miðvikudagur, ágúst 25, 2010

Baugstaðaós

Kallinn kom alsæll heim eftir velheppnaðan veiðitúr í Baugstaðaós. Það er eitthvað við það að vera á ósasvæði við veiðar. Maður veit ekkert á hverju er von þegar bítur á. Baugstaðaósinn fellur vel að þessu. Ég veiddi 7 birtinga og einn lax.
Þarna er öll flóran sem finnst í íslenskum veiðiám. Á háflóðinu var eins og allt færi á suðu. Þá fór hann að taka eins og vitlaus í smástund og svo datt það niður aftur.
Ég hef aldrei séð aðra eins töku og gerðist hjá Hansa bróður. Hann var aðeins úti í vatninu þegar fiskur tekur með svo miklum látum að Hansi hálfsnerist og var nærri dottinn undan átakinu. Þetta var gríðarvænn birtingur sem sleit girnið eins og tvinna. Betra að hafa hjólið rétt stillt. Þarna var bremsan allt of stíf. Það hefði verið gaman að sjá þennan fisk koma á land.

Það verður víst seint sem veiðidellan fer af manni, þetta er veirusýking sem ekki hefur fengist lækning við ennþá. Það vegur samt kannski þyngst að ég hef ekki áhuga á lækningu.
Veiðin er heilbrigt og hollt sport og náttúruskoðun í leiðinni. Big like á það eins og sagt er.

þriðjudagur, ágúst 10, 2010

Pása

þá er það kærkomin pása. Okkur hefur aldrei leiðst Danmörk að ráði ef marka má fjölda ferða okkar þangað. Það má alveg segja að danskurinn hafi hitt okkur sérlega í mark með matargerð og fleiru sem hefur fallið að smekk okkar í gegnum tíðina.
Nú er ferðinni enn heitið þangað. Við bregðum út af vananum í þetta sinn og gistum hjá Bitten og fjölskyldu en Bitten er gömul pennavinkona Erlu frá ómunatíð. Við höfum hist annað slagið og kunningsskapur haldist í gegnum árin.
Síðan förum við norður til Óla og Annette og við náum líka Tedda og Kötu áður en þau koma heim.
Fyrst og fremst er þetta kærkomið frí frá önnum sumarsins. Það verður gott að taka sig frá og njóta þess að vera til, hafa engar skyldur nema að hafa það gott.

Íslandus er í góðum höndum Hrundar á meðan við erum í burtu ásamt starfsfólki sem er farið að ráða betur og betur við starfið.

Njótið daganna gott fólk á meðan við erum í burtu.

mánudagur, ágúst 09, 2010

Gangaþankur

Ég sá um daginn einhversstaðar að kristindómur og Kristur ættu orðið fátt sameiginlegt. Hef hugsað annað slagið um þetta síðan þá.
Margir telja sig kallaða til að prédika kristindóminn og hafi til þess sérstaka hæfileika og óskorað umboð, líkt og Farísear töldu sig hafa forðum. Mér virðist einhvernveginn of fáir þessara útvöldu eiga innistæðu í prédikun sinni fyrir orðunum "gerðu eins og ég geri" í stað "gerðu eins og ég segi".

Það getur svo sem verið að enginn hafi innistæðu til að hvetja til eftirbreytni við sjálfan sig - og þó. Ég gæti bent á örfáa sem ég teldi uppfylla skilyrðin. Þeir aftur á móti, einhverra hluta vegna fara með trú sína eins og gullegg og passa betur upp á hana en öll heimsins gæði og enginn þeirra prédikar - úr púlti. Prédikun þeirra er samt svo hávær að ég heyri ekki til þeirra sem mest láta fyrir þessum lágstemmdu og hógværu prédikurum sem einungis með lífi sínu og verkum fara á stall með Kristi sjálfum. "Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá".
Þá er ég kominn að kjarna þessa örpistils. Orð eru innantómt bergmál þegar verkin segja annað.
Kristindómur snýst gjarnan um orðræður og endalaust meiri orðræður. Kristur talaði líka en verkin undirstrikuðu orðin, hann var m.ö.o. maður orða sinna.

laugardagur, ágúst 07, 2010

Skrapp í veiði

Mér áskotnaðist hálfur dagur í Þverá í Fljótshlíð. Það var gaman eins og alltaf. Ég fékk reyndar engan lax á land þó ég missti fjóra eftir talsverða baráttu við hvern þeirra. Þeir eru nýrunnir núna og silfraðir og því mjög sterkir og sprettharðir.
Heiðar fékk að fara með og fékk maríulaxinn sinn. Hann komst ekki hjá því að bíta veiðiuggann af og kyngja eins og sönnum veiðimönnum ber að gera á fyrsta laxi. Kyndugur svipurinn á andlitinu en hann lét sig hafa það.
Ég fékk hinsvegar fallegan urriða, sennilega nær 5 pundum. Hann var sterkur og gaman að landa honum.

