laugardagur, desember 31, 2005

Annáll fjölskyldunnar


Árið sem er að líða ber með sér margt góðra hluta í lífi okkar fjölskyldunnar.

Það bættist við ættina með fæðingu yngsta barnabarnsins Þóreyjar Erlu Davíðsdóttur. Þann 17. október. Hin barnabörnin vaxa og eflast með degi hverjum og er gaman fyrir afa og ömmu að fylgjast með og taka þátt.

Arna og Davíð fluttust suður á árinu og búa nú nálægt okkur hér í Breiðholtinu. Það er gott, sérstaklega fyrir Daníu Rut sem hefur fengið góða aðhlynningu á leikskólanum sínum ásamt aðstoð þroskaþjálfara. Henni fer vel fram. Davíð hóf vinnu á heimili fyrir einhverfa drengi og líkar vel. Þau una sér vel í Seljahverfinu enda rólegt og fjölskylduvænt hverfi.

Eygló flutti líka suður og býr í Bláskógum í Seljahverfi. Hún hafði þó áður keypt sér íbúð á Akureyri. Það var góð fjárfesting sem hefur hækkað ört undanfarið. Hún vinnur í Hagkaupum í Smáralind. Hún hefur verið hjá okkur um jólin enda erum við orðin fá í heimili og veitir ekki af að bæta það aðeins upp.

Íris og Karlott ásamt dætrum sínum búa í Hafnarfirðinum og líkar vel. Íris hóf nám í lögfræði á haustmisseri og gekk henni það vel. Karlott skipti um vinnu á árinu og hóf vinnu í Landsbankanum. Þau eyða áramótunum í sumarbústað austur í Grafningi.

Hrund hóf nám í Kvennaskólanum. Líkaði ekkert of vel til að byrja með en fljótlega varð Kvennó bestur. Hún hefur verið að vinna með skólanum og sýnt af sér dugnað þar. Hún hafði plön um að gerast skiptinemi í Frakklandi, en hefur horfið frá þeim áætlunum, hún tímir ekki að missa af bekknum sínum.

Erla vann á Verkvangi stærsta hluta ársins en hætti þar í lok nóvember vegna ört minnkandi verkefna hjá fyrirtækinu. Hún hefur tekið það rólega í desember, en er með ýmsar pælingar varðandi framhaldið. Hún verður ekki í vandræðum að finna sér eitthvað við sitt hæfi, ef að líkum lætur.

Ég sjálfur hef verið á kafi í náminu þetta árið og hefur gengið nokkuð vel, þó alltaf megi gera betur. Vann við smíðar í sumar og gat því stýrt umfangi þess sem ég tók að mér. Vildi hafa það þannig, þar sem ég vildi geta ferðast og notið sumarsins með fjölskyldunni.

Sumarið er tíminn, hef ég oft haldið fram. Engin undantekning var á því þetta árið. Upp úr stendur ferðin okkar til Danmerkur. Þar vorum við í þrjár vikur með vinum okkar Heiðari og Sigrúnu. Tvær vikur vorum við í sumarhúsi í Arrild á Jótlandi og eina viku sem skiptist á milli Stövring í góðu yfirlæti hjá Óla og Annette og Kaupmannahafnar. Köben skipar alltaf sérstakan sess í okkar huga, fátt er sem jafnast á við að sitja á ráðhústorginu og skoða mannlífið þar á góðum degi. Eins þykir okkur danska smörrebrödet á Kronberg eiga fáa sína líka.
Ég veiddi í fyrsta skipti á erlendri grundu í þessari ferð, Geddur og Abborra ásamt einhverjum fleiri tegundum sem ég kann ekki einu sinni skil á. Önnur Geddan var stór og gaman að veiða hana, var reyndar heppinn að sleppa með tíu fingur frá henni þar sem hún reyndi að bíta einn puttann af mér, það kostaði hana lífið.
Við ferðuðumst vítt um Jótland og vorum mjög heilluð af mörgum stöðum, enda var veðrið eins og á sólarströndu nánast allan tímann.

Veiðin hér heima var líka góð. Sumarið hófst með veiðiferð í Þórisvatn með Heiðari og Hlyn. Þar veiddist vel að vanda og eigum við enn talsvert af fiski þaðan í kistunni. Gott að fá ársbirgðirnar þar, því fiskurinn þar er einn sá besti sem fyrirfinnst.
Það má segja að þetta ár hafi ég fyrst lært að veiða á flugu. Ég hnýtti slatta síðasta vetur sem ég veiddi á í sumar. Haustið stendur upp úr. Ég fór nokkrar ferðir í sjóbirting í haust og veiddi yfirleitt vel, ásamt því að setja í einn og einn lax. Mest veiddi ég á fluguna mína "Erlu" sem ég hannaði og batt síðasta vetur. Það kom skemmtilega á óvart hvað hún er veiðin.

Við dvöldum oft á landinu okkar á Fitinni í sumar. Meira en nokkru sinni áður og kviknaði í okkur löngun, í fyrsta skipti, til að fara að huga að því að koma okkur upp kofa þar, til að dvelja í. Gengum svo langt að fara út í verðkannanir. Einnig fengum við leyfi byggingaryfirvalda til að færa byggingarreit og snúa mænisás hússins, ef við skildum byggja.

Við fórum einnig á fjöll í sumar. Fljótshlíðarhringurinn stendur þar upp úr. Við fórum ásamt Hlyn og Gerði og Hansa og Auju á einum degi um þessar fallegu lendur þar sem Skaparinn virðist sérstaklega hafa vandað til verka.
Ég held ég geti sagt að ég veit ekki um fallegri leið á Íslandi, þó við höfum víða farið.

Haustið kom með sína fallegu liti og tilkynnti komu vetrar. Veturinn hefur verið mildur og góður. Þó ber skugga á þegar dauðinn knýr dyra, en við kvöddum Birgi Kornelíusson frænda Erlu um daginn. Einnig lést annar frændi hennar í bílslysi við Akureyri, Sigurður Arnar Róbertsson. Blessuð sé minning þeirra.
En svona er lífið, það gefur og tekur.

Árið hefur í heildina verið gott og gjöfult. Ég hef þær væntingar til ársins sem er að ganga í garð að það verði jafn gott, eða betra.

Bið Guð um að gefa ykkur öllum vinum mínum gifturíkt og farsælt ár
með kærri þökk fyrir það sem er að líða.

Gangið á Guðs vegum.....

laugardagur, desember 24, 2005

Jólin fyrir 40 árum...!

Af gefnu tilefni tek ég mér ögn skáldaleyfi til að fylla í nokkrar eyður.

Það glamraði í eldhúsáhöldum og ómurinn af því barst upp á efri hæðina. Ég lá með lokuð augun og hlustaði. Hitinn í herberginu var nær frostmarki en það var hlýtt undir sænginni, hún var þykk og góð. Hugurinn var þegar orðinn upptekinn af tilhugsuninni um hvernig dagurinn yrði. Jólatréð niðri í stofu var skreytt með bómull ofan á greinunum til að líkja eftir snjó, ásamt allskyns skrauti, kúlum, glerfuglum og englahári sem gerði fallega geisla í kringum ljósin á greinunum.

Loksins var þessi dagur runninn upp. Nú máttum við fara að raða pökkunum kringum tréð. Mér hafði gengið illa að sofna kvöldið áður og var nú vaknaður eldsnemma. Ég spratt upp úr rúminu og vakti Hlyn bróðir minn og tilkynnti honum hátíðlega að það væri kominn aðfangadagur.

Desember hafði verið lengi að líða og vaxandi tilhlökkunin varð gríðarlegri eftir því sem nær dró. Við höfðum farið út í kaupfélag með einhvern vasapening til að kaupa gjafir handa pabba og mömmu og hvor öðrum. Allt var leyndardómsfullt og spennandi. Hlynur hafði fundið á neðri hæðinni í kaupfélaginu þessa forláta beljuklóru með rauðu skafti handa pabba, en ég fann staf handa mömmu því mamma var á þessum árum alltaf hölt því hún var með ónýta mjöðm (fór seinna í liðskipti). Það var því praktíkin sem réði gjafavali í þá daga.

Það hafði verið erfitt að velja gjöf handa Hlyn eða öllu heldur var það þannig að ég hafði fundið gjöf, traktor úr járni, bláan að lit út í Mosfelli á Hellu. Mér fannst traktorinn svo flottur að ég ákvað að kaupa hann um leið og ég sá hann. Þetta var flottasti traktor sem, ég hafði séð á ævinni. Ég fór í vasann og taldi peningana mína. Þeir dugðu akkúrat fyrir traktornum. Ég sá fyrir mér hvað það yrði frábærlega gaman að leika okkur saman með traktorinn, en uppgötvaði augnablikinu seinna að auðvitað yrði bara einn traktor og Hlynur myndi ráða yfir honum. Ég taldi peningana aftur og aftur en útkoman var alltaf sú sama, það dugði fyrir einum traktor. Ég komst ekki framhjá þessari staðreynd svo ég stóð þarna ráðalaus og endaði eins og barna er gjarnt. Ég grét.
Næsta sem ég man var að pabbi kom og tók mig upp til að kanna hvað gengi að stráknum. Ég sagði honum vandræði mín með vota hvarma, að ég ætti bara fyrir einum traktor og hvað mig langaði sjálfan í svona traktor. Eftir eitthvert samningaþóf var farið að afgreiðsluborðinu og pabbi borgaði traktorinn.... með sínum peningum og sagði að ég mætti eiga hann. Ég man enn hvað ég var þakklátur. Þá var til fyrir öðrum traktor handa Hlyn, reyndar hallast ég frekar að því að ég hafi keypt vörubíl handa honum, en ekki traktor.

Við rukum niður stigann. Mamma var löngu vöknuð og var að stússa í eldhúsinu. Útvarpið var stillt hátt, verið var að flytja jólakveðjurnar. “Öllum ættingjum okkar og vinum, sendum við hugheilar jóla og nýárskveðjur .....Jón og Gunna í Melasveit”, eitthvað þessu líkt, ómaði um húsið. Það var mikið um að vera í eldhúsinu hjá mömmu. Hrærivélin á fullu og pottar á eldavélinni spúðu gufu. Eftirvæntingin var einhvernveginn í algjöru hámarki.

Mamma var búin að raða fullt af pökkum kringum jólatréð og nú bauð hún okkur að sækja pakkana okkar og setja þá kringum tréð. Ekki þurfti að hvetja okkur til þess. Við þustum af stað og settum pakkana hátíðlega, bakvið tréð, til að þeir yrðu ekki fyrstir þegar kæmi að því að deila þeim út.

Dagurinn leið hægt og rólega, alltof rólega. Við vorum alltaf að fara að trénu og skoða pakkana og horfa á ljósin. Eftir hádegi var jóladagskrá í sjónvarpinu. Það var svart/hvítt sjónvarp sem Danni bróðir hafði komið með heim einu sinni þegar sjónvarpið var að hefja göngu sína á Íslandi. Krakkarnir úr hinum húsunum komu til að fá að horfa á sjónvarpið með okkur. Það stytti stundir.

Seinni partinn var farið snemma í fjósið til að hægt yrði að hafa allt tilbúið klukkan sex. Heimilisfólkið fór í bað hvert á eftir öðru og allir voru greiddir og fínir. Sjónvarpið entist til klukkan fjögur en þá tóku við tveir lengstu árlegu klukkutímar sögunnar.

Mamma var á fullu í eldhúsinu og klukkan sniglaðist áfram. Milli fimm og sex var farið í sparifötin og spariskóna og nú bara sátum við og biðum eftir klukkunni.
Mínúturnar siluðust framhjá ein eftir aðra. Loksins var hápunktinum náð.
Hljómur jólabjallanna í útvarpinu ómaði um húsið, þeir fylltu hvern krók og kima og líka sálina sem upphófst með hljómunum.
“Gleðileg jól, gleðileg jól”, heyrðist út um allt, allir með bros á vör að faðmast og skiptast á heillaóskum. Hátíð í bæ og friður jólanna færðist yfir. Lotning fyrir Jesúbarninu, frelsaranum fyllti alla veru okkar.

Maturinn var aldrei tilhlökkunarefni hjá mér í þá daga. Hann var bara til að tefja. Þó var maturinn alltaf góður hjá mömmu þó komið hafi fyrir að ég hafi beðið um hafragraut í staðinn fyrir jólamatinn, ég veit ekki hvort það var um þessi jól eða önnur.
Eftir matinn fannst okkur mamma alltaf vera endalaust lengi að taka saman, pabbi alltaf eitthvað að tefja og allir aðrir þurftu að fara á klósettið.

