miðvikudagur, júlí 13, 2011

Sláttur í rigningu

Það hefur ekki verið mikill tími til að slá garðinn það sem af er sumri. Þó hefur hann ekki orðið neitt í líkingu við það sem hann var í fyrrasumar þegar ég þurfti að slá hann allan með orfinu því sláttuvélin réð ekki við hann.
Dagskráin í dag var meðal annars að slá garðinn þar sem hann er orðinn leiðinlega loðinn. Einu vonbrigðin hvað það varðar er að nú er steypiregn og það hefur tíðkast hér að slá í sól en ekki grenjandi rigningu.
Út vil ek samt og sleginn skal garðurinn. Hef annars verið að setja upp smá sólhús við kofann í sveitinni. Glerjaði í gær og það styttist í að ég geti opnað á milli húsanna.
Njótið sumarrigningarinnar gott fólk, ég er farinn út.

föstudagur, júlí 08, 2011

Eitt skref í einu

Þú kemst niður á sama hátt og þú fórst upp... eitt skref í einu, sagði ég við hana stjarfa af hræðslu sitjandi í slakkanum fyrir ofan stigana. Ég sat sjálfur við hliðina á henni og færði mig svo í stigann og lagði af stað afturábak niður. Hún fikraði sig að brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Er ég komin spurði hún þegar vantaði um það bil meter á að hún kæmi við efstu rimina. Ég brosti inni í mér og sagði henni að færa sig nær áður en hún bakkaði.
Ég get þetta ekki í alvöru sagði hún frosin áður en hún svo mikið sem tommaðist nær stiganum en teygði fótinn aðeins lengra.
Ég tók í fótinn og sagði henni að bakka. Hún lá á maganum og mjakaðist örlítið nær brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Ég tók í fótinn og setti hann á efstu rimina. Þetta er efsta rimin sagði ég, bakkaðu nú aðeins nær. hún hreyfðist örlítið, ég get þetta ekki endurtók hún. Jú jú þú getur þetta alveg, komdu með hinn fótinn. Enn örlaði á hreyfingu og hinn fóturinn mjakaðist löturhægt nær. Hinn fóturinn fékk festu á riminni og þar stóð hún kyrr. Erling ég get þetta ekki endurtók hún. Ég tók í hinn fótinn og sagði komdu með þennan fót niður á næstu rim og svo stýrði ég honum þangað. Haltu þér svo bara með báðum höndum í efstu rimina meðan fóturinn fer á þarnæstu rim og ekki horfa niður, ég tók í þann fótinn og stýrði honum. Færðu nú hendurnar svo þær verði ekki eftir hérna uppi.
Hún ríghélt í efstu rimina með báðum höndum og vildi ekki sleppa. Ég heyrði hana tauta með sjálfri sér "hvað er ég búin að koma mér í" um leið og hún horfði fast upp á við, "ég skal aaaaaldrei fara hingað upp aftur".

Eftir nokkur þrep með þessum skemmtilegu tilþrifum sá ég tvo útlendinga koma að stiganum ofanfrá, þeir veifuðu og settust svo niður þolinmóðir, sáu augsýnilega hvað við var að fást.
Korteri seinna var næst síðasta þrepið eftir og ég sagði henni að nú væri hún komin niður. NEI sagði hún og ríghélt sér í rimina. Erla það eru 50 sentimetrar eftir. Fóturinn seig ofurrólega á milli þrepanna og niður á fast og enn ríghélt hún í rimina fyrir ofan sig.
ERLA MÍN þú stendur á jörðinni....! Þá fyrst leit hún niður.

Útlendingarnir sem höfðu setið rólegir og fylgst með gengu framhjá sposkir á svip og köstuðu kveðju á okkur. "Bien hecho, la señora" og blikkuðu hana.

