sunnudagur, janúar 08, 2012

Hálkuleysi og fögur fyrirheit.

Gærdagurinn var kærkominn, hann var notaður til að gera ekkert eða því sem næst. Við nýttum hann því til að kíkja austur í kofa og athuga hvort ekki væri allt í lagi þar, sem var. Ég kveikti upp í kamínunni og við létum eftir okkur að dvelja þarna í nokkra klukkutíma við arineld. Kamínan er fljót að hita upp og eftir korter til hálftíma er orðið vel hlýtt inni. Það var ljúft að setjast aðeins niður í sveitasælunni og leyfa sér að slaka á við eldinn og hugsa um þau fögru fyrirheit sem kofinn lofar þegar vorar á ný.
Við kíktum svo á Gylfa og Christinu og ætluðum að vitja Hansa og Auju líka en tíminn flaug hjá eins og honum er svo gjarnt.

Í dag eigum við von á fólki hingað í Húsið við ána því Hrund á afmæli í dag og Erlan eftir nokkra daga. Þær eru báðar miklar afmælis- og jólabörn og njóta þessara hátíða meira en flestir. Til hamingju með dagana ykkar elsku yndin mín.

Það rignir heil ósköp þessa stundina svo vonandi tekur eitthvað af þessum svellalögum upp. Það kom reyndar á óvart hvað var lítil hálka á leiðinni austur í gær, allavega á þjóðvegunum. Það var auðvitað glæra á heimreiðum og afleggjurum þar sem ekki var búið að sanda en annars í fínu lagi.

Frúin er farin að brölta á efri hæðinni svo það fer að koma tími á kaffibollann með henni. Ég er auðvitað búinn með fyrsta bollann sem var tekinn snemma í morgun að venju.

fimmtudagur, janúar 05, 2012

Stýrimaður á eigin fleyi

Ég hlustaði á prédikun um daginn hjá séra Kristni Á. Friðfinnssyni sóknarpresti hér í Selfossprestakalli. Skemmtilega framsettur boðskapur sem náði eyrum mínum og athygli um hvernig höndla má hamingjuna á átta mismunandi vegu. Hann byggði lesturinn á rannsóknum viðurkenndra sálfræðinga sem gerði niðurstöðuna marktækari í mínum huga.

Ekki er hugmyndin að endurtaka hér það sem hann sagði, utan eitt atriði sem náði eyrum mínum sérstaklega og þá aðallega vegna þess að ég gat svo vel staðsett sjálfan mig þar. það snerist um að vera sjálfur með hendur á stýri í eigin lífi þ.e. að láta ekki aðra stýra gjörðum manns.

Margur maðurinn lifir lífinu í stöðugri þægð við náungann og aktar gjarnan í takti við það sem hann telur að aðrir vilji sjá hann gera og leyfir þannig öðrum að stýra lífi sínu.
Ég óx upp í umhverfi sem krafðist undantekningarlausrar þægðar við ákveðnar kenningar sem mér voru fastmúraðar og innbrenndar sem hinar einu sönnu og réttu. Trúarleg þægð sem ég hafði ekki afl til að skoða gagnrýnum augum fyrr en á fullorðinsárum, m.ö.o. ég eftirlét öðrum að stýra fyrir mig.

Það var frelsi í mínu lífi að finna þann stað að láta mér fátt um finnast álit annarra á mínum skoðunum eða gjörðum innan þess ramma sem eðlilegt er og fellur undir að hlusta á álit meðreiðarsveina sem oftar en ekki er til góðs.
Nýju fötin keisarans fjalla um þetta efni á sinn skemmtilegan hátt. Allir láta sem þeir sjái ekki fataleysi keisarans og skjalla hann fyrir flotta búninginn hans þangað til litla stúlkan læðir út úr sér að hann sé ekki í neinum fötum. Þægðin allra hinna gæti minnt mig á kafla úr fortíð minni.
Með þessu er ég ekki að líkja trúnni við kómískt fataleysi keisarans, öðru nær, trúin er mér dýrmæt, ég er að tala um gömlu kreddurnar og faríseaháttinn.