Loks var farið að útbýta gjöfum. Mamma fékk krampa af hlátri þegar hún reif utan af stafnum. Þetta var karlmannsstafur úr bambus, boginn í annan endann og allt of stór fyrir hana, fyrir utan að hún taldi sig líklega ekki þurfa að ganga við staf. Pabbi virtist vera ánægður með beljuklóruna (held ég). En ég man sérstaklega hvað við Hlynur vorum ánægðir með gjafirnar okkar, allavega ég með traktorinn.

Jólin hafa breyst en mannfólkið er alveg eins. Siðirnir breytast og þróast en hátíðleikinn og friðurinn er sá sami. Og afmælisbarn jólanna breytist aldrei.

Óska ykkur öllum vinum mínum gleðilegra jóla.

sunnudagur, desember 18, 2005

Fjölskyldudagur!

Dagurinn í dag er búinn að vera notalegur og góður. Ég er búinn að vera að vinna mikið eftir að ég kláraði prófin. En í dag var tekið frí og faðmur fjölskyldunnar umvafði mig. Það líkar mér best af öllu. Nýliðin önn var annasöm, mikið að læra og einingarnar margar. Prófin voru strembin, svo strembin að ég náði ekki fullu húsi í þetta sinn, þarf að lesa upp alþjóðarétt um jólin og taka prófið aftur í janúar. Ekki ánægður með það en svona er bara laganám, aldrei á vísan að róa. Það var aldrei sagt að þetta væri auðvelt.

Við höfðum jólakaffi (súkkulaði) í dag fyrir litlu fjölskyldurnar okkar, svo hér voru litlar skvísur að bræða afa sinn..... og ömmu eins og þeirra er von og vísa....og venja. Ótrúlegir hjartabræðarar þessar litlu dúllur.

Íbúðin okkar hefur tekið stakkaskiptum. Árviss jólabúningur hefur tekið við hversdagleikanum. Erla er ótrúlega natin við að gera jólalegt hér hjá okkur. Dóti er pakkað niður og upp fara jóla styttur og jóla - allskonar hitt og þetta, sem við höfum eignast í gegnum árin. Það er alltaf jafn skemmtilegt að sjá þetta allt, því bakvið flest dótið liggur hluti sögunnar okkar. Ég er því fegnastur að hún er ekki alltaf að henda út og endurnýja, heldur bætir hún við smátt og smátt, þannig fá hlutirnir meira gildi og verða verðmætari okkur sem njótum.

Núna sitja þær hér hinn helmingur dætra okkar, Hrund og Eygló, en þær voru að vinna í dag svo þær voru fjarri góðu gamni í súkkulaðinu í dag. Þær eru duglegar skvísurnar að vinna, telja það ekki eftir sér.
Fátt jafnast á við svona góðra vina fundi. Ég hugsa oft um hvað það er ekki sjálfgefið að eiga börnin sín fyrir bestu vini sína? Það búa ekki allir við þá blessun.
Ég er þakklátur fyrir það.

föstudagur, desember 16, 2005

Teddi eldfimur í dag!

Veltir upp spurningu um samkynhneigð. http://www.theodorb.typepad.com/ Ég ætlaði að kommenta hjá honum á síðunni hans en þetta er orðið alltof langt mál sem slíkt, svo ég set þetta hér inn. Þetta er samt í tilefni skrifa Tedda á síðunni hans í dag.
Það kvelur mig að geta ekki geta sagt NEI við spurningunni hans án umhugsunar. Spurningin sem hann er svo djarfur að varpa fram er þess eðlis að hægt væri að bollaleggja hana fram og aftur án niðurstöðu. Auðvelt er að færa rök fyrir því að kirkjan sé ekki það skjól sem hún þarf og á að vera. Eins eru færð rök fyrir því að hún sé einmitt skjól þeim sem þurfa á því að halda.
Þar veldur hver á heldur.

Ég, maður sem var látinn drekka trúna úr pelanum mínum sem barn, fastur til margra ára í þeim kenningum sem ég meðtók í þeirri hlýðni, er á þeirri skoðun í dag að alltof margt fólk finnist sem ekki á skjól í kirkjunni. Ástæðan er sú að kirkjunnar menn flokka fólk eftir kennitölum og syndir þess eftir straumum og hentugleik.
Ég ætla, þar sem þetta er komment en ekki pistill, að nefna eitt dæmi um þessa hentistefnu, ég gæti nefnt þau of mörg í viðbót.
Í Lúkas 16:18 er talað um skilnað og endurgiftingu.
“Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann sinn, drýgir hór. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.” Og í Matteus 5:32 er svipað orð:
“En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.” Þetta er svo undirstrikað jafnskýrt á enn fleiri stöðum.

Afhverju er ég trúmaðurinn að nefna þetta? Fyrst og fremst vegna þess að mér líkar ekki allt sem ég sé. Ekki bara það sjálfmiðaða starf sem ég sé viðgangast og kallast pólitík, heldur líka þessi staðreynd sem ég held að sé kveikjan að hugleiðingum Tedda að samkynhneigt fólk lifir undir fordæmingu kirkjunnar, meðan annað fólk innan hennar heldur framhjá, skilur, giftir sig aftur og aftur, meira og minna allt með samþykki kirkjunnar ....... Þrátt fyrir ofangreind orð.
Þessi mismunun á gildi orða ritningarinnar flokkast því miður undir hugtak sem Jesús klíndi gjarnan á Faríseana og fræðimennina, kallast “hræsni”.
Ég hef ekki á beinan hátt svarað spurningunni hans Tedda með þessu en af þessari skoðun má kannski draga þessa ályktun: Líklegt er að fordæmingin hafi slæm áhrif á þá sem fyrir henni verða,
hugsi það hver fyrir sig.

sunnudagur, desember 11, 2005

Sælan ein!

Bara tilhugsunin er góð. Einungis morgundagurinn eftir, svo kemur langþráð pása.
Eins og það getur verið gaman og gagnlegt að lesa og safna í eigin sarp þekkingu annarra. Þá er hægt að ofgera því.
Ég er búinn að eyða miklum tíma í lestur undanfarið eins og gjarnan áður í prófatörnum.
Ýmislegt gagnlegt síast inn fyrir, og helst þar vonandi einhverja stund, allavega framyfir próf.

Dagurinn í dag hefur samt verið aðeins öðruvísi. Í morgun fór ég til Benna bróður míns að skera hross. Þ.e.a.s. hrossakjöt. Við ásamt Hlyn skárum hrossið í allskonar bita, sumt í salt, annað í steikur eða hakk, allt eftir því sem okkur sveitaköllunum sýndist. Það verður gott að eiga saltkjöt í tunnu á svölunum í vetur. Ég ætla að steikja buff á eftir. Ef ég man rétt þá bragðaðist hrossabuff gríðarlega vel hjá mömmu í sveitinni forðum, ætla að gera heiðarlega tilraun til að líkja eftir því.

Sem ég sat hér á skrifstofunni áðan og las, fann ég allt í einu yndislega freistandi ilm leggja til mín úr eldhúsinu. Svo góðan að ég leið upp úr stólnum, og sveif fram í eldhús.
Þar stóð þessi yndislega kona mín við pott og hrærði í............súkkulaði.
Hún var sem sagt að undirbúa aðventukaffi fyrir heimilisfólkið á bænum. Ekki laust við að um mig færi sæluhrollur. Það er eitthvað svo ofboðslega notalegt að finna svona umhyggju fyrir sér og sínum.
Það verður víst seint fullþakkað, sú gæfa að spor okkar lágu saman forðum og að hún skildi vilja mig....veit ekki hvar við værum annars!
Ég hef lengi haldið því fram að ég hef einfaldan smekk,
vel aðeins það besta.

föstudagur, desember 09, 2005

Leitin að Paradís

heldur áfram. Hubble er góður.
Þetta líkist nú ekki mjög myndinni af Paradís, frekar einhverju öðru verra sem maður getur ímyndað sér! Reyndar er þetta sólin...! Eða smá hluti af henni. Þegar ég var að leika mér í síðasta pistli og velta fyrir mér hvað jörðin væri lítil var ég ekki búinn að finna þessa mynd. Gosið (sveigurinn) á myndinni er ca. jafnhár og tuttugu jarðir. Jörðin gæti verið svipuð og litli stafurinn o þarna niðri við hliðina á myndinni.
o
Þetta er nú ekki allt! Því á neðri myndinni er horft út í víðáttuna. Þessir undarlegu risar á bakvið eru af einhverri þvílíkri stærðargráðu að við getum ekkert gert okkur það í hugarlund.
Björtu deplarnir eru sólir, og margar þeirra eru margfalt stærri en sólin okkar, sem virðist nú engin smásmíði miðað við jörðina. Er nokkur vandi að vera sammála um að Jörðin sé hálfgerð örvera í þessu samfélagi?
Þessar pælingar eru bara svona til gamans, aðallega fyrir sjálfan mig í lestrarpásum. Samt skemmtilegt ef einhver annar hefur gaman af þessu líka. Undarlegast af öllu er að þetta er ekki ævintýri heldur veruleikinn blákaldur í kringum okkur.
Skyldi Paradís leynist þarna einhversstaðar, fyrst það virðist svona stutt í hinn staðinn??

Njótið annars helgarinnar, ég verð víst að lesa alla helgina.....

miðvikudagur, desember 07, 2005

Hvað er þá maðurinn?

Það upplýsist hér með að ég hef, og hef alltaf haft, mikinn áhuga á himingeimnum. Hubble sjónaukinn bandaríski hefur skyggnst lengra út í óravíddirnar en okkur hefur nokkurntíman tekist áður. Svona lítur raunveruleikinn út í kringum okkur. Nú er í smíðum sjónauki sem verður margfalt sterkari en Hubble. Hann mun gera að verkum að hægt verður að horfa svo langt að hugsanlega sést allt til upphafsins. Ég hlakka til að sjá myndir úr honum.....!
Það sem ég er að meina er að þegar við rýnum út í geiminn erum við að horfa aftur í tímann. Ekki bara milljónir, heldur milljarða ára aftur í tímann. Ljósið fer hraðast alls sem við þekkjum, það er t.d. bara um átta mínútur til sólarinnar. Þegar við erum að horfa á stjörnu sem er í milljón ljósára fjarlægð erum við því að horfa á mynd sem var tekin fyrir einni milljón árum síðan. Þetta þýðir að maðurinn mun líklega aldrei komast lengra en að líta þessi ósköp augum. Við munum aldrei komast þangað, hvernig sem tækninni framvindur.
Þessar myndir eru teknar í gegnum Hubble og ef maður skoðar þær með þetta í huga þá eru þetta í rauninni milljarða ára gamlar myndir sem við sjáum. Fjarlægðirnar frá hægri hlið myndarinnar til þeirrar vinstri getur hlaupið á milljónum, jafnvel milljörðum ljósára. Magnað. Líklega er þetta umhverfi allt öðruvísi í laginu í dag, en við sjáum það...! Merkilegt.
Þegar þetta er skoðað sést best hvað jörðin er agnarlítil. Hún hefur í raunveruleikanum miklu minna vægi í samfélagi stjarnanna en eitt sandkorn á sjávarströnd.
Mér datt í hug orðin “Í húsi föður míns eru mörg híbýli” Er hugsanlegt.....?
Verð reyndar að segja að mér finnst nánast óhugsandi annað en að þarna úti séu fleiri stjörnur sem Guð hefur ræktað aðeins meira en aðrar.
En hvað veit ég um það......? Ekkert frekar en þú. Best er að reyna að njóta þessa stutta tíma sem okkur er skammtaður hér á sandkorninu Jörð.
Var annars í næstsíðasta prófi annarinnar í dag, það var skattarétturinn. Gekk svona sæmó.
Bara fjölskyldu- og erfðaréttur eftir.
Kv. Erling maur

sunnudagur, desember 04, 2005

Ár síðan..!

Katrín Tara Karlottsdóttir er eins árs í dag. Það líður hratt hvert árið. Þegar sú stutta kom í heiminn gisti stóra systirin hjá afa sínum og ömmu á meðan. Um morguninn þegar hún vaknaði og fékk fregnirnar var það fyrsta sem hún sagði mjög hróðug: Nú er ég orðin stóra systir eins og Danía Rut. Það hafði enginn verið að tengja þetta við hana en þá hafði þetta forskot Daníu Rutar ekki alveg verið sanngjarnt í augum Petru Rutar. Katrín Tara er mjög duglegt barn, með afbrigðum handóð og fjörug, m.ö.o. fróðleiksfús.
Til hamingju með daginn litla afagull.

föstudagur, desember 02, 2005

Kom á daginn..!