þriðjudagur, júlí 05, 2011

Krókur og nýjar leiðir

Við tókum daginn í gær í flandur um sveitina mína. Við skoðuðum ýmislegt, meðal annars fórum við í langan göngutúr vítt og breitt um Tumastaðaskóg. Það var skemmtilegt og gaman að sjá hvað skógurinn er búinn að breiða úr sér og er orðinn stórvaxinn. Fuglalífið þar er gríðarlega fjölbreytt sem skreytir svona göngutúr óneitanlega. Það var ljúft að hvíla sig á brún Klittna og horfa á appelsínumýrarrauða fossana steypast fram af háum klettunum í logni og íslensku sumri eins og það gerist fallegast, landið sem hefur fóstrað okkur í hálfa öld gældi við okkur og staðfesti með okkur að við erum tengd þessu landi órjúfanlegum vináttuböndum sem gerir að verkum að við munum aldrei flytjast héðan búferlum.
Stundum eru svona móment þannig að maður vill ekki að þau hætti og því ákváðum við að halda áfram för upp Vatnsdal og skoða papahellinn þar og jafnvel halda áfram för lengra og skoða hinn papahellinn sem er upp við Krók. Þessir hellar eru afar merkilegir að því leiti að þeir eru handhöggnir í sandsteininn og þarna bjó fólk með börn sín og buru. Það var skrítið að hugsa til þess þekkjandi öll okkar nútímaþægindi sem við kunnum samt svo lítt að meta.

Við skoðuðum Grjóthyl í Fiská en það er staðurinn þaðan sem við Gylfi og Rúnar fórum forðum upp og yfir Þríhyrning norðanfrá. Mér varð hálfflökurt við tilhugsunina um að mín börn (afkomendur) færu þarna upp, ég væri á nálum. Þaðan keyrðum við austan við Öldu eftir troðningi sem ég hef aldrei farið áður enda var það með öllu ófært hér á árum áður og kannski orðum aukið að tala um að það sé fært í dag.
Þegar við nálguðumst Krók komum við að kletti sem skagaði upp úr veginum sem er niðurgrafinn um næstum metra á þessum kafla. Það var engin leið að komast yfir klettinn eða framhjá nema fara í vegarbætur sem við gerðum. Bakkinn á veginum var þannig að það var hægt að brjóta hann niður og hlaða undir bílhjólin og komast þannig yfir klettinn. Þetta gekk upp og var bara gaman.

Í Króki sýndi ég Erlu gömlu réttirnar og staðinn sem við tjölduðum þegar réttirnar voru haldnar þar. Nú er þetta allt löngu aflagt en gaman að skoða gömul ummerki. Papahellirinn þarna er miklu flottari en sá í Vatnsdal og umhverfið er gríðar fallegt. Við löbbuðum langt upp með Fiská og skoðuðum fossa og fallegar jarðmyndanir. Í Króki var bær sem hét Þorleifsstaðir, það var merkilegt að skoða hann eða leifarnar af honum og sjá fyrir sér gamla lífið eins og það var í sveitinni löngu fyrir mína tíð og nánustu forfeðra. Túngarðurinn náði víðan hring í kringum húsin og innan hans var heimatúnið. Við sáum gamla kálgarðinn sem var á öllum bæjum og traðirnar heim að bænum. Allt gróið en mjög sýnilegt. Við sátum góða stund þarna og virtum þetta fyrir okkur og létum hugann fara á flug. Börn að leik, sláttufólk að slá og sinna heyskap, hross í túni, förumenn á ferð ríðandi upp traðirnar, allt iðandi af lífi sem skildi eftir sig þessi glöggu merki sem við vorum að horfa á. Þetta var upplifun eins og myndaskot til fortíðar.
Gríðarlega gott móment sem við nutum bæði til ítrasta.

Það má segja að yndis Reykjavíkurmærin mín hefur lært að meta íslenska náttúru á annan hátt en þegar við kynntumst fyrst. Ísland er einstakt land sem heimurinn á eftir að uppgötva svo það er eins gott að njóta víðáttunnar og hreinleikans meðan allt þetta er til staðar jafn ósnert og það er.

Að lifa lífinu lifandi gott fólk, um það snýst þetta allt saman.

laugardagur, júlí 02, 2011

Morgungestir

Ég fæddist með þeim ósköpum að vera alltaf heitt, eða svona næstum því. Ég er á Föðurlandi að vinna aðeins í kofanum okkar. það er kostur hér að það er auðvelt að hafa nógu kalt á næturnar fyrir minn smekk (og Erlunnar hin síðari ár).
Það kemur þó fyrir að ég gleymi að lækka í ofninum og þá verður hitastigið til þess að ég sef illa. Í nótt vaknaði ég og það var heitt, of heitt svo ég stökk á fætur og opnaði hurðina upp á gátt og sofnaði síðan alsæll við svalann blæinn sem kom inn um hurðina. Jaðrakinn var að vísu svolítið hávær en hann truflaði ekki nóg til að halda mér vakandi.