Veiði sumarsins er vonandi ekki þar með lokið enn. Ég hef reyndar oftast veitt mest á haustin þegar sjóbirtingurinn er kominn í árnar. Ég á dag í Baugsstaðaós núna síðar í mánuðinum og svo á ég daga í Vola seinna í haust. Ég er því ekki alveg búinn að gefa upp alla von um að mér takist að safna birgðum fyrir veturinn.
Í millitíðinni ætlum við að skreppa til danaveldis og heimsækja þá bræður hennar Erlu sem þar búa.... ennþá. Það er alltaf gaman að heimsækja Danmörkuna þó ekki vildi ég búa þar.
Það er búið að vera mikið að gera í ísbúðinni í dag þótt hér hafi rignt meira í dag en elstu menn muna. Það hefði dugað að fara með sjampóbrúsann út í morgun og taka sturtuna utandyra.
Við ætlum samt að fara að koma okkur út aftur eftir smá pásu heima. Hrundin er í búðinni núna ásamt starfsfólki.
Gerið eins og ég gott fólk og njótið lífsins.

sunnudagur, ágúst 01, 2010

Síðsumar

Þó mér finnist vorið varla liðið er komið fram á síðari hluta sumars. Annirnar hafa verið þvílíkar að sumarið fram að þessu hefur þotið framhjá á tvöföldum hljóðhraða.
Það er gott að hafa nóg fyrir stafni hef ég alltaf haldið fram og segi það enn. Það er þó allt gott í hófi - vinnan líka.
Við eyddum gærkvöldinu á Fitinni í góðra vina hópi. Ættargrillið var haldið hjá Hildi og Jóa þetta árið og við tókum okkur hlé frá önnum og nutum góðs matar og samfélags við fólkið okkar. Það er svo gott þegar fjölskyldan hittist svona því þetta vefur fjölskylduböndin fastar og hnýtir okkur saman.
Við gistum svo í kofanum í nótt og vorum mætt í ísbúðina um 10 leytið í morgun.

Það er svolítið skemmtilegt hvernig mannskepnan er innréttuð. Til að kunna að meta hlutina rétt þarf maður að hafa eitthvað andstætt til að miða við. Ég segi þetta því það var eitthvað svo óvenjulega góð tilfinning að bruna austur og eiga þessa klukkutíma í frí eftir þessa miklu vinnutörn.

Veðrið hefur verið einstakt í sumar og þessi helgi var engin undantekning. Allt tal um að ekki sé hægt að dvelja í Fljótshlíð eða halda mót vegna ösku blæs ég á.
Ekki væsti um tjaldbúa í Hellishólum og á Langbrók um helgina eða alla hina Fljótshlíðingana sem búa í þessari fallegu sveit og kvarta ekki, enda gróðurinn mikið til búinn að hylja alla ösku - sumt er bara vitlausara en annað, og ekki orð um það meira.

Við erum heima núna að gera vaktaplan fyrir ágústmánuð. Við missum margt af starfsfólkinu okkar í skóla kringum 20. ágúst. Við erum búin að auglýsa eftir vetrarfólki í fulla vinnu og höfum fengið þrjár umsóknir....?
Það vekur furðu okkar að ekki skuli fleiri sækja um í atvinnuleysinu. Eru Íslendingar orðnir svona latir að þeim þyki betra að vera á bótum og gera ekki neitt en að hafa vinnu. Ég held svei mér þá að þetta meinta atvinnuleysi sé stílfærður vandi, að innihaldið sé frekar haugur letingja sem ekki nenna að vinna. Allavega mæla umsóknirnar ekki mikið atvinnuleysi.

Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína í ísbúðina um helgina. Fólk er að uppgötva ísréttina okkar sem við erum mjög stolt af. Við merkjum það í mikilli aukningu í sölu. Það léttir lund að fá svona mikið af jákvæðum kommentum á það sem við erum að gera.
Erla er að klára vaktaplanið, ég ætla að hætta að blogga og færa henni eitthvað gott - hún á það svo skilið þessi duglega kona sem ég á.

fimmtudagur, júlí 29, 2010

Verslunarmannahelgi

Hann heitir víst frídagur verslunarmanna þótt rangnefni sé því sennilega er engin starfsstétt vinnusamari um þessa helgi en einmitt verslunarmenn. Það kemur auðvitað til vegna þess hversu landinn er duglegur að skemmta sér þessa helgi og krefst mikillar þjónustu í kringum það.