Það kemst enginn hjá því að uppskera öðruvísi en í réttu hlutfalli við sáninguna. Ingibjörg er að pakka fylgi Samfylkingarinnar í gröfina. Ég er með nýja kenningu: Kannski er Ingibjörg bara sjálfstæðismaður á laun og flokkurinn sett hana til höfuðs Össuri til að slátra fylginu innan frá...? Kannski verður bara sameiginleg hátíð Ingibjargar og sjálfstæðismanna þegar hægt verður að moka yfir og setja kross á leiðið....! Þeim hefði farnast betur með Össur áfram á stýrinu. En án gríns þá er ljós í myrkri að fleiri og fleiri sjá í gegnum frúna, muna efndirnar á því sem hún hefur lofað og skoða verk R listans gleraugnalaust. Sauðirnir flýja og hjörðin þynnist með hverjum degi, hefur ekki mælst minni síðan 2002.
Ég segi Amen eftir því efninu....!

mánudagur, nóvember 28, 2005

Einu ofaukið.....

Nú veit ég að maður á ekki að fara í tvö próf í lagadeild sama daginn. Það gerðist í dag og ég held að það hafi ekki verið að hjálpa mér. Fór illa upplagður í seinna prófið, var eiginlega búinn að fá nóg. Fyrra prófið var í þjóðarétti sem er held ég eitt erfiðasta fag sem ég hef farið í til þessa. Hefur kannski að gera með erfiða lagaensku og litla færni mína í því efni. Ég tók þá ákvörðun að vera ánægður með tvær fimmur eftir daginn (vegna þess að það er mest fyrir þeim haft) ef það næst þá......!

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Kommentakerfið...!

Ég hef heyrt af fólki sem hefur haft áhuga á að segja álit sitt hér á síðunni en ekki tekist það.
Ég er með spam síu á kerfinu. Það virkar þannig að þegar skrifað hefur verið komment þá þarf að skruna aðeins niður, þar sjást nokkrir stafir í röð. Þessa stafi þarf að skrifa í reitinn sem er beint undir stöfunum. Þegar það hefur verið gert þá þarf að ýta á "Login and publish" reitinn og þá á kommentið að koma fram á síðunni.

laugardagur, nóvember 26, 2005

Oliver....nei takk

Fórum í gærkvöld út að borða áttmenningafélagið. Það samanstendur af okkur hjónunum, Gylfa og Christínu, Barbro og Sigga og Maríu og Svan.
Höfum haldið í þessa hefð til fjölda ára og farið einu sinni á ári út að borða. Staðirnir hafa auðvitað verið misjafnir eins og gengur. Þessi var mjög nálægt botninum. Hávaðinn var verri en í Múlakaffi í hádeginu en umhverfið minnti mest á það.
Við sátum á miðju gólfi í miðjum gangvegi umkringd fólki sem hélt greinilega að það væri í keppni um hver gæti framkallað mestan hávaða, flest vel drukkið.
Ég veit vel að þetta á að vera "fínn" staður, allavega fer fræga fólkið mikið þangað. Sú staðreynd gerir staðinn nákvæmlega ekkert merkilegri eða betri í mínum augum og fær (eins og fram hefur komið) falleinkunn.
Reyndar verður að segjast að maturinn var nokkuð góður loksins þegar hann kom, eftir nærri tveggja tíma bið, en það er svo sem engin nýlunda, það er ágætis matur á mörgum stöðum. En út að borða snýst um fleira en bragðið, það er t.d. skemmtilegt ef hægt er að halda uppi samræðum án mikillar fyrirhafnar.
Maður veit allavega hvert maður fer ekki næst, svo fátt er svo með öllu illt.....
Eftirrétturinn og samfélagið heima hjá Maríu og Svani eftir á, var í allt öðrum gæðum - takk fyrir það.

Góða helgi gott fólk.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Bærinn í dalnum

Botn í Geirþjófsfirði









Hér á eftir fer órímað ljóð. Ekki er það allra smekkur.
Móðurbróðir minn kom í Botn ekki löngu áður en hann dó að heimsækja
bernskuslóð sína. Hann orti ljóð um horfna tíð. Það er ljúfsár tregi í ljóðinu
hans, en gríðarlega fallegt.

Þegar þetta varð til hér að neðan var ég að hugsa um þessa ferð hans
vestur og móður mína en þau voru á svipuðum aldri og miklir mátar .......!

Stendur hann við túnfótinn
Að gamla bænum
Vindurinn gnauðar
Í fölnuðu grasi

Horfir inn í hugskot sitt
Mynd af fallegum bæ
lítil börn að leik
Iðandi líf

Þroskuðum augum
Horfast þeir
Maðurinn og bærinn
Þeir muna báðir

Minningarnar
Angurværar
Ylja eins og sólin
Fallegt líf í vestfirskri í sveit

Hljóðlega
Með mikilli virðingu
Spjalla þeir
Maðurinn og bærinn

Senda hugsanir sínar
Á milli
Hann var eitt barnanna
Í hópnum

Manstu eftir systur minni
Við sátum yfir ánum
Manstu eftir dulunni
Á barðinu

Þeir vita báðir
Að tíminn líður
Að ekkert í veröldinni
Fær því breytt

Tregafullt
Tilfinningaflóð
Strýkur hjartastrengi
Við túnfótinn

Á köldum degi
Þarna
Kvað við skálda raust
Það var hinsta kveðja

Bærinn stendur einn
Í dalnum
Eina hljóðið
Er ýlfrið í vindinum

föstudagur, nóvember 18, 2005

Síðasti kennsludagur annarinnar í gær

Við tekur prófatörn sem lýkur 13. desember. Það jaðrar við bilun þegar litið er til þess hversu stutt er síðan önnin hófst. Það er jú víst þannig að ef nóg er að sýsla þá líður tíminn hratt, en ég segi eins og máltækið: “Fyrr má nú rota en dauðrota”.
Þessi önn hefur gengið vel. Ég hef verið að hækka mig jafnt og þétt í einkunnum í náminu og verð ég að guma af því að þær hafa ekki áður verið jafn góðar og það sem nú er liðið vetrar.
Fyrsta tían.... jájá...! leit dagsins ljós á önninni, það var í erfðarétti. Það var reyndar, kannski, ekki erfitt próf, en er eitthvað erfitt þegar maður kann það??? Þeim sem voru lágir í einkunn fannst þetta eflaust erfitt. Íris er að mala mig, hún er strax búin að fá eina tíu....á fyrstu önn. Man ekki eftir að hafa leyft henni þetta.

Við ætlum að hittast þrír í dag og reyna að taka þjóðaréttinn aðeins föstum tökum. Það er fagið sem ég (og þeir) er hræddur við. Kennslubókin í þjóðarétti er ólesandi vegna erfiðrar ensku, endalaus erfið orð sem þarf löggiltan dómtúlk til að þýða.
Hef sem betur fer góðar glósur til að glöggva mig á efninu.

Ég hef verið að vinna undanfarið með skólanum. Ætla nefnilega til heitu landanna í janúar og ætlunin er að vera búinn að vinna fyrir því svona auka auka.
Annars sýnist mér þetta ætla að verða góður dagur eins og þeir eru flestir. Ég nýt þeirrar náðar að eiga góða heilsu og hafa í mig og á og vera elskaður af fólkinu mínu.
Það eru gæðin mín stærst og mest.

Njótið dagsins.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Bara til að afsanna....

Það sem hún Arna heldur fram, að ég muni ekki svara þessu klukli.

1. Hvað er klukkan? 22:40
2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu? Hef aldrei séð vottorðið en veit ekki annað en það sé bara mitt.
3. Hvað ertu kölluð/kallaður? Erling
4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? Hættur að telja
5. Hár? Dökkt og hvítt, ofurlítið liðuð bæði
6. Göt? Original ekkert feik
7. Fæðingarstaður? Fljótshlíðin - Sami staður og Gunnar frændi á Hlíðarenda
8. Hvar býrðu?? Höfuðborginni
9. Uppáhaldsmatur? Sé fram á að hafa ekki pláss fyrir þennan lið á síðunni minni sleppi honum því
10. Einhvern tímann elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Uuuuuhu - ekki svo ég muni
11. Gulrót eða beikonbitar? Beikonbitar með eggjum og rjómasósu með söxuðum sveppum og graskornsfræjum og svolitlu af möluðum furuhnetum útá og smá nýmöluðum piparkornum og hvítlauk – er gott, með smá smjöri og saxaðri gulrót !!!!
12. Uppáhalds vikudagur? Sá fyrsti og síðasti, svo líkar mér líka vel við þessa sem koma þar á milli
13. Uppáhalds veitingastaður? Fyrir utan eldhúsið mitt – þá líkar mér vel við Las Brasas
14. Uppáhalds blóm? Allskonar falleg grös
15. Hvaða íþrótt finnst þér skemmtilegast að horfa á? Heimsmeistarakeppni matreiðslumanna í Perlunni
16. Uppáhalds drykkur? Líklega kaffi - ef litið er til hvað ég drekk mest af
17. Disney eða Warner brothers? Já já
18. Uppáhalds skyndibitastaðurinn... Kentucky
19. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? Eina teppið sem er þar, er beislitt
20. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Þarf að gá...........Íris – verkefni í stjórnskipunarrétti
21. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kretidkortinu? Hjálp - ég segi NEI
22. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? Oftast leiðist mér ekki. Held ég myndi bara gera eitthvað skemmtilegt.
23. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? Heimskuleg
24.Hvenær ferðu að sofa? Oftast seint á kvöldin
25. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? Tja nú er ég kjaftstopp
26. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki? Enn kjaftstopp 27. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Sjónvarps hvað sagðirðu??
28. Með hverjum fórstu síðast út að borða? Minni heittelskuðu Perlu
29. Ford eða Chevy? Musso offkors
30. Hvað varstu lengi að klára að svara þessu? Átti ég að taka tímann ??

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Betra en best..

Við fórum nokkrir í stórfjölskyldunni í árlega Perluferð til að kanna snilli kokkanna þar.
Þeir höfðu engu gleymt frá í fyrra. Maturinn var snilld á köflum. Andalifrarpaté-ið stóð uppúr eins og í fyrra. Mér fannst bæði hreindýrið og gæsin betri nú en í fyrra. Dádýrakjöt var nýtt á boðstólum og fannst mér það of bragðlítið, ekki nógu vel kryddað. Marineraður hvalur kom á óvart. Flest af því sem í boði var þótti mér gott – þó ekki allt.
Samfélagið var skemmtilegt enda góðra vina hópur á ferðinni. Takk fyrir frábært kvöld strákar....!
Annað í frásögur færandi er einkunnin í verkefninu sem ég var að kvarta yfir í síðasta pistli. 8.0 - kom þægilega á óvart.
Verkefnin eru á færibandi þessa dagana. Er í síðasta verkefni í fjölskyldu- og erfðarétti fyrir próf og svo er síðasta verkefnið í stjórnskipunarrétti á mánudaginn. Næsta vika er svo síðasta kennsluvika þessarar annar. Það er ótrúlegt. Síðasta önnin framundan og BA útskrift.
Það þarf engu að ljúga um hvað tíminn líður hratt.

mánudagur, nóvember 07, 2005

FLÆÆÆKJUFÓTUR.....!

Það þarf snilligáfu til að búa til svona flækjur í einu verkefni. Við erum fimm saman að leysa málið, það er virkilegur HAUSVERKUR. Misþyrming á þessum annars fínu laganemum.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Pretty woman....

Drottningin komin á fætur fyrir allar aldir.
Það er óvenjuleg sjón og fátítt hér á sunnudagsmorgnum að drollan sjálf sitji til borðs með manni. Óvæntur heiður og ótilunninn, en skemmtilegur.
Við erum að horfa á fólk tygja sig út í daginn misjafnra erinda auðvitað en allir að puða við það sama ....að skafa frostið af bílunum sínum. Sennilega hefur verið frostrigning í nótt því fólkið virðist í mesta basli við að ná þessu af.
Dagurinn er fallegur og býður örugglega uppá eitthvað skemmtilegt. Við erum t.d að fara í afmæli á eftir . María frænka Erlu er fimmtug og heldur uppá herlegheitin með pompi og prakt í Samhjálparsalnum í dag. Óskast henni hér með til hamingju með daginn.
Ég man vel þegar ég kom fyrst í hús Maríu og Svans. Það var á Snorrabrautinni. Kjallaraíbúð alveg við götuna. Það var á sokkabandsárum okkar Erlu. Þá var Snorrabrautin gott athvarf ungum hjónaleysum. Svanur tók af skarið, lokaði okkur inni í stofu og bauð góða nótt.......
Þetta var árið 1976
Árin tikka á okkur öll........ eins og á grönum má sjá. Ævin er eins og sólargangurinn. Hann endar með því að sólin sest við yztu sjónarrönd.
Því er um að gera að nota dagsbirtuna meðan hún er til staðar og njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Við höfum haft þetta að leiðarljósi allt síðan við gistum á Snorrabrautinni forðum, - með misjöfnum áherslum þó.
Með auknum þroska og nýjum áherslum held ég þó að við höfum aldrei notið lífsins betur eða verið á betri stað en í dag.
Það er athyglisvert en gott vegarnesti inn í framtíðina.