Það var ekki fyrr en ég heyrði eitthvað hljóð sem ég var ekki vanur, afar lágvært langdregið og ámátlegt gaul, ekki ólíkt falskri nótu í gömlu fótstignu orgeli og virtist vera mjög nálægt mér.
Ég sneri að hurðinni þegar ég opnaði augun varlega. Hljóðið var mjög varfærnislegt og kom úr hænubarka sem teygði hausinn inn um gættina og litaðist um í kofanum mínum.
Ég bauð henni góðan dag en við það brá henni svo svakalega að hún hentist afturábak út með bægslagangi og háværu góli og hljóp langa leið út á tún áður en hún svo mikið sem leit við og ekki nóg með það því vinkonur hennar hlupu með henni. Haninn hinsvegar stóð kyrr og kallaði hetjulega á eftir þeim að allt væri í lagi.

Þetta var brosleg og skemmtileg uppákoma, fín viðbót í flóruna hér, var ég að hugsa þegar laukst upp fyrir mér annar sannleikur varðandi hænsn. Þau skíta, og þau voru á pallinum mínum.

Það vildi til að klukkan var hálf sjö að morgni, veðrið var gott og trén stór því annars hefðu nágrannar mínir séð kallinn á naríunum einum saman á harðahlaupum á eftir hænsnahóp, út úr mínum garði takk hann er ekkert skítapleis.

föstudagur, júlí 01, 2011

Nú er úti veður vott

Ekki það að ég sé einhver rigningarhatari, ég hefði bara þegið að hafa þurrt lengur. Ég er að atast í kofanum, smá breytingar utandyra svo nú get ég nagað mig í handarbökin fyrir að hafa ekki haft vaðið fyrir neðan mig og tekið með regnföt.

"Enginn er verri þó hann vökni" var mamma vön að segja og ég hef sjálfur oft tekið mér þessi orð í munn vegna einhverra vælukjóa svo nú þýðir ekkert að vera að þessu væli sjálfur heldur hundskast út og reyna að gera eitthvað af viti... Hipp hipp þó þetta sé nú enginn smá skúr, það er ekki hundi út sigandi.

Sjitt.

föstudagur, júní 24, 2011

Kaffið er best að sötra heitt

Ég man þá tíð þegar það var enginn dónaskapur að sötra. Það var meira að segja alltaf gert. Pabbi sötraði kaffið og mamma líka og flest eldra fólk. Mér datt þetta allt í einu í hug, sitjandi með sjóðheitan kaffibollann minn, einn í hádegismat á Föðurlandi og ég sötraði. Úps eins gott að enginn heyrði þetta... maður sötrar ekki!
Hvað um það, hér heyrir enginn í mér hvort sem er.
Kannski er það hugmynd að innleiða aftur þennan gamla góða sið og sötra almennilega. Sé mig í anda með humarsúpu í flottri veislu..... og upplitið á Erlunni :-)

sunnudagur, júní 19, 2011

Skorradalur

Á sínum tíma þegar við Erla vorum að hefja okkar búskap fórum við oft í Skorradalinn en þar áttu tengdaforeldrarnir sumarbústað í samfloti með nokkrum öðrum. Það var á þeim tíma þegar trén voru ekki orðin hærri en svo að ef maður týndist í skóginum var nóg að standa upp og þá sá maður hvar maður var. Trén hafa teygt úr sér síðan þá og nú dugir ekki lengur að standa upp. Í Skorradal er orðinn mikill skógur og jafnvel svo að það er farið að nytja hann. Allavega voru stórar stæður af gildum trjábolum sem var búið að saga í stærðir og tilbúnar til flutninga, minnti mjög á danska grund.
Það er gaman að sjá hvernig landið okkar hefur klæðst skógi undanfarin ár í meira mæli en nokkru sinni áður, það sjá allir sem ferðast um landið.

Heimsóknin í Skorradalinn í gær var skemmtileg. Þetta var ættarmót í föðurætt Erlu þ.e. frá afa hennar og ömmu, en amma hennar Sigga (Sigríður Sigurðardóttir) hefði orðið hundrað ára á árinu. Gæti verið um 50 manna hópur. Sólin skein á okkur og Kári sá um að flugan yrði ekki óbærileg. Ég var ánægður með Kára vin minn að sjá um þann þátt en var þó með varann á um að hann stæði kannski ekki við sinn part svo ég keypti flugunet fyrir ferðina.