Of oft hefur þessi helgi verið sá tímapunktur hjá mörgum sem allt breyttist. Of margir hafa séð á eftir ástvinum sem hafa látið lífið á þjóðvegunum, þeir vildu að þessi helgi hafði aldrei runnið upp. Of margir koma heim með tilveruna í molum eftir afleiðingar nauðgana og ofbeldis, þeir vildu líka að þessi helgi hefði aldrei orðið.

Í lífinu gilda hin fornu sannindi "hver er sinnar gæfu smiður". Að hafa vaðið fyrir neðan sig er að gera ráðstafanir fyrirfram. Að láta ekki kringumstæðurnar stýra ferðinni heldur stýra kringumstæðunum sjálfur.

Ég vona að þessi helgi verði góð og laus við vondar fréttir á mánudaginn. Farið varlega með ykkur gott fólk og gangið hægt um gleðinnar dyr.

mánudagur, júlí 26, 2010

Nýtt útlit

Gamla útlitið var orðið þreytt. Hvernig lýst ykkur á þetta?
Ég á kannski eftir að fríska aðeins upp á þetta meira en orðið er. Ég verð að segja eins og er að ég sakna bloggaranna. Það er eins og fésið hafi yfirtekið hug flestra. Þar er samt svo sjaldan eitthvað sagt af viti.
Svona er maður gamaldags....

laugardagur, júlí 24, 2010

Ég auglýsi....

....hér með eftir veiðigenunum mínum. Ég veit ekki hvað varð af þeim en þau eru greinilega ekki þar sem þau eiga að vera. Ef einhver hefur séð þau í reiðuleysi þá vinsamlega látið mig vita. Eins ef þið hafið tekið eftir einhverjum sem allt í einu er farinn að veiða óeðlilega mikið þá gæti sá sami hafa tekið þau ófrjálsri hendi, enda afar eftirsóknarverð - endilega láta vita......!
Takk.

sunnudagur, júlí 18, 2010

Tilveran...

...er góð þessa dagana. það er að vísu mikið að gera en ég er því bara þakklátur. Vinnan göfgar manninn segir einhversstaðar. Það er samt lífið sjálft með öllum sínum fjölbreytileika sem gleður mig þessa dagana. Í gær fórum við í útskriftarveislu Klöru frænku minnar sem verður yngsti háskólastúdent íslandssögunnar - það er afrek sem ekki verður gert nema með miklum dugnaði, flott hjá henni. Ég er líka búinn að skreppa í laxveiði. Við fórum fjórir, Danni bróðir, Bjarki hennar Hildar og Stefán sonur Danna og ég. Það gekk þokkalega við fengum tíu laxa samtals. Ég fékk tvo og missti þrjá, þar af einn tveggja ára lax. Hann sleit girnið þegar við toguðumst á fyrir ofan laxastiga sem hann vildi fara ofan í, ég var hinsvegar á annarri skoðun og reyndi að koma í veg fyrir það með þessum afleiðingum.
Veiðin er alltaf skemmtileg. Ég á svo dag hér í Ölfusá í næstu viku sem ég hlakka til.

Íslandus ísbar er á fljúgandi siglingu. Þar er mikið að gera og oftar en ekki er fullt út úr dyrum. Allar áætlanir sem við gerðum eru að standast og sumsstaðar gott betur.

Á morgun verður fjallaferðin sem við höfum stefnt að í langan tíma. Við förum ásamt fríðum hópi vina og vandamanna. Það er góð veðurspá fyrir morgundaginn og Nyrðri fjallabaksleið ætti að skarta sínu fegursta. Landmannalaugar eru einstök náttúruperla sem verður enn fallegri í veðurblíðu. það verður grillað í Landmannalaugum og svo er ætlunin að stoppa oft, teygja úr skönkum og skoða fallega staði.

Hver á sér fegra föðurland.....? Njótum íslenska sumarsins og landsins sem er engu líkt.

laugardagur, júlí 10, 2010

Veiðin...