Ég læt ekki lengur að þægðinni og kýs að standa utan trúfélaga. Það truflar mig ekki, enda hefur það minna en ekkert vægi þegar trú mín er skoðuð. Hún hefur breyst því neita ég ekki, hún byggir á öðrum gildum, að mínu viti nær kjarnanum, fjær kreddum og yfirskini.

Séra Kristinn sagði það lykilatriði að vera sjálfum sér trúr og fylgja eigin sannfæringu. Þar er ég, með báðar hendur á stýri, og held fast.

Njótið daganna vinir.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Nýtt ár

Það heilsaði með logndrífu og hitastigi um frostmarkið, sem kallast blíða miðað við árstíð og venju undanfarinna vikna. Við áttum góð og róleg áramót í gærkvöldi. Hafþór og Arna ásamt föruneyti voru hjá okkur og gistu í nótt. Hrund fór til höfuðborgarinnar í nótt, hún er enn að slíta partískónum sínum og kannast ekkert við að þurfa að sofa þegar annað er í boði.

Við verðum hér samt öll á eftir og ætlum að eyða deginum saman hér í Húsinu við ána. Árið var kvatt með samveru við fólkið okkar og nýju ári heilsað með enn meiri samveru, mér líkar svona, enda fellur þetta algerlega að hugmyndum mínum um hvernig ég vildi haga samskiptum við ættlegginn okkar þegar hann stækkaði.

Þrátt fyrir kólguský í heimsmálunum lítum við hér væntandi til framtíðar, ég hef á tilfinningunni að þetta ár verði gott og farsælt fyrir okkur. Árið verður líka gott fyrir okkur sem þjóð, ég held að við séum að gægjast upp fyrir brúnina þar sem við féllum fram af.

Ég óska ykkur lesendum mínum þess eins að árið beri með sér gæfu og farsæld og verði ykkar besta ár fram að þessu.

Njótið dagsins vinir.

laugardagur, desember 31, 2011

Gömlu göturnar...

Árið hefur einkennst öðru fremur af neikvæðum fréttaflutningi, af kreppunni margumtöluðu, óráðsíu af ýmsum toga, mótmælum, byltingum, jarðskjálftum og stríði um víða veröld. Oft setur mann hljóðan og maður spyr sig hvert erum við að fara, þó auðvitað sé líka margt jákvætt og gott á ferðinni?

Öll þessi neikvæða umræða grefur um sig í sálartetri þjóðarinnar og bætir ekki ástandið. Mig setur oft hljóðan yfir fréttaflutningi, ekki síst þegar rætt er um stöðu kristinnar trúar og kirkjudeilda í landinu okkar, það heggur nærri mér. Þjóðkirkjan og mörg trúfélög eru í helgreipum orðaskaks og átaka um hluti sem kristin kirkja ætti aldrei að vera bendluð við. Það er svo komið að þjóðin holdgerfir kristni við misnotkun af ýmsum toga, ekki síst gagnvart börnum og það sárasta er að hún á innistæðu fyrir því.

Eins og kjarninn í orðum Krists er gullvægur og góður virðist sem hann sé gufaður upp og heyrist ekki, því hismið og dauðu kvistirnir hylja það góða fagra og fullkomna sem felst í orðum Krists. Innsti kjarni þessara orða, "Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan", fellur siðferðislega og í raun, undir lífsspeki sem allir geta sameinast um, trúaðir eður ei. Þessi orð flísfalla undir "hið góða fagra og fullkomna" sem kristin trú felur í sér.
Það er meira að segja svo að fáir myndu neita því, ekki einu sinni hörðustu trúleysingjar, að Ísland væri betur sett ef þessi kjarnaboðskapur væri í hávegum hafður og ekki síst hjá kirkjunnar þjónum.

Mér flaug í hug hið fornkveðna orð ritningarinnar, "Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld" því mér sýnist einhvernveginn að þessi orð eigi vel við í dag þ.e.a.s. ef ég leyfi mér að kalla orð Krists "gömlu göturnar".
Orðin eru þarna ennþá, gamli stígurinn er þarna enn einhversstaðar undir draslinu.