Nú er veðrið eins og best gerist. Þegar ég vaknaði í morgun var glaðasólskin og er enn, sól og logn. Hvað dettur manni þá fyrst af öllu í hug? ÍÍÍÍS að sjálfsögðu ;-)
Það verður líkast til vitlaust að gera í ísbúðinni í dag en salan þar lætur vel að stjórn veðurs eins og vindhani í vindi.

Það er sunnudagur og því tími til að gera eitthvað skemmtilegt. Pallurinn hér fyrir utan getur orðið eins og Mallorca í besta skapi ef vel liggur á Kára. Hann er núna víðsfjarri svo ætli pallurinn verði ekki fyrir valinu í dag. Það er gott að eiga rólegheitadag hér heima.
Njótið hans, eins og ég.

föstudagur, júní 17, 2011

17. júní

Regnið lemur gluggann minn og vindurinn sveiflar trjánum til og frá eins og hér sé heill dansflokkur í garðinum. Undarleg veðrátta sem þetta sumar ætlar að geyma. Enn skrítnara finnst mér hvað veðurspámönnum er að förlast, það er engu líkara en að spár verði ónákvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram, ótrúlegt. Veðurstofan var búin að gefa út að veður yrði með miklum ágætum á þjóðhátíðardaginn, þeir hafa kannski verið að meina ágætis óveður. En jæja, ég nenni ekki að vera að pirra mig á veðrinu, svona er Ísland, þetta hljóta að vera blessunardaggir.

Mér eins og svo mörgum ofbýður algerlega allt sem upp er að koma um hvernig prestar og aðrir hafa hagað sér gagnvart saklausum börnum með kynferðislegum hrottaskap. Ég var að lesa um enn eitt málið sem sneri að kaþólskum presti og skólastjóra og kvenkyns kennara sem nýddust á litlum dreng. Hvernig stendur á því að þetta loðir svona við kirkjunnar fólk. Ég get ekki skilið þetta og hef megna óbeit á þessu fólki, þetta eru RÆFLAR af verstu sort, lægra verður ekki lagst.

Lífið hér við ána er samt eins og fyrri daginn ljúft og gott, þótt hann blási. Hér eiga að vera heilmikil hátíðarhöld í tilefni dagsins svo vonandi styttir bara upp svo skipuleggjendur dagsins uppskeri í takt við vinnuna sína.
Við Erlan ætlum að fara brosandi út í daginn enda frúin vöknuð og var að tipla niður stigann.
Gerið endilaga það sama vinir, njótið lífsins. Ég ætla að fara og mala kaffi í rjúkandi bolla... og annan fyrir mig.

sunnudagur, júní 12, 2011

Sumar eða hvað?

Það er engu líkara en að hér sé komið sumar. Ógnarbirta, rétt eins og sólin sé hátt á lofti (held jafnvel að þetta sé hún) og hitastigið er um 16 gráður. Ég hef ekki séð þetta hér í langan tíma. Meira að segja grasið á lóðinni er farið að teygja úr sér og hugsanlegt að hægt sé að slá efstu toppana af því. Kannski er von á viðskiptavinum í ísbúðina ef þetta helst út daginn, það væri skemmtileg nýbreytni.
Það á að heita bæjarhátíð hér en hitastigið heldur fólki heima hjá sér. Þó margt hafi verið um manninn um miðjan daginn í gær þá var hér hálftómur bær í gærkvöldi. Við kíktum aðeins á tjaldstæðin og þar var ekki margt um manninn enda hitinn ekkert sérstaklega til þess fallinn að kveikja löngun til að sofa í tjaldi.

Það er samt alltaf gott þegar sést til sólar eins og nú. Það gefur fyrirheit um léttari lund landans og kveikir hugmyndir um að hægt sé að vera annarsstaðar en innan við gluggaboruna og horfa á hvítan Esjutind eða Ingólfsfjall.

Ég ætla að gá hvort ekki sé hægt að særa aðeins toppana á grasinu hér fyrir utan svo ég geti allavega sagt að ég sé búinnn að slá einu sinni þetta sumarið.