Eigið góðan dag.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Svona er bara lífið....

"Sá finnur að sem um er hugað" en "bágt er að rétta það tré, sem bogið er vaxið."

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

B.A .ritgerð.

Búið er að samþykkja ritgerðarefnið mitt. Það þurfti smá registefnu til þess, vegna þess að nánast ekkert hefur verið farið í verktakarétt. Ég ætla að skrifa um fasteignagalla og ábyrgðir byggingaverktaka á þeim, dómaframkvæmd o.fl. Þetta tengist samt auðvitað kröfurétti og skaðabótarétti og líka að einhverju leiti samningarétti.
Leiðbeinandi minn verður Othar Örn Petersen hjá LOGOS lögmannsþjónustu.
Hann er sennilega fremstur meðal jafningja í verktakarétti á Íslandi, segir deildarstjóri lagadeildar mér.

Veistu hvað B.A. stendur fyrir?

"Skammstafanirnar B.A. og B.S. eru latneskar að uppruna og standa fyrir baccalaureus artium og baccalaureus scientiarum. Orðið 'baccalaureus' er myndað eftir latnesku orðunum bacca lauri, það er 'ber lárviðarins', en það var siður Grikkja og Rómverja að heiðra menn með lárviðarsveig, sérstaklega skáld. Frá síðari hluta 17. aldar hafa lárviðarskáld haft fast embætti við bresku hirðina. Latnesku orðin ars (eignarfall 'artium') og scientia (ef. 'scientiarum) vísa í þessu samhengi annars vegar til hugvísinda og hins vegar til raunvísinda, samanber að á ensku er talað um 'Bachelor of Arts' og 'Bachelor of Science.'
Ekki er sérstakur munur á þessum tveim gráðum annar en að samkvæmt hefð lýkur fólk B.A.-gráðu í hugvísindum og B.S.-gráðu í raunvísindum. Munurinn felst því ekki í gráðunni sem slíkri heldur í námsefninu. Þegar um greinar sem ekki falla undir hug- eða raunvísindi er að ræða er misjafnt hvað gráðan er kölluð en Félagsvísindadeild Háskóla Íslands býður upp á nám til B.A.-prófs. Sumar deildir, til dæmis Viðskipta- og hagfræðideild, bjóða upp á nám til bæði B.A.- og B.S.-gráðu og er þá áherslumunur í námsefnisvali. Sambærilegar gráður hafa svo verið nefndar ýmsum nöfnum, til dæmis B.Ed.-gráða í kennslufræðum og B.F.A.-gráða í ýmsum listgreinum.

Af vef HÍ

Þá veistu það!
Þær týnast inn einkunnir úr miðannarprófunum, ég er ekki fallinn enn. En “sökum reynslu minnar af bjartsýni........tek ég regnstakkinn með” eins og einhver sagði, og bíð með að fagna.
Hvað um það, námið styttist og þetta gengur vel. Veit orðið ýmislegt sem ég vissi ekki áður um lög og rétt.
Best af öllu sé ég þó hvað ég vissi lítið.

Svo getur fólk verið að gera grína að mér, auðmýktinni uppmálaðri. Erla gaf mér gjöf. Spjald á ísskápinn sem á stendur: “When I married mr. right... I didn´t know his first name was Always”

Það sem fólk getur bullað.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Slagsmál í HR....!

Það er ekki ofsögum sagt um kennsluhætti í Háskólanum í Reykjavík. Lesið sjálf, athugið að fyrirsögnin er "Shock and Awe" frá 28. okt. sl.: http://www.b2.is/?sida=tengill&id=131192
Þess má geta að Sigurður Tómas Magnússon er settur saksóknari í Baugsmálinu og
Dr. Guðmundur Sigurðsson er einn okkar fremsti fræðimaður á sviði skaðabótaréttar.
Lesið pistilinn áður en þið kíkið á "álit" hér fyrir neðan.

Fundið fé....

- Vissir þú að hundurinn minn er svo gáfaður að hann kemur með moggann inn til okkar á hverjum degi! - Og hvað með það? Margir hundar gera það. - Já...... en við erum ekki áskrifendur.

laugardagur, október 29, 2005

Vetur kóngur.

Hann blés norðangarranum yfir okkur með tilheyrandi snjófjúki og kulda í gærkvöldi. Það er ekki laust við að manni finnist hann banka uppá full snemma þetta árið.
Það fylgir þó vetrarkomunni einhver notalegheit. Það verður svo augljóst hvað það er gott að eiga hlýtt og notalegt heimili þegar vindurinn þýtur yfir frostbitna mela og snjórinn safnast í grjótharða skafla upp við húsvegginn og fyllir hverja laut.

Núna er frost, það hefur lægt og snjórinn liggur yfir jörðinni eins og nýlagt teppi, allt er svo hreint og svalt. Frábært gluggaveður. Fjölskyldan innandyra og lætur sér líða vel. Notaleg öryggistilfinning sem allir finna fyrir. Erla notaleg í sófanum og dæturnar njóta friðhelgi heimilisins í botn. Ekki er laust við að eitthvað minni á jólin í þessari stemningu. Ekkert kallar á veiðimanninn í mér núna, - nema kannski fjöllin og Rjúpan.

Hugurinn hvarflar til baka, svo stutt er síðan ég gekk fram á árbakkana í sumarblíðu. Árnar glitrandi fallega innan um blómstrandi blágresi og ilmandi sumargróður. Laxáin í Aðaldalnum kemur lygn og falleg upp í hugann. Þar var sumartilfinningin yfirþyrmandi Mýflugan ætlaði að éta mig lifandi og hefði klárað það verk ef ég hefði ekki notað nýjustu varnir gegn henni. Það var logn og sól. Bændur voru í fjarska að snúa skrjáfþurru heyi í blíðunni. Maður heyrði samskiptin þeirra á milli, svo mikið var lognið. Fuglar flugu um loftin og maður var þáttakandi í íslenskri sumarflóru eins og hún verður fegurst. Þetta var falleg mynd af lífinu sjálfu, eins og þegar það gælir mest og best við mann.

Þessi kalda hvíta fegurð núna er öðruvísi en græn tilveran í sumar. Hún kallar fram í manni lotningu fyrir fjölbreytileika lífsins og minnir mann á hversu fallvölt og breytileg tilveran er. Ekkert er varanlegt. Allt er breytingum háð. Lífið gefur og tekur. Nýir einstaklingar koma fram og aðrir kveðja. Rétt eins og sumarið með allt sitt iðandi líf og svo veturinn sem tekur við með sitt frosna þel og fölnuð lauf.

Þrátt fyrir kuldalega ásýnd þá ber þessi tími með sér fögur fyrirheit. Um betri tíð, blóm í haga og glitrandi fallegar veiðiár með silfurgjljáandi lax og silung, nýgengnum úr hafi til þess eins að fjölga kyni sínu, og leyfa mér að veiða sig....!
Er ekki sköpunin yndisleg.

fimmtudagur, október 27, 2005

Maður er manns gaman!

Það sannaðist einu sinni enn í mínu lífi í gærkvöldi þegar vinir og vandamenn kíktu til mín í tilefni þess að ég fyllti eitt árið í viðbót.
Vinir eru Guðsgjöf. Það er gott að finna sig hluta af heild. Gott að telja sér trú um að maður sé samþykktur eins og maður er í góðra vina hópi.

Eyland í mannlegum samskiptum er óspennandi hlutskipti. Það er nokkuð sem maður skildi forðast. Það brýtur á einni eyju í hafi, það er ekkert sem hlífir, enginn skerjagarður, engar aðrar eyjar sem taka á móti úthafsöldunni með þér. Þannig sé ég vini. Þeir eru skerjagarður.

Ég á nógu langa ævi að baki til að hafa lært þá lexíu að gera greinarmun á vinum og “vinum” innan gæsalappa. Þar er reynslan ólygnust eins og máltækið segir.
Vinir ganga með þér alla leið, en “vinir” hverfa gjarnan af veginum þegar hvessir.
Árin hafa kennt mér að meta alvöru vináttu meira en flest annað. Það er blankur maður sem ekki kann það .
Já maður er manns gaman.
Ég naut gærkvöldsins.
Takk fyrir komuna öll.

mánudagur, október 24, 2005

Ekki meira..

Enga kvennafrídaga meira takk. Þetta nær engri átt. Konur að taka sér frí á miðjum degi bara til að minna á launamun í þjóðfélaginu. Hversvegna í ósköpunum látum við þær þurfa að vera að kvarta þessar elskur. Þær hófu þessa baráttu fyrir óteljandi mörgum árum síðan. Voru kallaðar rauðsokkur og litnar hornauga þegar ég var lítill.
Þessi barátta, jafnmikið réttlætismál og hér er á ferðinni, ætti að vera löngu unnin. Þær ættu ekki að þurfa að halda sérstakan kvennafrídag í dag til að minna á sig einu sinni enn.
Það er skammarlegt ráðandi karlaheimi að þær þurfi enn að vera að atast í þessu. Konur eiga auðvitað að vera með sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Ég skil að þetta var tíðarandinn á síðustu öld þegar karllægur hugsanagangur réð algerlega ríkjum. En í dag í upplýstu samfélagi okkar, ætti þetta ekki að finnast.
Ég vona að þetta verði í síðasta sinn sem konur þurfa að minna okkur á þetta ranglæti.
Ég vil jafnræði í launum - alvöru.

laugardagur, október 22, 2005

Laugardagsþanki

Mikið geta helgar verið yndislegar. Yngsta dótturdóttirin heimsótti afa sinn og ömmu í fyrsta skipti í morgun ásamt sinni frábæru fjölskyldu. Það var gaman að fá þau í heimsókn....... ætlaði að segja litlu fjölskylduna, en hún er svo sem ekkert svo lítil lengur.
Við vorum svo á ferðinni í dag, frúin og ég. Fórum meðal annars á Lindarmarkaðinn. Þar kennir ýmissa grasa. Við keyptum ljós í verðandi kofann okkar. Gamaldags inniljós og tvö útiljós á veröndina, samanlagt á 3000 kall. Ekki svo íþyngjandi það. Kofinn á nefnilega að verða gamaldags.
Við keyrðum svo um borgina, kíktum eftir verslunarhúsnæði, svona ef okkur dytti eitthvað sniðugt í hug. Keyptum ís og áttum virkilega notalegt spjall um lífsins gang og nauðsynjar.

Við vorum í smá heimspekilegum vangaveltum meðan við bræddum ísinn og rúntuðum. Við vorum að velta fyrir okkur þeim hópi fólks sem er sífellt að leita leiða til að “vera eitthvað”.
Þetta er óskýrt hugtak en er oft mjög áberandi í fari sumra. Þetta er væntanlega sprottið uppúr jarðvegi minnimáttarkenndar, allavega öryggisleysis.
Það er eitthvað dapurlegt við þetta. Þetta er eitthvað ímyndað kapphlaup við ósýnilega keppendur. Þetta eru þeir sem ekki hafa náð að greina kjarnann frá hisminu í lífinu, hvað er ekta og hvað ekki.

Er slæmt hlutskipti að vera bara “maður sjálfur” án jólaskrauts og grímu?. Er nauðsyn að keppa að því að vera eitthvað annað. Er ekki sóun á tíma og tækifærum að ríghalda í einhverja óskilgreinda stöðu, ímyndaðs virðingarstiga, sem veitir einungis fróun þránni til að vera eitthvað. Leitun á viðurkenningu.
Það er ömurlegt hlutskipti að vera að eltast við eitthvað sem er ekki. Sýnast fyrir einhverjum sem skiptir ekki máli. Þrá eitthvað sem maður veit ekki. Látast vera eitthvað annað en maður er. Þóknast einhverjum í von um stundarupphefð og lifa þannig tvöföldu lífi, í gerviheimi, innantómum og leiðinlegum.
“Smásálir”, passar einkar vel við þennan hóp.
Eru þetta örlög?
Nei ákvörðun.
Ég held það sé þetta sem höfundurinn meinti í hnotskurn með orðunum “eftirsókn eftir vindi”

Svo sjáum við hinn hópinn. Sem “er eitthvað” bara vegna þess sem þeir fæddust með úr egginu. Þeir eru ekkert að reyna að geðjast eða samsama sig við aðra. Þeir bara “eru” rétt si sona.

Við vorum sammála hjónin, að fyrrgreindi hópurinn er fyrirferðameiri, enda er það prinsippið í þeim hópi.
Það er góð uppskrift að vera maður sjálfur - án skrauts og grímu.