Græðgisvæðingin hefði varla fengið þennan byr í seglin eins og raunin var ef þessi gömlu sannindi hefðu verið leiðarljós. Þessi kærleiksboðskapur er í eðli sínu hljóðlátur en skín skært þar sem hann er viðhafður, hann felst í hjálp við náungann, virðingu og mannlegri reisn. Það er því sorglegra en tárum taki að það skuli vera tilteknir kirkjunnar þjónar sjálfir, settir boðberar þessa góða boðskapar sem hafa öðrum fremur kaffært hann með illum gjörðum sínum, skólabókardæmi um hvernig skemmt epli eyðileggur allan eplakassann.

Ég vona að kristin trú færist nær kjarna sínum á árinu sem er að heilsa okkur og að þjónar kirkjunnar færist nær hlutverki sínu og verði þeir boðberar ljóss og friðar sem þeim er ætlað að vera.

Ég þakka lesendum mínum fyrir góða samfylgd hér á bloggsíðunni og þakka fyrir heimsóknir ykkar hingað sem eru langleiðina í að vera fimmtíu á dag.
Eigið jákvætt og farsælt ár framundan og... Guðs blessun í ríkum mæli.

mánudagur, desember 26, 2011

"Afi, hvernig er að vera afi"...

...var spurt úr fanginu á mér í gær og spyrjandi og saklaust augnaráð vænti svars. Það er alveg æðislegt því ég á svo mörg yndisleg barnabörn eins og til dæmis þig. Orðalaust fékk ég þétt faðmlag um hálsinn og breitt bros, engin orð.
Ég hef verið að hugsa um þetta í morgun og finn með sjálfum mér hvað ég nýt mikilla forréttinda að fá að lifa það hlutverk að vera afi. Það eru ekki ónýt jól sem ná að fanga hugann með þessum pælingum.

Afahlutverkið er beint framhald af pabbahlutverkinu sem ég hef alltaf notið í æsar og fundist ég ríkur maður þótt veraldlegt ríkidæmi hafi stundum fetað sig framhjá okkur.
Ég skal viðurkenna að ég hugsaði nánast aldrei um afahlutverkið, var of upptekinn af pabbahlutverkinu. Ég gerði mér einhvern veginn aldrei ljósa grein fyrir því að bónusinn fyrir að ala upp stóran barnahóp væri enn miklu stærri afabarnahópur. Samt átti ég mér einhverja óljósa mynd af því að þegar dæturnar flyttu að heiman yrði heimilið okkar alltaf einhverskonar miðstöð fyrir þær og fólkið þeirra.
Árin líða hratt og óljósa myndin mín er orðin kristaltær og afar falleg og prýðir heimilið okkar framar öllu öðru.

Afi, hvernig er að vera afi? Það er lífið sjálft í mínu tilfelli. Það gefur mér þann stað að vera pabbi og tengdapabbi sem enginn annar hefur innan þessa yndislega hóps sem ég á og svo kórónuna sjálfa... að vera afinn sem allur þessi litli barnaskari á. Það gefur svo hlutverkinu aukið vægi og vigt að barnaskarinn virðist hafa ánægju af nærveru minni og ömmunnar sem, eins og allir vita sem til þekkja, er einstakt eintak. Fornafn hennar kalla ég "eðal"... og svo má bæta við mamma, amma, eiginkona, vinkona og svo allt hitt sem ég nefni ekki.

Já, afinn á þessum bæ, pabbinn, eiginmaðurinn, smiðurinn, lögfræðingurinn og allt hitt sem hægt er að skreyta sig með er lukkunnar pamfíll vegna þess að þegar hann lítur um öxl er hann sáttur og ef hann lítur fram á veginn hefur hann ríka ástæðu til að hlakka til því ríkidæmið hans liggur ekki í veraldlegu drasli heldur í fólkinu hans og það er ekkert annað en... fljótandi, fljótandi auðlegð.

laugardagur, desember 24, 2011

♫ ♫ Jólin eru að koma ♫ ♫

Friður sé með þér og fögnuður um jólin. Já jólakveðjurnar og lögin óma um húsið og það er ilmur af jólum því hamborgarhryggurinn mallar á hellunni og gefur fyrirheit um góða samveru við sig um sexleytið. Erlan setti upp grautinn áðan en það er kúnst að hantera hann rétt. Hún hefur alltaf haft það hlutverk að sjá um hann en nú er það ég sem fæ það verkefni því frúin ákvað að hafa opið í Basic plus og Home design í tvo tíma á aðfangadag.

