þriðjudagur, desember 28, 2004

Mesta þörf sögunnar....

á neyðaraðstoð, eru skilaboðin til okkar af hörmungunum í Asíu. Það er staðreynd að fjarlægðin gerir okkur ómeðvitaðri um þær hörmungar sem yfir dynja úti í hinum stóra heimi og manni finnst einhvernvegin alltaf að aðrir muni hjálpa.
Allt sem nú þarf er samansafn af mjög mörgum þúsundköllum..... þar sem hver einn þúsundkall hefur sama vægi og hinir.

Við erum að fara að halda áramót. Við Íslendingar höldum áramót með meiri klassa en annarsstaðar þekkist í veröldinni.
Flest kaupum við eitthvað af púðri til að brenna þetta kvöld.
Hvernig væri nú að líta upp úr nægtabúrinu og til þessara hörmunga og svara kallinu um aðstoð. Væri ekki púðurpeningurinn þetta árið betur kominn í lyf eða mat fyrir þetta hrjáða fólk.
Væri nokkuð svo galið að sýna börnunum okkar í verki hvar áherslan liggur hjá okkur.
Hvatning mín til okkar er að brenna ekki peningunum þetta árið heldur leggja sömu upphæð og annars væri brennd á gamlárskvöld, í púkkið til hjálpar. Rauði krossinn er með söfnun í gangi. Með því að hringja í síma 907 2020 skuldfærirðu einn þúsundkall til söfnunarinnar.

Ég held að enginn hér muni eiga verri áramót fyrir vikið en kannski munu einhverjir eiga þau raunverulega betri.......... vegna þess að einhver norður á íslandi ákvað að gefa eina handfylli, fyrir púðurpeningana sína.

Eigið góðan dag.

laugardagur, desember 25, 2004

Gleðileg friðarjól.

Loksins komin einu sinni enn. Hátíðleikinn allsstaðar hvert sem litið er. Allir fínt klæddir og í góða skapinu sínu. Besti matur ársins á borðum. Friður og stóísk ró. Andi jólanna yfir öllum. Færir hugann til baka um 35 – 40 ár þegar ég var barn í foreldrahúsum, þangað sem fyrirmynd jólanna minna er komin. Þá var desember lengri mánuður en í dag.....! Þá létu jólin bíða eftir sér. Eftirvæntingin óbærileg á köflum. "Jólastundin okkar" stytti aðfangadag svolítið en samt var hann ofboðslega langur. Klukkuspilið í útvarpinu hljómaði eins og frelsandi engill, biðin á enda. Bara eftir að borða jólamatinn og svo loksins hátindurinn........ pakkarnir.
Jú þetta voru pakkajól þá eins og nú. Innihaldið kannski fábrotnara en gleðin jafnríkjandi þá og nú yfir innihaldinu..... Ekki minni.
En það er hátíðleikinn sem stendur upp úr í minningunni. Þessi friður og heilagleiki sem ég man svo vel og sæki svo fast að prýði okkar heimili á jólum.
Og sannarlega er það þannig, ég er ánægður og þakklátur fyrir það

Gleðileg jól öll sömul.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Jólagjöfin mín í ár...

ekki metin er til fjár. Einkunnir allar í höfn eftir erfiða önn. Gott að labba sér inn í jólin með það.
Ég fékk skötu í hádeginu. Sú sterkasta sem ég hef smakkað, sló öll met, oft þó fengið hana hressilega áður. Ég held að skinnið hafi bráðnað úr gómnum á mér. Allavega er ennþá blóðbragð.....Kannski aðeins ýkt.
Erla er að pakka jólagjöfum hér frammi í eldhúsi, hún er yndislegt eintak. Mér sýnist jólin ætla að koma þó ekki sé búið að eyða miklum tíma í stress og jólapanik. Það er kominn jólaglampi í augun á henni enda leitun að öðru eins jólabarni.
Það er gott, því jólin eru og eiga að vera tilhlökkunarefni. Verst þykir mér hvað kaupmönnum hefur tekist að stela miklu af jólunum frá frelsaranum sem fæddist á Betlehemsvöllum og gert þau að dansiballi mammons (sem sumir segja (Rúv að kenna), að ég sé að taka þátt í....hrmpf) .
Eina svarið við þessu er að passa sjálfan sig og taka ekki þátt í þessum stríðsdansi. Það er víst með það eins og annað, maður hefur val. Ég hef allavega valið gamla hátíðleikann, fjárhirðana og boðskapinn um fæddan frelsara í borg Davíðs og frið og fögnuð á jörðu sem engillinn boðaði á völlum Betlehems.
Sjálfsagt er að gleðjast og gleðja aðra með gjöfum en gott er að stilla á meðalhófið í gjafaflóðinu.
Nú er Eyglóin okkar komin að norðan. Hún verður hjá okkur um jólin, sama jólabarnið og móðir hennar. Íris og Karlott verða hjá okkur á morgun með litlu afastelpurnar sínar, svo koma Arna og Davíð með sínar litlu afastelpur um áramótin. Hrund mín er að vinna í kvöld, hörkudugleg framkvæmdakona. Það væri ekki hægt annað, jafnvel fyrir sjálfan Grinch, en að smitast af þessari fölskvalausu jólagleði sem ég finn svo skemmtilega hjá þeim öllum mæðgunum, yndislegar allar.

Gerið eins og ég gott fólk, njótið daganna.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Ég er búðarsjúkur......!

Mættur snemma í morgun í Smáralindina. Hafði búðina næstum út af fyrir mig, gat valsað um án þess að vera að kafna í mannmergð.
Það var þó af hagkvæmnisástæðum en ekki að ég gæti ekki beðið með það lengur fram á daginn. Ég er nefnilega búðarsjúkur. Alveg satt.
Það er að segja mér leiðist þær sjúklega mikið og þess vegna er ég þannig séð búðarsjúkur.
Það skondna við þessa búðarferð mína í morgun í Smáralindina var að ég var króaður af af sjónvarpsfólki sem þurfti að vita hvernig mér þætti að vakna svona snemma í skammdeginu...? Til að fara í búðir.
Klukkan var samt orðin meira en tíu.
Eftir að hafa tjáð mig um svefnvenjur mínar í skammdeginu við sjónvarpsfólkið og tjáð þeim að ég væri bara vanur að vakna svona snemma og kominn út í bíl, fattaði ég hvað þetta var skondið. Erling búðarsjúki mættur í Smáralindina snemma dags að versla, og gripinn glóðvolgur svo allir gætu séð að Erling búðarsjúki var mættur.
Erling búðarsjúki fer nefnilega einu sinni á ári í búðir....... þá til að kaupa jólagjafir.

Skemmtilegt þetta líf.

mánudagur, desember 20, 2004

Mikill vill meira...

Ákveðin þróun er í gangi hér á landi sem sennilega verður ekki stoppuð.
Gjáin milli fátækra og ríkra er að stækka. Afhverju er þessu svona misskipt. Við opnum ekki svo fjölmiðil öðruvísi en að fregna um útþenslu fjármagnseigenda. Hvaðan fá þeir peningana? Þeir blása út eins og blöðrur sem blásið er í meðan skuldarar krumpast saman eins og blöðrur sem hleypt er úr. Ástæðan er auðvitað ofureinföld. Fjármagnið flyst stöðuglega frá skuldurum til fjármagnseigenda. Annar hópurinn borgar vexti en hinn þiggur vexti. Þetta er bara eins og tveir vatnstankar, úr öðrum þeirra rennur stöðuglega yfir í hinn. Allir sjá auðvitað hvað þá gerist. Munurinn verður meiri og meiri dag frá degi. Árlega skipta milljarðarnir um vasa með þessum ósýnilega og lúmska hætti. Ekki er nóg með að fólk þurfi að taka sér lán fyrir ýmsum nauðsynjum hjá þeim sem eiga fé heldur dynja látlaust hvatningarnar og gylliboðin um allskyns lánakjör fyrir hinu og þessu sem fólki er talið trú um að sé nauðsyn. Þessi markaðssetning á fjármagni er svo lúmsk og óvægin að langflestir spila með. Bakvið allt þetta er hinn óseðjandi hvoftur mikils sem vill meira. Þetta er heilaþvottur af verstu gerð og óhollt fyrir ungt fólk að alast upp við þetta. Allstaðar er kroppað í budduna.

Ég skil ekki hversvegna ekki er kennt í skólum hvernig fara á með peninga. Innprentun alveg frá grunnskóla og upp úr. Fag sem myndi festa þessi einföldu sannindi inn í kollinn á börnunum að græddur er geymdur eyrir og gera þeim ljóst hvað það kostar mikið að skulda.
Algengt er að krakkar uppúr tvítugu séu orðnir svo skuldsettir að varla er von um að þeir haldi sjó og vísast að þeir lenda fyrr en síðar í gjaldþroti.
Þetta er hörmuleg staðreynd.

Eina leiðin til að stoppa eða hægja á þessari þróun er að gera þeim sem núna eru að vaxa úr grasi grein fyrir þessu og fólk hætti að taka þátt í þessari gengdarlausu neyslu og endalausu lántökum. Að öðrum kosti verður hér mikill stéttamunur. Gríðarlegt ríkidæmi og sárasta fátækt. Þetta er rétt handan hornsins og sér þess þegar merki.

Meðan þetta er ekki kennt í skólum er besta forvörnin að við kennum börnunum okkar þetta sjálf. Takið þau reglulega í kennslustund, varið þau við og verið fyrirmyndin sem þau þurfa. Það getur orðið of seint að byrgja brunninn seinna. Þau munu þakka ykkur það síðar.

Njótið aðventunnar áfram.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Eggjasölukonur....???

Maður sér fyrir sér konur í kjólum á torginu með fullar körfur af eggjum þegar maður heyrir þetta orð. Konur að selja samferðafólki sínu hænuegg.
Nútíma eggjasölukonur eru ekki að selja hænuegg, nei þær selja konuegg. Mikil eftirspurn er eftir konueggjum. Svo mikil að það er verið að auglýsa eftir þeim........til útungunar.
Þetta hljómar eins og falskur tónn Er þetta ekki einum of langt gengið? Hvernig þróast svona lagað? Verður hægt að tala um góðar varpkonur? Verður til eggjamarkaður... mikið úrval eggja, eigum gott úrval eggja á verði frá .....? Eða, egg á hálfvirði, lítilsháttar útlitsgölluð.

Þetta er kannski háðskur húmor en ef að er gáð. Hversu lágt er hægt að leggjast? Hvar ætlar maðurinn að stoppa. Ég á erfitt með að ímynda mér að konur láti ginnast af þessu. Er þetta ekki eins og að selja sjálfa sig.
Ég get skilið þegar fólk gefur egg til nákomins ættingja eða inn í sérstakar kringumstæður að vel hugsuðu máli, en vil ekki sjá þetta verða að söluvöru. Þetta á að koma við kvikuna í fólki, þetta er lífið sjálft en ekki söluvara frekar en annað mansal.
Fuglarnir verja eggin sín alveg eins og ungana sína af því að þau eru afkvæmi þeirra.
Hvar liggur munurinn?
Maður spyr sig.

sunnudagur, desember 12, 2004

Þrýstingsfall á mælunum......

Lífið er sinfonía. Sumir kaflar stríðir og strembnir, aðrir mildir og angurværir.
Eftir ómstríðan og kraftmikinn kafla undanfarið var gott að svífa á mjúku tónunum um helgina. Við sem sagt áttum pantað jólahlaðborð á Hótel Flúðum eftir prófin.
Það var ljúft. Vinir okkar Heiðar og Sigrún nutu þeirrar ánægju að vera með okkur :)
Það kom skemmtilega á óvart hvað þetta hótel er fallegt og ríkulega búið. Hlaðborðið var hlaðið kræsingum, flestum góðum, þó misgóðum eins og gengur eftir tegundum og smekk. Hrátt hangikjöt fangaði mína bragðkirtla framar öðru sem á boðstólum var, eins var gaman að smakka hrátt marinerað lambakjöt. Allavega nutum við ánægjulegrar kvöldstundar þarna með vinum okkar í sveitarómantíkinni.
Við vöknuðum svo endurnærð í morgun þarna í sælunni og kíktum í morgunverðinn.
Þar var annað nýnæmi sem ég hef hvergi séð á morgunverðarhlaðborði á hóteli fyrr. Vöffludeig og sjóðheitt vöfflujárn við hliðina. Það var smart hjá þeim að bjóða uppá svona vöfflu self service með morgunmatum. Þeir fá fjórar stjörnur hjá mér fyrir frumlegheit.

