sunnudagur, apríl 29, 2012

"Mig hefur alltaf langað"...

Algeng setning sem maður heyrir hjá fólki. Einhver sagði að draumar væru til að láta þá rætast. Ef það er rétt þá ætti að fylgja þessari ágætu setningu nauðsyn þess að gera áætlun um hvernig. Ég hef heyrt svo marga tala um hvað þeim langar að gera í framtíðinni, læra eitthvað, fá sér aðra atvinnu, ferðalög, flytjast búferlum og svo allt milli himins og jarðar. Ég hef séð einstaka menn og konur láta verða af draumum sínum en miklu fleiri sem láta sér nægja að dreyma. Það er einkennandi fyrir fyrrnefnda hópinn að hann virðist gera plön um hvernig hægt er að ná markmiðinu. Sumir stoppa þar og virðast haldnir þeirri grillu að það sé nóg að gera planið og síðan ekki meira. Aðrir, og það eru þeir sem oftast ná markmiðum sínum eru þeir sem nenna að bæta síðasta ferlinu við sem er að bretta upp ermar og framkvæma. Þar skilur á milli.

Afhverju er ég að pæla í þessu. Jú ég hef verið að hugsa um þetta undanfarið því ég sé alltaf betur og betur eftir því sem árin líða hversu mikill smiður maður er að eigin gæfu og gæðum ef út í það er farið. Lífið er ekki bara lotterí og spurningin snýst ekki um hvort maður er heppinn eða óheppinn í lífinu þó auðvitað geti lukkan snúist á sveif með eða á móti. Miklu frekar er spurningin hversu vel vandarðu sporin þín og hversu mikla nennu hefurðu og kjark til að framkvæma það sem þig langar.

Stór hópur viðhefur upphafsorð þessa pistils og bætir við, "en ég er orðinn of gamall". Ég er algerlega ósammála þeirri fullyrðingu. Aldur er afstæður og því er allur aldur tilvalinn til að láta drauma sína rætast en allt of margir missa kjarkinn til þess þegar árunum fjölgar og hugsunin um að það styttist í annan endann verður ráðandi afl. Það afl er lífsgæðaræningi því það gefur mikla lífsfullnægju og hamingju að eiga sér markmið og vinna að því að láta það rætast.

Það er því ráð að skoða aðeins hvaða viðskeyti við eigum við þessi orð "mig hefur alltaf langað" rífa sig svo upp á rassinum, bretta upp ermar og hefjast handa.



laugardagur, apríl 28, 2012

Dáyndis allt

Ég þekki það á eigin skinni að dagarnir eru misgóðir, eða jafnvel ákveðin tímabil sem maður gengur í gegnum. Ég geri það gjarnan að kíkja um öxl og líta yfir farinn veg. Ef ég skyggnist tuttugu ár aftur þá sé ég krepputíð hjá okkur fjölskyldunni. Hún var hörð við okkur og skildi eftir sig spor sem marka allt sem á eftir hefur farið. Hún stóð yfir í rúman áratug frá tuttugu og níu ára aldri til fertugs.
Kreppan margumtalaða í dag er eins og þreytandi rigningartíð síðvetrar þar sem maður bíður eftir að vorið fari að láta sjá sig og allt verði grænt aftur. Kreppan, eins og hún er þreytandi þá er hún vissulega staðreynd en hún er miklu líkari leiðinda tíðarfari en harðneskju.

Undanfarnir mánuðir hafa verið ótrúlega annasamir hjá okkur og lítill tími gefist til að huga að öðru en vinnu. Einhvernveginn finnst manni að vinnan komi til manns og svo bíður maður eftir að lát verði á en svo er það bara þannig eins og einn góður maður sagði við mig um daginn þegar mér varð á að segja að ég hefði fullmikið umleikis: "þú sérð um það sjálfur að hafa svona mikið að gera" og það var auðvitað hárrétt.
Hver er sinnar gæfu smiður (eða skrifstofustúlka) og þannig er það með okkur öll. Mælikvarðinn á raunveruleg verðmæti verður aftur á móti ekki lesinn fyrr en sagan er sögð.

Mín innrétting er þannig að ég vil hafa nóg að sýsla en ekki of mikið. Ég vil hafa tíma fyrir lífið sjálft, til að leika mér, hugsa um garðinn minn, leika við barnabörnin, ferðast og eiga samfélag við mann og annan. Það er það sem gefur lífinu gildi þegar upp er staðið og vegur meira á gæðamælikvarðanum en vinna þótt hún göfgi manninn eins og sagt er. það er jú þannig eins og segir í heilagri bók að "Ekkert er betra með manninum en að eta og drekka og njóta ávaxta handa sinna.

Þessvegna er ég hættur þessu pári núna og ætla að hella upp á kaffi fyrir frúna sem var að koma niður og njóta restar morgunsins með henni, fá mér að eta og drekka og njóta vel.

föstudagur, apríl 06, 2012

Prinsippin...