Við verðum fimm hér í kvöld, já þú last rétt, við Erla og Hrund og svo buðum við Önnu sem vinnur hjá okkur í Basic plus að vera hjá okkur ásamt dóttur sinni. Hún er frá Rússlandi og býr ein, það lá því vel við að bjóða henni að vera með okkur.

Það hefur hækkað eitthvað í græjunum hér á bæ, alveg rétt Hrundin er komin heim úr búðinni og syngur hástöfum með eins og henni einni er lagið. Við erum að undirbúa hádegismatinn hér sem verður tilbúinn þegar Erlan kemur úr búðinni, en það er hefð fyrir honum hér eins og flestu öðru um jólin. Laxinn, lifrarkæfan, síldin og allskonar góðmeti er á borðum. Sætindi eru löngu farin af jólaborðum hér og í staðinn erum við með svona gourmet í staðinn, bæði hollara og betra.
Jæja ég ætla að fara og hjálpa Hrundinni að gera klárt.

Ég óska ykkur vinir gleðilegra jóla og njótið daganna framundan.

föstudagur, desember 23, 2011

Þorláksmessu- eða eitthvað annað þetta og hitt

Skötuát á þorláksmessu er eftir því sem ég best veit ekki gamall þjóðlegur siður nema á vestfjörðum þar sem siðurinn er ævaforn, heldur markaðssetning á matvöru sem varð vinsæl á afmörkuðu svæði. Ekki var um að ræða neina munaðarvöru heldur fisk sem hægt var að geyma líkt og siginn fisk. Skötuát á þorláksmessu kemur úr kaþólskum sið því á föstunni mátti ekki borða góðan mat heldur átti það að bíða til jólanna. Skatan veiddist bara á vestfjarðamiðum á þessum tíma hér áður og því kemur siðurinn að vestan, svona fyrir ykkur fróðleiksþyrsta. Sunnanlands var t.d. rýrasti harðfiskurinn soðinn á þorlák.

Ég verð að segja að ég kann mun betur við að endurvekja rammíslenska siði og venjur eins og skötuát frá fyrri tíð heldur en þessar amerísku mýtur sem tröllríða hér annað slagið t.d valentínusardagur, þakkargjörðardagur, hrekkjavöku og allskyns aðrir dagar og siðir sem við erum að eltast við.
Þessir dagar eiga þó það sameiginlegt að verslun með það sem fylgir þessu er drifkrafturinn á bak við markaðssetninguna, það er hægt að græða á þessu.

Það er svo auðvitað val hvað maður setur upp í sig og lætur vel líka. Amerísku mýtunni fylgir yfirleitt eitthvað bragðvond en aftur á móti þeirri íslensku eitthvað gott og kjarnmikið.
Ég er reyndar svolítill villimaður þegar kemur að mat. ég er til dæmis með hrátt hangiketslæri hér á eldhúsborðinu og fæ mér flís annað slagið og þykir það ómótstæðilega gott. Skatan er líka í uppáhaldi hjá mér þó mér finnist gott að hafa hana bara einu sinni á ári. Siginn fiskur er fínn og hákarl er afbragð.

Ég fékk senda skötu að vestan frá fólki sem við kynntumst í Austurríki í sumar. Við hittumst Erlu fjölskylda í dag hjá Sirrý og Guðjóni og snæðum hana saman, það er að segja þeir sem kunna að meta þetta góðgæti.