Á heimleiðinni kíktum við aðeins í Eden í Hveragerði og skoðuðum aldingarðinn hans Braga. Kíktum þar á ljósmyndasýningu með mjög flottum ljósmyndum eftir Raxa á mogganum og Óskar Andra sem ég þekki ekki deili á.
Við vorum öll sammála um að teygja aðeins á þessum ljúfu nótum svo við ákváðum að renna niður að Ölfusárósi. Þar er nýlegur veitingastaður sem heitir Hafið bláa, ber nafn með rentu því hann stendur einn og sér þarna á fjörukambinum út við úfið Atlantshafið. Þar settumst við inn og keyptum okkur kaffibolla og nutum útsýnisins. Stórbrotið brim að leika sér við að flengja fjörugrjótið með fílefldum hrömmum sínum, mávar að berjast gegn rokinu og seltunni og selur sem lét eins og hann ætti heima þarna í rótinu.
Datt í hug kötturinn okkar. Ósanngjarnt hvað lífið er skepnunum miserfitt (mannskeppnan þar ekki undanskilin)

Við Erla enduðum helgina svo með heimsókn til Írisar og Karlotts og dætranna þeirra tveggja. Þar fengum við heitt súkkulaði og með því osta og fleira góðmeti, ummmm, eins og þetta á að vera á aðventunni.

Mitt mat: Frábært.

laugardagur, desember 11, 2004

miðvikudagur, desember 08, 2004

Á kafi.......

Það sést lítið af gamla þessa dagana. Viðveran er heima og vinnan er bækurnar.
Þrjú próf eru búin af fjórum. Hefur gengið misvel eftir fögum en vonandi nógu vel. Á eftir að fá einkunnir....kyngj.
Kærkomið í bili þegar þessu lýkur.

Hún Arna mín sá ástæðu til að hressa uppá myglaðan pabba sinn og sendi mér þennan:

Húsbóndinn á heimilinu var í rosa stuði og ákvað að taka til og ryksuga. Hann tók líka til föt af sér og setti í þvottavélina (góðir sem vita hvað það er)
Hann kallar á húsfreyjuna og spyr á hvaða hita hann eigi að stilla vélina til að þvo peysuna sína. Húsfreyjan kallar á móti: Hvað stendur á henni? Hann svarar: "Húsasmiðjan" :)

Var einhver að segja að kallar gætu ekki þvegið.

föstudagur, desember 03, 2004

Blessað barnalán.....

Og enn bætist við hópinn okkar. Yndisleg lítil stúlka (kemur á óvart) Katrín Tara Karlottsdóttir fæddist í morgun klukkan korter yfir sex.
Stóra systirin svaf hjá afa sínum og ömmu í nótt og vaknaði við þessar fréttir.
Þar með tilkynnti hún okkur afar hróðug að hún væri orðin stóra systir og núna ætti hún orðið litlu systir eins og Danía Rut. Hefur sennilega raskað eitthvað jafnaðarhugmyndum hennar og sanngirniskennd. Íris mín og Karlott, innilega til hamingju með nýja gullmolann.
Þær eru nefnilega gullmolar í gegn allar.


Þetta tilkynnir hér með ættfaðirinn
Afi hinn stolti

miðvikudagur, desember 01, 2004

Ég hef lært lexíu.....!

Kannski kemur það aldrei. Ég er búinn að sjá og heyra nógu marga tala um drauma sína og framtíðarþrár. Hugmyndir sem síðan fjarar undan með útsoginu og verða aldrei annað en blautur sandur sem segir sögu af því sem hefði getað orðið en varð ekki vegna eins orðs........ “seinna”.
Nostalgía þýðir fortíðarhyggja. Fortíðarhyggja er svo sem ágæt ef minningarnar eru sætar og ylja. En það gefur ekki framtíðardraumnum tækifærið sem hann þarf til að rætast.
Eini möguleikinn er að nota núið og framkvæma. Núið er að skrifa söguna þína.
Það er eina tíðin sem þú ræður einhverju um. Með öðrum orðum, leggðu af stað, því allar ferðir byrja á fyrsta skrefinu, og síðan annað koll af kolli eitt í einu.
Alltof margir líta til baka þegar húmar að hjá þeim og sjá þá að “seinna” kom ekki, því það gekk allan tímann á undan þeim og fjarlægðin í það styttist aldrei.
Gerðu það sem hugur þinn stefnir til. Sparkaðu "seinna" út af veginum þínum. Notaðu tímann. Oftast eru stærstu hindranirnar ímyndanir í höfðinu á þér.
Kannski kemur “seinna” ekkert.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Tíminn líður hratt.....

Var í síðasta tíma annarinnar í morgun. Nú er törn framundan í prófalestri.
Fyrsta próf á þriðjudaginn og það síðasta þann 11. des.
Nú er námið hálfnað þ.e. ef ég gef mér að ég nái prófum. Á kannski ekkert endilega von á öðru.
Þetta er búið að vera skemmtilegt og á köflum erfitt en ótrúlega fljótt að líða. Það er einhvernvegin þannig að manni finnst oft í svo mörgu, að síðari helmingurinn sé fljótari að líða en sá fyrri. Ef seinni hlutinn verður bara jafnfljótur og sá fyrri verð ég búinn með námið áður en ég næ að snúa mér við....!.
Það er ánægjulegt og gott að finna sig styrkjast í nýju fagi.

Var í Hæstarétti í gær að hlusta á málflutning í einkamáli. Margt kom þar fram sem mér þótti athyglisvert. Kannski ekki síst framkvæmdin. Mjög ólíkt lögfræðisápuóperunum í sjónvarpinu.
Þar hlustaði ég á margreynda lögmenn takast á um mál sem snerist um brottvikningu manns úr vinnu án aðvörunar. Rekinn á staðnum.
Málið fangaði athygli mína efnislega vegna skyldleika við annað líkt mál þar sem mér var ekki skemmt, mál sem kom við réttlætistaugina í mér. Var þó bara áhorfandi úr fjarlægð.
Þar var meðalhófsreglunni steingleymt og kona (mér ótengd) látin taka pokann sinn og gert að yfirgefa vinnustað sinn, án tafar, án annarrar ástæðu en skipulagsbreytinga. Mjög aðfinnsluverð aðferð kirkju í því tilfelli bæði lagalega séð og ekki síður sálarlega.
Eins og fram kom í málflutningnum heitir þetta riftun ráðningarsamnings. Sé riftun ekki byggð á réttum forsendum skv. réttarheimildum skapast bótaskylda.
En svona er heimurinn, þau begðast krosstrén sem önnur.

Aftur að veraldlegri hlutum. Það sem hefur komið einna skemmtilegast á óvart í laganáminu er hvernig þetta tré réttarkerfið er byggt upp. Rótfesta, stofn, greinar og lim. Gagngert byggt upp til að finna réttlætið á öllum sviðum. Bókstaflega snýst um það.
Ég taldi mig, áður en ég hóf námið, vera nokkuð vel að mér í lögunum en hef nú komist að því að það lagalega vit sem ég átti, kæmist fyrir í öðrum lófanum á mér í dag. (væri ekki almennilegur laganemi ef ég grobbaði ekki soldið)
En enginn verður óbarinn biskup og eins gott að halda áfram að lesa svo ég verði ekki tekinn í nefið.

Góða helgi vinir.



þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Aðvörun.....! löng grein.

en gæti verið umhugsunarefni.
Ég man ekki hvað það er langt síðan ég las einhverja vísindagrein í blaði um sjálfforritanlegar tölvur, nokkur ár. Tækninni fleygir fram hraðar en augað festir.
Greinin fjallaði um að þá voru komnar fram á sjónarsviðið tölvur sem höfðu þá eiginleika að geta forritað sig sjálfar. Nú verð ég að viðurkenna fáfræði mína og játa að ég kann ekki góða útlistun á þessu fyrirbæri. Veit samt að þetta er kallað gervigreind. Hún snýst um að tölvur eru látnar hanna ”hugsun“ eða öllu heldur vinna sjálfstætt og læra af mistökum.
Enn eitt skref mannsins inn í undarlegan gerviheim tölvunnar.
Þetta er sennilega gott og blessað og getur væntanlega nýst vel við allskonar úrlausnir í framtíðinni.
Svona greindartölva var látin hafa verkefni um daginn. Hún átti að búa til hlut sem gæti fært sig frá A til B sjálfstætt. Engar forritaðar upplýsingar voru gefnar heldur átti tölvan með hugsun sinni að hanna hlut sem hefði eiginleikann að geta hreyft sig og ferðast um. Útkoman var undarlegt tæki sem líktist helst einhverskonar ormi með mörgum liðum á.... og það hafði eiginleika til að komast úr stað.

Fyrir svo aðeins færri árum las ég aðra vísindagrein eftir einhvern annan tölvugúrú. (fínar heimildir er það ekki)
Sá lýsti áhyggjum af þessari tækni þar sem ekki væri í raun hægt að vita með fullkominni vissu hvað gerðist þegar þessi tækni yrði það fullkomin að hún færi fram úr mannsheilanum.

Í fyrra var svo enn ein greinin um þessa tækni. Sú var í mogganum þar sem fullyrt var að innan tuttugu ára yrði tölvugreind komin fram úr mannsheilanum.....!
Og hvað með það?

Það þarf ekki svo mikið hugarflug til að teikna sér mynd af því sem hugsanlega gæti gerst. Internetið innifelur nú þegar nánast allt vit mannkynsins. Internetið er eins og risastór heili sem umlykur jörðina.
Sú hugsun hefur æ oftar læðst að mér hvað muni gerast þegar svona greind er orðin til, tengd internetinu sem teygir sig inná hvert heimili, fyrirtæki og stofnanir, nánast hverju nafni sem nefnist, líkast tauganeti.
Verður þá orðinn til sjálfstæður ofurhugsandi heili sem enginn stýrir. Staðreyndin um sjálfforritunartæknina gefur þessari hugsun byr undir báða vængi og enginn vandi að hugsa sér að “heilinn” muni nota sér það..... og forriti það sem honum sýnist...til þess sem honum sýnist...og þá framar getu mannsheilans.
Þetta er svolítið hrollvekjukennt en hvaða punktur er óraunverulegur í þessu?
Lögmálið “sá sterkasti ræður” hefur gert manninn að konungi jarðarinnar. Hvað ef hann er allt í einu ekki “sá sterkasti” heldur “heilinn”?

Ekki er laust við að mér komi í hug “dýrið” úr opinberunarbókinni og talan 666 sem svo merkilega er á einhvern hátt, sem ég reyndar skil ekki, tengd sem einhver grunntala í tölvutækninni, strikamerkingum og einhverju tölvumáli sem er búið til úr einundartölum (hugtak sem ég hef heyrt en þekki ekki) en það eru bara tölurnar núll og einn.
Því sem næst öllu er stjórnað með tölvutækninni í dag. Hagkerfum þjóða, verslun, hernaði, vörnum landa, orkuverum, umferð og hverju sem er, allt tengt netinu órjúfanlegum böndum.

Getur hugsast að “dýrið” sé kannski fætt og dafni nú og stækki hratt og vel. Er "heilinn" að verða tilbúinn sem getur stýrt öllu mannkyninu og heiminum? Internetið sem nú þegar hefur gert ótrúlegan fjölda fólks háð sér sem netfíklar. Internetið sem smátt og smátt verður hæft til að forrita sig sjálft og þar með hugsa sjálfstætt. Hvað getur þá komið í veg fyrir að einn daginn starfi það líka sjálfstætt. M.ö.o höfðingi heimsins, loksins kominn með stýrið (dýrið) að heiminum sem allir verða að lúta..... nema?

Allavega má fullyrða að aldrei fyrr hefur verið til tæki í heiminum sem mögulega gæti stýrt vegferð mannsins og t.d. komið í veg fyrir alla verslun þína nema þú hafir merki sem auðkennir þig. Og ekki laust við að þannig sé þetta nú þegar.
Svo er spurningin: Er þessi þanki "hin hljóðláta rödd skynseminnar" eða hugmyndaauðgi sem nota ætti til að skrifa virkilega góðan hrollvekjureyfara.

Eigið góðar stundir.


sunnudagur, nóvember 21, 2004

Gátan stóra....