...byrjaði seint þetta árið og alls ekki nógu vel heldur. Við Danni fórum í hálendisferð og reyndum að veiða í Kvíslarveitum og fleiri vötnum á hálendinu en afraksturinn var ekki til að hrópa húrra yfir. Þetta var samt skemmtun eins og svona flækingur er alltaf. Núna veit ég t.d. hvernig umhverfið lítur út þarna norðurfrá sem ég vissi ekki áður. Íslensk fjallafegurð er engri lík og jafnast fátt á við íslenskar sumarnætur á hálendinu. Það var reyndar fullhvasst á okkur og má segja að það sem hélt litla kúlutjaldinu frá því að fjúka vorum við sjálfir sofandi í látunum þar sem allar festingar voru búnar að slíta sig lausar.
Afraksturinn voru fimm fiskar..... Jú það er nóg á grillið. Hugmyndin er samt að fara fljótt aftur á veiðar.... þarf að bæta á matarforðann.

Íslandus ísbar hefur farið afar vel af stað. Við nálgumst mánaðarafmælið sem verður á mánudaginn. Það eru spennandi tímar framundan, lífið er skemmtilegt og um að gera að njóta þess, sumarið er stutt og því afar hentugt að nota það vel. Fjallaferð er í pípunum og allskonar aðrir skemmtilegir hlutir.
Njótið daganna gott fólk.

laugardagur, júlí 03, 2010

Jákvæðni er dyggð

Marga hittir maður á lífsgöngunni sem á einhvern veg hitta mann svo þægilega að maður man eftir þeim. Jafnmarga... eða fleiri rekst maður á sem skilja líka eftir sig spor en ekki eins þægileg og jákvæð. Ég hef rekist á hvorttveggja.
Mér finnst miklu betra að umgangast fólk sem er jákvætt og bjartsýnt að eðlisfari en bölsýnisfólk. Það veitir mér innblástur að umgangast fólk sem glitrar af hugmyndaauðgi og framkvæmdakrafti. Á sama hátt dregur það úr mér vígtennurnar að umgangast fólk sem finnur foráttu í öllum hlutum.
Þess vegna er ég svona sérlega ánægður með alla þá sem fyrrtöldu kostina prýða. Þeir eru sem betur fer ófáir.

laugardagur, júní 26, 2010

ís, ís, ís og aftur ís....

Það eina sem þú hugsar um er bara ííís. Lífið er ekki plokkfiskur, nei lífið er ís. það hefur heldur betur vantað alvöru ísbúð hér á suðurlandið, miðað við aðsóknina hjá okkur. Bara gott um það að segja þó vaktin sé farin að lengjast í annan endann hjá okkur hjónakornunum.
Við sitjum þó heima þessa stundina og treystum starfsfólkinu til að stýra fleyinu. Það gengur bara vel. Við erum líka svo stutt frá að það tekur aðeins fimm mínútur að bregðast við ef eitthvað kemur upp á sem þau ráða ekki við.

Ég kom því loksins í verk að slá garðinn..... hann hefur aldrei áður orðið eins loðinn og núna frá því við komum hingað. Sjálf sláandi garðar fást víst ekki. Bændur hefðu verið í essinu sínu að fá að slá hjá mér. Ég varð að slá allt með orfinu, þar sem sláttuvélin réð ekki alveg við þetta magn. Svo þarf auðvitað að koma heyinu í hlöðu, eða Sorpu.... já þetta er ill meðferð á góðum heyfeng! Svona breytast tímarnir, þetta hefðu verið dýrmæt strá fyrir hundrað árum þegar við áttum allt undir að ná saman nægum heyforða til að lifa af vetrarharðindin. Mér líður betur með garðinn minn nýsleginn, hann ber eiganda sínum nefnilega vitni, bæði fjölskyldu- og vinagarðurinn og þessi kringum húsið.

Núna er ég að sannfæra Erluna um það mikilvæga atriði að ég þurfi að veiða nóg til að þreyja þorrann í vetur. Ég stend á þröskuldi þess að vera engan veginn að standa mig sem veiðimaður fjölskyldunnar. Ef ég fer ekki að bæta úr þessu veiðileysi þá líst mér ekki á veturinn.
Svo þar fyrir utan held ég að Þórisvatnið t.d. sé orðið mjög undrandi að sjá mig ekki. Þannig er augljóst að ég verð að fara að koma mér af stað.....!

Nú er samt best að fara að kíkja í búðina og sjá hvort ekki sé allt í stakasta lagi. Veit ekki hvað varð um mínar háleitu hugmyndir að ef ég setti búð á laggirnar fyrir Erlu gæti ég eytt meiri tíma í veiðarnar. Einhversstaðar hefur eitthvað klikkað hjá mér í þessu.