Jólin á morgun og allt að gerast.
Njótið áfram.

miðvikudagur, desember 14, 2011

Aðventan á fullri ferð

Aðventan held ég sé í hugum flestra tími kertaljósa og huggulegheita og ég held að það sé einmitt formúlan að því að gera þennan tíma að tíma tilhlökkunar og eftirvæntingar eins og hann þarf að vera.
Það hefur oftast verið þannig í mínu lífi að þessi tími hefur verið frekar rólegur miðað við árið í heild, nema síðustu árin sem hafa einkennst af prófatörn á þessum tíma og svo núna er ég á kafi í framkvæmdum svo það fer lítið fyrir rólegheitunum þessa dagana.
Ég ætla samt að taka einn aðventufrídag þar sem við Erlan gerum ekkert nema njóta lífsins og dinglumst í bænum, hittum krakkana og gerum eitthvað úber skemmtilegt, svo maður sletti aðeins.
Vinnudagur í dag og sjáum svo til. Njótið dagsins.

sunnudagur, desember 11, 2011

Skammgóður vermir.

Um leið og hlýnaði fór að snjóa. Ég held að það sé skárra að hafa frostið en snjókomu og skafrenning. Annars er veðrið ekkert að stressa mig þessa dagana, bjart og kalt er ágætis jólamánaðarveður.
Við ætluðum í leikhús í gærkvöldi en hættum við. Það var hvort tveggja snjókoman og væntanlega bylur á heiðinni og svo vorum við frekar lúin eftir törn undanfarinna daga. Það var ágætt að vera bara heima í rólegheitunum og horfa á ræmu.

Það er drifhvít jörð og fallegt að sjá ána á svona rólegheitamorgni, alltaf jafn falleg og friðsæl. Það var einstakt að fylgjast með henni þegar frostið var mest á dögunum því þá gufaði af henni eins og hún væri volg. Hún var það auðvitað ekki en hún var samt heitari en lofthitinn og því rauk svona af henni. Umhverfið fór ekki varhluta af þessu því tré og runnar og raunar allt umhverfið varð loðið af ísnálum þegar ísköld gufan festist á hverju sem er og úr varð mjallhvít mynd af umhverfinu. það var gríðarlega fallegt, dulúðugt meðan gufan læddist um og einkar jólalegt. Eftir snjókomu næturinnar er enn jólalegra hér, snjór á greinum, stafalogn og sólin skín lágt á himni, hún gerir það ekki lengi því það styttist óðum í stysta sólargang.

Frúin mín er loksins komin niður af efri hæðinni, þá fer gamli og skenkir í tvo bolla af rjúkandi kaffi. Það eru lífsgæði að njóta svona morgna saman réttu megin glersins, spjalla um lífsins gang og virða fyrir sér fannhvítt útsýnið og ána mála síbreytilegu málverkin sín.
Hreinasta afbragð.

þriðjudagur, desember 06, 2011

Morgunsnjókoma og Kári

Á svona morgnum þar sem vindurinn ýlfrar á glugganum og þétt snjókoman ýrist niður svo varla sér milli húsa langar manni ekkert sérstaklega að fara út. Þegar hlýjan innandyra umvefur og frúin enn sofandi á efri hæðinni virðist það hreinlega vera fjarstæðukennt, en... er eitthvað spurt að því? Á mínum uppvaxtarárum var það ekki gert.
Í dag á ég til að leyfa mér að fara svolítið seinna af stað ef þannig vill til, ef það kemur ekki niður á neinu sem ég er að gera. Ég flokka það sem hagræðingu á vinnutíma, get ekki viðurkennt að það sé hreinræktuð leti.

Nýja ísbúðin er á dagskrá dagsins þ.e. vinna við innréttingu hennar. Ekkert verður eins og var, allt breytt. Ég mun sakna alls plássins og þess að sjá heilu fjölskyldurnar sitja til borðs og njóta ísréttanna okkar, en þetta er eins og lífið sjálft, allt undirorpið breytingum.

En nú er kominn tími til að taka í hnakkadrambið á sjálfum sér og hespa sér af stað að gera eitthvað af viti... eftir einn kaffibolla.

Njótið dagsins í snjókomunni gott fólk.

laugardagur, desember 03, 2011

Vorhljóðí lofti...