Við Erla vorum að keyra gegnum Kópavoginn. Vorum að koma úr Smáralindinni. Það þurfa víst allir að kaupa á sig föt og aðrar nauðsynjar. Kópavogurinn hefur breytt úr sér maður. Ótrúleg þensla. Ég man svo langt þegar göturnar í Kópavoginum voru malarvegir og það voru hænsnakofar í görðunum. Þeir eru horfnir.
Gömlu göturnar líka.
Við vorum að velta þessu aðeins fyrir okkur á leiðinni heim. Það er svo örstutt síðan þetta var nútíminn. Kannski 35 ár. Ef maður hugsar enn lengra þá eru torfbæirnir sem norpuðu einmanalegir í holtunum og melunum í norðangarranum hér á höfuðborgarsvæðinu allir horfnir líka, orðnir að jörð.
Þessum þönkum skaut niður þegar við vorum að labba okkur út úr Smáralindinni.
Gríðarlegt mannvirki........en fallvalt eins og gömlu húsin. Eitthvað mun hún standa lengur en gömlu kofarnir vegna betri byggingarefna. En samt mun hún verða að engu einhvern daginn, að jarðvegi aftur.
Og öll nýju húsin sem við sáum, sem teygja sig út um melana og upp um holtin. Allt verður að engu. Mun hverfa. "Mér finnst þetta svolítið óhugnanlegt" sagði Erla, greinilega ekki laus við smá hroll. En svona er þetta nú, tölvan mín fína sem hjálpar mér að skrifa þessar línur mun fljótlega grotna niður í frumeindir sínar á leið sinni til moldar aftur.

Ef við gætum kíkt milljón ár fram í tímann, kannski bara nokkur þúsund ár, verður ekkert af núinu okkar uppistandandi. Ein eða fleiri ísaldir verða komnar og farnar. Höfuðborgarsvæðið allt verður búið að fara undir skriðjökla einu sinni eða oftar. Sagan mun endurtaka sig. Það þarf ekki að fara lengra en upp að Lögbergi til að sjá greinileg ummerki eftir jökulinn sem síðast skreið hér yfir allt og langt út á Faxaflóa, fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Ekkert verður eins eftir það.
Þetta er skrítin staðreynd en jafn klár og ég sit hér við skrifborðið mitt. Efnið er einfaldlega tímanlegt og gengur úr sér.

Hvað erum við þá að gera hérna, gestir í stuttan tíma? Strá sem visna og hverfa. Hvers virði eru þá þessir flottu “hlutir” sem eru svona fallvaltir? Til hvers að eyða heilli ævi í að eignast meira og meira og ganga svo til fundar við jarðefnin, nakinn. "Allt er aumasti hégómi og eftirsókn eftir vindi" segir Prédikarinn án þess þó að svara gátunni sem svo margir spyrja sig að. Sumir telja sig hafa alla speki og vita svarið. Því fleiri skýringar sem maður heyrir því feitara verður spurningamerkið.
Guð brosir sennilega út í annað yfir skilningsleysi okkar mauranna hér niðri. Kannski fáum við að vita þetta allt saman einn daginn.

Njótið daganna þangað til.


fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Lestarstjórarnir kennararnir.....!

Allar líkur eru á að kennurum hlotnist sá vafasami heiður að verða dráttarvagninn sem dregur verðbóguskrímslið af stað. Allir eldri en tvævetur þekkja afleiðingar þess.
Það liggur í hlutarins eðli að aðrar stéttir með lausa samninga líta beint til fordæmisins sem kennarar hafa nú sett. Ekki svo að kennarar eigi ekki skilið þessi laun heldur hitt að það eru svo margar aðrar stéttir sem fella má undir sömu röksemdafærslu hvað það varðar.
Allar þessar stéttir sem berjast fyrir auknum kaupmætti eru nauðsynlegar þjóðfélaginu annars væru þær einfaldlega ekki til, hagfræðin stýrir því.
En það er búið að gefa og spilin eru á hendi. Enginn mun sætta sig við minna en kennarar hafa fengið nú. Hvernig tekst að spila úr stokknum er ekki gott að segja. Vonandi tekst að afstýra stórslysi þegar skriðan kemur með öllum sínum þunga.
Það mun reyna á þanþol hagkerfisins næstu misserin.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Erla hitti hjón af Skaganum í dag.

Soffíu dóttir Þórðar á Stillholtinu þar sem við bjuggum í kjallaranum fyrstu árin okkar, og Böðvar mann hennar. Þau hjónin voru hress og voru í spjallstuði. Þau eru mörg árin liðin frá því við þekktum þau betur en í dag. Þau ferðast mikið, ný komin frá Benidorm og Danmörku. Erla var hrifin. Það er ekki á hverjum degi sem mín kona hittir jafn einarða samherja í ferðabakteríufélaginu. Soffíu varð að orði: “Við getum víst ekki bætt árum við lífið okkar en við getum bætt lífi við árin”.....!

Það eru svona setningar sem fá mann til að sperra eyrun. Athyglisverður gullmoli.. Góð sýn á lífið.
Hvað gerir fólk betra við tímann en að skoða veröldina þegar foreldra(uppeldis)hlutverkinu er lokið? Margir gera helst ekkert nema glápa á sjónvarp og hanga heima.
Þetta er vafalítið hluti genanna sem Soffíu gista. Þórður heitinn, pabbi hennar, var einhver glaðlyndasti kall sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Einstaklega réttsýnn og hláturmildur. Það var gaman að umgangast hann.
Þau Þórður og Skarpheiður voru vinafólk foreldra minna til margra ára. Traust fólk, falslaust og gegnheilt.
Skaga árin voru góð.
............Búinn að hugsa heilan hring meðan ég skrifaði þessar línur. Datt alveg óvart ofaní minningapottinn.
Það voru samt orðin hennar Soffíu sem voru hvatinn að þessum pælingum.

Njótið lífsins.
Það er nefnilega í rauninni bara... smáspotti.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Þær ljóshærðu.....

Heyrt á tal tveggja ljóska:
Heyrðu hvort er lengra til London eða tunglsins?
.......Haalllóóó! Sérðu London héðan.......!

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Góðan daginn gott fólk!

Eftir mjög annasama viku var gott að eiga rólega helgi heima í hreiðrinu. Það má segja að bæði gærkvöldið og dagurinn í dag hafi verið sérlega notalegir. Við vorum tvö heima í gærkvöldi þar sem yngsta dúllan okkar var ekki heima. Ég útbjó fyrir okkur máltíð úr úrvals nauta prime ribs með öllu tilheyrandi. Spjölluðum um heima og geima yfir matnum undir góðri dinnertónlist. Töluðum einna mest um hvað lífið hefur í raun leikið við okkur þó auðvitað hafi skipst á skin og skúrir. Veltum framtíðinni fyrir okkur og skoðuðum núið, hvað við erum að gera þessi misserin. Það er gaman að velta upp svona hlutum, kryfja svolítið sjálfan sig og skoða farinn veg. Hvað höfum við lært og hverju er best að kasta og gleyma. Notalegt með élið berjandi á glugganum. Sérdeilis frábær kvöldstund.

Ég fór að venju fyrr á fætur en frúin í morgun. Það var enn éljagangur. Ég skrúfaði upp ofninn svo það yrði notalegra þegar hún kæmi fram. Hún sefur gjarnan fram undir hádegi á sunnudögum ef ekkert er sem rekur hana á fætur. Svo hellti ég upp á kaffi og kíkti í blöðin. Fór yfir það sem mér þótti fréttnæmt

Ég stoppaði við viðtal við Ellen Kristjánsdóttir söngkonu í tímariti moggans. Skemmtilegt viðtal við konu sem hefur reynt ýmislegt. Hún fór vítt og breitt í viðtalinu m.a. kom í ljós að hún á sterka trú. Ég fann svolítinn samhljóm í þessu viðtali við okkur hjónin þótt aðstæður séu ólíkar um margt. Ein setning sem hún viðhafði höfðaði mjög til mín og einnig Erlu þegar hún las greinina. “Hamingjan er heima” sagði hún. Það er miður að vita til þess að það geta ekki allir tekið undir þessi orð. Það eru nefnilega svo margir sem leita hennar handan hornsins....og finna hana ekki.
Þetta er “stór” lítil setning. Þeir sem geta skrifað nafnið sitt undir hana eru lukkunnar pamfílar. Ég er svoddan lukkubolti að ég get skrifað nafnið mitt feitletrað undir.

Sagt og skrifað..... Hamingjan er heima.

Erling Magnússon

mánudagur, nóvember 08, 2004

Rakst á þetta á prenti.....

„Á hverjum degi yfirgefur fólk kirkjuna og snýr sér aftur til Guðs.“
— Really Lenny Bruce

Brá svolítið en varð mér umhugsunarefni. Kannski er hér fundinn lykillinn. “Kirkjutrú” Það er kannski ástæðan fyrir því að hlutirnir eru ekki að gerast eins og fyrirheitin segja til um. “Þér munuð gera sömu verk og meiri...” Ég hef alltaf saknað þess og ekki skilið hversvegna. Það furðar mig. Enn meiri furða er að svo margir skuli neita að horfast í augu við það. Er vantrú að setja slíkt fram? Nei þetta er krafa um naflaskoðun. Guð er á réttum stað - en við.
Ég er hræddur um ekki. Ég er hræddur um að stefna kirkjunnar sé kirkjutrú án þess að menn ætli það endilega. Ég held að kirkjan sé fyrst og fremst í vinsældakapphlaupi sem Predikarinn myndi kalla “eftirsókn eftir vindi”.
Kirkjupólitík er staðreynd þó margir vilji ekki viðurkenna það.
Kirkjan þarf að stoppa við og skoða sinn gang. Snúa sér að kjarnanum. Hún þarf móðurmjólkina aftur. Trúin er ekki sirkus. Hún er ekki söluvara. Það var aldrei settur verðmiði á hana. Kirkjan getur ekki selt blessun í hlutfalli við greiðslur. Trú er ekki piss utan í stjórnmálamenn og höfðingja. Hún snýst ekki um græjur og flottheit.
Hún snýst um eitthvað miklu meira. Kirkjum fækkar og kristnum virðist fækka. Það er veruleikinn sem við búum við. Horfumst í augu við það. Eitthvað er ekki eins og það á að vera. Einhverju er verið að sá sem gefur ekki uppskeru.
Trúin er kjarninn í ávextinum. Kjarninn getur af sér líf.
Og lögmál lífsins er - það vex.



fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Margt er mannanna bölið...!

Víti er alltaf heitt... þótt það sé sjálfskaparvíti!!!!
Námsefni framtíðar í samkeppnisrétti í beinni í dag. Margt er enn eftir að koma í ljós í samráði olíufélaganna fyrir Hæstarétti. Klárt samt að menn brutu lög og siðferði. Topparnir bera ábyrgðina og ættu að segja af sér. Eftir höfðinu dansa limirnir, toppstykkin stýra mannganginum.
Lögfræðingar ættu að safna fólki í púkk til að sækja skaðabætur til olíufélaganna. Ljóst að farið væri af stað kapphlaup í Ameríkunni milli lögfræðinga, enda allt hægt þar.
Borgarstjóri sem var eitt peðanna á þessu taflborði ber sína ábyrgð og ekki gott að segja hvort honum sé sætt í sætinu sínu. Verð samt að segja að hann á vissa samúð mína af einni ástæðu. Þeirri að hann er því marki brenndur eins og við öll hin hér á jörð, að eiga sameiginlega þátttöku í mistakapottinum sem kraumar undir okkur öllum. Þessum sem Kristur benti grjótkösturunum á þegar hann skrifaði eitthvað í sandinn forðum. Hvað stóð í sandinum aftur á móti er enn ekki vitað.
Kannski búum við ef vel er að gáð, öll í glerhúsum
- hver veit.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Takk fyrir mig...

Vil nota tækifærið og þakka öllum sem komu í afmælið okkar Erlu á laugardaginn og eftirafmælið á sunnudaginn. Það var gaman að fá svona marga gesti í tilefni dagsins.
Okkur hjónunum þótti afar vænt um það. Það skal nú viðurkennast hér að það er svolítið skrítið að standa á þessum aldri, horfa á stækkandi ætt og barnabörnin kyrja vísur um "afa og ömmu í Vesturbergi búa" en um leið gera sér grein fyrir verðmætunum sem í þessu felast.
Mér hefur sjaldan fundist við ríkari. Við munum víst ekki skilja aðra hluti verðmætari eftir hér á jörð þegar við förum. Það er þakklátur maður sem skrifar þessi orð í auðmýkt frammi fyrir skapara sínum sem allt vald hefur á himni og jörð. Hann hefur leyft okkur að sjá þessa hluti gerast.
Tek ekkert endilega ofan fyrir svo mörgum en beygi mig í duftið fyrir Honum.