Njótið daganna gott fólk og..... fáið ykkur ís.

sunnudagur, júní 20, 2010

Tíminn flýgur

Vorannir hafa tekið óvenju langan tíma þetta árið hjá okkur hér í sveitinni. Prófin stóðu óvenju lengi yfir og síðan tók við innréttingavinna á Austurveginum. Það var heilmikið at þar sem við tókum við húsinu algerlega óinnréttuðu. Þremur vikum síðar opnuðum við svo búðina. Það má segja að þetta hafi hitt í mark þar sem troðið hefur verið út úr dyrum síðan við opnuðum. Selfyssingar hafa tekið þessu framtaki afar vel og hefur verið uppörvandi að fá svona mörg og góð komment frá þeim um staðinn.
það er mikil vinna að starta rekstri sem þessum en við gerum ráð fyrir að hún muni minnka og jafnast smátt og smátt eftir því sem aðstaðan batnar og starfsfólkið þjálfast.

Annar viðburður var í gær hjá okkur en þá útskrifaðist Íris okkar með mastersgráðu í lögfræði. Hún hefur staðið sig ótrúlega vel í náminu og fékk fyrstu einkunn út úr lokaprófunum. Karlott á mikið hrós skilið fyrir elju og þolinmæði þessi fimm ár sem þetta hefur tekið og má því segja að þetta sé sameiginleg uppskeruhátíð.
Til hamingju enn með þetta.

Það skal viðurkennast að eftir þessa törn er ég orðinn langeygður eftir smá fríi með Erlunni minni, í kofanum eða annarsstaðar. Allt hefur sinn tíma - það kemur að því.

Njótið íslenska sumarsins og fáið ykkur ís

laugardagur, júní 05, 2010

Jæja

Eins og sést af skrifleysi hér á síðunni hefur verið virkilega annasamur tími undanfarið. Sem er gott því fátt er verra en aðgerðaleysi. Hér eins og annarsstaðar á suðurlandi hefur ekki mátt hreyfa vind án þess að dragi fyrir sól með öskuryki. Í gær var þetta sérlega slæmt en það var dimmt hér yfir allan daginn en..... samt var heiðskýrt. Gosið hefur sínar afleiðingar. Þetta á eftir að vera vandamál lengi því þetta hættir ekki fyrr en grær yfir öskuna.

Annirnar hafa sínar afleiðingar, t.d hefur garðurinn minn ekki verið sleginn ennþá. Það er komin þessi fína slægja og ekki komist hjá því að hefja... allavega fyrri slátt.
Ísbúðarverkefnið gengur á áætlun. Búið er að setja upp alla innveggi og pípulögn er lokið og rafmagn nánast. Helgin verður notuð til að mála. Ísvélarnar koma í hús á mánudaginn aðrar vélar eru komnar flestar. Framkvæmdin hefur vakið talsverða athygli í bæjarfélaginu og virðist vera á hvers manns vörum. Við fáum bara mjög jákvæð viðbrögð.

Málningardagur í dag og á morgun svo helgin er ekki letitími. Ég verð að segja að ég hlakka til að opna búðina.
Hafið það gott í dag.

laugardagur, apríl 24, 2010

Öskufall

Eldgosafréttir eru víst orðnar hversdagslegar hjá okkur hér á Fróni. Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég samt ekki enn orðinn þreyttur á þeim og sýg í mig hverja nýja vitneskju. Við höfum sloppið ótrúlega vel hér vestan við gosstöðvarnar. Ríkjandi sunnan- og suðaustan áttin sem er hér alla jafna var greinilega upptekin í einhverju öðru meðan mesti öskumökkurinn streymdi upp úr toppgýgnum á Eyjafjallajökli, til ama fyrir Eyfellinga sem hafa þurft að hýrast í híbýlum sínum í svartamyrkri um miðjan dag vegna öskunnar.

Ég komst að því í gærkvöldi hversu ótrúlega lánsöm við erum hérna megin fjallsins. Austlæga áttin er komin úr fríinu sínu og blés yfir okkur mekkinum hérna megin. Til allrar lukku stendur mökkurinn varla undir nafni lengur og því var öskufallið bara smá sáldur.... en nóg fyrir mig til að sjá hvað þetta er mikill skemmdarvargur, smýgur allsstaðar, mjög fínkornótt.