...eru engin lögmál. Allavega virðist ekki mikill vandi að brjóta prinsipp með einni ákvörðun. Við opnuðum ísbúðina á miðvikudaginn og fundum út að það væri asnalegt að hafa hana opna í tvo daga og loka svo þann þriðja. Það er því opið í dag föstudaginn langa en lokað á páskadag í staðinn. Ég skal reyndar viðurkenna að prinsippið að hafa allt lokað á föstudaginn langa er nokkuð naglfast í mér og ég þurfti að fara í smá rökræður við sjálfan mig til að ákveða að hafa opið.

Í fyrsta lagi er það bara venja úr uppeldinu að aðhafast ekkert þennan dag, þ.e. hvergi er talað um það í heilagri ritningu. Í öðru lagi er það náðin sem er ávöxtur krossfestingarinnar og síðan upprisunnar sem gerir að verkum að allt er í sjálfu sér leyfilegt og í þriðja lagi er meira af ferðamönnum á ferðinni í dag en á páskadag því þá eru allir heima að borða súkkulaði.

Föstudagurinn langi er samt í órofa sambandi við páskadag og saman mynda þeir undirstöður kristinnar trúar. Ég hef sagt það áður og segi enn að þessi hátíð ætti að vera stærsta hátíð kristinna manna en ekki jólin. Það var á þessum degi sem Kristur lýsti yfir á krossinum að verkið væri fullkomnað. Það var á þessum degi sem náðin varð til og án hennar væru margir kristnir menn margdæmdir norður og niður, því mörg verkin þeirra flokkast varla sem farmiði til himna.
Ég geng því brosandi út í daginn og opna ísbúðina því ég trúi á náðina.

sunnudagur, apríl 01, 2012

Heim aftur

Heima er best eins og segir. Danmörk er líka fínasta land þó ekki vildi ég búa þar. Hér hef ég það sem ég met mest í lífinu. Fjölskyldan trónir á toppnum. Þar stendur mér næst kjarninn minn en stórfjölskyldan mín, systkini, mágar og mágkonur, frændur og frænkur, tengdaforeldrar og vinir hafa líka mikið vægi. Svo hefur landið sjálft mikinn segulkraft á mig.
Það var yndislegt að heyra í farfuglunum sem hafa komið hingað meðan við vorum utan. Það finnst kannski mörgum skrítið hvað þessi rútína náttúrunnar togar í mig en það skiptir mig ekki máli. Árstíðirnar hér á landi búa við sjarma, sinn með hverju sniðinu og mér finnst þær allar heillandi. Ég verð víst aldrei búsettur annarsstaðar en hér, Ísland er best.

Dominos verkefnið gekk vonum framar og tilætluð áætlun gekk eftir, að skila því á fimm vikum sem var djarft, enda var ég með vel valda áhöfn, góða verktaka sem stóðu sig vel.

Danmerkurferðin var líka fín. Hún var hugsuð sem frí- og vinnuferð. Við mynduðum tengsl við danska heildsala sem við höfum nú góða tengingu við og getum flutt inn mjög fallegar danskar vörur fyrir Home design, en dönsk hönnun er mjög vinsæl. Við keyptum líka helling inn fyrir Basicplus.
Sumarhúsið þarna var þegar til kom, fimm stjörnu, og þar var allt til alls. Við höfðum það því gott þar í skóginum og ekki síður í framhaldinu hjá Óla og Annette sem tóku vel á móti okkur eins og venjulega.

Nú erum við komin heim og verkefnin bíða á færibandi. Við opnum ísbúðina fyrir páska og því er líklegt að mikið verði að gera hjá okkur yfir páskana. Verulega hefur bæst við lögfræðileg verkefni undanfarið og Erla er á kafi í bókhaldsvinnu svo það er í mörg horn að líta þessi dægrin.

Ég á von á Emmessís mönnum á eftir svo nú er það kaffibollinn með frúnni. Hún er komin á ról og það freistar mín alltaf að setjast niður með henni og spjalla aðeins áður en farið er út í daginn.

Páskar framundan og frí, njótið því daganna vinir.

sunnudagur, mars 18, 2012

Afsakið hlé

Það telst góður vandi að hafa full mikið af verkefnum á sinni könnu er það ekki? Ég lít raunar ekki á það sem vanda heldur blessun. Opnun Dominos hér fór varla framhjá nokkrum manni, en formleg opnun var í gær. Verkefninu er því lokið og við taka næstu verkefni.

Ný reynsla liggur við tærnar. Ég var dómkvaddur sem matsmaður af Héraðsdómi Reykjaness til að leggja mat á þrjú mál sem tekist er á um, tvö gallamál sem varða byggingar og eitt sem snýr að skiptingu kostnaðar vegna lóðarvinnu við tvö fjölbýlishús. Þetta er mikil ábyrgð því matið er lagt fram sem sönnunargagn um umfang og kostnað.

Ísbúðin fór á bið þegar Dominos verkefnið byrjaði. Nú er það komið á skrið aftur og er ætlunin að opna fyrstu dagana í apríl.