Njótið lífsins...

föstudagur, október 29, 2004

Var að horfa á prestinn....

á Omega í gærkvöldi. Verð ég að segja að presturinn kom mér skemmtilega á óvart. Séra Gunnar Sigurjónsson í Digraneskirkju. Verð jafnvel að segja að þarna fór maður að mínu skapi. Kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Frjáls í fasi og engin helgislepja (afsakið orðbragðið). Hann lýsti yfir fullum fetum að hann væri frelsaður og væri búinn að vera það lengi . Kom með ýmsa punkta sem margir “rétttrúaðir” mættu taka til alvarlegrar skoðunar. T.d. sagði hann að honum hefði oft sárnað boðskapur Omega þegar þjóðkirkjunni er úthúðað (algengt á Omega) og þar með öllum prestum kirkjunnar. Mér datt í hug eftir þáttinn, hvað í því felst trúarlega. Allavega stenst slíkt varla speglun ritningarinnar. Auðvitað á hroki og pólitík ekki að vera merki hinna kristnu. Það kom berlega í ljós í þessu viðtali að það er ekki hægt að dæma þúsundir manna á því einu að þeir séu þjóðkirkja. Hjó sérstaklega eftir þessu hjá honum minnugur liðinna tíma í mínu umhverfi þar sem varla var hugsanlegt að nokkur kæmist til himna nema vera hvítasunnumaður.
Þetta er áhugavert viðtal sem þú ættir að reyna að sjá - ef það verður endurtekið...
Hann var ekki mjög prestslegur maðurinn, kraftlyftinga- og mótorhjólakappi. Drjúgur tími fór líka í að tala um kraftlyftingar en hann er sterkasti prestur í heimi..!
Hef samt á tilfinningunni að kannski sé þessi maður nær sannleikanum en margur úr því umhverfi sem ég þekki best til. - Já tímarnir breytast og mennirnir með.

Njótið dagsins

fimmtudagur, október 28, 2004

Annríki þessa dagana.

Það má með sanni segja að ekkert skortir á framlag verkefna á vegi mínum þessa dagana.
Gott að hafa nóg að gera, segir íslenski karlmaðurinn í mér. En svona án gríns þá þykir mér róðurinn þyngjast hratt dag frá degi. Fundur í dag með Þórði deildarstjóra lagadeildar. Hann fór vítt og breytt. Fræddi okkur m.a. um að HÍ færi líklega að nota hugmyndafræði HR (og annarra háskóla þar sem nútíminn hefur hafið innreið sína) og hætta gamla embættismannaprófinu og taka þess í stað upp BA próf og masterspróf. Hann fór yfir næstu önn og til uppörvunar sagði hann að ef okkur fyndist þessi önn erfið þá yrði sú næsta erfiðari....! Það kurraði í mörgum.
Það er mikið búið að "væla" yfir dönsku og ensku bókunum því þær eru svo erfiðar, en hann blés á það og sagði að því yrði ekki breytt heldur mun bætast við kennsluna á erlendum tungumálum eftir því sem á líður. Hann nefndi t.d. að á næstu önn verður 1200 síðna kennslubók í Evrópurétti.....á ensku....úúúppss - ath lesist með öðrum fögum á 12 vikum....!
Hvernig var þetta aftur með guðfræðina...?
Nei annars það er enginn bilbugur á gamla. Hann tekur bara björgunarsund ef allt bregst.
Svo á ég nú hamarinn minn ennþá :-)

Líður ekki öllum vel á þessum fallega drottins degi??

mánudagur, október 25, 2004

Hér sit ég bara í stofunni...

með nýju tölvuna, vinn á netinu og læt fara vel um mig. Nefnilega kominn með þráðlaust net. Svili minn Ketill aðstoðaði mig við að tengja það. Fær hann hér með bestu þakkir fyrir það. Tæknin tröllríður öllu og allir einhvernvegin fljóta með. Það er nefnilega þannig að tækniþarfirnar eru alltaf aukast með síauknum hraða á öllu og ef maður ætlar að vera með, þá verður maður að halda sig við það nýjasta hverju sinni. Einn prófessorinn í skólanum tjáði okkur um daginn að lögfræðingar sem lærðu lögfræði fyrir tíu árum eða meira, kynnu ekki lögfræði dagsins í dag nema endurmennta sig stöðuglega...! Einn mikilvægur hluti lögfræðinnar er að kunna að notfæra sér nútímatækni við gagnaöflun.
Hvað ætli Afi hefði sagt ef hann hefði fengið að sjá fram í tímann og sjá hvernig tíma við lifum í dag. Sá hefði slegið sér á lær.
Að allt öðru, hún er góð vísan á síðunni hans Tedda. Ég veit ekki hver samdi hana en mér fannst hún svo góð að ég ætla að láta hana fljóta með hér:

Þótt margt sé kannski harla vítavert
sem varð þér hneyksli, kvöl í þínum beinum
Þá er þitt eigið hús af gleri gert
svo grjóti máttu aldrei kasta að neinum

Gott umhugsunarefni

sunnudagur, október 24, 2004

Fátt er svo með öllu illt.........

að ekki boði nokkuð gott. Held bara að ég hafi dottið í lukkupottinn. Haldiði ekki að á fjörur mínar hafi rekið forláta tölvu ekki nema 7 mánaða gömul. Ég þurfti að greiða kr. 80 þúsundir fyrir hana en það verður víst að teljast ódýrt miðað við gæði og verð á henni nýrri en það var hvorki meira né minna en 364 þúsundkallar í apríl s.l.
Afföllin ótrúleg, reyndar meiri en ég hefði getað ímyndað mér. Nema þetta sé hrein og klár blessun. Varla samt, hvað þá með fólkið sem átti hana, hvers á það þá að gjalda…?
Allt að einu er gamli ánægður með kaupin því fátt gleður hann meira en ef honum tekst að gera góð kaup.

Góða nótt


fimmtudagur, október 21, 2004

Banvæn súpa....!

Ekki eru allir sammála um að bollasúpur séu hollar og góðar. Allavega ekki tölvan mín sem fékk sér einn skammt í gær og dó. Hún er í krufningu núna og er vonast til að dánarorsökin komi í ljós. Það sem skiptir þó meira máli er að gögnin mín hafi ekki dáið með henni heldur sé hægt að bjarga þeim. Núna vantar mig sem sagt nýja (notaða) fartölvu. Ef einhver lesandi veit um góða vél á góðu verði þá mætti sá sami hafa samband við mig strax. Vil helst ekki gefa meira en 50 þúsund fyrir notaða vél.

Annars í fínum gír.


þriðjudagur, október 19, 2004

Ég er bjartsýnismaður....

en sökum reynslu minnar af bjartsýni .....tek ég regnfrakkan með.

mánudagur, október 18, 2004

Enn á veiðum

Verð að viðurkenna að nú er nóg komið......... í bili.
Við bræðurnir vorum enn að veiða. Við vorum sammála um að fátt er til sem stendur því jafnfætis. "Lítið gleður auman" gæti einhver sagt, og haft rétt fyrir sér. Það skilur enginn nema sá sem þekkir tilfinninguna, ekki sportið, heldur þessa orginal. Hlynur orðaði það ágætlega þegar við vorum að tala saman um þetta "maður bráðnar saman við náttúruna einhvernvegin".
Ætli sé Indíánablóð í okkur...?

Ég var að lesa ágrip úr fyrirlestri Indíánahöfðingja að nafni Lúther Reistur Björn - sem fæddist árið 1867 - Hann eyddi fyrstu árum ævi sinnar á sléttum Nebraska og Suður-Dakóta. Ellefu ára að aldri var hann einn af fyrstu nemendunum sem innrituðust til náms við skóla handa indíánum í Carlisle, Pennsylvaníu. Eftir fjögurra ára nám var hann gerður að kennara í Suður-Dakota. Hann starfaði sem túlkur við ,,Wild West Show" Buffaló Bills. Síðustu árum ævi sinnar varði hann til fyrirlestrarhalds og ritstarfa.
Læt fylgja smá glefsu hér:
"Aldrei varð oss hugsað til víðfeðmrar opinnar sléttunnar, fagurmótaðra, ávalra hæðardraganna eða til sístreymi hins ferska vatnsflaums sem þræðir bugðu af bugðu gegnum þykkni vatnagróðursins margslungið - aldrei varð oss hugsað á þann hátt að þetta væri ,,villtrar" náttúru. Aðeins í augum hins hvíta manns er náttúran ,,villt" og einungis frá hans sjónarhorni er landið numið ,,villtum" dýrum og ,,skrælingjum". Í skiptum vorum við náttúruna var hún töm og spök. Jörðin var auðsæl og gjöful, og allt umhverfis oss urðum vér varir blessunar hinnar Miklu Dulúðar. Loðinn kom hann að austan og óð fram með ruddafengnu ofbeldi og hlóð ranglæti á ranglæti ofan gagnvart oss og þeim sem oss stóðu næst. Þá gjörðist náttúran ,,villt". Þá flúði dýr á skógi er það vissi mann á næstu grösum. Þannig varð til upphaf ,,VILLTA VESTURSINS"."

Getur verið að við þessir hvítu séum kannski miklu lengra frá þessum gildum sem hafa með að gera virðingu fyrir sköpuninni og Guði. Því þótt þeir hafi kallað Guð "Hina miklu dulúð" geri ég ráð fyrir að Hann hafi ekki tekið þá í karphúsið þessvegna.

Það veiddist vel, kjöt og fiskur.

Eigið góðar stundir


laugardagur, október 16, 2004

Hefurðu það ekki gott.....?

„Ég grét af því að ég átti enga skó, þar til ég sá mann sem hafði enga fætur.“
-Forn sögn-

föstudagur, október 15, 2004

Fjarlægðin gerir fjöllin blá...

og minningarnar líka. Mér finnst einhvernveginn að allt hafi verið svo gott og auðvelt í æskunni. Alltaf gott veður, alltaf gaman. Sumrin alveg einstök, hlý og skemmtileg. Veturnir alltaf sólríkir og fallegir. Vorin alveg einstök og haustin full af lífi og fjöri. Ég veit ekki hvort þetta er svona hjá öllum eða hvort ég átti bara svona einstaklega góða æsku.
Nóbelskáldið orðar þetta skemmtilega:
Í þann tíð voru sumurin laung á Íslandi. Á mornana og kvöldin voru túnin svo græn að þau voru rauð og á daginn var víðáttan svo blá að hún var græn.“
(Paradísarheimt, 1. kafli).

Þetta bendir nú til að hann hafi ekki haft svo ólíka upplifun og ég af æskunni. Hvað sem því líður þá er gott að eiga góðar minningar og hollt að minna sig á hverjir það eru sem skapa æskuminningarnar ;-)

Ertu sammála skáldinu?

Góða helgi

fimmtudagur, október 14, 2004

Hamingjuósk

Íris og Karlott keyptu sína aðra íbúð í gær (stolt stolt) Ég er ánægður með þetta fyrir þeirra hönd. Íbúðin er 120 m2 fjögurra herb. íbúð við Háholt í Hafnarfirði. Til hamingju krakkar mínir og Guð blessi ykkur þennan nýja stað.

Gáta dagsins..

Hvað er betra en Guð?
Hvað er verra en Skrattinn?
Fátækir eiga það.
Ríka vantar það.

Þú deyrð ef þú borðar það.

þriðjudagur, október 12, 2004

Skaut önd…

Fórum bræðurnir á skytterí á sunnudaginn. Við Hlynur lögðum af stað héðan úr Reykjavík kl. 05:00 til að vera komnir í morgunflug gæsanna við Markarfljót kl. 06:30. Hansi skrapp með okkur í morgunflugið. Heldur var tekjan rýr eftir morguninn, nokkur skot út í loftið. Fáar gæsir sem flugu......og eeeengin þeirra dóóó, af ááánægju úúút að eyyyrum hver einasta þeiiiirra hlóó. Það er greinilega betra að æfa skotfimina áður en maður hellir sér í veiðina. Ég reyndi líka við tvær endur sem flugu yfir mig en þær hlógu bara líka. (samt næstum dauðar…..úr hlátri). Það var rokið sem gerði að ég hitti ekki. Við ákváðum eftir að hafa fengið okkur morgunkaffi hjá Hansa að fara á andaveiðar og kannski renna færi einhversstaðar.