Ég er sem sagt á Föðurlandi þessa stundina. Það er enginn vandi að detta inn í heimspekilegan þankagang um lífsins veg sitjandi hér inni við arineld í austanvindi og öskufalli. Hér innandyra er rólegheita andrúm. Ég sötra morgunkaffið mitt sokkinn í sófann og hlusta á vindinn og leyfi gömlu klukkunni minni að trekkja upp nostalgískar minningar um líf í sveit þar sem tíminn er afstæður og veröldin falleg og umfaðmandi. Ég virði fyrir mér hálffullt glas af ösku sem ég tók af rúðinni á bílnum mínum. Þessi fínkornótti sandur sem á eftir að verða söluvara fyrir túrista sem vilja taka með sér smá minningarbrot með sér heim eftir Íslandsdvöl. Kannski verður hægt að breyta sandinum í gull. Það væri svolítið skemmtileg uppskrift.

Ég sat í síðasta fyrirlestri laganámsins í gær. Það var svolítið skrítin tilfinning að labba út úr skólanum vitandi að ég á ekki eftir að sitja fleiri fyrirlestra þar. Tilfinningin er svolítið eins og ég sé að klára námið en það er þó ekki svo. Ég á eftir að skrifa mastersritgerðarskömmina. Ég er að vona að ég geti byrjað á henni í sumar því þá verður auðveldara að vinna með henni næsta vetur.

Ég ætla að nota helgina hér til að lesa undir prófin sem eru framundan.... og njóta tilverunnar í leiðinni.
Skora á þig..... gjör slíkt hið sama!

fimmtudagur, apríl 22, 2010

Fraus saman

Ég var kominn á ról upp úr klukkan sjö í morgun. Svo sem ekki nýtt að gamli fari snemma á fætur, morgun gen sem valda því. Það hjálpar reyndar til að ég er að vinna verkefni í "kaup- og sölu fyrirtækja" og það er að hrella mig hvað ég á mikið eftir - á að skila því á morgun. Vel á minnst á morgun er síðasti kennsludagur minn í þessu námi mínu. Ekki þannig þó að ég sé búinn eins og ég sagði ykkur í síðasta pistli, ég á eftir að skrifa ritgerðina mína en öll fög verða búin eftir morgundaginn, bara próftörn eftir.

Nú er komið sumar. Veturinn er liðinn og orðið bjart langt fram á nætur. Sumarið verður gott, annasamt og skemmtilegt.
Eftir síðasta próf verð ég að leggja nótt við dag til að opna ísbúðina. Það er verið að vinna við húsnæðið og ég hef verið að vinna að ýmsum málum varðandi undirbúning með skólanum. Allt er á áætlun. Erla er líka á fullu í þessu enda verður hún rekstrarstjórinn, hún er sérstaklega að skoða minjagripabúðina. Það verður að vera svolítil breidd í því.

Gosið... ég þarf ekki að segja ykkur neitt um það sem þið vitið ekki nema kannski að það var svolítið sérstakt að vera í Fljótshíðinni í kofanum á laugardaginn var, þegar gosið var í sem mestum ham og allt var lokað. Við fórum í bíltúr inn að Fljótsdal og skoðuðum verksummerkin eftir flóðið. Þar sá ég hvað fréttaflutningur er bæði ónákvæmur og ýktur á köflum. Þar sem Háamúlagarðurinn liggur og fréttamenn sögðu að væri við það að gefa undan flóðinu sá ég á verksummerkjum að flóðið var uppi á miðjum garði - ekki meira, sem getur vel gerst í venjulegum flóðum í Markarfljóti - þó af stærri gerðinni.
En það fyrirgefst eins og annað. Við horfðum á gosið af Fitinni í stúkusæti. það var eiginlega engu líkt. Ótrúlegt að sjá þessa krafta hamast þarna við túnfótinn okkar. Þetta fjall sem ásamt öðrum eldfjöllum stóð vörð um æsku mína var allt í einu orðið að forynju sem enginn mannlegur máttur gat haft áhrif á. Svona er lífið margbreytilegt.

Vorhljóðin vekja mig orðið á morgnana. Gæsirnar eru komnar í hólmann, ég heyri það á værðarhljóðunum í þeim á næturnar. Nína og Geiri líka, þau eru búin að snurfusa hreiðrið sitt frá í fyrra. Við urðum aftur vitni að því þegar þau kíktu á hvernig þetta kæmi undan vetri, munaði einum degi, já þau eru nákvæm. Eg sagði ykkur frá þessu í fyrra, það má kíkja á það hér. Það er gaman að þessu. Núna horfi ég út um gluggann minn á skrifstofunni og sé bara friðsæld og ró. Áin er sallaróleg og sólin skín í heiði. Sakleysislegur gosstrókur upp úr fjalli í fjarska, snjóhvítur og fallegur eins og í ævintýrunum - en ekki allur sem hann er séður.... Það er vorlegt yfir að líta. Það er bara hitamælirinn minn sem mótmælir þessum vorhugleiðingum mínum, hann segir að það sé fjögurra gráðu frost. Það er allt í lagi með það, það er rétt hjá honum en það veit á gott eftir gömlu þjóðtrúnni. Ég hef nú kannski ekki mjög mælanlega trú í þeim efnum en er bjartsýnn á snjólétt sumar.

