næði til ritgerðarskrifa. Gott hjá henni. Hún er að útskrifast í vor með mastersgráðuna sína og svo get ég sagt ykkur með stolti að hún er búin að fá fastráðningu sem lögfræðingur hjá skattinum í Hafnarfirði - litla krílið, ég er ánægður með hana.
Ég held það sé vissara að ég snúi mér líka að lærdómnum svo ég útskrifist einhverntíman líka.
Njótið daganna gott fólk, við búum í landi tækifæranna - ekki gleyma því.
föstudagur, mars 12, 2010
Afmæli
Þann dag hitti ég heiðurshjón Ellu og Bigga. Þar hófust kynni í ætt við gull... það hefur aldrei fallið á þau.
Þá var Ella 36 ára, um helmingi yngri en hún er í dag svo okkar samferð spannar hálfa ævina hennar. Hún fær í mínum huga stimpilinn - heil í gegn.... úr gulli.
Það má enda segja að það þurfti góð gen þeirra beggja til að geta af sér dótturina sem varð minn lífsförunautur. Þau örlög sem ófu lífsvefinn minn þennan dag sem ég gekk á fund foreldra hennar, eru æðri máttar - sagt og skrifað.
Ella mín - í tilefni dagsins langar mig að þakka þér fyrir vegferðina öll árin og fyrir að vera sú manngerð sem þú ert. Ekki síst hvað þú ert mikill örlagavaldur í mínu lífi sem best sést á stækkandi ættleggnum okkar Erlu.
Til hamingju með daginn.
miðvikudagur, mars 03, 2010
Hraunið
Mér varð samt hugsað til þess þegar ég gekk út úr fangelsinu hvað það hlýtur að vera mikil áraun að ganga þarna inn vitandi að þaðan verður ekki snúið fyrr en eftir par ár.
Það að sitja hér á skrifstofunni minni og hafa morgundaginn nánast í hendi mér svo langt sem það nær er - verðmæti.
Frelsið er yndislegt ég geri það sem ég vil....... Það er meira en margur.
Ég er þakklátur fyrir það líf sem ég á.
sunnudagur, febrúar 28, 2010
Enn hristist
Skjálftinn í Chile var um 900 sinnum sterkari en skjálftinn á Haiti um daginn. Þarna kemur í ljós gildi þess að byggja sterk hús. Í Chile eru hús jarðskjálftahönnuð eins og hér á landi. Chile er víst eitt mesta jarðskjálftaland í heiminum, miklu verra en hér.
Ég horfi út um gluggann minn á Eyjafjallajökul sem kúrir þarna í fjarska. Þar er eitthvað að gerast. Kvikuinnskot er þar í gangi sem þýðir ekki endilega gos en allt eins. Landið lyftist og skríður til. Það hafa mælst nokkrir millimetrar á viku undanfarið sem er mjög mikið.
Það er ekki von á miklum hamförum ef Eyjafjallajökull gýs en..... hann hefur oft vakið Kötlu af sínum væra svefni ef hann hefur farið af stað og hún á til að fara hamförum. Jarðvísindamenn tala um að gos í Eyjafjallajökli taki í gikkinn á Kötlu. Spennandi að fylgjast með.
Við fórum í leikhús í gærkvöldi. Það er alltaf gaman. Við sáum Fjölskylduna, drama um allskyns fjölskylduleyndarmál og endalausar uppákomur. Flott verk.
Í dag ætlum við enn að bregða undir okkur betri fætinum og skreppa í bæinn. Eygló og Arna halda upp á 29 ára afmælið þeirra saman.
Hlakka til að hitta fólkið mitt.
Njótið dagsins vinir.
miðvikudagur, febrúar 24, 2010
"Ólympíuleikar eiginkvenna"
Þar sem ég tilheyri þeim hverfandi hópi íslenskra karlmanna sem láta tískustrauma lönd og leið hef ég látið afskiptalausa daga eins og konudaginn og þetta nýja fyrirbæri valentínusardaginn.