Til að gera langa sögu stutta þá voru flestar endurnar sem sáust, svo skynsamar að halda sig við bæina, svo ekki var hægt að skjóta þær.
Við renndum svo færi í Þverá fyrir neðan Hvolsvöll með leyfi Hansa. Þar fékk ég einn sjóbirting. Rétt við Markarfljót sáum við endur (fyrir löngu) sem við reyndum að læðast að. Skriðum á maganum og fjórum fótum langar leiðir. Þangað til Hlynur fékk allt í einu svo mikið hláturskast að ég hélt að hann væri að deyja, maðurinn tárfelldi. Ég hafði verið með derhúfu sem skyggði sýn svona skríðandi, svo ég tók hana ofan. Skipar hann mér bara að setja hana aftur á mig ….! Því þær gætu séð glampa á hausinn á mér…..hrmpfff. Honum ferst.
Endurnar náttúrulega sáu okkur og flugu glottandi í burtu. Held meira að segja að þær hafi hlegið með honum.
Við enduðum ferðina inni í Þórólfsfelli, þar sem við fundum tvær endur sem við gátum loksins náð. Gott á þær. Það var enn á þeim sama glottið eftir fyrri viðureign okkar við Markarfljótið. Já sá hlær best sem síðast hlær. Hlynur fékk svo einn lax í lokin við garðinn í Bleiksá.

Þetta var fínn dagur við veiðar og flandur.


fimmtudagur, október 07, 2004

"Sannleikanum er hver sárreiðastur".

Afhverju ætli það sé þannig að svo mörgum finnist svona erfitt að heyra sannleikann? Sérstaklega um sjálfa sig eða það sem stendur þeim nærri á einhvern hátt, t.d. frammistöðu, útlit, trú - orð og æði.
Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? Maður spyr sig. Hitt orðtækið að "oft má satt kyrrt liggja", er líka heilmikil speki.
Jesús sagði meðal annars "Ég er sannleikurinn..." Þá hlýtur sannleikurinn að vera ein stærst dyggða.....hvernig sem hann lítur út. Það er hinsvegar reynsla margra (Jesú sjálfur glöggt dæmi) sem segja sannleikann að það er ekki endilega leiðin til vinsælda.

Skilgreining Aristótelesar á sannleikanum:

"Það er ósatt að segja um það sem er, að það sé ekki
og um það sem er ekki, að það sé.
Það er satt að segja um það sem er, að það sé
og um það sem er ekki, að það sé ekki"

Ótrúlega einfalt..., en líklega þetta sem Jesú meinti. T.d. þegar hann talaði til faríseanna, eða þegar hann sagði: Sá yðar sem syndlaus er...og enginn laug! Margir sem ættu að hugsa þetta aðeins.

Eigið góðan dag.

þriðjudagur, október 05, 2004

Sprunginn......

Búinn að sitja við í bráðum 12 tíma í prófverkefni. Það sagði svo sem enginn að þetta ætti að vera auðvelt...?
Viss um að Erla dregur mig á lappir kl.06:30 í fyrramálið..! Úúút í morgungönguna. Ég er nú misupplagður í það, segið henni bara ekki frá því :-) En það var þetta með tímann fyrir heilsuna. Hún er víst of verðmæt til að passa hana ekki.

Góða nótt

sunnudagur, október 03, 2004

Datt í hug ónefndur....

vinur minn sem er mikill sölumaður þegar ég rakst á þessa sögu:

Sölumaður barði að dyrum á skrifstofu prestsins. Hann spurði, hvort presturinn vildi ekki kaupa matreiðslubók handa prestfrúnni.
Jú, prestur var ekki frá því. Hann keypti bókina og borgaði hana strax. Sölumaðurinn þakkaði fyrir sig og fór. En hann fór ekki lengra en niður í eldhús til frúarinnar og spurði, hvort hún vildi ekki kaupa matreiðslubók.
Prestfrúnni leist vel á bókina og keypti strax eina. Sölumaðurinn þakkaði og hélt leiðar sinnar. Eftir dálitla stund kom presturinn niður í eldhús til konu sinnar til þess að afhenda henni gjöfina. Honum brá í brún, er hann sá, að hún var sjálf búin að kaupa bók.
Hann kallaði í vinnumanninn og bað hann um að fara á eftir sölumanninum og ná í hann.

Þegar vinnumaðurinn náði sölumanninum, sagðist hann ekki nenna að snúa við aftur. Hann sagðist vita hvað presturinn vildi sér. Hann mundi ætla að kaupa af sér matreiðslubók. - Mundir þú ekki geta borgað hana fyrir prestinn, svo að ég þurfi ekki að snúa við aftur? Ekkert mál sagði vinnumaðurinn, borgaði bókina og sneri svo heim aftur...........Presturinn vissi ekki hvort hann átti að gráta eða hlæja þegar hann kom heim með þriðju bókina. Jafn ótrúlegan sölumann hafði hann aldrei hitt fyrr!

Hver ætli þessi ónefndi vinur minn sé :-) ......?

miðvikudagur, september 29, 2004

Þannig er það nú....!

Það eru til fjórar gerðir af einstaklingum:

* Sá sem veit ekki og veit ekki að hann veit ekki. - Hann er fávís, sniðgakktu hann.
* Sá sem veit ekki og veit að hann veit ekki. - Hann er einfaldur, kenndu honum.
* Sá sem veit en veit ekki að hann veit. - Hann er sofandi, vektu hann.
* Sá sem veit og veit að hann veit. - Hann er vitur, fylgdu honum.
(SriChinmoy)

Skemmtileg leikfimi.

þriðjudagur, september 28, 2004

Heilræði dagsins

"Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag....
hefurðu ekki heilsu fyrir tímann á morgun"

Allt of satt

mánudagur, september 27, 2004

Þekking eða skilningur…

Er það sami hluturinn? Datt í að hlusta á Pál Skúlason rektor Háskóla Íslands í Kastljósinu í gærkvöldi (enn að stelast frá prófalestri)
Hann var að tala um hlutverk Háskóla Íslands í dag. Ég geri ráð fyrir að hann sé heimspekingur miðað við hvað hann var djúpur hvað varðaði mannlega tilveru. Hann var spurður um akademískar hliðar þekkingar og svaraði að mínu viti vel. Fór vítt og breytt um þekkingarflóruna og þörf mannsins á að leita sífellt lengra og lengra í leit sinni að lífsgátunni - sannleikanum.

Það vakti athygi mína að þessi háskólans maður svaraði spurningum spyrilsins bæði á trúarlegum nótum og eins setti hann almenna þekkingu fengna af reynslu og stormum lífsins jafnfætis sínum akademísku fræðum.
Hann gerði síðan greinarmun á þekkingu annarsvegar og skilningi hinsvegar. Á þessu er mikill munur. Þekking er magn upplýsinga. Skilningur er hvernig og afhverju.

Datt í hug orð Guðfinnu Bjarnadóttur rektors Háskólans í Rvk á skólasetningunni um daginn þar sem hún talaði um gagnrýni, dálítið af sama meiði.

Hann sagði marga einstaklinga sem aldrei hefðu numið akademísk fræði, oft vera jafnmikla heimspekinga og fræðimenn eins og hina lærðu.
Ég tek ofan fyrir honum…. Það eru ekki margir af hans líkum sem gefa lífsins skóla jafnháa einkunn.
Þetta fannst mér mæla með manninum. Litið til framtíðar held ég reyndar að menn muni í ríkari mæli skoða áunna þekkingu byggða á reynslu og sjálfsnámi.
Finnst það einhvernveginn liggja í loftinu. Það er nokkurskonar “náttúruréttur” (ég á kökuna af því ég bjó hana til) orsök og afleiðing, sem er í raun afturhvarf til upphafsins.
Kannski hluti af náttúrulögmálinu: Hring eftir hring, og samt áfram veginn.

Hættur í bili, það er prófalestur þessa dagana, er að fara í annað próf í fyrramálið.

hafið það gott vinir.

miðvikudagur, september 22, 2004

Það var þetta með.......

smáa letrið. Ég var í prófi í gær í skaðabótarétti, eða réttara sagt verkefni til lokaprófs. Sat við í 10 klst. Verkefnið virtist í fyrstu ekki vera svo flókið. En þegar betur var að gáð voru alveg ótrúlega margir þættir sem laumað var inní sem hægt var að missjást með. Það er ekki ofsögum sagt að það er ekki alltaf allt sem sýnist.
Held samt ég lofi engu um hvort ég birti einkunnina hér á síðunni :-) … tek afstöðu til þess síðar.
Dagurinn í dag verður ekki alveg eins ásetinn sem betur fer.
Samt ágætt að sökkva ofaní fræðin stundum
Bush og Kerry komnir í hár saman. Ástþór orðinn enn vitlausari. Kennarar gengnir af göflunum. Nýr forsætisráðherra aldrei óvinsælli. Menn að tapa og græða.
Fræðin samt alltaf á sínum stað.
Svona er lífið.

Eigið góðan dag.

mánudagur, september 20, 2004

Ég skil ekki alveg......

hvað kennarar eru að hugsa. Þeir eru að fara fram á launahækkanir sem eru úr takti við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Kennarar eiga skilið góð laun. En þessi aðferðafræði þeirra er fortíðardraugur sem ekki má vekja upp.
þeir ættu að fara hægar í sakirnar og vinna mál sitt með öðrum hætti. Þeir eiga varla stuðning almennings í þessu enda bitnar þetta verkfall á þeim sem síst skildi, börnunum.

Kaupmáttur skiptir mestu máli fyrir alla og til lítils er að vinna ef kennarar ná fram vilja sínum og skriðan allra annarra starfsgreina fer af stað í kjölfarið. Allir krefjast sömu hækkunar og verðlag rýkur af stað. Verðbólgudraugurinn verður hæglega vakinn af blundi sínum með þessum hætti og þá tapa allir og ekki síst kennarar.

Mín skoðun er sú að Alþingi á að setja bráðabirgðalög á verkfall kennara og síðan verði þeir settir undir kjaradóm og settir á sanngjörn laun sem hæfir starfi þeirra og menntun.
Málið leyst.

laugardagur, september 18, 2004

Það var notalegt......

að finna kaffiilminn sem fyllti húsið þegar ég kom heim úr bakaríinu í morgun. Ilmurinn indæll og bragðið eftir því. Aldrei þessu vant var frúin á bænum vöknuð og komin á fætur. Oftast er ég búinn að vera að sýsla eitthvað eða allavega kíkja í Moggann þegar hún kýs að ganga inní daginn. (um helgar þegar hún má sofa út)
Tilfinningin var góð, hreiðrið var svo friðsælt og gott.

Við hjónin eyddum svo þessum friðsæla laugardagsmorgni í vangaveltur um hvað er ríkidæmi ásamt gluggi í blöðin inn á milli. Við vorum t.d. sammála um að það er ríkidæmi að eiga svona morgna saman við eldhúsgluggann og horfa á haustlituð laufin falla af trjánum, veltandi vöngum um lífið og tilveruna. Litir náttúrinnar eru fallegir núna og gaman að vera áhorfandi í ylnum innan við glerið þegar naprir haustvindar blása, sem var þó ekki raunin þennan morguninn heldur fallegt haustveður og logn.

Sumum finnst ríkidæmi snúast um peninga. Við erum algerlega á annarri skoðun.
Í fyrsta lagi finnst okkur mikið ríkidæmi bara það að vera Íslendingur, að njóta þessara forréttinda að fæðast inní þjóðfélag þar sem friður og velmegun ríkir. Það myndu margir þiggja að vera í þessari aðstöðu að geta rölt út í bakarí í morgunsárið, engir byssuhvellir, ekkert hungur,engin mengun, kaupa ilmandi bakkelsi vitandi að rjúkandi nýlagað kaffi bíður þegar heim er komið.
Okkur skortir forsendur til að meta þetta eins og ber. Ísland er góð gjöf til okkar. Þetta væri himnaríki þeim sem ala aldur sinn við hungur og stríð.
Við fjölskyldan búum við góða heilsu. Það er ekki sjálfgefið. Margur myndi gefa milljarðana sína í skiptum fyrir heilsuna okkar.
Það er mikið ríkidæmi að eiga börn…. það eitt og sér… og svo hitt að sjá svo börnin sigla af stað á eigin bát án þess að hafa lent í krumlu eiturlyfja eða annarra óárana sem virðist svo auðvelt að lenda í, við erum Guði þakklát fyrir vegferð okkar barna.