Njótið dagsins vinir.

miðvikudagur, júní 08, 2011

"Eldhúsdagsumræður"

Var spurður að þvi í dag hvort ég vissi hvað það orð þýddi. Ég varð að viðurkenna að ég hef aldrei leitt hugann að því. Ég er samt nógu forvitinn um íslenskt mál til að kanna það aðeins.

Í Orðabók háskólans er að finna ýmislegt misgagnlegt. Þar var þetta m.a. að finna um eldhúsdagsumræður:
það þekktist hér áður fyrr að taka sér eða gera sér eldhúsdag og var sá dagur þá nýttur til þess að gera hreint í eldhúsinu, en einnig í yfirfærðri merkingu um tiltektir almennt, að ganga frá ýmsu sem dregist hafði að koma fyrir. Sú merking kemur ágætlega fram í frásögn af Guðmundi Árnasyni (Gvendi dúllara) í Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (1969): "Hjálmar tók nú að færa það í tal við Guðmund, að þeir ættu að hreinsa þessa skildinga úr frakkanum og leggja þá í bankabókina. En Guðmundur hafði megnustu óbeit á slíkri yfirfærslu og vildi ekki láta sér skiljast, að bankaræfillinn væri tryggari geymslustaður en frakkinn. Þó fékk Hjálmar því seint og um síðir áorkað, að Guðmundur leyfði honum að gera eldhúsdag í frakkanum."

Af þessari ofangreindri merkingu er dregin sú yfirfærða notkun sem tíðkast m.a. á Alþingi sem eldhúsdagsumræður, en á þeim degi flytur forsætisráðherra eldhúsdagsræðu sína og fram fara sérstakar umræður í þinginu, eldhúsdagsumræður, þar sem farið er yfir stefnu ríkisstjórnar, fjármál og störf Alþingis.

Þá vitum við það...

þriðjudagur, júní 07, 2011

Jákvæðnin smitar...

... nú er búið að sanna það. Vísindamenn við Harvard-háskóla í Boston og háskólann í San Diego í Kaliforníu hafa sýnt fram á að jákvæðni og bjartsýni séu bráðsmitandi.
Þetta kemur fram í grein sem birt er í læknatímaritinu British Medical Journal (og í Viðskiptablaðinu þar sem ég las þetta) en þar kemur fram að sá sem horfir á hinar björtu hliðar tilverunnar auki um 15% líkurnar á því að vinur hans geri slíkt hið sama, hjá vinum þess vinar aukast líkurnar um 10% og í „þriðja lið“ aukast þær um 7%.
Niðurstöðurnar eru byggðar á hinni viðamiklu Framingham-rannsókn. Segja má að hér sé komin sönnun á lífsspeki Pollýönnu og einnig að Einar Benediktsson hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann sagði: Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Ég hef lengi haft þessa skoðun á jákvæðni, allavega að hún sé snöggtum skárri en neikvæðni. Líkar raunar best við raunsæi, þar sem rökhyggjan ræður för en þar einhversstaðar liggur oftast blákaldur veruleikinn.

sunnudagur, maí 29, 2011

Sinfónían mætt á Föðurland

Við áttum gæðadaga í fljótslíðskri sveit um helgina. Fuglasvermur skreytir tilveruna þar sem endranær á þessum árstíma. Maríuerla virtist nærgöngulli en áður sem gefur fyrirheit um að kannski hefur hún ákveðið að gera mannabústaðinn okkar að íverustað sínum meðan hún fjölgar ættleggnum sínum, það væri gaman. Þrastarsöngurinn ómaði allan daginn enda þrestir orðnir fastagestir hjá okkur. Þeim líkar vel við trén sem við höfum gróðursett undanfarin 23 ár sem eru orðin stór og bústin svo kofinn næstum hverfur í skóginn.
Hann er reyndar ekki stór, allavega ekki á fljótshlíðskan mælikvarða en eins og flestir vita er Fljótshlíðin vinsæl undir sumarhús sem hafa risið hratt á undanförnum árum. Nokkur eru á við stærðar einbýlishús, sum eins og spænskar hallir, önnur eru hóflegri, svo eru nokkur í okkar stíl, fjallakofastílnum.

Allir sem lesa bloggið mitt vita að ég er hæstánægður með kofann minn þó hann sé lítill. Það hefur ekki með stærð að gera hvort hægt sé að finna kyrrð sveitarinnar eða njóta fuglasinfóníunnar og fallegu tónanna hennar. Ég held jafnvel að auðveldara sé að samsama sig náttúrunni ef maður temur sér auðmýkt og nægjusemi sem er ráðandi afl í náttúrunni. Það er bara maðurinn sem hefur sett sig á þann drambsama stall að gera kröfur umfram þarfir sínar.