Gleðilegt sumar vinir mínir, gerið eins og ég og njótið þess út í æsar

sunnudagur, apríl 11, 2010

Nína og Geiri og fleiri skemmtilegheit

Við Erlan sáum þau í gær að snudda í kringum óðalið sitt. Það var alger endurtekning frá því í fyrra. Þau eru yfirveguð og pollróleg, eins og fyrri daginn líkt og enginn sé morgundagurinn. Það gladdi að sjá þau því við vorum ekki viss um framhaldið eftir að þeim mistókst að koma upp ungum í fyrra.
Vorið er góður tími. Það bankar stöðugt í öxlina á mér þegar ég þarf að vera að lesa undir próf á þessum tíma. Sveitamaðurinn í mér vill komast út í vorið.
Ég er að ljúka síðustu fögum námsins. Síðustu önn námsins (fram að jólum) verð ég bara að skrifa mastersritgerðina mína. Það verður léttara að eiga við það en þessi massívu fög.
Ég er núna á kafi í ritgerð sem ég þarf að skila á fimmtudaginn, hún snýst um fyrningarleið stjórnvalda á veiðiheimildum (kvóta), efni sem ég hef ekki haft mikla þekkingu á en það hefur breyst við þessa ritgerðarsmíð. Er bara orðinn nokkuð vel að mér í því.

Við fórum "út að borða" í gærkvöldi. Þannig lagað - inn í stofuna okkar. Það er til siðs á þessum bæ að ef við viljum gera vel við okkur í mat þá förum við þá leið að kaupa gott hráefni og matreiða sjálf. Oft tekst það svo vel til að matsölustaðirnir fá, á okkar skala, ekkert hærri einkunn.
Við höfðum hvítlauksgrillaðan humar í smjöri í forrétt ásamt hvítu brauði og rótsterkri hvítlauksdressingu a´la Erla (12 rif í eina litla skál) og primeribs nautasteik í aðalrétt ásamt smjörsteiktu brokkoli og sveppum og rjómaostasósu og ofnbakaða kartöflubáta í hvítlauk. Með þessu höfðum við svo gott rauðvín. Svona gerum við máltíð sem kostar innan við þriðjung af því sem við myndum borga á veitingastað - og ég veit ekki hvort þeir séu eins flinkir við matseldina hehe ;0)
Svo er það bara staðurinn, það er svo notalegt að búa til svona móment undir árnið og vorhljóðunum sem fylgja ánni. Svo þar að auki erum við hálfgerðir nautnaseggir þegar kemur að mat. Þegar öllu þessu er safnað saman, kemur út..... dekur.

Frúin er að rumska svo ég verð að þykjast vera að skrifa ritgerð. Fór snemma á fætur til þess.
Njótið daganna vinir.

mánudagur, apríl 05, 2010

Vindgnauð á glugga

Veðrið um páskahelgina hefur verið rólegt ef frá er talið augnablikin sem við vorum uppi á Mýrdalsjökli. Við höfum verið í sveitinni í kofanum okkar alla helgina og notið í æsar rólegheitanna hér. Kamínan hefur haft nóg að gera allan tímann. Hún hefur verið tendruð á morgnana og ekki fengið frí fyrr en hún hefur lognast út af eftir miðnættið.
Helgin var viðburðarík. Við erum búin að fara tvisvar að Einhyrningi, einu sinni í flug yfir gosstöðvarnar (ég, Íris og Karlott) og svo fórum við í jeppaferð yfir Mýrdalsjökul að gosstöðvunum. Veðurspáin var mjög góð fyrir svæðið nánast logn og létt yfir. Ég skrifa ekki undir að við höfum farið óvarlega og ekki skoðað verðurspá, hún einfaldlega stóðst ekki spáin. Við sáum gosið í ljósaskiptunum sem var mikið sjónarspil og tignarlegt að sjá. Við hrepptum svo, þrátt fyrir góða veðurspá, versta veður á jöklinum á heimleið svo við snerum við, keyrðum til baka að gosstöðvunum og fengum leyfi til að fara Fimmvörðuhálsinn til baka niður að Skógum. Erlan komst að því eftir ferðina að hún væri búin að yfirvinna goshræðsluna sem hefur hrjáð hana frá því 1980 - veit ekki afhverju? Svo nú langar hana aftur á gosstöðvarnar, yfir jökul og allt (og brosir nú kallinn breitt).