Njótið lífsins vinir - á ykkar eigin forsendum.

fimmtudagur, október 20, 2005

Nú verður

aðeins andað léttar. Miðannarprófin búin. Nokkrar einkunnir komnar og minn bara kátur. Erlan mín er ekki heima, fór út að borða með móður sinni, systrum og nokkrum frænkum. Þær eru góðar í að finna sér eitthvað til að hefða þessar skvísur. Eitt skipti er nóg, þá er komin hefð, t.d. á næsta ári :-s
Við feðginin Eygló og Hrund ætlum að hafa það gott og skemmta okkur yfir gömlum myndböndum úr fjölskylduferðum. Ýmislegt skondið lókal þar. Er ekki viss um að öllum þætti þetta eins fyndið og okkur. En hláturinn lengir lífið, nema maður kafni úr honum auðvitað.
Ekkert leserí í kvöld.

miðvikudagur, október 19, 2005

LABRÚMMMM.

Ég var á leið í próf, ók eftir Bústaðaveginum, nokkuð yfirvegaður eftir lesturinn undanfarna daga. Kominn að Borgarspítalanum vakti eitthvað óeðlilegt athygli mína. Kranabóma. Hreyfing bómunnar var öðruvísi. Það er talað um að fella bómuna þegar menn láta hana síga, þessi var að falla of hratt. Ég gleymdi augnablik að ég var að fara í próf og var kominn á staðinn augnabliki eftir að bóman féll. Kranamaðurinn var heill á húfi og, Guðsmildi, bóman lenti ekki á neinum. Þetta var bílkrani af stærri gerðinni og var að hífa kranabómu á byggingakrana, það féllu því tvær bómur til jarðar, yfir Háaleitisbrautina að bílastæðunum við Borgarspítalann. Það var hálfgerður skrekkur í mér þegar ég gekki inn í prófið, ég er búinn að umgangast svona verkfæri á tvo áratugi. Ég sem sagt horfði á þetta í beinni....úr stúku. Þetta hefði getað farið verr.
Hann er hollur sá er hlífir.

mánudagur, október 17, 2005

Til hamingju.....!

Fimmta dótturdóttirin er fædd. Hún fæddist í nótt. Það er orðið nokkuð öruggt að giska á stelpu, fæðist barn í minni ætt. Það væri gaman að reikna tölfræðileg líkindi þess að kasta krónu níu sinnum og fá sömu hliðina upp í öll skiptin.
Afinn er kátur með þetta og syngur núna hástöfum "Ég er umvafinn kvenfólki það get ég svarið"
og finnst hann vera lukkunnar pamfíll svei mér þá.

Hér er stóra systirin Danía Rut með glænýja systur í fanginu.
Innilega til hamingju með litlu rúsluna, Arna mín og Davíð.
Guð blessi allt hennar líf.

fimmtudagur, október 13, 2005

Ætti ég....

að fara í verkfræði.......? Ég var á kynningu á valgreinum fyrir 6. og síðustu önnina. Margt sniðugt í boði. Ég hef tekið ákvörðun um að skrifa BA ritgerð og taka vinnurétt og kauparétt. Svo hef ég val um að taka enskt lagamál (veitir sennilega ekki af, líkist meira golfrönsku en ensku) eða jafnvel kúrs í verkfræðideild sem heitir rekstrar-verkfræði, fæ það metið beint í laganámið. Mér sýnist að sá kúrs komi vel til álita. Hann snýst um að greina fyrirtæki, kaupa fyrirtæki í rekstri, stofna ný fyrirtæki og rekstur þeirra. Mér sýnist síðasta önnin verða nokkuð spennandi. Ég hef reyndar líka tekið ákvörðun um að taka masterinn í beinu framhaldi á næsta ári.
Annars er ég að klára miðannarprófin núna, næst síðasta próf í fyrramálið. Þetta er tarnavinna sem gengur yfir.

Blessuð.

þriðjudagur, október 11, 2005

Frelsi

Það er gaman að skoða sumarmyndir þegar kólnar
og vetur konungur leggst yfir hér á norðurhjara.
Sumarið er tíminn sem við njótum bestu gæða landsins
okkar.

Sumar fyrir vestan.
Við búum vel,

að eiga svona land,

ósnortið og fallegt.

Móðurástin söm við sig! Teygir
sig út yfir gröf og dauða.

mánudagur, október 10, 2005

Ég er......

yfir mig rasandi, á tíðindunum úr Hæstarétti.

sunnudagur, október 09, 2005

Fyndið...!

Kona ein var á gangi seint um kvöld þegar hún gekk framhjá Geðsjúkrahúsi. Þar sér hún nakinn mann birtast hjá spítalanum og án þess að hugsa sig um þá tekur hún til fótanna og hleypur eins og hún mögulega getur. Hún sér að maðurinn tekur á rás líka og hleypur á eftir henni! Hún er orðin dauðþreytt og kemur í húsasund þar sem hún er innilokuð og sér manninn ganga að sér kviknakinn. Hún leggst skelfingu lostin á götuna og hugsar að það sé best að gera allt sem hann segir. “Ekki meiða mig, ég skal gera allt sem þú vilt,” segir hún gráti næst og vonar það besta. “Allt sem mig langar til,” segir karlinn og hnyklar brýrnar um leið og hann hallar sér að henni. Konan dregur veskið sitt að sér og hniprar sig saman þegar maðurinn segir, “Klukk...þú ert hann og nú átt þú að elta mig!”

Já, ekki er alltaf allt eins og sýnist í þessari veröld.

Njótið dagsins.

föstudagur, október 07, 2005

Annir.

Dottinn í miðannarprófin og varla viðræðuhæfur. Það er góður kostur hvað tíminnn líður hratt á gervihnattaöld, allavega hvað skólann varðar, það er nefnilega svo gott þegar vorið kemur og prófin að baki.

Mér finnst skondið að fylgjast með hrokagikknum Hannesi Hómsteini reyna að koma eignum sínum undan. Jón Ólafsson á svo sem ekkert inni hjá honum að mínu mati. Það er bara svo pínlegt fyrir Hannes að vera að gera tilraun til undanskots á svona augljóslega aulalegan hátt.

Baugsfrasinn hljóðnar í rólegheitunum enda búið að segja allt sem hægt er að segja um það mál. Nú er bara að bíða eftir hvaða lokaorð Hæstiréttur hefur um málið. Ýmsir aukafarþegar hafa flotið með í þessari umræðu. Allskyns óþverri og hnýsni í persónulega hagi fólks og birting persónulegra samskipta þeirra hefur gert þetta mál að sora sem á sér fáa líka í sögunni ef nokkra. “Apaspil” sögðu feðgarnir, ætli þeir hafi gleymt hverjir eru aðalleikararnir í apaspilinu.
Samt sem áður verður fróðlegt að skoða lyktir málsins og hvaða lærdóm má svo
draga af þessu öllu. Eitt er víst, að þetta mál verður í kennslubókum lagadeilda í framtíðinni.

Það var líkt Dabba kóngi að hætta á tindinum. Honum tekst einhvernveginn að tímasetja hlutina vel og oft betur en aðrir sem gjarnan verða þaulsetnir og detta í þá gryfju að halda að þeir séu ómissandi. Yfirseðlabankastjóri er feit staða á hliðarlínunni, sjálfstæði stöðunnar er mikið, nánast eins og dómarasæti og þess eðlis að hún þarf ekki að hlusta á pólitíkusa. Dabbi kóngur ræður því áfram.
Þetta er nútímasinfónía. En svona er Ísland í dag.

Ég ætla að eyða helginni við bókalestur.

miðvikudagur, október 05, 2005

Fé leg sending..

í orðsins fyllstu.
Fékk þetta sent í morgun. Finnst þetta reyndar svo fyndið að ég má til með að deila þessu með ykkur.

Að bera fé: Afklæða kind
Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap
Áhættufé: Fífldjarfar sauðkindur
Eigið fé: Kindur sem maður á sjálfur
Fégirnd: Afbrigðileg kynhneygð (Að girnast sauðfé)
Fégræðgi: Að vera einstaklega sólginn í sauðaket
Féhirðir: Smali
Félag: Lag sem samið er um sauðfé
Félagi: Sá sem leggur lag sitt við sauðfé
Félegur: Eins og sauður
Féleysi: Þegar skorið hefur verið niður vegna riðuveiki
Fjárdráttur: Samræði við kind
Fjárhagur: Einhver sem er afar laginn við sauðfé
Fjárhirslur: Geymslur fyrir sauðfé
Fjárlög: Mörg lög sem samin eru um sauðfé
Fjármagn: Þegar margar ær koma saman
Fjármál: Tungumál sauðkinda/jarm -Tóndæmi (muna að kveikja á hátölurum)
Fjármálaráðherra: Yfirsmali
Fjármunir: Lausamunir í eigu sauðkinda
Fjárnám: Skóli fyrir kindur
Fjárplógsstarfsemi: Jarðyrkja þar sem sauðfé er beytt fyrir plóg
Fjársöfnun: Smalamennska
Fjárútlát: Þegar ærnar eru settar út á vorin
Fjárvarsla: Það að geyma kindur
Fjárveitingar: Þegar boðið er upp á sauðaket í matarboðum
Fjáröflun: Smalamennska
Fundið fé: Kindur sem búið er að smala
Glatað fé: Fé sem ekki hefur komið aftur af fjalli
Grímsá: Kind í eigu Gríms
Handbært fé frá rekstri: Kindur sem menn hafa gefist upp á að reka og ákveðið að bera á höndum sér
Hlutafé: Súpukjöt
Langá: Einstaklega löng kind
Lausafé: Kindur sem eru lausar á afréttinum
Norðurá: Kind að norðan
Opnibert fé: Fé í eigu ríkisins
Sauðburður: Þegar handbært fé er borið að á milli staða
Sparifé: Kindur sem ekki eru notaðar hversdags
Stofnfé: Fyrstu kindurnar sem maður eignast
Tryggingafé: Öruggt sauðfé
Veltufé: Afvelta kindur
Þjórfé: Drykkfelldar ær
Þverá: Þrjósk kind

Meeeeeeeee eeeeð ólíkindum skondið.

sunnudagur, október 02, 2005

Helgin góð...

Angan af gamalkunnri sveitalykt fyllti húsið okkar þennan morguninn. Erla og dæturnar tóku slátur í gær, ég var afar ánægður með þetta framtak þeirra, dugnaðarforkar. Afraksturinn kraumaði í potti og skapaði þennan ágæta ilm núna í morgunsárið.
Þetta er ódýr og afskaplega góður matur. Erlu fannst reyndar sviðin ekki fögur þó þau brostu sínu fegursta upp úr pottunum í gærkvöldi. Allt verður þetta samt dýrindisfæða.
Veit ekki hvort ég eigi að segja frá því en..... ég skrapp aðeins í veiði í gær, setti inn nokkrar myndir á http://veidimadurinn.blogspot.com/.
Laganámið gengur vel, er núna á kafi í verkefni í verðbréfamarkaðsrétti. Einkunnir eru ásættanlegar, ef allt gengur að óskum verð ég á endanum lögfræðingur.
Ég verð bara að segja að ég er ánægður með lífið eins og það er.

föstudagur, september 30, 2005

Ég og tölvur.

Ég veit ekki hvort þetta hefur eitthvað að gera með mig, eða hvort þetta er bara venjulega óheppni, en fartölvan mín krassaði. Harðdiskurinn fór og ég var ekki búinn að vera duglegur að taka afrit af honum. Það sem verra er, að ég var í miðri verkefnavinnu sem gildir til lokaprófs. Vona að strákarnir hjá EJS kunni sitt fag og nái að sækja það sem þar er. Buddan getur þó hrósað happi að vélin er enn í ábyrgð.
hrmf.....!!!!

miðvikudagur, september 28, 2005

Ég var klukkaður....!

svo ég er'ann.
Ég geri ekki ráð fyrir að manni líðist að skorast undan svo ég set eitthvað hér inn í kvöld - eftir lestur og verkefnavinnu dagsins.

Hér kemur það svo:

1.
Mér þykir hvítlaukur góður, þó það hafi verið eitt hræðilegasta bragð sem ég man eftir frá ungdómsárum mínum. Man sérstaklega eftir einni ungri myndarlegri konu sem mér fannst hræðileg herfa, bara vegna þess að hún hafði snætt hvítlauk.
Hann er líka meinhollur, þó það sé ekki tilgangurinn.