Svo hleðst á snjóboltann "lögfræðileg verkefni" hjá mér sem ég velti af stað fyrir rúmu ári síðan. Ég sé ekki eftir því að hafa opnað lögfræðistofu sjálfur. Er með allnokkur mál undir núna sem ég er að vinna að og fleiri bætast við reglulega. Það hentar mér vel að vera sjálfstæður í því sem ég er að gera hverju sinni, á erfitt með að láta aðra stýra mér, enda tel ég mér trú um að ég geri það best sjálfur ;-)

Allir þurfa að hvíla sig og við ætlum að taka smá pásu frá öllu núna, það verður yndislegt. Sumarhús í Danmörku bíður okkar. Það verður samt í bland, frí og vinnuferð, því við ætlum að heimsækja tvær heildsölur fyrir Home design og versla inn fyrir búðina og líka eitthvað fyrir Basicplus.
Það er samt fjarri mér að kvarta undan því að vera upptekinn í dagsins önn, ég lít á það sem forréttindi enda þrífst ég vel í ati.

Ein hugsun hér fyrir daginn. Allir eiga sér drauma um framtíðina, eitt lítið orð skilur á milli þeirra sem láta þá rætast og hinna sem ná því ekki... það er orðið "framkvæmd"

Njótið dagsins.

sunnudagur, febrúar 26, 2012

Úr handraðanum

Blessað fólkið í landinu okkar er orðið svo gegnumsýrt af krepputali að það sér ekki til sólar þegar léttir til.

Ég sagði það og segi enn að landið okkar, þetta frábæra Ísland sem kraumar af auðlindum sem þjóðir heims öfunda okkur af, færir okkur fyrst allra þjóða upp úr kreppunni. Landið er okkar auðlind. Fólk sér frumkraftana sem mynduðu þennan heim myndbirtast í beinni útsendingu frá Íslandi og situr fast á flugvöllum um gjörvallan heim vegna litlu eyjunnar í norðri. Þessir frumkraftar sem allt mannkyn ber virðingu fyrir og litla þjóðin sem býr hér hefur á sér þennan sama stimpil og þykir hafa til að bera sömu frumkraftana og landið sjálft.

Við búum vel að hafa úr öllum þessum auðlindum að spila. Fiskurinn, varminn, orkan og nú síðast olían sem vísindamenn eru ekki lengur í vafa um að finnst á landgrunninu fyrir austan land eru gullnámur sem gefa vel og hagkerfið okkar er örsmátt svo það þarf ekki mikið.
Enda þegar litið er yfir sviðið þá eru hagtölur okkur hagfelldar, við sjáum mjög þokkalegan hagvöxt á árinu sem jafnast á við best settu þjóðir álfunnar. Fiskafurðir eru í hæstu hæðum og vöruskipti við útlönd eru hagstæð um tugmilljarða mánuðum saman. Hækkandi lánshæfimat okkar undirstrikar að við erum á réttri leið.

Gott fólk við höfum fulla ástæðu til að líta upp úr svartnættinu og láta þessar staðreyndir auka okkur bjartsýni og von til framtíðar.

Svo auðvitað gildir hið fornkveðna að "áhyggjur auka ekki spönn við aldurinn" svo þannig séð er það betra lífsmottó að líta bjartari hlið tilverunnar en þá svartari.

Njótið dagsins vinir.

sunnudagur, febrúar 12, 2012

Ómstríður kaflinn...

...um þessar mundir. Kallinn á kafi í verkefnum. Blogga ekki mikið undir álagi eins og dyggir lesendur mínir vita. Það fer gjarnan þannig ef hugurinn er á miklu flugi að ég gef mér ekki tíma til að setjast niður og skrifa.
Þessari vinnutörn á samt að ljúka í síðasta lagi 16. mars. Þá verður gott að setjast niður og bjóða frú Leti og fleiri góðum gestum í kaffi og jafnvel gistingu.

Þangað til... skulum við samt njóta daganna.

sunnudagur, febrúar 05, 2012

Á seinna fallinu

Ég get verið óttalegur morgunhani og á oftast erfitt með að "sofa út" í skilningi flestra þó ég haldi því reyndar fram að ég hljóti að "sofa út" ef ég vakna af sjálfsdáðum þótt klukkan sé í hugum sumra ennþá nótt. Það telst því til stórundra að ég sofi til klukkan níu eins og núna. Ég er því búinn að ganga aðeins á þennan stórkostlegasta tíma dagsins því morgnar eru minn tími.
Tíminn er eins og hraðlest með okkur um borð með umhverfið þjótandi framhjá á ógnarhraða. Daginn lengir hratt og maður sér orðið mikinn mun frá svartasta skammdeginu í desember, það er alltaf gott, hækkandi sól með birtu og yl kætir andann og efnið.