Þessir dagar sem eru einungis til vegna markaðssetningar fyrirtækjaeigenda sem vilja selja vörurnar sínar hafa gert að verkum að karlar "eiga" að sanna ást sína á konunni sinni með því að versla það sem til er ætlast á þessum dögum. Verð þó að játa að ég dáist að markaðssetningunni sem slíkri. Ég gef hinsvegar lítið fyrir gildi þessara daga fyrir ástina - hún verður aldrei markaðssett svona.
Það stendur eðli mínu nær að gera alla daga að konudegi. Konur eru það yndislegasta sem til er og eiga allt dekur karlsins skilið. Konur eru hornsteinar hvers þjóðfélags með móðurhlutverkið í fararbroddi. Það er í eðli kvenna að gjalda líku líkt. Það ættu fleiri karlar að gera sér grein fyrir að um leið og þeir eru góðir við konuna sína og dekra hana eru þeir komnir í bullandi samkeppni við hana. Hún mun alltaf gjalda líku líkt og einu skrefi lengra.
Íslenskir karlmenn ættu að hafa þor til að hætta að hlaupa eftir amerískum mýtum og sýna og sanna ást sína með einhverju öðru en að fljóta með tískustraumum.
Ég er sammála Önnu Margréti - þessir valentínusar og konudagskarlar eru metró.
miðvikudagur, febrúar 17, 2010
Vinna vinna
Praktíkin allsráðandi í verkefnum annarinnar.
Njótið daganna....
mánudagur, febrúar 01, 2010
Föðurland og Mýrdalur

Efri myndin er tekin við Bleiksá og sú neðri er tekin af hrafntinnustein fyrir utan bústaðinn, speglunin í steininum er af umhverfinu.

Erla kom svo á Föðurland seinnipart sunnudags og svo keyrðum við saman heim um kvöldið.
Skólinn fór af stað með gauragangi og eins og við var að búast hefur verkefnavinnan komið á færibandi síðan. Helgin var góð hjá okkur báðum.
Hafið það gott vinir í íslensku veðursældinni.
sunnudagur, janúar 24, 2010
Plús átta
Í bili ætla ég samt bara að halda áfram með skólaskylduna, er að lesa sakamálasögu núna - bara gaman.
þriðjudagur, janúar 19, 2010
Boston var það....
Eins og nærri má geta er ekki erfitt að dekra þessa konu. Hún ber bara með sér þannig persónuleika að annað er ekki hægt.
Við eyddum afmælisdeginum í ýmislegt skemmtilegt m.a. settumst við niður á Cheers barnum fræga, kíktum aðeins í búðir skoðuðum falleg hús og margt fleira.
Fimmtug.... varla, hlýtur að vera vitlaus kennitala.
Við enduðum svo daginn á glæsilegum veitingastað uppi á 52. hæð, með glæsilegu útsýni yfir Boston. Lukkan var með okkur því þjónninn tjáði okkur að þeir ættu Vagyu naut, besta
Við höfðum ákveðið að þetta yrði ekki verslunarferð -alveg satt, Erla jú hún var líka með í ráðum...! Hinsvegar ætluðum við að nota tímann og prufa veitingastaði, við erum svoddan matarunnendur og nutum þess í tætlur. Fundum æðislegan ítalskan stað í ítalska hverfinu þar sem við borðuðum snilldar pastarétti. Fórum á Cheesecake factory og brögðuðum frægu ostakökurnar þeirra - skildi þá hversvegna þeir eru frægir fyrir þær ...yummy. Hafnarsvæðið er líka gríðarlega fallegt, gamlar byggingar og sagan allsstaðar.
Ánægjulegast við þetta allt var samt samfélagið við þessa yndislegu konu sem ég var svo lánsamur að finna fyrir meira en þrjátíu árum. Erlan hefur öll árin staðið hjarta mínu næst og gengið þétt við hlið mér hvernig sem hefur árað hjá okkur - gegnum súrt og sætt eins og sagt er. Hún er minn besti vinur og alger sálufélagi.
Ljúf og góð ferð. Það er von mín og bæn til Guðs að við fáum að ganga saman í þessum góða takti þangað til sólin okkar rennur í hinsta sinn.