2.
Ég er feitur og pattaralegur. Þegar ég var að vaxa upp fannst mér mesta hörmungin í lífi mínu að vera svona grannur eins og ég var. Pabbi hafði um það þessi orð:
Erling hann er mjór og smár
Horkrangi og rindill
Óþekkur og feikna þrár
Þessi litli dindill.
Óskaði mér alltaf að ég væri feitari en ég var. Nú er samt svo komið að spegillinn minn lætur mig ekki í friði og æpir á mig stöðuglega að ég þurfið að grennast. Ég hef látið mér detta í hug að ég ætti kannski að fara að gefa gaum að því sem hann er að segja. Nei annars – það er alveg tilgangslaust.

3.
Ég er forfallinn veiðiidjót. Það byrjaði allt þegar ég var fimm ára er ég eignaðist meterslangt prik með meterslöngu girni bundið á endann. Sakkan var ró og öngullinn var boginn nagli. Á þetta veiddi ég minn fyrsta fisk, hann kokgleypti naglann og ég náði honum ekki af. Ég dró hann eftir læknum alla leið heim og sótti mér hjálp til að losa hann. Benni bróðir kom og losaði hann af og.........grýtti honum svo í stein og drap hann. Ég man enn hvað ég var svekktur og reiður, ég ætlaði að gefa honum líf. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og ég er enn að veiða. Hef ekki getað lært aftur hvernig á að sleppa fiski - öðruvísi en ofan í poka. Ég læknast sennilega aldrei af þessari dellu - enda til hvers?

4.
Þegar ég var barn í sveit hugsaði ég oft hvað væri hinum megin sjóndeildarhringsins. Það var ekki ferðast mikið í þá daga í sveitinni. Ég fann oft til fiðrings í magann við tilhugsunina um að fara til framandi slóða. Í dag er ég forfallinn ferðaidjót. Ég hef skyggnst aðeins bak við sjóndeildarhringinn. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri í lífinu og þá ekki síst hérlendis. Verð að viðurkenna að ef ég mætti velja um utanlandsferð eða jafnlanga ferð að eigin vali um Ísland, yrði Frón fyrir valinu.
Tilgangslítið...?

5.
Alinn upp á sveitaheimili við sveita andlits heimilismanna. Langt frá munaði og listisemdum, skil ég ekki alveg hvaðan kominn er þessi frábæri fagurkeri og lífskúnster sem mér til undrunar, ég finn oft í sjálfum mér. Áhorfandi að óendanlegum fjölbreytileika lífsins, get ég gleymt mér í lotningu fyrir sköpuninni, því óþekkta og órannsakaða sem mér finnst liggja á hægri og vinstri allt í kringum okkur, ég hlýt að vera svona frábær náungi....!

Átti þetta kannski ekki að vera ritgerð.....?

þriðjudagur, september 27, 2005

Kaldur veiðitúr.

Við Hlynur fórum í árlegan veiðitúr um helgina. Jafn hryllilega
gaman sem endranær. Við höfum báðir læknisvottorð uppá alvarlega veiðisýki
Gæsin lét ekki sjá sig. Hefur verið búin að
frétta af okkur.....! Tók bara því fleiri myndir.

5° frost á fallegum haustmorgni. Ég farinn að ókyrrast enda orðið bjart.









Er hægt annað en heillast. Tekið áleiðis í Þórsmörk, við fórum þó ekki þangað.









Haustlitir í "Föðurlandi" í Fljótshlíð. Tjörnina gróf ég fyrir 4 árum, í henni er fiskur...!










Gunnar hafði lög að mæla, "Fögur er hlíðin" Vinsæll staður í dag eins og forðum.
Fyrir þá sem ekki vita þá eru Tindfjöll í baksýn. Þau voru einu sinni eldkeila líkt og Hekla þangað til þau sprungu líkt og St'Helena í BNA í miklu hamfaragosi fyrir, að talið er, 250 þúsund árum síðan. Gosið var risastórt eða um þrír rúmkílómetrar. Ummerkin eru greinileg þarna sem við vorum og eins í Þórsmörk. Ljóst berg sem víða sést, oft margra metra þykkt, liggur í flögum og kallast "Flikruberg"
Gaman að horfa á þessa skarðatinda og ímynda sér þá keilu í laginu.

miðvikudagur, september 21, 2005

Apaspil?

Segir Jóhannes Jónsson í Bónus um Baugsmálið. Það á eftir að koma í ljós hvort hann hefur lög að mæla. Að vissu marki má segja að það sætir undrun að eftir þriggja ára rannsóknarvinnu og undirbúning skuli málið ekki vera dómtækt.
Ég persónulega get ekki neitað frekar óljósum grun mínum um að málið lykti af Davíðskri pólitík.
Ég hef jafnframt vonað að það sé hin mesta firra og stjórnendur Baugs hafi í raun verið að brjóta lög sem þeir verða að svara fyrir.
Spyrjum að leikslokum segir Jón H B Snorrason saksóknari ( Jón kenndi mér réttarfar síðasta vetur) Jón kemur fyrir sem vandaður maður í hvívetna. Hann er Eyfellingur, sonur Snorra sundkennara á Skógum sem meðal annars kenndi mér að synda þegar ég var smá putti. Hann virðist vera viss í sinni sök. Það á hinsvegar eftir að koma í ljós hvað Hæstiréttur segir um málið.
Ég vona að í ljós komi að Jón hafi rétt fyrir sér.
Ef hinsvegar Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdómara þá þykir mér Jón og hans embætti vera í vondum málum. Þó hann geti lagað ákærurnar og lagt þær fyrir dómara aftur (sem lögfróðum mönnum reyndar greinir mjög á um) er hætt við að dómstóll götunnar dæmi hann úr leik, með blóðþyrsta blaðamenn í forystu. Sem helgast af því að sú krafa er auðvitað meira en réttmæt að ríkissaksóknari kunni að undirbúa mál fyrir dómara.
Sú niðurstaða héraðsdóms að 18 af 40 kæruliðum eru ekki dómtæk ber allavega ekki vitni um vandaða stjórnsýsluhætti hjá embættinu.

Ef reyndin verður sú að málið sé af ætt Davíðs og pólitísk angan er af málinu, þá er heldur betur kominn tími til að taka til í stjórnkerfinu.
Ljós punktur í því öllu væri samt að íslenska réttarkerfið virkar eins og það á að gera. Dómarar búa við þann kost að ekki er hægt að reka þá, nema þeir brjóti af sér í starfi og þá þarf að setja þá af með dómi. Það er gert til að tryggja hlutleysi þeirra. Þeir geta dæmt ríkinu í óhag án þess að þurfa að óttast um vinnulega framtíð sína.
Ef Baugsmenn reynast saklausir þá var auðvitað illa með þá farið. Þá verða líka vinnubrögð saksóknara þjóðinni dýrkeypt. Himinháar skaðabætur verða þá dæmdar á ríkið að greiða þeim, og ríkið - það erum VIÐ.
Eru Baugsmenn sekir eða saklausir?
Hefurðu skoðun á því?

þriðjudagur, september 20, 2005

Bush hefur sennilega ekki lesið þetta..!

Aldrei mun veröld öðlast frið,
aldrei styrjöld af borgum létta,
eigi vopnin að semja sátt.

Evripídes (um 480-406 f.Kr.)

Er viskan á undanhaldi?

sunnudagur, september 18, 2005

Rólegheit eru þetta...

Ég ranka allt í einu við mér og fatta að ég sit einn í stofusófanum við lesturinn.
Hér iðaði allt áðan af lífi en nú er eins og dottið hafi á logn. Ég lít upp og sé að líklega hefur drottning hússins “her majesty” lagt sig síðdegislúr.
Stúlkurnar fóru í bæinn sem endranær, en það virðist vera skemmtileg iðja. Allavega ef taldar eru ferðirnar þeirra þangað.
Úti er logn og sól, ég sé það á veðurvitunum mínum, en það eru fánarnir fyrir utan Kaskó. Þeir eru eins og strompurinn á Sementverksmiðjunni á Akranesi, fínir veðurvitar, allavega vindhanar.
Litir haustsins eru algerlega að ná yfirhöndinni. Trén hér úti skarta fallega gulum og rauðum litum þessa stundina. Þetta er fallegt, en jafnframt tímanna tákn.
Brátt hvín í hæðum og frostbitnum melum. Þá er gott að muna að kuldaboli er líka nauðsynlegur lífríkinu hér og getur verið mjög skemmtilegur. Margar af mínum fallegustu minningum er einmitt kaldir og kyrrir vetrardagar. Þá renndi maður sér á járnplötu eða skautaði niður frostbólgna læki ásamt krakkaskara sem ekkert vantaði á í Kotinu í gamla daga.
Nú finnst mér góður tími. Þó ég kunni reyndar best við vorið þá er svo margt við þennan tíma sem mér líkar vel. Þetta er t.d. besti veiðitíminn. Nú er sjóbirtingurinn að vaða upp í árnar, gæsaveiðin er líka upp á sitt besta. Það má kannski segja að mér líki svona vel við þannan tíma vegna sveitamannsins í mér, það er uppskerutími. Eða kannski er ég bara svona yfirmáta jákvæður.
Nú færum við í hús fyrir veturinn.
Verð líklega að skreppa í smá veiðitúr áður en langt um líður.

laugardagur, september 17, 2005

Laugardagur til lestrar.

Hef eytt deginum að mestu við bækurnar. Er að lesa Skattarétt og Verðbréfamarkaðsrétt. Verð að segja að skattarétturinn er skemmtilegri. Reyndar hófst þessi dagur á því að hjálpa Eygló að bera inn dótið sitt. Hún er flutt til byggða aftur. Velkomin Eyglóin mín. Í gær var ég svo í sniðugri aðstöðu. Ég var í fimm tíma verkefni í Stjórnskipunarrétti, við vorum þrjú í hóp. Það sniðuga var að hópinn skipuðum við feðginin Íris og ég, ásamt stúlku sem Magnea heitir. Ég var að hugsa það áðan að þetta hefði mér síðast dottið í hug að ég ætti eftir að framkvæma á lífsleiðinni. En ég hafði gaman af og fannst fínt að vinna með henni.
Svona er nú lífið óskrifuð bók og erfitt að segja til um hvað morgundagurinn ber í skauti sínu, hvað þá lengra.
Ekki er vert að velta sér of mikið upp úr því heldur hugsa því meira um daginn í dag. Það er jú hann sem gefur tækifærunum tækifæri, ekki satt.

Njótið helgarinnar vinir.

fimmtudagur, september 15, 2005

Ég vissi þetta með hárin......

þegar þau fara að detta af manni.....! En þetta er himneskt. Ég var farinn að trúa því sjálfur að ég væri að fitna!

mánudagur, september 12, 2005

Hlynur sendi mér bráðfína hugmynd.

Við eigum örugglega eftir að prófa þessa aðferð með köttinn okkar

Toilet Cleaning Instructions :
1. Put both lids of the toilet up and add 1/8 cup of pet shampoo to the water in the bowl.
2. Pick up the cat and soothe him while you carry him towards the bathroom.
3. In one smooth movement, put the cat in the toilet and close both lids. You may need to stand on the lid.
4. The cat will self agitate and make ample suds. Never mind the noises that come from the toilet, the cat is actually enjoying this.
5. Flush the toilet three or four times. This provides a "power-wash" and rinse".
6. Have someone open the front door of your home. Be sure that there are no people between the bathroom and the front door.
7. Stand behind the toilet as far as you can, and quickly lift both lids.
8. The cat will rocket out of the toilet, streak through the bathroom, and run outside where he will dry himself off.
9. Both the commode and the cat will be sparkling clean.












And sincerely, The Dog.

sunnudagur, september 11, 2005

Í tilefni dagsins...

Tengdasonur minn Karlott er 30 ára. Við vorum í þessari flottu veislu áðan þar sem þau hjónin héldu uppá herlegheitin með glæsibrag. Honum áskotnaðist ýmislegt í tilefni dagsins. Mest bar þó á ýmsu veiðidóti, m.a. veiðistöng og ýmislegt með því. Hann ætlar að fara að hnýta flugur, sem er allt í lagi meðan hann lofar að þær verði ekki flottari en mínar. - Kannski ósanngjarnt að setja honum svona þröngar skorður....

Til hamingju með daginn Karlott minn – og veiddu vel á verðandi flugurnar þínar. Við nánari umhugsun, þá mega þær alveg verða flottari en mínar.

miðvikudagur, september 07, 2005

Spam.....

Það hafur aðeins borið á spam - kommentum á síðum blogspot. Þeir hafa smíðað gildru sem heitir "word verification". Það virkar þannig að þú þarft að herma eftir nokkrum stöfum sem birtast neðst á síðunni þegar þú gefur komment.
Vona að þetta vefjist ekki fyrir neinum.

mánudagur, september 05, 2005

Loksins.......

Var að setja inn efni á veiðivefinn http://veidimadurinn.blogspot.com/ . Nei nei þetta er ekki veidi.is heldur síðan mín. Það er líka krækja hér neðar á síðunni.
Veiðimenn verða að kíkja.

föstudagur, september 02, 2005

Trúmaður..