Dominos á Selfossi verkefnið er komið á fullt svo það verður mikið að gera næstu vikurnar. Verst að ekki tókst að opna ísbúðina áður en þetta tók við. Arkitektinn sem var að vinna fyrir okkur var engan veginn að skila sínu svo það endaði með að við fengum annan sem vinnur mun betur með okkur. Það verður gaman að opna aftur því búðin verður afar glæsileg.
Dominos hér verður líka lang flottasti Dominos staðurinn á Íslandi, mikið í hann lagt. Þetta er fyrsti staðurinn með veitingasal en Dominos í heiminum er að fara að breyta stöðunum sínum á þennan veg. Þetta er einn af fyrstu stöðunum í veröldinni sem verður með þessu sniði.

Dagurinn í dag lofar góðu, veðrið er eins og best gerist og vorið er framundan.
Njótið vel vinir.

fimmtudagur, janúar 26, 2012

Illskan í honum Kára

Það fauk í hann í gærkvöldi og hann hefur ekki linnt látunum síðan. Þetta er versta vetrarveður síðan við fluttum hingað 2006. Ég hafði varann á í gærkvöldi og fylgdist með því veðurfræðingar höfðu sagt að ætti að hvessa. Nálægt miðnætti var enn logn hér en það stóð ekki lengi eftir það. Með hvelli rauk upp stormur svo ekki sást út úr augum og gatan fylltist á hálftíma af sköflum.
Í alla nótt hristist húsið stafnanna á milli og snjóbylurinn var þannig að ekki sást á milli húsa. Það er enn rok en bylurinn hefur minnkað.
Ég kíki alltaf eftir færðinni á vefnum, sérstaklega heiðinni. Kortið hef ég aldrei séð svona eins og sést hér að ofan, allt meira og minna lokað.
Ég fæ víst ekki tækin úr bænum sem ég átti að fá í morgunsárið fyrir ísbúðina.

Hvað um það, heimurinn ferst ekki við það. Kosturinn við svona veður er auðvitað sú staðreynd að það væsir varla um nokkurn mann, hlýju húsin okkar eru orðin svo góð að flestir finna fyrir notalegheitatilfinningu þegar veðrið lætur svona.

Um að gera að njóta þess meðan er.

sunnudagur, janúar 22, 2012

Tærnar á sjálfum mér...

...uppi á borði eru það eina sem skyggir á logana því ég er sokkinn í sófann hér framan við arininn með tölvuna í fanginu og blogga. Snarkið lætur vel í eyrum og lágvær Tírólatónlist spilar undir mómentið. Það er vandalaust að gleyma sér hér í kofanum, láta hugann reika um Tírólahérað og leyfa góðum minningum að renna gegnum hugann, það kostar ekki krónu.

Við reynum að nota kofann eins og við getum, hann er svona staður sem vindur ofan af manni þegar mikið er að gera þó ekki sé nema sólarhringur eins og núna.

Fyrsta verk hér er oftast að vekja gömlu klukkuna til lífsins, trekkja sláttinn og tikkið, þessi 112 ára gamla stofuklukka er nauðsynleg til að skapa móment eins og við viljum hafa það, gamla sveitarómantíkin, þið vitið þessi stóíska. Út um gluggann sé ég kurlast niður blaut snjókorn annað slagið sem fjúka til og frá undan Kára kallinum sem virðist hafa gaman að því að leika sér núna. Hér er allnokkur snjór og greinilega margfrosinn því hann er eiginlega harðfenni með svellbunkum.

Það tilheyrir að elda góðan mat hér, þá er gott að eiga sæmilegan vetrarforða í kistunni og geta tekið eitthvað með á grillið. Við Erlan mín erum svo heppin að kunna svo vel við okkur að okkur leiðist ekki þó við séum tvö í kotinu.
Við erum bæði óendanlegir sælkerar og því hef ég gaman af því að gera tilraunir á grillinu fyrir hana. Hún segir mig dekra sig upp úr skónum með þessu en það er eins og hún fatti ekki hvað það er í raun lítið endurgjald fyrir það sem hún dekrar mig.
Kannski erum við bara dekruð bæði hvort á sinn hátt.

Hún er búin að setja upp kartöflur svo það er best að ég fari að gera mig kláran í grillunina. Heim á morgun og alvaran í nefið.

sunnudagur, janúar 15, 2012

Morgunbollinn...

...er alltaf á sínum stað. Hann er meiri viðhafnarbolli á sunnudagsmorgnum en aðra daga því þá á ég frí allajafna. Krossgáta og nokkrar sudoku þrautir eru oft fylgifiskur sunnudagsbollans og svo á ég það til að setjast við tölvuna og renna yfir fréttir dagsins, veður, fésið og svo dett ég oft niður í það að blogga aðeins.

Svona friðsælir morgnar eins og þessi, veðrið minnir á vor og Kári vinur minn sefur svefni hinna réttlátu og lætur ekki á sér kræla verða mér oft tilefni hugrenninga, og þá gjarnan um gæðin sem ég bý við sem mér finnst svo gott að setja niður á ritmál til að eiga síðar.
Það er nálægt því að vera tíu ár síðan ég byrjaði að blogga, þar af átta hér á blogspot. Það telst víst varla tískufyrirbæri lengur að blogga því fáir fást við blogg lengur eftir að fésið hertók netheima og annar tjáskiptamáti steinrann í kjölfarið. Ég er víst steinrunninn fornmaður, hef gaman að fésinu en  ég les gjarnan blogg hjá völdum einstaklingum líka.