Við fórum í heimsóknir til vina og ættingja í sveitinni og fengum einnig góðar heimsóknir.
Fjölskyldan hittist svo öll hér í kofanum nema Eygló, Bjössi, Erla Rakel og Örnudætur og við borðuðum saman grillað páskalamb. Hrund var líka auðvitað fjarverandi en við heyrðum í henni á páskadag frá Vatikaninu í Róm þar sem hún var að hlusta á Páfann flytja páskamessuna sína.

Núna erum við hér ein eftir Erlan og ég á Fitinni og það er byrjað að hvessa. Það er bara notalegra hér innan dyra ef veðrið byrstir sig eitthvað. Vindgnauðið róar. Erlan er niðursokkin í bók og vellíðanin skín af henni eins og sólin í heiði. Kamínan sér um að halda heitu og ferst það verk vel úr hendi. Klukkan gamla vinnur sitt verk líka vel. Hún býr til sérlega gamaldagsrólegheitamóment sem ég held að séu alltof hverfandi gæði.
Það er til þess vinnandi að skapa sér svona umhverfi til að stilla taktinn annað slagið. Það eru lífsgæði.
Ég þakka öllum fyrir komuna um helgina og gott samfélag - og frábærar gosferðir.

þriðjudagur, mars 30, 2010

Páskafrí

Verð samt að hengslast til að skrifa ritgerð sem ég verð að vera búinn með 15. apríl. Þau togast á um tímann minn búðin og skólinn þessa dagana. Vinnan við undirbúning búðarinnar gengur vel. Kláraði viðskiptaáætlunina í morgun og fór með hana í bankann. Vinnan við húsnæðið gengur vel svo þetta er allt á áætlun.
Ég ætla að koma mér nær gosinu á Fimmvörðuhálsi um páskana. Óróinn í beinum mínum þarf útrás. Kannski flýg ég þangað eða fæ mér göngutúr eða jafnvel bíltúr, fékk reyndar slæmar fréttir af færð á jöklinum, skoða það betur. Er ákveðinn í að taka Erluna með ;o)
Svo ætla ég að njóta þess að vera til og eiga samfélag við skemmtilegt fólk.
Lífið er gott, það er gefið okkur til að njóta þess.

miðvikudagur, mars 24, 2010

Að grípa gæsina....

Er ekki lífið fullt af tækifærum? Ég tók þau orð upp í mig eftir hrun að kreppuumhverfið fæli í sér tækifæri. Ég vonaði í leiðinni að ég þyrfti ekki að éta þau orð þversum ofan í mig aftur. Ég held, líkt og máltækið segir: "Oft ratast kjöftugum rétt á munn" að þetta hafi ekki verið ofsagt.
Það má til dæmis nefna að bankarnir eiga núna fyrirtæki á kippum sem þeir vilja svo gjarnan koma frá sér til einstaklinga sem geta og vilja reka þau. Þessi fyrirtæki eru á lágmarksverði, nánast á brunaútsölu miðað við hvað í þeim býr.
Það eru líka tækifæri núna sem voru ekki í þenslunni til að starta rekstri sjálfur. Kosturinn við það er að þá er hægt að velja sér hvaða svið menn vilja hasla sér völl á. Fyrir hrun var allt í boði og yfirleitt var offramboð á öllum hlutum. Það er yfirleitt ekki lengur.

Okkur Erlunni bauðst loksins húsnæði á frábærum stað hér við Austurveg á Selfossi til að opna rekstur. Þar verður glæsileg ísbúð þar sem fólk getur sest niður og notið þess að borða ísinn sinn í notalegu umhverfi. Svo verður minjagripaverslun og internetkaffi í sama húsnæði með opið á milli.
Við teljum eftir mikla rannsóknarvinnu að þetta muni bera sig vel. Þetta er líka tækifæri fyrir Erlu að vinna á staðnum en hún hefur keyrt til vinnu í Reykjavík síðan við fluttum austur. Erla verður rekstrarstjóri yfir þessu og mun stýra daglegum rekstri.
Ég fer svo auðvitað bara að veiða og svoleiðis..... held ég. Hugsanlega skoða ég hvort ég sinni einhverri lögfræðiþjónustu hér fyrir austan eftir nám. Hvert formið verður er ekki enn ákveðið.
En ég hlakka til að fá ykkur í ísbúðina okkar - þangað verða allir velkomnir.