Við sátum í morgun úti við og nutum verunnar til ítrasta, létum sumarblæinn strjúka vanga og hlustuðum á tindrandi lífið allsstaðar í kringum okkur. Hrossagaukurinn klauf loftið með sínum skemmtilegu víbrandi tónum og Spóinn vall í kapp við hann.
Erla dæsti af ánægju og sagði við mig hægt og hljótt til að trufla ekki mómentið: "Erling þetta er yndislegt" og það er heila málið. Lífið er yndislegt og full ástæða til að njóta þess meðan við höfum heilsu og hvert annað.

Höfum það sem vegarnesti.

fimmtudagur, maí 26, 2011

Öskuillur Kári

Það var gott hjá honum að verða brjálaður. Askan sem féll á suðurlandið, allavega vestanvert hefur fokið á haf út í rokinu sem gerði eftir öskufallið og nú er komin grenjandi rigning. Já við Kári erum vinir. Landið okkar kemur strokið og fínt undan þessum látum. Askan verður fínn áburður á túnin og líklegast er að túristum fjölgi ef eitthvað er. Kannski verður þetta eftir allt túristagos í óeiginlegri merkingu.

Ég skrapp austur í dag með stólana úr Íslandus ísbar. þeir voru að liðast í sundur svo þeir voru teknir til alvarlegrar aðhlynningar, rafsoðnir saman og gegnumboltaðir. Nú mega stórir og smáir setjast í þá án þess að eiga á hættu að þeir brotni undan þeim.
Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta, hvergi var ösku að sjá og hunangsflugurnar suðuðu í vorblómguðum brumum. Það var eitthvað svo ánægjulegt að sjá hvernig náttúran sjálf hefur tekið til hendinni í öskumálunum, litlir eftirmálar.

Við hjónin vorum á síðum viðskiptablaðs Moggans í dag. Íslandus ísbar virðist vera sífellt meira að komast á kortið, þeir höfðu einhverja nasasjón af okkur af markaðnum því ekki báðum við um þetta viðtal.

Nú fer vonandi að vora hjá okkur en vorið hefur verið á seinni skipunum þetta árið og kominn tími á betri tíð. Allir sammála því?

Njótið samt tilverunnar því hún er góð og Ísland er besta land í heimi ;-)

sunnudagur, maí 22, 2011

Heimsendir og öskufall

Það mátti litlu muna að við yrðum öskuteppt í danaveldi í þetta sinn. Þremur tímum eftir að við lentum í Keflavík var komið upp stórgos í Grímsvötnum. Tíu sinnum meira en Eyjafjallajökulsgosið var þegar það var mest sem segir að þetta er fítons. Eyjafjallajökull var nógu ófrýnilegur að sjá svo þetta hlýtur að vera ógnarlegt sjónarspil. Enda horfðum við á mökkinn hér út um eldhúsgluggann í gærkvöldi og fylgdumst með eldingunum og ljósaganginum... í 220 kílómetra fjarlægð lesandinn athugi það. Svo miðað við þessa miklu fjarlægð er ótrúlegt að nú skuli vera öskufall hér á Selfossi meira en kom nokkru sinni úr Eyjafjallajökli.

Ég verð samt að segja að ég vona að þetta verði skammvinnt og skaði ekki bændur og búalið eða ferðamennskuna sem á allt undir að fá útlendingana hingað í heimsókn. Mér sýnist samt að fréttaflutningurinn erlendis sé á betri nótum en var þegar gaus í fyrra. Nú virðist enginn hræðsluáróður vera í gangi, reyndar er sú hætta enn fyrir hendi að forsetinn tjái sig í erlendum fjölmiðlum um þetta svo maður veit ekki ennþá hvað verður.
Það er svo magnað að upplifa svona stórgos og sjá hvað við erum smá þegar náttúran byltir sér aðeins. Þetta er samt smágos miðað við alvöru stórgos þegar margir rúmkílómetrar ryðjast upp á yfirborðið. það væru hamfarir sem myndu hafa áhrif á hitastig á jarðarkringlunni næstu árin á eftir með kulda og vosbúð.