"Orð eru álög" segir einhversstaðar og ég velti því stundum fyrir mér hvort það geti verið rétt. Þau eru allavega til alls fyrst því hugmyndir breytast gjarnan fyrst í orð áður en þær verða að framkvæmd. Ég hef oft sagt að ég þrífist best á því að hafa nóg fyrir stafni og vilji vera upp fyrir haus í verkefnum. Ef orð eru álög þá er kannski best að hætta öllum yfirlýsingum. Ég tek svona til orða vegna þess að opnun ísbúðarinnar er rétt að bresta á eftir mikla vinnutörn því Home design búðin var inni í þeim pakka líka og ég var farinn að hugsa um að það væri gott að eiga smá tíma til að hvíla sig og taka því rólega þegar ég fékk símtal frá einum eigenda Dominos á Íslandi. Erindið var að biðja mig að sjá um að opna Dominos pizzustað hér á Selfossi. Ég tók auðvitað verkefnið að mér enda áskorun í því, því verkið á að vinnast á miklum hraða. Ég lít á þetta sem blöndu af verktöku og lögfræði því verkefnið felur í sér hagsmunagæslu fyrir þá, öflun tilboða, samningagerðir og mikla skipulagsvinnu.

Jæja það heyrist brölt á efri hæðinni og því kominn tími til að skella í annan bolla og drekka hann með betri helmingnum mínum.
Njótið dagsins.

laugardagur, janúar 14, 2012

Betri helmingurinn á afmæli

Það tikka á okkur árin sem betur fer og afmælisdagar fjölskyldunnar verða fleiri og fleiri eftir því sem okkur fjölgar. Erlan er mikið afmælisbarn og ég elska það þó ég sé ekki á sama kaliberi með það sjálfur. "Það er gott að elska" söng Bubbi. Það er fallegt lag og texti sem ég hef oft persónugert við okkur sjálf. Ég set þá Erluna í textann og sjálfan mig sem flytjanda. Ég verð að hafa þennan háttinn á þar sem ég hef ekki rödd sem nýtur sín nema í sturtunni.

Erlunni var úthlutað það krefjandi hlutverk að verða lífsförunautur minn. Það var mín gæfa. Hún hefur mótað mig gegnum tíðina með einlægni sinni og hreinlyndi og dregið fram í mér mínar bestu hliðar.
Skaparanum hugnaðist að velja mér frábæra konu sem er auðvelt að elska og sem dekrar mig oft meira en ég hef gott af. Hún er frábær móðir stelpnanna okkar, amma, tengdamamma eða önnur hlutverk sem hún sinnir af fágætri kostgæfni.

Ég hlakka til áranna framundan Erla mín og vona að Guð gefi okkur þau mörg.
"Föruneytið" ákvað að labba saman þangað sem sólin sest, þú manst.... tvær krumpaðar...!

sunnudagur, janúar 08, 2012

Hálkuleysi og fögur fyrirheit.

Gærdagurinn var kærkominn, hann var notaður til að gera ekkert eða því sem næst. Við nýttum hann því til að kíkja austur í kofa og athuga hvort ekki væri allt í lagi þar, sem var. Ég kveikti upp í kamínunni og við létum eftir okkur að dvelja þarna í nokkra klukkutíma við arineld. Kamínan er fljót að hita upp og eftir korter til hálftíma er orðið vel hlýtt inni. Það var ljúft að setjast aðeins niður í sveitasælunni og leyfa sér að slaka á við eldinn og hugsa um þau fögru fyrirheit sem kofinn lofar þegar vorar á ný.
Við kíktum svo á Gylfa og Christinu og ætluðum að vitja Hansa og Auju líka en tíminn flaug hjá eins og honum er svo gjarnt.

Í dag eigum við von á fólki hingað í Húsið við ána því Hrund á afmæli í dag og Erlan eftir nokkra daga. Þær eru báðar miklar afmælis- og jólabörn og njóta þessara hátíða meira en flestir. Til hamingju með dagana ykkar elsku yndin mín.

Það rignir heil ósköp þessa stundina svo vonandi tekur eitthvað af þessum svellalögum upp. Það kom reyndar á óvart hvað var lítil hálka á leiðinni austur í gær, allavega á þjóðvegunum. Það var auðvitað glæra á heimreiðum og afleggjurum þar sem ekki var búið að sanda en annars í fínu lagi.

Frúin er farin að brölta á efri hæðinni svo það fer að koma tími á kaffibollann með henni. Ég er auðvitað búinn með fyrsta bollann sem var tekinn snemma í morgun að venju.

fimmtudagur, janúar 05, 2012

Stýrimaður á eigin fleyi

Ég hlustaði á prédikun um daginn hjá séra Kristni Á. Friðfinnssyni sóknarpresti hér í Selfossprestakalli. Skemmtilega framsettur boðskapur sem náði eyrum mínum og athygli um hvernig höndla má hamingjuna á átta mismunandi vegu. Hann byggði lesturinn á rannsóknum viðurkenndra sálfræðinga sem gerði niðurstöðuna marktækari í mínum huga.