...hreinasatt og engin lygi, næstum að ég finni vorilminn líka. Það er raunar brunafrost og snjór, áin ísköld og freðin. Það má samt láta sig dreyma. Ég er með upptöku í gangi í tölvunni frá því í maí af Fitinni þegar fuglasinfónían var í algleymi. Þetta er voðalega notaleg upptaka og minnir á hlýjar og bjartar vornætur á Föðurlandi. Ég læt mig dreyma um vor og fuglasöng í lofti búandi í mínu hlýja húsi með allt til alls.
Hvernig ætli forfeðrum okkar hafi liðið hugsandi til vorsins, hímandi í dimmum, köldum, óeinangruðum og saggafylltum torfhúsum, þar sem eini ylurinn var af húsdýrum og hlóðunum í eldhúsinu. Það hefur verið köld vist og löng, ég veit ekki hvort hefur verið betra, hörkufrost eða umhleypingar því húsin héldu oft illa vatni og láku meira og minna. Eftirvæntingin eftir vorinu hlýtur að hafa haft aðra og fyllri meiningu þá en nú og tíminn hefur silast áfram.
Tíminn, þetta ólíkindatól silast ekki lengur, hann er eins og við vitum á mikilli hraðferð og það er víst að vorið verður komið áður en við áttum okkur á.

Við Erlan ætlum í bæjarferð á eftir, Katrín Tara á afmæli í dag og við ætlum auðvitað að fara í afmælið, sem minnir aftur á tímann... það er fáránlega stutt síðan við Erla kynntumst, kornung.
Fleygiferð, það er málið, við lifum á fleygiferð.

þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Hrafnarnir vinir mínir

Hrafnaklettar heita klettarnir hér beint fyrir ofan húsið. Hrafninum virðist líka vel að vera hér eins og okkur. Frá því að við fluttum hingað hafa alltaf verið hrafnar hér, vetur sumar vor og haust, þeir verpa hér í klettunum og eiga svo vini hér sem gefa þeim æti á veturnar.
Ég hef gaman að þessum blásvörtu nágrönnum okkar og hef oft fylgst með þeim hér út um gluggann, sérstaklega í hávaðaroki, þá leika þeir listir sínar í loftinu. Þeir hafa líka oft vakið mig með hávaðanum í sér hér á þakinu eldsnemma á morgnana.

Það er samt vonandi bara kvef sem hrjáir mig þessa dagana því röddin í mér er orðin jafn rám og þeirra. Hef reynt að heyra ekki í þeim svo ég komist ekki að því að ég skilji allt í einu hvað þeir eru að segja. Einn krunkaði móti mér í morgun þegar ég kom út, ég bauð honum góðan dag á móti jafn rámur og hann og hann skildi mig, ég get svo svarið það...!

Kvef hef ég ekki fengið lengi, þökk sé hvítlauknum... hef ég haldið. Kannski kominn tími á að auka við hvítlauksskammtinn og sjá hvort ég endurheimti ekki röddina, þessa venjulegu, kann betur við hana.

sunnudagur, nóvember 27, 2011

Morgunverðarborðfélagar

Það er svo gott að sitja í þögninni og gera ekkert á svona friðsælum morgnum eins og þessum. Fréttablaðið frá í gær var borðfélaginn minn ásamt kaffibollanum mínum og frú Leti bankaði upp á og ég bauð henni til sætis líka. Ég horfi út á ána úr sætinu mínu, hún verður alltaf hrímuð og köld þegar kólnar svona. Úti er 5 gráðu frost og það ýrir aðeins úr lofti í logninu sem gerir að verkum að útsýnið líkist þoku og hverfur í grámósku í fjarska.
Einhver náungi er að upplifa náttúruna þarna útfrá og situr í snjónum á árbakkanum, hann virðist vera að hugleiða en kannski er hann bara að njóta sama útsýnis og ég.
Það er öllu þægilegra að vera hérna megin glersins núna þótt útiveran sé auðvitað alltaf góð, maður klæðir sig bara eins og þarf. "Það bíður betri tíma" eins og borðfélaginn skaut að mér áðan.