Niðurstaða okkar var að ríkidæmi verði ekki keypt með peningum. Peningar umfram þarfir fara ekki á vogarskál ríkidæmisins.
Okkur finnst ríkidæmi felast í gullna meðalveginum, norminu á öllum sviðum.
Að eiga samfélag við Guð. Að halda heilsu. Að eiga í sig og á. Að rækta vini sína. Að vera sáttur. Að vera hamingjusamur. Að eiga inneign í reynslubanka sem er laus til úttektar.

Þetta var skemmtileg og holl pæling og væri gaman að fá álit ykkar á þessu.

Hvað merkir orðið “ríkidæmi”….?

fimmtudagur, september 16, 2004

Með húmorinn í lagi...

Einhver kona með alveg ótrúlega frásagnargáfu... Verð að setja linkinn á þennan bloggara hér inn svo þið getið hlegið líka. http://www.toothsmith.blogspot.com/

þriðjudagur, september 14, 2004

Önnur tilvitnun......

af svipuðum toga.
"Prédikarar segja: Gerðu það sem ég segi, en ekki: gerðu það sem ég geri"
(John Selden)

Þetta á að sjálfsögðu ekki við um alla. Kannski fáa - en samt of marga.
Commentið hennar Örnu á síðasta pistli þar sem hún minntist á aðra tilvitnun. "Prédikaðu fagnaðarerindið án afláts og ef þú mátt til, notaðu þá orð" er líka góð.
Þeir eru líklega miklu fleiri sem lesa fimmta guðspjallið en hin fjögur. Fimmta guðspjallið er líf kristins manns. Það er ekki sama hvað stendur þar. Verk hrópa hærra en orð. Það var þetta sem mér datt í hug þegar ég rakst á orðin hér fyrir neðan um strandvitann sem ekki blæs í þokulúðra, heldur lýsir bara. Ef ekki er samhljómur í ræðu og daglegu lífi þess sem prédikar, missir hún marks, verður lúðurhljómur og breytist í andhverfu sína.

Eigið góðan dag.

laugardagur, september 11, 2004

Rakst á þessa.......

skemmtilegu tilvitnun áðan.
„Strandvitar blása ekki í þokulúðra, þeir lýsa bara.“— (Dwight L. Moody)

Er þetta kannski fimmta guðsspjallið?

Hvað finnst þér?


föstudagur, september 10, 2004

“Enginn veit ævina….

fyrr en öll er”. Ekki er víst að Abraham Lincoln hafi mikið verið að velta sér upp úr því hvernig hann ætti að verða forseti Bandaríkjanna á þeim tímapunkti þegar hann varð gjaldþrota í þriðja sinn á ævinni. Hann hefur sennilega verið frekar rislágur og ekki til stórkostlegra vinninga.
Ég hef séð á göngunni að spurningin á alls ekki að snúast um mistökin sem menn gera. Þau gera allir af svo mörgum og misjöfnum toga. Þau eru sennilega algengasta hátterni manna. Ég hef aftur á móti séð að spurningin snýst um hvernig menn og konur höndla mistökin. Ég hef séð að mistökin eru gott byggingarefni í sigrana sem á eftir koma.
Engum er lognið hollt lengi. Það styrkir stofninn þegar næðir um hann. Afraksturinn verður sterkara tré.
Ég hef séð fólk í kringum mig í misjöfnum kringumstæðum. Sumir fæðast með silfurskeið í munninum og svífa í gegnum lífið á bómullarhnoðra. Aðrir fæðast í stormi og eftir það er eins og stormurinn elti þá á röndum.
Er einstaklingurinn sem gengur inn úr storminum blautur og hrakinn verri eða óhæfari en hinn sem kemur vagandi úr lognmollunni?

Ég hef kynnst báðum týpunum og verð með fullri lotningu fyrir logntýpunni að staðsetja frekar stormtýpuna í brúnna. Reynslan er ólygnasti skólinn. Bankabók í reynslubanka er verðmæt inneign. Diploma úr fínustu skólum verður ekki sett að jöfnu.
Ætli Guð noti svona inneign? Næsta víst. Guð skapaði fegursta blómið, með þyrna.
Abraham Lincoln fæddist stormtýpa. Hann átti trú og leitaði í hana á erfiðum stundum. Hann er gott dæmi um að gæfa er ekki sama og gjörvileiki.

„Ég hef margsinnis verið tilneyddur að krjúpa á kné, vegna yfirþyrmandi sannfæringar um að ég geti ekkert annað.“ — Abraham Lincoln

Eigið góða helgi


fimmtudagur, september 09, 2004

Nýlenduveldið ESB

Ég var ánægður með orð verðandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar á forsíðu Moggans í morgun um sjávarútvegsmál ESB.
Og ég er þakklátur núverandi stjórnvöldum fyrir ákveðni þeirra að standa utan ESB. Það yrðu stærstu mistök Íslandssögunnar að gangast undir hatt þessarar nýlendustefnu. Það er gott fyrir land og þjóð að eiga sig sjálf þegar fram í sækir.
Við erum eigin herrar í okkar fallega landi og ráðum auðlindum okkar sjálf.
Til þess börðumst við undan einveldi Danakonungs. Til þess var slagurinn um fullveldið og til þess var sjálfstæðisbaráttan háð. Til þess vörðum við landhelgina okkar með kjafti og klóm og sigruðum enska ljónið. Þessi frækilegu afrek forfeðranna sem við megum aldrei gleyma.

Ég skil ekki þann Íslending sem er tilbúinn að afsala sér fullveldinu og gangast aftur undir ok erlendra peningavelda. Fólk ætti að kynna sér sögu þjóðarinnar og skoða myrkustu tímabil hennar, en það er tíminn sem við beygðum okkur undir einveldi Danakonungs. Alþingi Íslendinga sem var virkt afl var lagt niður en þess í stað voru lagaboð konungs birt. Íslendingar réðu engu um framtíð sína og gæfu. “Einveldistímabilið er eitt hið allra ömurlegasta tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar”. (Gunnar G. Schram, Stjórnskipunarréttur)

Ég er hræddastur um að misvitrir stjórnmálamenn, með inngöngu í ESB á stefnuskrá sinni, eigi eftir að komast til valda og stíga þetta ógæfuspor.

Guð forði okkur frá þeim.

þriðjudagur, september 07, 2004

Góður vinur minn..

og Klettur er árinu eldri í dag. Mér skilst að Ásta sé búin að baka handa honum köku. Honum verður ekki gott af henni einum. Rétt að skreppa og hjálpa honum aðeins eins og sannir vinir gera.

Til hamingju með daginn.

mánudagur, september 06, 2004

Eru þeir alveg í lagi...

kennararnir? Ætli þeir haldi að maður hafi ekkert annað að gera en að lesa. Ef þú vilt fræðast um dóma Hæstaréttar skaltu tala við mig. Tuttugu og tveir dómar fyrir morgundaginn. Ég held nú að þetta sé met. Það skal þó viðurkennast hér að ég er ekki búinn að lesa þá nærri alla, 15-20 síður hver :-(
Allir snúast þeir um sama hlutinn....(!) þó málefnin séu eins misjöfn og þeir eru margir, að finna réttinn, réttlætið. Það er kannski sá þátturinn sem mér finnst einna mest til um í lögfræðinni. Það er göfugi þátturinn.

Lögfræðin, með áherslu á "fræðin" gengur út á þetta í hnotskurn, að leita réttlætisins. Kennarar lagadeildarinnar kenna að fyrstu lögin hafi komið frá Guði...rótin er þannig góð. Fræðin eru víðáttumeiri og stærri lendur en mig óraði fyrir. Þetta er góð heilaleikfimi.

Var að stelast frá dómalestri og er hættur því núna.

Guð blessi ykkur.

laugardagur, september 04, 2004

Ferðalag......

Það er víst engin nýlunda að við Erla séum á einhverju flakki. Einhver ferðabaktería gistir í genum okkar. Þetta flakk okkar í dag var þó aðeins með öðru sniði en venjulega. Vinnustaðaferð Verkvangs var tilefnið.
Ferðin var fín og miklu líkari fjölskylduferð en vinnustaðaferð. Og ferðatilhögunin var með frumlegra móti... - Við fórum í berjamó austur að Dímon. Ekki að við ættum ekki nóg af berjum og sultum og safti og öllu sem hægt er að spyrða við ber, þá bættum við um betur og týndum nokkur kíló. Alltaf gott að eiga beeeeeerrrr.

Svo skemmtilega vildi líka til að akkúrat klukkutímann sem við týndum berin og fengum okkur nestið rigndi eins og hellt væri úr fötu-m…(!)

Við skoðuðum líka Sögusafnið á Hvolsvelli og fræddumst um Njálu. Þar var ung og afar málglöð kona sem sagði okkur þessa margfrægu sögu á afskaplega lifandi og skemmtilegan hátt.
Ég lifi mig alltaf sérstaklega inn í Brennu-Njálssögu vegna staðháttanna í sögunni, þekki þarna hverja þúfu. Framsetningin konunnar kom skemmtilega á óvart.

Við enduðum svo, eftir að hafa skoðað nokkra merkilega staði í Villingaholtshreppi (hér stóð "Ölfusinu" en einhver góður leiðrétti mig og tjáði mér að Urriðafoss væri ekki í Ölfusi heldur í Villingaholtshreppi - leiðrétt hér með) , m.a. Urriðafoss niður með Þjórsá, í matarboði í Þorlákshöfn hjá einum starfsmanna Verkvangs, Sigurði Grétari Guðmundssyni, pistlahöfundi á Mogganum með meiru. Hann er í fullri vinnu og lítur út fyrir að vera ekki deginum eldri en 60 ára en hann er alveg að verða 70…? Ótrúlega sprækur.
Þar fengum við þessa fínu kjötsúpu að rammíslenskum hætti og kirsuberjaostaköku í eftirrétt...mmmmmmm.
Góð ferð, afslöppuð og allir í fínu formi.

Að lokum til gamans... Ég er búinn að fá fyrsta alvöru verkefnið á lögfræðilegum grunni. Ég vinn það með skólanum í vetur.
Guðs blessun.

Hafið það gott.

fimmtudagur, september 02, 2004

"Allt orkar tvímælis...."

...sagði Bjarni heitinn Benediktsson og bætti við "þá gert er".
Það verður aldrei hægt að fyllyrða um hvernig lífið væri í dag ef þetta eða hitt hefði gerst...eða ekki gerst.
Það getur samt verið gaman að velta því fyrir sér. Hvað t.d. ef afi þinn og amma hefðu ekki hist...?
Tækifærin eru víða við veginn okkar og án efa hefurðu oft gengið framhjá þeim annaðhvort ekki sjáandi eða heyrandi og misst af þeim fyrir vikið. Allir eru undir þessum sama hatti. Hefurðu syrgt glatað tækifæri? Það borgar sig ekki. Kannski hefði tækifærið mistekist. Og kannski heppnast. Ekki gott að segja.

Best er að lifa í þeirri trú að sennilega hafi þrátt fyrir allt verið best að sleppa tækifærinu og gera ráð fyrir að það hefði ekki sett þig á betri stað en þú ert á núna.
Það heitir að vera sáttur við sjálfan sig. Ef þér tekst það ásamt því að vera sáttur við Guð og aðra menn þá ertu á fínum stað.

Eigið góðar stundir


miðvikudagur, september 01, 2004

Óður til mömmu

Þetta varð til fyrir prófin í vor þegar ég var að lesa yfir mig í fræðunum.
Öll eigum við rót okkar í mömmu. Mamma er gjarnan best.
Mamma mín ól okkur upp við erfiðari kringumstæður en þekkjast í dag. Þvegið í ísköldum bæjarlæknum þó hún væri komin að barnsburði. Ekki alltaf full kista af mat og ekki alltaf heitt og notalegt. Oft á tíðum ótrúlegt, miðað við nútímaþægindi.
Við lifum góða tíma.