Ekki er hugmyndin að endurtaka hér það sem hann sagði, utan eitt atriði sem náði eyrum mínum sérstaklega og þá aðallega vegna þess að ég gat svo vel staðsett sjálfan mig þar. það snerist um að vera sjálfur með hendur á stýri í eigin lífi þ.e. að láta ekki aðra stýra gjörðum manns.

Margur maðurinn lifir lífinu í stöðugri þægð við náungann og aktar gjarnan í takti við það sem hann telur að aðrir vilji sjá hann gera og leyfir þannig öðrum að stýra lífi sínu.
Ég óx upp í umhverfi sem krafðist undantekningarlausrar þægðar við ákveðnar kenningar sem mér voru fastmúraðar og innbrenndar sem hinar einu sönnu og réttu. Trúarleg þægð sem ég hafði ekki afl til að skoða gagnrýnum augum fyrr en á fullorðinsárum, m.ö.o. ég eftirlét öðrum að stýra fyrir mig.

Það var frelsi í mínu lífi að finna þann stað að láta mér fátt um finnast álit annarra á mínum skoðunum eða gjörðum innan þess ramma sem eðlilegt er og fellur undir að hlusta á álit meðreiðarsveina sem oftar en ekki er til góðs.
Nýju fötin keisarans fjalla um þetta efni á sinn skemmtilegan hátt. Allir láta sem þeir sjái ekki fataleysi keisarans og skjalla hann fyrir flotta búninginn hans þangað til litla stúlkan læðir út úr sér að hann sé ekki í neinum fötum. Þægðin allra hinna gæti minnt mig á kafla úr fortíð minni.
Með þessu er ég ekki að líkja trúnni við kómískt fataleysi keisarans, öðru nær, trúin er mér dýrmæt, ég er að tala um gömlu kreddurnar og faríseaháttinn.

Ég læt ekki lengur að þægðinni og kýs að standa utan trúfélaga. Það truflar mig ekki, enda hefur það minna en ekkert vægi þegar trú mín er skoðuð. Hún hefur breyst því neita ég ekki, hún byggir á öðrum gildum, að mínu viti nær kjarnanum, fjær kreddum og yfirskini.

Séra Kristinn sagði það lykilatriði að vera sjálfum sér trúr og fylgja eigin sannfæringu. Þar er ég, með báðar hendur á stýri, og held fast.

Njótið daganna vinir.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Nýtt ár

Það heilsaði með logndrífu og hitastigi um frostmarkið, sem kallast blíða miðað við árstíð og venju undanfarinna vikna. Við áttum góð og róleg áramót í gærkvöldi. Hafþór og Arna ásamt föruneyti voru hjá okkur og gistu í nótt. Hrund fór til höfuðborgarinnar í nótt, hún er enn að slíta partískónum sínum og kannast ekkert við að þurfa að sofa þegar annað er í boði.

Við verðum hér samt öll á eftir og ætlum að eyða deginum saman hér í Húsinu við ána. Árið var kvatt með samveru við fólkið okkar og nýju ári heilsað með enn meiri samveru, mér líkar svona, enda fellur þetta algerlega að hugmyndum mínum um hvernig ég vildi haga samskiptum við ættlegginn okkar þegar hann stækkaði.

Þrátt fyrir kólguský í heimsmálunum lítum við hér væntandi til framtíðar, ég hef á tilfinningunni að þetta ár verði gott og farsælt fyrir okkur. Árið verður líka gott fyrir okkur sem þjóð, ég held að við séum að gægjast upp fyrir brúnina þar sem við féllum fram af.

Ég óska ykkur lesendum mínum þess eins að árið beri með sér gæfu og farsæld og verði ykkar besta ár fram að þessu.

Njótið dagsins vinir.

laugardagur, desember 31, 2011

Gömlu göturnar...

Árið hefur einkennst öðru fremur af neikvæðum fréttaflutningi, af kreppunni margumtöluðu, óráðsíu af ýmsum toga, mótmælum, byltingum, jarðskjálftum og stríði um víða veröld. Oft setur mann hljóðan og maður spyr sig hvert erum við að fara, þó auðvitað sé líka margt jákvætt og gott á ferðinni?

Öll þessi neikvæða umræða grefur um sig í sálartetri þjóðarinnar og bætir ekki ástandið. Mig setur oft hljóðan yfir fréttaflutningi, ekki síst þegar rætt er um stöðu kristinnar trúar og kirkjudeilda í landinu okkar, það heggur nærri mér. Þjóðkirkjan og mörg trúfélög eru í helgreipum orðaskaks og átaka um hluti sem kristin kirkja ætti aldrei að vera bendluð við. Það er svo komið að þjóðin holdgerfir kristni við misnotkun af ýmsum toga, ekki síst gagnvart börnum og það sárasta er að hún á innistæðu fyrir því.