Það liggur fyrir að hengja upp jólaljósin utan á húsið og auðvitað ætti ég að vera farinn út og hespa því af en Letin situr hér til borðs með mér, ég er gestrisinn og félagsskapurinn er of góður til að ég nenni að brjóta hann upp. Það er auðvitað nær að detta aðeins í gamaldags gír og blogga smá um tilveruna á öðrum nótum en búðarframkvæmdahugleiðinganótum eins og undanfarið.

Borðfélaginn stakk því að mér áðan að nota daginn í dag til ýtrasta til að gera ekki neitt og ég er ekki frá því að það sé snilldarhugmynd hjá honum.
Við Leti ætlum því að eyða deginum saman og gera eitthvað sem hæfir hennar félagsskap. Þið hin eruð velkomin í hópinn ef þið viljið.

laugardagur, nóvember 26, 2011

Allt hefur sinn tíma

Að skapa hefur sinn tíma og að hvíla sig hefur sinn tíma. Nú þarf gamli að hvíla sig og fara að sofa eftir törn undanfarinna daga sem stundum hafa verið annasamir úr hófi fram. Uppskeran náðist í hús í dag, búðin opnaði með pomp og prakt klukkan tólf. Erlan og Gulla, stúlka sem við höfum ráðið til að standa vaktina í Home design tóku á móti gestum og gangandi. Það var nokkuð fjölmennt og við fengum mörg afar jákvæð og uppbyggileg kommnent. Það virðist sem Selfyssingar séu ánægðir með framtakið af viðbrögðunum að dæma. Það á svo eftir að koma í ljós hvort það nær til buddunnar einnig.
Ég er sáttur við útkomuna, það er unninn hálfleikur.

föstudagur, nóvember 25, 2011

Allt á fullu allsstaðar...

Bara svo þið haldið ekki að ég sé á meltunni alla daga þá er búðin að verða tilbúin fyrir opnun. Fæ skiltið utan á húsið í dag, allskyns snurfus og vörurnar í hillur fyrir morgundaginn. Opnum svo á morgun klukkan 12.

Þið vinir mínir og velunnarar eruð öll hjartanlega velkomin til að fagna með okkur og vera viðstödd þessa sögulegu stund :-)

sunnudagur, nóvember 20, 2011

To do list

Var að gera verkefnalista fyrir ofhlaðna vikuna framundan og komst að því að ef takast á að opna á laugardaginn næsta verður að halda vel á spöðunum. Stressaukandi listi í vikubyrjun er gott vegarnesti er það ekki? Hann heldur manni allavega við efnið.
Ég er annars að fara á Hótel Borg síðar í dag og hlusta á yngstu dótturina syngja en hún verður með hálftíma prógramm við opnun á einhverjum menningarviðburði svo verður hún með tvö lög á hátíðinni sjálfri.
Hún er búin að vera hér heima að æfa sig og ég get staðfest að hún er að gera góða hluti stelpan mín.
Mun svo bruna strax aftur heim og halda áfram að smíða búðarborð.
Svona er lífið hér við ána, margbreytilegt og skemmtilegt.

laugardagur, nóvember 19, 2011

Grasekkill á haus

Erlan er á Flórída með saumaklúbbsvinkonum. Ég kann þetta ekkert. "Það er einasta bótin" eins og mamma var vön að segja, að ég er upp fyrir haus í verkefnum þessa dagana svo tíminn líður hratt. Verkið gengur vel og ég sé fram á að geta opnað um aðra helgi eins og til hefur staðið.

En lifandis hvað ég hlakka til að fá eitthvað að borða þegar hún kemur heim, hún gleymdi nefnilega að segja mér hvað ég ætti að borða á meðan og skildi ekkert eftir tilbúið handa mér sem ég gæti til dæmis tekið úr frystinum, sett í örbylgjuofninn og hitað.
Algjör svekkur.