Mikil er (auð) trú Sturla Böðvarssonar samgönguráðherra.
Einhver fræðingur sagði honum að innanlandsflug myndi leggjast af ef völlurinn yrði fluttur til Keflavíkur. Það er stærsta ástæðan fyrir því að hann leggst algerlega gegn þeirri hugmynd, sem er samt sú langviturlegasta sem upp hefur komið í umræðunni um blessaðan völlinn. Hvernig dettur manninum í hug að kokgleypa svona rök.
Heldur hann að landsmenn séu svo aðframkomnir að þeir víli fyrir sér að setjast upp í glæsilega nútíma rútu í ca. hálftíma. Nú veit ég eins og aðrir landsmenn að hann verður að horfa til næstu kosninga og reyna að gera landanum til hæfis, annað getur kostað hann vinnuna. En eins og Trump segir "þú verður stundum að taka áhættu í lífinu, ellegar halda þig við leikskólann".
Ég hef þá trú að ákvörðun um færslu vallarins til Keflavíkur færðu honum til muna fleiri atkvæði en svona fuður.

Völlurinn á auðvitað að fara til Keflavíkur. Það sparast milljarðatugir sem annars færu í að byggja upp annan flugvöll. Það má nota þá milljarða til að tvöfalda fleiri stofnbrautir í vegakerfinu
– og allir yrðu ánægðir með Sturlu.

fimmtudagur, september 01, 2005

Tók einhver.....

eftir, að hann beit á í fyrradag.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Yljandi nostalgía.

Það var líklega árið 1965 eða 66. Lífið var leikur. Endalaust mikið um að vera hjá okkur krakkaskaranum í Kotinu. Að sjálfsögðu voru alls konar reglur sem við áttum að fara eftir, sumt mátti, annað ekki. Bannað var að láta hænurnar fljúga, ekki láta þær synda, ekki hlaupa á eftir gæsunum, ekki láta beljurnar hlaupa, ekki gefa þeim fóðurbætir, ekki klifra í klettum, ekki vaða uppfyrir, ekki fara upp á þak og ýmislegt annað sem okkur fannst voðalega vitlaust að banna okkur.
Einn góðviðrisdag með sól í hjarta vorum við Rúnar frændi minn að leika okkur saman. Við höfðum hætt okkur inn á landareign Páls á Kirkjulæk. Við vorum að leika okkur við Pálslón rétt austan við Pálsbrekku. Allt hét sínum nöfnum. Þar var skemmtilegt drullumall. Páll átti endur. Þær voru þarna í grenndinni að drullumallast eins og við. - Okkur hafði aldrei verið bannað neitt í sambandi við endurnar hans Páls svo…… þarna var tækifæri.
Við rukum af stað á eftir öndunum. Ég held að tilgangurinn hafi verið fyrst og fremst að athuga hvort þær gætu flogið. Endurnar voru feitar og komust ekkert úr sporunum og því síður að þær gætu flogið. Á endanum gafst ein þeirra upp og við náðum henni. Þetta var ótrúlega spennandi. Nú varð að taka ákvörðun um öndina. Sjálfsagt var, fyrst við vorum búnir að ná henni, að eiga hana. Samt vissum við að þetta var ekki alveg eftir bókinni og grunuðum að ekki yrðu allir ánægðir með afrekið. Því tókum við eftir spekúlasjónir, ákvörðun um framhaldið, að öndina skyldum við samt eiga, og ala hana sjálfir. Samviskan var samt ekki hreinni en svo að við vissum að ef við færum með hana heim si svona, yrðum við örugglega látnir skila henni strax og til þess var eignarrétturinn þá þegar orðinn of sterkur.
Nú upphófst mikil svaðilför með öndina undir höndum. Við óðum upp eftir læknum svo enginn sæi okkur. Alla leið upp í "Drasl" en það var skemmtilegur staður með mikið af bílhræjum sem hent hafði verið, uppáhaldsstaðurinn okkar. Þetta var þar sem lækurinn skiptir sér vestan við Skálann, sem reyndar var ekki risinn þá. Síðan lá leiðin niður eftir vestari læknum alla leið á móts við hellirinn rétt við bæinn heima hjá mér. Okkur hafði tekist að komast óséðir alla leið.
Og þarna vorum við komnir..... og öndin. Lengra hafði áætlunin ekki náð. Það var orðið áliðið og við þurftum að komast heim. Góð ráð voru dýr, ekki gátum við sleppt henni þarna, þá kæmist upp um okkur. Þarna héngum við góða stund og hugsuðum ráð okkar. Loksins urðum við sammála um að við yrðum líklegast að drepa hana.
Það snjallræði datt okkur í hug að auðveldast var að drekkja henni, svo við rúlluðum okkur niður að læk. Rúnar hélt öndinni báðum höndum og ég tók um hausinn á henni og stakk honum í kaf. Öndin spriklaði. Eftir stutta stund spurði Rúnar hvort ég héldi ekki að hún væri dauð... ég gáði, lyfti hausnum uppúr og kíkti framan í hana. Hún var sprelllifandi. Önnur tilraun og það var beðið góða stund með andarangansræfilinn á kafi. Nú hlýtur hún að vera dauð, og enn var kíkt framan í hana og sem fyrr lét hún engan bilbug á sér finna (var okkur sennilega ákaflega þakklát fyrir óþolinmæðina, því hún greip auðvitað andann í hvert skipti sem við kíktum) Í þriðja sinn reyndum við og ekkert gekk. Þá varð okkur ljóst að það var ekki hægt að drekkja öndum. Nú voru góð ráð enn dýrari, öndin var með okkur sprelllifandi og nú var orðið mjög nauðsynlegt að komast heim.
Þá komum við auga á gamlan varpkassa frá hænunum á kafi í rabarbaragarðinum. Sama hugmynd spratt upp hjá okkur báðum, þar gætum við haft hana, lokað hana þar inni og alið hana þar. Við læddumst þangað, tróðum öndinni í varpkassann og settum spýtu fyrir. Hróðugir fórum við svo heim saklausir og yndislegir garmar. Við vorum sestir inn og farnir að gæða okkur á einhverju góðgæti. Þá kemur Benni bróði minn inn og fer að tala um að hann heyri eitthvað garg úti. Fólkið fer út fyrir og allir hlusta á gargið. Það kom frá rabarbaragarðinum.....
Við vorum framlágir og skömmustulegir litlir pjakkar með gargandi önd undir hendinni sem gengum til baka, að skila henni aftur á sinn stað.

Datt í hug að setja þetta hér inn þó mínar nánustu hafi líklega heyrt á þetta minnst.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Föðurland

vort er á himnum..... segir í helgri bók. Pabbi gaf mér land í Fljótshlíðinni fyrir margt löngu síðan. Einn hektari í þessari fögru sveit er minn. Skikinn minn heitir eðlilega “Föðurland”. Sveitin mín þar sem bændurnir voru ósköp venjulegir kallar sem gjarnan voru nefndir við bæinn sinn, hefur breyst. Mundi á Kvoslæk er allur, Siggi í Stöðlakoti er líka allur og Ragnar í Bollakoti ásamt fjölda annarra sem minningarnar kalla fram. Gamla sveitarómantíkin er hverfandi gæði, hraðinn og stressið nálgast óþægilega þennan fagra reit. Fljótshlíðin er orðin einn vinsælasti staður landsins til sumarhúsabyggða. Ekki nóg með það því þangað sópast aðallinn. Fljótshlíðin er “inn” í dag. Milljarðamæringarnir sem Ísland elur af sér í dag streyma í Fljótshlíðina til að kaupa lönd og byggja hallir.Ég er ekkert hrifinn af þeirri innrás, vildi heldur að þeir héldu sig við útrásina sína.
“Föðurlandið” mitt í Fljótshlíðinni ætla ég að vernda sem sveitalubbasetur. Ég ætla ekki í kapp við millana um fermetra og flottheit. Ég ætla að hafa kofann lítið og fábreytt kot, en ég ætla að panta inní hann ró og frið gamla sveitamannsins, sem er horfinn.
Ég ætla að fá mér hundrað ára klukku sem telur tímann hægt og segir mér með rólegu gamaldags slagverki hvað tímanum líður.
Og það verður notalegur gamall lesstóll á veröndinni.
Restina má Erla mín svo fylla upp með “dóti” sem henni einni er lagið að raða saman í notalega heild.
Föðurland vort, - er í Fljótshlíð í bili.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Laugarvatnsþanki

Yndislegasti tími ársins er að renna skeiðið. Hér sit ég einn og sötra kaffið mitt í sumarbústað austur á Laugarvatni. Ég hef verið að smíða hér í fallegu iðjagrænu umhverfi. Eigendurnir, þau hjónin Magnús og Birgitta, hafa verið mikið hér með mér. Magnús hefur verið endurskoðandinn minn til margra ára. Birgitta er listakokkur og hef ég notið góðs af því, sælkerinn sjálfur. Ekki að ég hafi endilega svo gott af því, finnst ég stundum fullframstæður, en jafna mig alltaf furðufljótt á þeim þankagangi.

Haustið er að koma og brátt fara laufin að taka á sig annan blæ. Eitt og eitt þeirra er farið að roðna við tilhugsunina. Haustlitirnir, eins og þeir eru fallegir, minna á hið óumflýjanlega, vetur er handan hornsins. Tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring.
Ein mannsævi er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi.
Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.
Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann er hamingja. Ég horfði hugfanginn á Smyril verja óðalið sitt hér í fjallinu, Hrafninn lét í minni pokann fyrir honum og snáfaði burt gargandi af pirringi, það var magnað. Eða bara horfa á dans fiðrildanna í blágresinu og fylgjast með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Það er víst þannig....!

"Allir sveppir eru ætir..............sumir bara einu sinni". Sagði breskur læknir sem staddur var á Kringilsárrana í morgun, en hann fann svepp þar og át hann án þess að þekkja hann.
Skondinn.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Að vita meira og meira...

Skólinn byrjaður á fullu gasi. Það er ekki verið að tvínóna við hlutina í lagadeild. Manni er stökkt í lesturinn með látum. Mér lýst ágætlega á fögin þessa önnina, nema kannski þjóðarréttinn, sem mér sýnist vera óskemmtilegt fag með afbrigðum, þó ekki alveg að marka ennþá.
Skattarétturinn kemur skemmtilega á óvart. Líflegt og afar praktískt fag.
Svo sit ég einn kúrs með dóttur minni Írisi. Það er skemmtilegt og skondið um leið. Efast um að hún hafi nokkurn tíman látið sér detta í hug að hún ætti eftir að setjast á skólabekk með gamla og það í lagadeild. En svona er lífið óskrifað blað og ómögulegt að segja hvað framtíðin ber í skauti sínu, skemmtileg sinfónía.

Verð að segja frá því að um helgina átti ég afar góðan tíma með góðum vinum mínum Rúnari frænda og Yngva Rafni Yngvasyni á urriðasvæði Laxár í Aðaldal. Við veiddum ágætlega og allt á flugu. Fluguveiði er hálfgerð nýlunda hjá mér, svo þetta var hálfgerð eldskírn hjá mér, en það má ekki veiða á annað agn þarna en flugu.
Heitt var í veðri, svo heitt að bæði menn og fiskar voru í hálfgerðu móki. Enda fór ekki að veiðast fyrr en dró fyrir sólu og golaði aðeins. Það var ferskur andvari og kærkominn.
Ég hafði afar gaman af flugunni, þó ekki þeirri náttúrulegu en þær virðast halda að ég sé eina mannvera sem er æt ef þær hafa val, og eins var félagsskapurinn góður.
Ég geri mér vonir um að geta farið eitthvað meira í veiði í haust. Allavega eigum við bræðurnir eftir að kíkja eitthvað, ef að líkum lætur.
Ég gisti í íbúðinni hennar Eyglóar minnar en hún var sjálf hér fyrir sunnan. Hún er nú að leita að leigjendum að íbúðinni sinni, hún er einnig að leita að lítilli íbúð til leigu hér á höfuðborgarsvæðinu.

Jæja það er víst best að halda sér við efnið og kíkja aðeins á fjölskyldu og erfðarétt, gæti verið athyglisvert fag.

Njótið daganna

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

"Góður endir...