Eins og kjarninn í orðum Krists er gullvægur og góður virðist sem hann sé gufaður upp og heyrist ekki, því hismið og dauðu kvistirnir hylja það góða fagra og fullkomna sem felst í orðum Krists. Innsti kjarni þessara orða, "Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan", fellur siðferðislega og í raun, undir lífsspeki sem allir geta sameinast um, trúaðir eður ei. Þessi orð flísfalla undir "hið góða fagra og fullkomna" sem kristin trú felur í sér.
Það er meira að segja svo að fáir myndu neita því, ekki einu sinni hörðustu trúleysingjar, að Ísland væri betur sett ef þessi kjarnaboðskapur væri í hávegum hafður og ekki síst hjá kirkjunnar þjónum.

Mér flaug í hug hið fornkveðna orð ritningarinnar, "Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld" því mér sýnist einhvernveginn að þessi orð eigi vel við í dag þ.e.a.s. ef ég leyfi mér að kalla orð Krists "gömlu göturnar".
Orðin eru þarna ennþá, gamli stígurinn er þarna enn einhversstaðar undir draslinu.

Græðgisvæðingin hefði varla fengið þennan byr í seglin eins og raunin var ef þessi gömlu sannindi hefðu verið leiðarljós. Þessi kærleiksboðskapur er í eðli sínu hljóðlátur en skín skært þar sem hann er viðhafður, hann felst í hjálp við náungann, virðingu og mannlegri reisn. Það er því sorglegra en tárum taki að það skuli vera tilteknir kirkjunnar þjónar sjálfir, settir boðberar þessa góða boðskapar sem hafa öðrum fremur kaffært hann með illum gjörðum sínum, skólabókardæmi um hvernig skemmt epli eyðileggur allan eplakassann.

Ég vona að kristin trú færist nær kjarna sínum á árinu sem er að heilsa okkur og að þjónar kirkjunnar færist nær hlutverki sínu og verði þeir boðberar ljóss og friðar sem þeim er ætlað að vera.

Ég þakka lesendum mínum fyrir góða samfylgd hér á bloggsíðunni og þakka fyrir heimsóknir ykkar hingað sem eru langleiðina í að vera fimmtíu á dag.
Eigið jákvætt og farsælt ár framundan og... Guðs blessun í ríkum mæli.

mánudagur, desember 26, 2011

"Afi, hvernig er að vera afi"...

...var spurt úr fanginu á mér í gær og spyrjandi og saklaust augnaráð vænti svars. Það er alveg æðislegt því ég á svo mörg yndisleg barnabörn eins og til dæmis þig. Orðalaust fékk ég þétt faðmlag um hálsinn og breitt bros, engin orð.
Ég hef verið að hugsa um þetta í morgun og finn með sjálfum mér hvað ég nýt mikilla forréttinda að fá að lifa það hlutverk að vera afi. Það eru ekki ónýt jól sem ná að fanga hugann með þessum pælingum.

Afahlutverkið er beint framhald af pabbahlutverkinu sem ég hef alltaf notið í æsar og fundist ég ríkur maður þótt veraldlegt ríkidæmi hafi stundum fetað sig framhjá okkur.
Ég skal viðurkenna að ég hugsaði nánast aldrei um afahlutverkið, var of upptekinn af pabbahlutverkinu. Ég gerði mér einhvern veginn aldrei ljósa grein fyrir því að bónusinn fyrir að ala upp stóran barnahóp væri enn miklu stærri afabarnahópur. Samt átti ég mér einhverja óljósa mynd af því að þegar dæturnar flyttu að heiman yrði heimilið okkar alltaf einhverskonar miðstöð fyrir þær og fólkið þeirra.
Árin líða hratt og óljósa myndin mín er orðin kristaltær og afar falleg og prýðir heimilið okkar framar öllu öðru.

Afi, hvernig er að vera afi? Það er lífið sjálft í mínu tilfelli. Það gefur mér þann stað að vera pabbi og tengdapabbi sem enginn annar hefur innan þessa yndislega hóps sem ég á og svo kórónuna sjálfa... að vera afinn sem allur þessi litli barnaskari á. Það gefur svo hlutverkinu aukið vægi og vigt að barnaskarinn virðist hafa ánægju af nærveru minni og ömmunnar sem, eins og allir vita sem til þekkja, er einstakt eintak. Fornafn hennar kalla ég "eðal"... og svo má bæta við mamma, amma, eiginkona, vinkona og svo allt hitt sem ég nefni ekki.