Heimsendir var ekki á dagskrá þótt gjósi hraustlega hér, allavega hef ég ekki saknað neinna sem ég þekki og eru þeir þó margir sannkristnir í gegn.

Það besta í stöðunni er að bíða af sér hamfarirnar og halda svo lífinu áfram eins og ekkert hafi í skorist, njóta þess í æsar... og geyma minningarnar í sögur handa barnabörnunum, passlega kryddaðar fyrir svefninn. Svo er rétt að hafa í huga þá einföldu staðreynd að það hefur enginn hugmynd um heimsendi hvað þá dagsetningu á honum, allar slíkar heimsendaspár eru sjúkleg hugvísindi rugludalla.

föstudagur, maí 20, 2011

Hvad er det på dansk.

Nú er það Stövring. Óli og Annette eru söm við sig, gestrisin og góð heim að sækja. Jytte, móðir Annette, dvelur hér en hún er fárveik af krabbameini. Það er gæfa fyrir hana að fá að vera með þeim þennan tíma sem hún á eftir en það er ljóst í hvað stefnir. Annette annast móður sína af einstakri natni og umhyggjusemi.

Dagurinn er ætlaður í snatt sem meðal annars snýst um að skoða ísbúðir. Ekki að við séum svo mikið fyrir ís heldur neyðumst við til að kíkja í nokkrar vegna bisnessferðayfirvarps ferðarinnar... sem var reyndar bara grín, ferðin er hugsuð sem smá afslöppun fyrir annatímann sem er framundan hjá okkur og ísbúðarheimsóknirnar eru bara til að smakka góðan ís.

Við Erlan njótum lífsins eins og það kemur til okkar hvern dag, þannig er jú lífsdansinn, óvæntur og skemmtilegur.

þriðjudagur, maí 17, 2011

Andlátsfregnin var stórlega ýkt...

...en þau voru seint á ferðinni. Nína og Geiri eru mætt í hólmann sinn. Þau láta lítið yfir sér og eru ólík því sem áður hefur verið einkennandi fyrir þau. Þau dansa ekki á vatnsfletinum eins og áður heldur eru þau daufleg og sitja saman þegjandi nálægt óðalinu sínu.
Það er eins og þau séu þreytt enda líklega háöldruð. Hreyfingarnar eru hægar en virðulegar. Það tók þau miklu lengri tíma en áður að komast yfir hafið, sennilega er ellikerling að heimta tollinn sinn og kannski eru þau að fara síðustu ferðina sína til átthaganna.

Ég sagði ykkur að sagan þeirra væri fallegt ævintýri sem gaman hefur verið að fylgjast með og mér segir svo hugur að nú húmi að kveldi hjá þeim. Kannski eru þau að horfa á sólarlagið sitt og stilla taktinn fyrir síðustu skrefin.

Það var samt gaman að sjá þau mæta á staðinn sinn og fylgjast með þeim einu sinni enn og sjá hvernig álftalíf er í raun ekkert síðri framhaldssaga að fylgjast með en annað sem á dagana drífur.

laugardagur, maí 14, 2011

Blessað barnið

Litli Andri Ísak Björnsson verður blessaður í dag. Það er nálega það sama og barnaskírn fyrir þá sem ekki vita, munurinn er sá að það er ekki ausið vatni og það er ekki endilega prestur sem framkvæmir athöfnina. Barnablessunin verður hér í húsinu við ána. Afanum á bænum veitist það skemmtilega hlutverk og heiður að fá að blessa barnið.
Hér verða vinir og ættingjar sem fagna deginum með okkur enda stór dagur fyrir foreldrana og ættlegginn.
Til hamingju með daginn elskurnar.

fimmtudagur, maí 12, 2011

Aktið og eðlið

Það er manninum eðlislægt að líka vel við græna litinn. Það er vafalítið vegna þess að í gegnum árþúsundin höfum við komið okkur upp eðli sem er innbyggt án þess að við séum meðvituð um það. Ég held að þetta sé sama og á við um eld en það er viðurkennt að eldur hefur afar róandi áhrif á mannskepnuna. Eldurinn þýðir yl og öryggi sem á rætur einhversstaðar djúpt inni í sálinni, samansafn reynslu liðinna forfeðra okkar sem ornuðu sér við eld og fældu burt villidýr með honum í leiðinni.