Ljóðrænum línum mig langar að henda
línum sem á nokkrar staðreyndir benda
Mér datt þetta í hug nú fyrir skömmu
Hvar værum við til dæmis án hennar mömmu
Baslið og stritið er á sig hún lagði
haukur í horni jafnvel þegar hún þagði
Hvernig hún annaðist börnin sín átta
svo lentum við ekki utangátta
Sauma okkur flíkur úr gömlum fötum
stoppa í sokka sem duttu út í götum
Eitt var það sem hún vildi ekki orða
að ekki var alltaf nóg til að borða
Merkilegt hvað þá hún gat
gert úr engu góðan mat.
Bera henni vitni verklúnar hendur
æðrast aldrei hvernig sem á stendur
Trúi ég gjörla að á þessum árum
skolandi þvottinn á lækjarsteinum sárum
hafi vangarnir mömmu oft verið skreyttir með tárum.
Að eilífðar ósi árin renna
nú man hún mamma tímana tvenna
gömlu árin burtu runnin
sum þeirra fallin í gleymsku brunninn
Nú hópinn sinn enn, hún vegur og metur
blind, en gerir samt eins og hún getur
slitnar seint þessi móðurstrengur
Það er okkar stærsti fengur
er tímaklukkan áfram gengur
að eftir stendur ævistarf
okkur fært sem góðan arf.
Orð þessi færð í lítinn ramma
segja - takk fyrir mamma.

EM

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Hún á afmæli í dag, hún á afm........

Til marks um hvað tíminn flýgur, fæddist hún fyrir ótrúlega stuttu síðan. Frumburðurinn Íris, litla hnátan 26 ára. Til hamingju með daginn elsku Íris mín og Guð blessi litlu fjölskylduna þína.

Sælt veri fólkið!

Var að koma heim úr lærdómnum. Jón Steinar var að sýna okkur fram á hvernig málarekstur fyrir dómstólum verður að byggja á rökum og aftur rökum – og engu öðru. Eins og margir þekkja, hefur hann sótt um stöðu hæstaréttardómara. Ég held að Hæstiréttur væri vel að honum kominn. Mæli með honum. Hann var að segja okkur frá hvernig margir lögmenn fara út og suður í málflutningi sínum, langt út fyrir efnið. Dómarar eiga síðan í mesta basli með að raða saman brotunum til að byggja dóm sinn á. Hann vill að dómarar stoppi menn og haldi þeim við efnið.
Ég verð að segja að ég er hrifinn af rökfræðinni í málflutningi Jóns.

Ég held að öll málefnaleg umræða sé góð ef hún byggir á staðreyndum en að sama skapi slæm þegar slegið er fram ímynduðum forsendum og umræðan byggð á því.
Ég ætla að stöðva umræðuna um spurningu unga mannsins hér af þessari ástæðu, finnst hún of flöktandi og neikvæð :-) án gríns held ég að hún sé ekki til góðs á þessum grunni og alls ekki þeim sem spurði.

Ég ætla að svara spurningunni hans Kidda og hafa það lokaorð mín í þessari umræðu.

Ég hef, eins og ég sagði, hugsað um spurninguna og er jafnvel að því enn. Ég hef komist nálægt niðurstöðu sem ég trúi: Ég held að Guði sé hvorttveggja gullið og græjurnar að skapi(…!) Hann skapaði jú allt sem til þarf, svo hvernig ætti hann að hafa á móti því? (Nema misnotkuninni á því t.d. þegar smíðaðurvar gullkálfur, og kannski sitthvað annað, sem fólk tilbiður í Hans stað í dag).
En ég er jafnframt viss um að hann staldrar við hvorugt. Ég hef þá trú að hann horfi – og hlusti, með meiri athygli á aðra hluti. Hvort tveggja gullið og græjurnar er eitthvað sem kitlar skilningarvitin – okkar (og ekkert að því) en tæplega Guðs. Að því leitinu er skyldleiki með þessu tvennu.

Að lokum nokkrar blákaldar staðreyndir (í mjúkum tón). Ég er jákvæður, alls ekki neikvæður, hugsa kannski öðruvísi en margur. Líkar vel gagnrýnin hugsun. Ég er ánægður með unga menn (og konur) sem þora að hafa skoðanir. Ég er ánægður með ykkur vini mína. Lífið er bjart og fagurt og ég nýt þess að lifa því.

Eigið frábæran dag.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Framhald....

“Þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra”. Þetta er einfaldasta mynd kirkju, þ.e.a.s. þar sem kirkja er flokkuð sem fólk. Þetta er loforð ekki satt? Þegar því er velt upp fær spurningin um gullið og græjurnar kannski nýjan flöt. Þá er ekkert í hinu ytra sem skiptir máli nema þessar tvær eða þrjár sálir sem hafa komið sér saman um að hittast til að tigna Jesú Krist. Hann sagði að hann myndi mæta á staðinn. Víst er að hann stendur við það.

Spurning unga mannsins var góð og athyglisverð fyrir margra hluta sakir og alls ekki sorgleg. Spurningin kom ekki heldur úr neikvæðu hugarfari, heldur huga bráðgreinds manns sem veltir fyrir sér spurningunni um hvað er hismi og hvað eru hafrar. Það er ekkert sorglegt við að velta því upp. Dapurlegra er ef kirkjunnar menn án neinna forsendna segja manninn lifa og hrærast í neikvæðu umhverfi, aðeins á grundvelli spurningar sem sett var fram af hreinum huga og að hann sjái ekkert jákvætt við kirkjur eða jafnvel Guð. Slíkt er órafjarri hugsun þessa manns.

Ég hef velt spurningunni nokkuð fyrir mér, hún verður ekki krufin á einfaldan hátt með skautun á yfirborðinu, hún er krefjandi – fyrir þann sem vill skoða málið, með opin augun.

Njótið daganna.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Hver er munurinn?

Ég fékk athyglisverða spurningu frá efnilegum ungum manni um daginn.
Sá var að velta fyrir sér kirkjumálum. Spurningin var þessi: Hver er munurinn á gulli Kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og öllum flottu græjunum sem safnast upp í kirkjunum í dag og hvort er Guði þekkara?

Það má finna ýmis svör, ef vel er að gáð...?

Áttu svar fyrir hann?

laugardagur, ágúst 28, 2004

Úr viðjum vanans

Maður er ekkert nema vaninn. Segja margir og það er alveg satt hjá þeim.
Vaninn er aftur á móti ekkert skemmtilegur til lengdar. Mér finnst hann hundleiðinlegur. Þetta er sennilega eitthvað í eðlinu hjá okkur. Líkt og að festast ofan í djúpum hjólförum þó þú ætlir það ekkert. Kannast ekki flestir við hvað það getur verið erfitt að komast uppúr svoleiðis, sérstaklega á veturna þegar hált er.

Mörgu fólki leiðist lífið af því það gerir aldrei neitt annað en það er vant að gera.
Hangir heima öll kvöld. Fer sína vanalegu rullu um helgar. Ungt fólk jafnvel er að drepast úr leiðindum, horfandi á sápuóperur og lætur sig dreyma öðruvísi líf. Sjónvarpið er vanabindandi.
Verst við þetta er hvað þetta er allt of satt.

Við Erla erum engin undantekning hvað þetta varðar. Í mörg ár gáðum við ekki að okkur og lifðum allt of vanaföstu lífi. Tegundina af lífi sem er kallað “saltfiskur”.
En við erum loksins búin að fatta að lífið er ekki bara saltfiskur. Og það hefur ekkert með kringumstæður að gera.

Lífið er fjölbreytt salíbuna. Endalaus uppspretta ánægju og gleði....er ég væminn?
Allavega er mér engin væmni í huga. Staðreyndin er sú að við hjónin höfum snúið af okkur vanann og erum laus úr viðjum hans. Við látum hvorki kringumstæður eða misvitra menn stýra hvernig okkur líður
Algjör stakkaskipti, er rétta lýsingin.
Frelsið til að lifa lífinu sæll og glaður, sjá tækifærin í hverjum nýjum degi og nota hverja stund til að gera eitthvað sem skreytir lífið. Þetta er hlutskipti okkar allra. Það eru bara ekki allir sem sjá það. Guð gaf okkur gleðina, láttu engan ræna henni frá þér, hún kostar ekkert annað en að opna augun.

Við Erla skruppum í miðbæinn í gærkvöldi, löbbuðum um og virtum fyrir okkur mannlífið. Mikið getur það verið skemmtileg iðja. Margbreytileikinn er svo dæmalaust skemmtilegur. Við röltum okkur eftir Lækjargötunni og kíktum aðeins á matseðla veitingahúsanna, enduðum svo inná Jómfrúnni. Þar fengum við okkur danskt smörrebröd, platta með mörgum tegundum, hvert öðru betra. Alls ekki dýrt en kitlaði bragðlaukana, mæli með staðnum.
Reykjavík er notaleg borg sem við notum okkur í of litlum mæli. Túristarnir koma langan veg til að njóta þess sem við höfum við nefið á okkur. Það er engin þörf á fara til útlanda til að njóta lífsins.

Eftir notalegan kvöldverð gengum við í kringum tjörnina sem speglaði fallega rökkvað umhverfið og svo í gegnum Hljómskálagarðinn, það var æðisleg stemmning.

Það þarf ekki mikið til að gera lífið skemmtilegt.
Jæja það er nóg að gera, er að fara að læra.

Eigið skemmtilegan dag.

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Orð fá vængi.......

og fljúga. Margir kunna þá list að vitna í fleyg orð og tilvitnanir. Oftast utanbókarlærð orð einhverra vitringa sem einhverntíman létu gullkornin falla. Orð sem hafa síðan flogið um tilveruna fram og aftur kynslóð eftir kynslóð.
Orð, góð gjöf, þessi tjáningarmáti sem við notum alla daga er stórmerkilegt fyrirbæri. Þau greina okkur frá öllum dýrategundum merkurinnar. Þau hvorttveggja byggja upp og skapa og brjóta niður og mylja.
Öll þekking manna felst í orðum. Viskan er bundin í orð. Heimskan líka. Og öll flóran þar á milli.

Þú sest í skóla og það sem þú gerir er að innbyrða orðaflaum. Endalaust magn orða.
Orðin byggja upp þekkingu hjá þér og þekkingin getur af sér nýjan orðaflaum frá þér sem aðrir læra svo af.

Afhverju svona heimspekilegur þanki?
Jú ég sat fyrirlestur hjá miklum fræðimanni áðan Dr. Guðmundi Sigurðssyni sérfræðingi í skaðabótarétti. Hann á skilið orðu fyrir gífurlegt orðaflæði á stuttum tíma.
Einhverntíman sat hann og nam fræðin sín eins og nemendur hans í dag.
Mér var skemmt yfir þessum þankagangi mínum hvernig hann var að yfirfæra fræðin til okkar. Og allt í einu fannst mér þetta svo merkilegt, þetta með talið, þekkinguna, mann fram af manni ……allt með orðum. Þetta er eins og keðja, einn hlekkur tekur við af öðrum.

Fór svo að hugsa um allt sem sagt hefur verið gott og vont. Fleygu orðin flottu sem lifa kynslóðirnar og líka sögð orð um náungann sem líka fá flugfjaðrir og fljúga þangað sem þeim sýnist, í allar áttir eins og vindurinn blæs, þó sannleiksgildið sé ekki alltaf háheilagt. Orð sem hafa skaðað og skemmt.
Já góðar gjafir geta verið vandmeðfarnar.
Vandinn við sögð orð er að ekki er hægt að spóla til baka. Ef þau særa þá er í mesta lagi hægt að setja plástur með fyrirgefningarsmyrsli á og vona að grói. Sumt grær, í annað hleypur ígerð.
Ekki er endilega gott að átta sig á því hvort gerist.

Það er háalvarlegt hlutverk að vera hlekkur í keðjunni, því keðja slitnar alltaf á veikasta hlekknum.

Betra að vanda sig.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Morgunstund gefur gull í mund

Við Erla höfum það til siðs að taka daginn snemma og skreppa í göngutúr. Það hefur ekki verið nein kvöð þessa frábæru daga sem undanfarin misseri hafa gælt við okkur með.
Í morgun var allt í einu farið að rigna….!
Það verður að viðurkennast hér að áhuginn var minni til göngunnar í morgun þegar regnið steyptist úr lofti, vitandi að rigningin vætir mann.
En eins og segir í laginu og allir vita, þá er rigningin góð.
Sennilega kannast flestir við hvað það er gott að ganga í rigningu þegar maður er orðinn gegnblautur (ef manni er ekki kalt).
Og þegar vel er gáð þá er meira að segja betra að ganga í rigningu en í þurru veðri…??
Fyrir því er ákveðin ástæða.
Sú að rigningin er hlaðin neikvæðu rafmagni (jónum) en líkaminn er hlaðinn jákvæðum jónum. Að ganga í rigningunni gerir að verkum að vætan með sínum neikvæðu jónum afhleður þig. Jarðtengir þig..... Hollt streittum sálum.
Rigningin framkallar vellíðan sem ekki fæst í þurru veðri.
Vissirðu þetta??