Já, afinn á þessum bæ, pabbinn, eiginmaðurinn, smiðurinn, lögfræðingurinn og allt hitt sem hægt er að skreyta sig með er lukkunnar pamfíll vegna þess að þegar hann lítur um öxl er hann sáttur og ef hann lítur fram á veginn hefur hann ríka ástæðu til að hlakka til því ríkidæmið hans liggur ekki í veraldlegu drasli heldur í fólkinu hans og það er ekkert annað en... fljótandi, fljótandi auðlegð.

laugardagur, desember 24, 2011

♫ ♫ Jólin eru að koma ♫ ♫

Friður sé með þér og fögnuður um jólin. Já jólakveðjurnar og lögin óma um húsið og það er ilmur af jólum því hamborgarhryggurinn mallar á hellunni og gefur fyrirheit um góða samveru við sig um sexleytið. Erlan setti upp grautinn áðan en það er kúnst að hantera hann rétt. Hún hefur alltaf haft það hlutverk að sjá um hann en nú er það ég sem fæ það verkefni því frúin ákvað að hafa opið í Basic plus og Home design í tvo tíma á aðfangadag.

Við verðum fimm hér í kvöld, já þú last rétt, við Erla og Hrund og svo buðum við Önnu sem vinnur hjá okkur í Basic plus að vera hjá okkur ásamt dóttur sinni. Hún er frá Rússlandi og býr ein, það lá því vel við að bjóða henni að vera með okkur.

Það hefur hækkað eitthvað í græjunum hér á bæ, alveg rétt Hrundin er komin heim úr búðinni og syngur hástöfum með eins og henni einni er lagið. Við erum að undirbúa hádegismatinn hér sem verður tilbúinn þegar Erlan kemur úr búðinni, en það er hefð fyrir honum hér eins og flestu öðru um jólin. Laxinn, lifrarkæfan, síldin og allskonar góðmeti er á borðum. Sætindi eru löngu farin af jólaborðum hér og í staðinn erum við með svona gourmet í staðinn, bæði hollara og betra.
Jæja ég ætla að fara og hjálpa Hrundinni að gera klárt.

Ég óska ykkur vinir gleðilegra jóla og njótið daganna framundan.

föstudagur, desember 23, 2011

Þorláksmessu- eða eitthvað annað þetta og hitt

Skötuát á þorláksmessu er eftir því sem ég best veit ekki gamall þjóðlegur siður nema á vestfjörðum þar sem siðurinn er ævaforn, heldur markaðssetning á matvöru sem varð vinsæl á afmörkuðu svæði. Ekki var um að ræða neina munaðarvöru heldur fisk sem hægt var að geyma líkt og siginn fisk. Skötuát á þorláksmessu kemur úr kaþólskum sið því á föstunni mátti ekki borða góðan mat heldur átti það að bíða til jólanna. Skatan veiddist bara á vestfjarðamiðum á þessum tíma hér áður og því kemur siðurinn að vestan, svona fyrir ykkur fróðleiksþyrsta. Sunnanlands var t.d. rýrasti harðfiskurinn soðinn á þorlák.

Ég verð að segja að ég kann mun betur við að endurvekja rammíslenska siði og venjur eins og skötuát frá fyrri tíð heldur en þessar amerísku mýtur sem tröllríða hér annað slagið t.d valentínusardagur, þakkargjörðardagur, hrekkjavöku og allskyns aðrir dagar og siðir sem við erum að eltast við.
Þessir dagar eiga þó það sameiginlegt að verslun með það sem fylgir þessu er drifkrafturinn á bak við markaðssetninguna, það er hægt að græða á þessu.

Það er svo auðvitað val hvað maður setur upp í sig og lætur vel líka. Amerísku mýtunni fylgir yfirleitt eitthvað bragðvond en aftur á móti þeirri íslensku eitthvað gott og kjarnmikið.
Ég er reyndar svolítill villimaður þegar kemur að mat. ég er til dæmis með hrátt hangiketslæri hér á eldhúsborðinu og fæ mér flís annað slagið og þykir það ómótstæðilega gott. Skatan er líka í uppáhaldi hjá mér þó mér finnist gott að hafa hana bara einu sinni á ári. Siginn fiskur er fínn og hákarl er afbragð.

Ég fékk senda skötu að vestan frá fólki sem við kynntumst í Austurríki í sumar. Við hittumst Erlu fjölskylda í dag hjá Sirrý og Guðjóni og snæðum hana saman, það er að segja þeir sem kunna að meta þetta góðgæti.

Jólin á morgun og allt að gerast.
Njótið áfram.

miðvikudagur, desember 14, 2011

Aðventan á fullri ferð

Aðventan held ég sé í hugum flestra tími kertaljósa og huggulegheita og ég held að það sé einmitt formúlan að því að gera þennan tíma að tíma tilhlökkunar og eftirvæntingar eins og hann þarf að vera.
Það hefur oftast verið þannig í mínu lífi að þessi tími hefur verið frekar rólegur miðað við árið í heild, nema síðustu árin sem hafa einkennst af prófatörn á þessum tíma og svo núna er ég á kafi í framkvæmdum svo það fer lítið fyrir rólegheitunum þessa dagana.
Ég ætla samt að taka einn aðventufrídag þar sem við Erlan gerum ekkert nema njóta lífsins og dinglumst í bænum, hittum krakkana og gerum eitthvað úber skemmtilegt, svo maður sletti aðeins.
Vinnudagur í dag og sjáum svo til. Njótið dagsins.