Græni liturinn hefur þessi sömu áhrif á sálina. Róandi áhrif sem ekki er hægt að útskýra á neinn annan hátt en að tilfinningar forfeðranna hafa mótað genin þannig að þegar náttúran er græn þá er nóg að borða og tilveran vænni en um harðavetur.
Af hverju annars ættum við að finna þörf á vorin til að komast út í náttúruna til að baða okkur í græna litnum og sólinni.

Það er ekki bara sveitamaðurinn í mér sem lætur svona. Ég held að þetta eigi sér langtum dýpri og eldri rætur, þetta er frummaðurinn í okkur...
Þá vitið þið það, svona líka vísindalega útpælt...!

Gerið eins og ég krakkar, njótið tilverunnar.

laugardagur, maí 07, 2011

Er hann merkilegri...

... nágranni sem er í flottari stöðu eða á meira ef peningum en hinn sem vinnur láglaunavinnu og keyrir á gömlum bíl sem varla hangir saman?

Ég heyrði einu sinni haft eftir sprenglærðum prófessor sem hafði fjórar háskólagráður í farteski sínu að gráðurnar sínar væru ágætar en hver þeirra væri samt bara eins og hringur á svínsrófu.
Hvað meinti hann eiginlega, hringur á svínsrófu...?
Ég skildi líkinguna þannig að svín er bara svín alveg sama hversu marga hringi þú setur á rófuna á því.
Ég sé betur, eftir því sem árin líða, hvað þetta er rétt. Það verður enginn merkilegri þótt hann bæti við sig lærdómi, eða ef hann kemst í álnir og eignast peninga. Hann verður áfram sama "svínið" og öll hin "svínin"... bara með einn hring í viðbót á rófunni :-)

Mér flaug þetta í hug si svona eftir átök vikunnar en lögfræðin er þannig í eðli sínu að hún er leit að réttlæti og þá vill stundum bregða upp þessari mynd hvað sumir einblína á hringinn á rófunni á sér og bera hann saman við hringlausu rófuna sem er að bögga hann en fatta ekki um leið að þeir eru sama eðlis, bara tvö "svín".

Mannskepnan er þannig innréttuð að hún flokkar fólk í píramída þar sem þessir með skreyttustu rófuna tróna efstir en þeir hringlausu neðstir.
Þetta var mjög áberandi fyrir hrun en þá var peningahringurinn flottastur. Gráðuhringurinn var minna metinn þá en hefur eitthvað vaxið að virðingu eftir hrun.
Þetta er skondið að verða var við, því hvernig sem á allt er litið og hvernig sem við snúum dæminu, þá erum við öll jöfn. Við fæðumst öll jafn nakin og við förum héðan öll eins, eignalaus ofan í holu... og svo er mokað yfir!

Njótið dagsins.

fimmtudagur, maí 05, 2011

Er það forsvaranlegt?

Það heyrast alltaf raddir um að við ættum að fara öðruvísi að þegar ísbirnir ganga á land hér. Ekki drepa þá er krafan. Ég get alveg tekið undir að það væri vissulega gott að hafa aðgerðaráætlun sem gengi út á að bjarga þessum fallegu skepnum til heimahaganna sinna aftur.
Það er þó auðveldara um að tala en í að komast. Ég man þegar björninn kom á Skaga 2008. Þá voru þessar raddir háværar og reyndu yfirvöld að fanga björninn m.a. með deyfibyssu. Það reyndist ekki hægt og varð að skjóta hann á færi.

Það sem stendur uppúr og taka verður tillit til er að þetta eru með hættulegustu skepnum jarðarinnar. Þetta eru engir leikfangabangsar, þeir eru ekki í neinum vandræðum að fella mann og hafa hann í morgunmat ef þannig ber undir.
"Þessi var svo langt frá mannabyggðum" segir fólk. En það var göngufólk yfir í næsta firði og björninn er mjög fljótur í ferðum, "en fólkið var nú látið vita af birninum". Þau rök eru haldlaus því vitneskjan um björn gerir ekkert fyrir óvopnaða göngumenn ef hann ákveður að hafa þá í matinn. Smelltu hér á slóð þar sem sést hvað þessi dýr geta áorkað.

Ég er dýravinur, en ísbirnir eru fyrst og fremst stórhættuleg dýr sem verður að skjóta ef minnsti vafi leikur á að þeir geti komist í tæri við fólk.
Björninn á ekki að njóta vafans.