laugardagur, nóvember 12, 2011

Sláturdagur og aðrar annir

Allskyns skríkjur, dýrahljóð og brambolt ómar af efri hæðinni, þar er barnaskarinn, og í eldhúsinu er skrafað og hlegið í takt við kveinið í hrærivélinni sem rembist við að hakka lifrar, nýru, þindar og annað tilfallandi sem troðið er ofan í hakkavélina. Sláturdagurinn mikli sem við höldum einu sinni á ári er í dag.
Það er eins og oft áður þegar við komum svona öll saman að ég fæ einhverja nostalgíu og hugurinn rifjar upp gamlar tíðir þegar þessu líkar uppákomur voru í sveitinni minni forðum, sama skvaldrið og lífsgleðin, sem endar með að allir setjast til borðs og njóta afraksturs dagsins.
Slátur er vinsælt hjá mínu fólki þó það sé á undanhaldi hjá ungu fólki í dag. Þetta er kannski ekki hollasta vara sem finnst en samt er þetta það sem hélt lífi í forfeðrum okkar. Uppskrift mömmu er í hávegum höfð en hún hafði sérstaka hæfileika til að blanda hráefnunum rétt saman en það skiptir sköpum að hafa hárrétta bragðið af þessu. Ég er ánægður með að þessi siður helst við í minni ætt.

Þessa vikuna hef ég verið að smíða úti í búð. Opnun nýju búðanna er handan hornsins. Home design búðin verður opnuð á undan ísbúðinni, já Home design er nafnið á henni og vísar til varanna sem verða til sölu. Við erum búin að panta ýmsar vörur sem verða til sölu hjá okkur. Uppistaðan í vöruúrvali verða "Lín design" vörur en við verðum eina búðin á suðurlandi sem selur þær vörur.
Undirbúningur fyrir opnun sjálfsafgreiðslu ísbúðarinnar er líka í fullum gangi. Það er í mörg horn að líta en mér líkar það vel.

Lífið er til að njóta þess, látið það eftir ykkur gott fólk.

miðvikudagur, nóvember 02, 2011

Sagan og tíminn

Það telst ekki í frásögur færandi að ég sé að flækjast um landið. Í veiðiferðinni um síðustu helgi, arkandi lengst uppi á fjöllum rakst ég á klett. Jú fjöllin eru endalausir klettar en þessi ásamt fleirum þarna í kring hafði skrifað sögu, sem ég gat lesið notabene. Auðvitað er náttúran eitt allsherjar sögusafn en það er sjaldnast sem leikmenn eins og ég geta rýnt í það með nokkrum skilningi.
Þessi klettur var slípaður að ofan og rákaður eftir ísaldarjökul og það sem vakti athygli mína og framkallaði ótrúlega mynd í kollinum, í senn ógnvekjandi og óraunverulega, var stefna rákanna. Klettarnir voru í suðurhlíðum Tindfjalla og því hefði verið eðlilegt að rákirnar sneru niður hlíðarnar frá norðri til suðurs en þær sneru allar í vest- suð- vestur þvert á hliðar Tindfjalla.
Myndin sem þessar rúnir kölluðu fram blasti við, þetta mikla landsvæði sem ég horfði yfir, frá Tindfjöllum að Eyjafjallajökli, var einhverntíman sneisafullt af gríðarlegum skriðjökli sem skreið þessa stefnu langt út á haf... og eirði engu, Fljótshlíðinni ekki heldur.

Það stóð ekki skýrum stöfum á klettinum að sagan endurtekur sig. Við vitum það bara af jarðarsögunni að ísaldir koma og fara á nokkurra ártugþúsunda fresti. Ísöld á eftir að færast yfir aftur, og svo enn aftur. Allt sem við höfum fyrir augunum í dag hverfur einn daginn og mannskepnan, sem trúir því að hún stýri veraldarsögunni, hvað verður um hana... ég veit það ekki, allavega verður hún ekki á Íslandi svo mikið er víst.
Við erum víst bara peð á þessu taflborði, agnarlítil peð.

fimmtudagur, október 06, 2011

Voli enn


Já þeir eru oft vænir. Þessi er 7 pund og nýrunninn. Við fórum bræðurnir ég og Hlynur og nú var veiðin meiri en síðast. Nokkrir komu í þessum stærðarflokki ásamt fleirum minni.
Já veiðin er skemmtileg því verður ekki á móti mælt.