Það er óhætt að segja að þessi Bostonferð hafi birt mér nýja sýn á Bandaríkin. Það hefur ekki verið efst á vinsældarlistanum hingað til að fara vestur um haf.
Erlan er engri lík.
laugardagur, janúar 09, 2010
pakkað saman
Árið byrjar allavega fallega og ekki er kuldanum fyrir að fara lengur. Hiti eins og í maí. Skólinn byrjar eftir helgina, væntanlega með látum. Síðasta ár námsins að hefjast.
Er strax farinn að hlakka til vorsins það er besti tími ársins.
laugardagur, janúar 02, 2010
Meðalhiti þessa árs...
Íris og Karlott eru hér enn, þau gistu aftur í nótt enda verður veisla hér í dag, árlegt pálínuboð ættarinnar minnar hér í Húsinu við ána. Ég veit ekkert hvað koma margir en síðustu tvö árin hafa verið hér milli 50 og 60 manns.
Það er gott að koma svona saman og styrkja ættarbönd sem vilja trosna ef ekki er hugsað um að viðhalda þeim.
Ég er sagður bjartsýnismaður, það er rétt, ég hallast yfirleitt frekar að bjartari tónum tilverunnar. Ég vil samt frekar kalla mig jákvæðan raunsæismann. Sú skoðun mín byggir á því að yfirleitt eru tvær hliðar á teningnum og önnur bjartari en hin. Oftast er svo valkostur hvora maður aðhyllist.
Ég vel t.d. í byrjun þessa árs að horfa á heiðan himin milli skýjabólstranna og trúa því að með tímanum fjúki bólstrarnir burt í stað þess að halda að þeir þykkni út í það endalausa og hér verði almyrkvi og ólífvænlegt að búa, það viðhorf hef ég heyrt hjá fólki sem hefur leyft fröken svartsýni að setjast á öxlina á sér.
Ég held að hún sé leiðinlegur lífsförunautur.
Ég vona að þið lesendur síðunnar minnar njótið daganna og lítið björtum augum til framtíðar.
Ég ætla að fara að undirbúa komu ættingja minna.
fimmtudagur, desember 31, 2009
Áramót enn einu sinni

Maður leyfir sér að vona að lífsgildi landans verði önnur og heilbrigðari nú þegar mesta gruggið sígur til botns og sýn skerpist. Framundan er tími til að byggja upp eitthvað varanlegt og gott. Hver og einn er sinnar gæfu smiður í þeirri byggingastarfsemi.
Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma, er einkunnarorð mitt fyrir næsta ár. Pössum okkur að detta ekki í ormagryfju depurðar og vonleysis, Ísland er engu líkt að gæðum.
Ég þakka öllum samferðamönnum mínum góða samleið á árinu og óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári
sunnudagur, desember 27, 2009
Jólin
fimmtudagur, desember 24, 2009
Hátíð í bæ
Aðfangadagur rann upp bjartur og fallegur en kaldur. Mesta hátíð ársins vítt um heim. Dagurinn sem alltaf virðist hafa sömu óþreyju áhrif á börnin okkar. Hvenær opnum við pakkana mamma, er spurning sem flestar mömmur fá að heyra. Minningar úr bernsku bera með sér að ekkert hefur breyst. Minningum og tilfinningum sem tengjast hátíðarskapi og frið þar sem pakkaopnunin var stóra málið eins og í dag en líka sagan um Jesúbarnið í jötu. Jólin eru fjölskyldutími, samverutími sem verður dýrmæt minning þegar fram í sækir.
Ég á bara góðar og ljúfar minningar af jólum. Saga jólanna og minningarnar tengjast saman. Jólin heima snerust um Jesúbarnið. „En svo bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.....“ þetta hefur hljómað í mínum eyrum hver jól í fimmtíu ár. Við höfum það fyrir sið hér á þessum bæ að lesa saman jólaguðspjallið. Það er undanfari pakkaopnunar. Það gefur hátíðinni meira innihald að minna sig á hversvegna við höldum jólin.