Hent fram hér til hvatningar þeim sem ekki nenna út þegar rignir.

Eigið góðan dag.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

The never ending story...!

Ánægjuleg helgi senn liðin.
Þegar við Erla vorum yngri, á kafi í barnauppeldi, töluðum við oft um hvernig framtíð við vildum sjá. Oft bar á góma fjárhagslegt öryggi. Það er mikilvægur þáttur í hverri fjölskyldu. Ég valdi hinsvegar áhættusama iðngrein til að hafa lifibrauð af. Það ásamt hlutabréfakaupum í svikamyllu skapaði fjárhagslegt óöryggi sem ég aldrei vildi.
Við töluðum líka oft um fjölskyldumynstur. Ein stærsta óskin okkar var að stúlkurnar okkar yrðu hamingjusamar, lentu ekki í vitleysu eins og svo algengt er í dag og fjölskyldan yrði samhent. Við töluðum oft um að heimilið okkar yrði eins og hreiður þar sem hægt yrði að koma saman og njóta samvista þegar fjölskyldan stækkaði.

Ég minntist þessara pælinga okkar nú þegar við eyddum saman helginni stórfjölskyldan og héldum uppá tveggja ára afmæli Petru Rutar….dótturdóttur okkar.
Sagan endurtekur sig. Börnin eignast börn og við orðin……afi og amma.
Fjölskyldan telur bráðum 12 meðlimi (eitt á leiðinni). Hún hefur stækkað hratt. Er furða að maður gleðjist þegar maður sér á þennan hátt óskir sínar rætast.
Það er ánægjulegra en flest annað að sjá garðinn okkar stækka á þennan hátt. Í þessu liggur ríkdómur okkar Erlu. Þetta eru okkar demantar.
Kynslóðirnar halda áfram og við verðum forfeður. Við erum orðin hluti af sögunni. Ættin okkar er orðin til. Sagan er í ritun.
Við Erla erum rík.

Laganámið er uppstilling fyrir næsta kafla, hann verður áhættuminni.

Njótið daganna.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Skólasetning.

Það var hátíð.
Ég var á skólasetningu Háskólans í Reykjavík. Sjöunda starfsárið að hefjast. Makalaust góður skóli. Mörg ný andlit sáust þ.á.m. áttatíu nýir nemendur í lagadeild. Það voru ræður og söngatriði. Engin önnur en sjálf Diddú þandi raddböndin eins og henni einni er lagið, tók meira að segja karlalagið “Hamraborgin rís há og fögur”. Magnað, hefði fengið hárin til að rísa á höfði mér ef þau væru þar ennþá.....! Nokkrir héldu ræður, þar á meðal Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor, mæt kona. Guðfinna talaði um markmið skólans. Að gera nemendur að góðum gerendum, rannsakendum og …gagnrýnendum.
Ég sperrti eyrun sérstaklega við það síðast talda. “gagnrýnandi”. Nokkuð sem oftar en ekki hefur verið kallað neikvæðni í mín eyru.
Guðfinna sagði gagnrýni eða gegnrýni (sá sem rýnir í gegnum) eitt það mikilvægasta sem maðurinn hefur í fórum sínum. Akademísk fræði og ekki síst laganám byggja mjög á gagnrýnni hugsun. Hún sagði alla rannsóknavinnu byggja mjög á gagnrýni. Framfarir mannsins á öllum sviðum byggist meira og minna á gagnrýni.

Gagnrýni er ekki sama og niðurrif. Gagnrýni er náskylt rökvísi. Gagnrýni er tækið sem þarf til að skoða málin frá öllum hliðum. Eftir gagnrýna skoðun er niðurstaðan jafnan nær sanni.
Þetta er líka biblíulegt, Orðskviðir Salómons: “þar sem margir ráðgjafar eru fer allt vel”.

Sumir telja gagnrýni vera af hinu vonda. Það er til fólk sem telur mig neikvæðan vegna gagnrýnna skoðana minna á sumum málefnum. Jafnvel hætt að vilja þekkja mig vegna skoðana minna. Það er leiðinlegt, en hvernig ræð ég við það?
Gagnrýni á sjálfan sig er líka eitthvað sem okkur er öllum hollt að stunda í réttum mæli. Það hjálpar til að ná settu marki.
Orð Guðfinnu innihéldu mikla þekkingu og speki.

Kennslan hefst af fullum dampi á mánudaginn.

Njótið dagsins.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Í svarthvítu eða lit?

Ég sé ekki.
Ég finn ekki .
Ég heyri ekki
Allt gott hjá mér…...aðferð Strútsins (!)

Hafa skal það er sannara reynist! Mikið vit í gömlu íslensku málsháttunum. Hvað stöndum við oft frammi fyrir kringumstæðum sem við þurfum að taka afstöðu til. Vega og meta og hafa síðan það er sannara reynist.

Stundum hefur mér dottið í hug atferli þessara fögru fugla (þetta er reyndar þjóðsaga, Strútar stinga ekki hausnum í sandinn) þegar ég heyri fólk tala um hluti sem það óskar svo heitt að séu sannir og réttir þótt agnúarnir stingi í allar áttir eins og nálapúði.
Strúturinn sem afneitar umhverfinu sér auðvitað ekki það sem hræddi hann, en líklega er það þægilegt….um stund.
Réttlætanlegt? Að vissu marki, því eðli hlutarins vegna skaðar það sennilega engan meira en hann sjálfan. Allavega meðan hann fær ekki aðra til að gera það sama.

En auðvitað breytist ekkert með því að neita að sjá eða heyra. Umhverfið kallar stöðuglega á viðbrögð okkar. Sumt er þægilegt og gott að takast á við. Annað eru óþægilegar staðreyndir sem erfitt getur verið að horfast í augu við. Þá kann að vera þægilegt “að sjá ekki”.
Fjöldi einstaklinga hefur þennan hæfileika. Létt og leikandi horfa framhjá misfellunum og brosa en …. með lokuð augun.

Best er að vera jákvæður á umhverfið, án þess þó að gleyma raunsæi rökfræðinnar sem gerir greinarmun á annarsvegar jákvæðni og neikvæðni og hinsvegar réttu og röngu.
Hafa skal það er sannara reynist….Stundum er það óþægilega hliðin.

Þetta var nú bara svona smá þankagangur um lífið og tilveruna.

Enn einn fallegur dagurinn.
Eigið hann frábæran og góðan.


mánudagur, ágúst 16, 2004

Töðugjöld

Það var til siðs á árum áður að halda uppá heyannalok. Sá siður hefur verið tekinn upp að nýju. Á Hellu á Rangárvöllum voru haldin töðugjöld um helgina.
Við Erla kíktum þangað á laugardagskvöldið.
Það kom skemmtilega á óvart hvað margt var um manninn þarna. Bændur og búalið ásamt einhverjum borgarbörnum í bland. Það var gott að sjá að þarna var fólk að hafa gaman nokkurnveginn án þess að vín sæist á nokkrum manni. Mest fjölskyldufólk. Ýmis skemmtiatriði voru viðhöfð m.a. kaffibrúsakarlarnir sem slógu rækilega í gegn.
Árni Johnsen var með sinn alkunna brekkusöng og náði rífandi stemmningu í brekkuna með raulinu sínu. Allskonar gömul dægurlög og krakkasöngvar sem hann flutti. Felix Bergsson var kynnir og söng fyrir krakkana inn á milli. Hagyrðingar stigu á stall og kváðu rímur, misgóðar. María frá Kirkjulæk flutti fimmundarsöng ásamt Jóni syni sínum og tveimur barnabörnum, það kallast víst að kveða stemmur. Gaman að sjá Maríu svona hressa. Ýmislegt fleira gert sem fangaði ekki hugann og ég nenni ekki að tíunda.... Jú þessu lauk með frábærlega flottri flugeldasýningu. Einni þeirri flottustu sem ég hef séð.

Við skruppum líka í berjamó í góða veðrinu austur að Dímon. Þar var sem endranær allt krökkt af krækiberjum. Það er einmitt tegundin sem við viljum. Erla gerir úr þeim bestu berjasultu sem ég fæ. Afraksturinn eftir klukkustundar tínslu var 15 lítrar af berjum sem segir svolítið um magnið sem þarna er.

Annars dvöldum við á Fitinni um helgina í rólegheitum og góðum félagsskap nokkurra systkina minna.

Það líður að sumarlokum. Gott sumar sem verður lengi í minnum haft fyrir frábært veðurfar og skemmtileg ferðalög.
Dagurinn styttist og skólarnir eru að hefja göngu sína. Stundaskráin mín er komin og bókalistinn einnig svo ég er í startholunum. Laganámið krefst algerrar ástundunar og yfirlegu. Ég er góður eftir sumarið, lít björtum augum til vetrarins.

Eigið góðan dag.


fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Hitamet !

Það er í hlýrra lagi hér á norðurhjara. Við Erla eyddum seinni hluta dagsins í gær í miðbæjarrölt. Það var sérstakt, kom eiginlega spánskt fyrir sjónir.
Lykt af sjóðheitu malbiki í bland við allskonar matarlykt sem blærinn bar með sér frá veitingastöðum sem flestir höfðu raðað stólum út á götu til að fólk gæti sest niður utandyra og notið dagsins.... minnti okkur ekki á Frón. Fólk að kæla sig á köldu öli - sitjandi úti (!) Allsstaðar fólk í stuttbuxum og ermalausu. Austurvöllurinn eins og spænsk baðströnd, endalaust fólk að sleikja sólina og ylinn. Miklu frekar suðrænt.
Þetta var magnað. Þurftum svolítið að klípa okkur í handlegginn til að muna að við vorum ekki í fríi suðurfrá. Missti út úr mér á röltinu að nú væri stutt í bílaleigubílinn og hvert við ættum að fara til að fá okkur að borða í kvöld.
Það er eins og ró og friður færist yfir fólk þegar náttúran dælir svona suðrænu hitabeltislofti yfir okkur í þessum mæli sem nú er að gerast. Mætti kalla þetta gælur náttúrunnar.

Eftir þetta skemmtilega rölt um miðborgina kíktum við á ylströndina í Nauthólsvík. Bílaröðin náði út á Loftleiðahótel (!) Ströndin iðaði af fólki. Íslendingar kunna þá eftir allt saman að njóta dagsins. Þarna var stemmningin miðjarðarhafsleg og auðvelt að gleyma að við vorum norður á gamla Fróni en ekki á miðbaug.
Við settumst niður og nutum sólarinnar þangað til vesturbærinn roðnaði í geislum hennar þegar hún hvarf bakvið byggingar og ákvað að setja punkt eftir þennan góða dag.

Við Erla ákváðum að setja punktinn aðeins aftar og fullkomnuðum stemmninguna með því að skreppa aðeins aftur í miðbæinn, settumst inná Jómfrúna og fengum okkur ekta fleskesteg að dönskum hætti og ísköldu, hvergi í heiminum eins góðu, Gvendarbrunnavatni.

Ísland.... dýrgripur Guðs sem hann hefur lánað okkur aðgang að – tímabundið.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Aftur af stað....!

Gleymum því sem að baki er og horfum fram á veginn segir í helgri bók. Tek hana gjarnan á orðinu. Margt þar sem leikir og lærðir mættu taka af meiri alvöru.

Hægt og hljóðlega ætla ég að feta mig inná netheima og viðra skoðanir mínar og hugsanir. Ekki víst að allir verði sammála þeim frekar en fyrri daginn, skiptir ekki öllu. Vil þó nýta mér þann þegnrétt að láta þær í ljós, vonandi án þess að meiða mann og annan.
Málefnin geta verið af ýmsum toga. Geri þó ekki ráð fyrir að vera afkastamikill skrifari í vetur vegna anna.

Nú styttist í að annað ár skólamaraþonsins hefjist. Hlakka til að takast á við það.
Margt hefur gerst í sumar á Alþingi sem áhugavert verður að kryfja með hinum færu kennurum lagadeildarinnar. Þar fara oft og tíðum fram miklar og kröftugar rökræður.

Afar margt skemmtilegt hefur rekið á mínar fjörur það sem af er ársins. Þó hef ég einnig verið áhorfandi atburða og uppákoma þar sem mér er ekki skemmt. Sé til hvort ég tjái mig um það síðar.

Eigið góða og skemmtilega helgi...Við Erla ætlum að kíkja í berjamó..!