Núna er ilmur af jólum í bænum. Hamborgarhryggurinn á leið upp úr potti og enn hangikjötseymur eftir suðu gærkvöldsins. Við erum ekki með smábörn hér lengur en vorum svo lánsöm að Hrundin kom heim frá Þýskalandi öllum að óvörum svo við verðum ekki einí kvöld eins og leit út. Hrund er eins og mamma sín mikið jólabarn og ég fæ að njóta þess með þeim.
Fésbókin virðist vera aðalsamkomustaður vina og vandamanna en þeim ykkar sem lesið enn síðuna mína óska ég gleðilegrar jólahátíðar með friði og fögnuði.
föstudagur, desember 18, 2009
Prófalok o.fl.
Það er eins og detti á logn eftir storm þegar síðasta prófi lýkur. Vinna við það sem ég kann best, smíðar, er eins og frítími. Kann það allt utanbókar, ekkert að hugsa, bara vinna.
Smíðaði í gær eins og ég ætti lífið að leysa til að geta verið í fríi í dag. Við erum búin að njóta morgunsins út í æsar. Vorum að spjalla um hvort við ættum ekki að fá okkur eins og fjórar hænur til að sjá heimilinu fyrir eggjum, já okkur dettur nú ýmis vitleysan í hug - og látum oft verða af henni líka. Veðrið er svo fallegt núna sól og bjart, frost og alger lognstilla. Áin sallaróleg með íshröngli fljótandi í rólegheitum niður eftir henni. Það er svona friður og kyrrð yfir öllu einhvernveginn, gott andrúm.
Prófin gengu vel... að ég held. Þær einkunnir sem eru í höfn eru í fína lagi allavega.
Ég er að fara út að hengja upp jólaljósin á húsið og trén í garðinum. Það hefur ekki verið tími til þess fyrr en núna, jólabarnið á bænum ætti að kætast vð það.
Svo er það bara vinna í jólafríinu. Ég hef nóg að gera sem betur fer og sýnist mér veiti ekki af tímanum sem ég hef í fríinu til að komast yfir það sem ég er búinn að lofa.
Njótið lífsins vinir - það er gott
sunnudagur, nóvember 29, 2009
Bíddu... eru jólin að koma strax....?
Ég er reyndar búinn að vera að gjóa öðru auganu annað slagið út um gluggann hér á skrifstofunni minni og fylgjast með snjóbylnum úti. Gatan er líklega orðin ófær núna. Hér eru bílar búnir að vera að festa sig eða öllu heldur bílstjórarnir bílana sína.
Það er ekki laust við að fari um mig notalegir straumar við að þurfa ekkert að fara af bæ þegar veðrið lætur svona. Naga mig samt svolítið í handarbökin að hafa skilið jeppabúrið eftir í bænum.
Snjórinn úti og jólalögin sem óma um notalegt húsið við ána núna gera andrúmið hér ævintýralegt og fallegt. Meira yndið þessi kona. Held ég verði að taka mér smá pásu - ætla að koma jólabarninu á óvart og hita súkkulaði - sykurlaust...? Nei original.
Njótið aðventunnar vinir mínir.
sunnudagur, nóvember 22, 2009
Annir
Dagurinn í dag er samt frekar í notalegri kantinum. Ég svaf óvenjulengi í morgun sem kannski mótast af því að sumir dagar vikunnar hafa lengst hressilega fram yfir miðnættið, sem hæfir mér illa því ég er morgunmaður og fellur illa að vinna á næturnar. Uppsafnaður lúi. En ég er nú samt búinn að sitja hér niðri dágóða stund yfir morgunmat og dagblöðum.
Við förum bæjarferð á eftir í afmæli Katrínar Töru sem verður fimm ára 3. des nk. Íris er alveg á kafi í námsefninu og próf að byrja, því hentar að hafa veisluna núna.
Það verður gott að geta aðeins slakað á eftir þá törn.
Við Erla erum búin að halda upp á afmælin okkar. Samhjálparsalurinn var leigður og Binni kokkur sá um að elda fyrir okkur. Ég er ánægður með hvernig til tókst. Held allir hafi farið heim saddir og brosandi. Takk, þið sem eydduð kvöldstundinni með okkur.
Jæja, Erlan er komin niður og kaffivélin iðar í skinninu.........