á vondu ferli" sagði Davíð. Err listinn er dauður. Ég segi: Farið hefur fé betra.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Töðugjöldin

á Hellu, ollu mér vonbrigðum. Búið er að færa þetta af Gaddastaðaflötum, inní bæinn. Það var ekki til bóta. Aðstaðan var verri.
Hagyrðingar stigu á stall. Þeir voru fljúgandi færir en misstu marks vegna neðanmittisáherslu í kveðskap sínum. Þeir fóru langt yfir strikið. Ekki var um tvíræðni að ræða heldur klám.
Árni Johnsen náði ekki sömu stemningu og í fyrra. Raulið hans sem ekki fær háa söngfagurfræðilega einkunn, náði varla til áheyrenda svo langt var í sviðið frá mannskapnum, kannski var þetta gert af ásettu ráði mótshaldara svo hann næði ekki til áheyrenda ef hann vildi fara að heilsa að sjómannasið. Raggi Bjarna og Þorvaldur Ástvaldsson reyndu að ná upp stemningunni en tókst það trauðla. Það var svo gamla kempan Ómar Ragnarsson sem kom sá og sigraði, hljóp meira að segja óvænt í skarðið fyrir Guðrúnu Gunnarsdóttur sem forfallaðist. Hann fór algerlega á kostum.

Annars vorum við á Fitinni um helgina, erum farin að kunna svo vel við kyrrðina og róna í sveitinni. Hittum marga og áttum skemmtilega og afslappandi helgi.

Nú er bara vika í að síðasta skólaárið hefji göngu sína. BA próf í vor. Er líka nánast búinn að taka ákvörðun um að mastersgráðan verður tekin strax á næsta ári í beinu framhaldi.

Njótið daganna vinir.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Alltaf jafn heillaður....

“Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma” Við vorum á Fitinni um helgina í vagninum okkar.
Í gær (laugardag) fórum við í jeppaleiðangur. Við fórum með tveimur bræðrum mínum, Hlyn og Hansa ásamt þeirra fríða föruneyti. Leiðin sem við fórum er kölluð Fljótshlíðarhringurinn. Þá er farið áleiðis inn á fjallabaksleið syðri austur fyrir Heklu og þaðan til hægri í átt að Hungurfit. Hungurfit ber líklega nafn sitt vegna beitarleysis á svæðinu. Þaðan fórum við að Hvítmögu og að upptökum Markarfljóts.



Þar er fljótið tært og fullt af silungi. Við bræðurnir bleyttum auðvitað færi. Ekki fékk ég nú fisk en Hansi og Hlynur fengu báðir, hrmpff.
Það var reyndar aukaatriði þar sem þetta var jeppaferð en ekki veiðiferð. Frá Hvítmögu fórum við leið sem er hreinræktuð jeppaleið, Fljótshlíðarafréttur, og engin leið að koma fólksbíl þar. Brattar brekkur, fjöll, ár og gilskorningar. Þetta var ævintýralega gaman og stórfenglegt að skoða "Fljótshlíðsku" fjöllin, gamlar gangnamannaslóðir og jafnvel kofana (hellana) sem þeir gistu í göngum. Þetta var frábær ferð sem mun lengi verða í minnum höfð. Við enduðum svo ferðina á að grilla öll saman heima hjá Hansa.

Í nótt hvessti svakalega og rigndi svo ekki var nú mjög svefnsamt í vagninum. Við fórum snemma framúr og felldum fortjaldið en leyfðum vagninum sjálfum að standa. Hann mun bíða spenntur eftir okkur næstu helgi en þá ætlum við enn að fara á Fitina. Hugmyndin er að fara á töðugjöld á Hellu. Fórum í fyrra og höfðum gaman af. Það er fjölskylduhátíð með þjóðlegum blæ eins og nafnið bendir til. Kveðnar stemmur, hagyrðingakeppni og margt fleira í þeim dúr.

Hef annars verið að smíða austur á Laugarvatni. Þangað er ferðinni heitið á morgun. Það verður að vera til fyrir saltinu í grautinn.

Njótið daganna

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Takk fyrir það...

Ferðahelgin sem svo oft hefur tekið þungbæran toll er liðin – án teljandi óhappa. Það er þakkarvert. Bæði Guði - og löggunni. Þær hafa vægi auglýsingarnar. Umferðaryfirvöldum virðist hafa tekist að fá landann til að hugsa um hraðann, sýnist manni. Allavega keyrðum við í bílaröð í bæinn þar sem nánast enginn virtist vera að æða framúr eins og vitleysingur, eins og stundum er. Það er gott.

Við áttum rólegri verslunarmannahelgi en við höfum nokkurntíman átt áður. Við þekkjum betur að koma örþreytt heim eftir þessa helgi en svona endurnærð og ánægð. Sú var nefnilega tíðin að þessar helgar voru mikill annatími hjá okkur. Það var þegar við stýrðum Kotmótum um nokkurra ára skeið. Nú dvöldum við á Fitinni í faðmi náttúrunnar í okkar ágæta tjaldvagni og kíktum ekki einu sinni á Kotmót. Við misstum meira að segja af "Kotvision" sem er orðinn hápunktur Kotmóta, að sögn. Við dvöldum þar í góðum félagsskap dætra okkar, mannanna þeirra og afastelpnanna ásamt systkinum mínum og annarra vina sem heimsóttu okkur.
Helgin leið hratt og við nutum okkar vel. Við tókum góðan tíma í að ferðast og fórum m.a. inn á Emstrur. Það var gaman eins og alltaf. Markarfljótsgljúfur eru vafalaust hrikalegustu gljúfur landsins. Manni svimar vel ef maður kíkir niður af brúninni. Ótrúleg náttúrusmíð. Sólin skein glatt á fjöllum þó það rigndi í Fljótshlíðinni.
Þarna innfrá keyrðum við fram á bílinn hans Hansa bróður míns og Gumma og Júlíönu dóttur hans. Þau voru á göngu þarna í átt að Tindfjöllum, þau voru að skoða “Kerið” náttúrusmíð sem á fáa sína líka á Íslandi. Svo hittum við fleiri. Hjalli og Sigrún voru þarna líka á flandrinu á sínum fína jeppa, það var gaman að hittast svona óvænt – á fjöllum.
Við skruppum líka austur á Vík. Þar var íþróttalandsmót, sjö þúsund manna. Við vorum að skoða hús sem þar er til sölu. Ódýrt hús sem hægt væri að leigja ferðamönnum eða verkalýðsfélögunum fyrir félagsmenn sína, bara hugmynd, en fæðist ekki allt þannig.
Hlynur veiddi í tjörninni hans Hjalla þann stærsta urriða sem ég hef séð, 16 pund. Hnöttóttur af spiki, hann hefur sennilega lifað góðu lífi á félögum sínum í tjörninni.

Við enduðum helgina samt eins og vanalega með heimsókn til Gylfa og Christinu.
Þau tóku vel á móti okkur með vöfflum og rjóma eins og við var að búast af þeim.

Góð helgi.

föstudagur, júlí 29, 2005

Alræmd fríhelgi.

Guð forði þjóðinni frá manninum með ljáinn sem eins og hinir virðist hafa gaman af að ferðast um þjóðvegina þessa stærstu ferðahelgi ársins – og hitta fólk.
Hangi hann heima hjá sér.
Flýtið ykkur hægt á vegunum vinir, hann virðist frekar eiga erindi við þá sem eru að fýta sér um of.

Góða helgi

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Síminn seldur Bakkabræðrum.

Og ég stein gleymdi að bjóða. Veit þó ekki alveg hvort mér hefði tekist að nurla saman fyrir honum. Hann var víst frekar dýr. Maður er jú í skóla og svoleiðis.
En það hefði nú verið ágætt að þurfa ekki að borga símreikninginn sinn, heldur eiga bara apparatið.
Svona getur maður misst af góðum tækifærum. Hef bara ekki séð svona gott fyrirtæki á markaði síðan Thermo var og hét.

sunnudagur, júlí 24, 2005

Fögur er hlíðin....

Fljótshlíðin sýndi okkur sínar bestu hliðar. Við Erla, Eygló og Hrund vorum á Fitinni í dag í 23 stiga hita og glampandi sól meðan regnið vætti höfuðborgina. Það morgnaði samt með þoku og votri morgundögg á grasi sem hélst fram undir hádegi. En þá eins og hendi væri veifað braust sú gula fram og yljaði.

Við vorum náttúrulega að vígja nýja gamlingjann okkar tjaldvagninn.
Hann reyndist vera hinn mesti kostagripur.
Nokkrir heimsóttu okkur jafnhissa og við á unglegu útliti gamlingjans.
Það þurfti átak til að taka okkur upp og halda til höfuðborgarinnar síðdegis. Hefðum verið mjög til í að lengja dvölina og njóta góðviðrisins, slíkur lúxus er þó ekki alltaf í boði og þannig var það í dag. Skyldan kallar og eins þurfti Eygló okkar sem var með okkur að ná flugi norður.
Við komum við á Laugarvatni á leiðinni í bæinn til að skoða sumarbústað sem ég ætla aðeins að taka til smiðshendinni við.

Þessi útilega var farin í beinu framhaldi af afmælisveislu Daníu Rutar sem foreldrar hennar héldu uppá í gær af miklum myndarbrag, þó afmælisdagurinn sé raunverulega í dag. Þrjú ár eru síðan hún kom í heiminn, lasin litla skinnið. Hún hefur reynt meira á sinni stuttu ævi en margur fullorðinn og sýnt ótrúlegan dugnað svo aðdáunarvert er.
Til hamingju með daginn litla hetjugullið hans afa.

Ánægjuleg helgi að klárast.

föstudagur, júlí 22, 2005

Það má eyðileggja allt.

Líka frábæra silunginn í fjallavötnunum okkar. Veiðimenn eru gjarnir á að gera að fiski á árbakkanum og .... skilja slógið eftir. Mávurinn eða minkurinn étur það hvort sem er. Og það er rétt. Oftast er það mávurinn sem virðist hafa ótrúlegt skilningarvit þegar slóg er annarsvegar, alltaf mættur eins og skrattinn úr sauðarleggnum um leið og gert er að, þó hann hafi ekki verið sýnilegur fram að því.

Mörg vötn eru orðin sýkt af bandormi, hvítmaðk og tálknlús. Flest rekjanlegt til óaðgæslu veiðimanna á árbakkanum. Bandormurinn er verstur. Hann lifir í innyflum fiskanna (sýkir kjötið líka) sem veiðimennirnir eru að mata mávinn á. Mávurinn, með heitt blóð, verður hýsill og ormurinn fjölgar sér mjög. Síðan mætir sýktur mávurinn hjá næsta veiðimanni sem slægir fisk á árbakkanum, étur sig saddann og dreyfir svo dritinu yfir vatnið þar sem silungurinn heldur sig.
Hringrás sem viðheldur sýkingu.
Eina leiðin til að uppræta þetta er að veiðimenn steinhætti að skilja slógið eftir á vatnsbakkanum.

Ég hef fram að þessu talið nóg að grafa þetta og notað þá aðferð hingað til. Það hefur svo komið í ljós að það dugir ekki, þessi kvikindi grafa þetta upp og éta.

Slógið í poka og vesgú, heim með það.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

B-I-N-G-Ó.........!

Keypti Combi-camp í morgun...! Gullmoli auðvitað en gamall reynslubolti. Fékk hann fyrir 150 þúsund.
Ánægður með góð kaup ætlum við að skjótast um helgina í stuttan túr og prófa gamlingjann.

Auðvitað samt ekki fyrr en eftir afmælið hennar Daníu Rutar sem verður 3ja ára um helgina. Það var ekkert svo leiðinlegt í síðustu viku þegar hún tróð sér langa leið í gegnum mannþröng og holaði sér ofan í fang afa síns þar sem hún síðan sat, til þess að gera örugg með sig.

Fluga í höfuðið.

Það viðurkennist hér með að fluguveiði hefur ekki verið mín heillavænlegasta kúnst hingað til, allavega í aflatölum. Hnýtti þó yfir 100 flugur í vetur í lestrarpásum. Þetta er þó að koma smátt og smátt.
Mér var boðið í fluguveiði í Hlíðarvatn í Selvogi í vikunni.
Rokið var eins og mest verður í Hvalfirði, vatnið skóf, svo ekki var auðvelt að koma flugu út. Mér tókst þó að krækja í eina bleikju og missa aðrar tvær - á flugur sem ég hnýtti sjálfur.
Það skemmtilegasta við þennan túr var samt þegar ég var að hætta. Þá var rokið mikið og stóð af landi. Ég hafði sett geitung á línuna sem ég hnýtti í vetur og lét nú línuna fjúka út á vatnið og blakta eins og fána. Flugan hoppaði og skoppaði í vatnsborðinu og lét illa. Þetta náði heldur betur athygli vatnsbúanna. Þeir komu eins og eldibrandar upp úr öldunum og stukku á kvikindið fram og aftur, stórir og smáir. Enginn beit þó á fluguna og veit ég ekki hvort þeir voru að leika sér að flugunni eða bara að stríða mér. Hvort heldur var þá hafði ég mjög gaman af þessari uppákomu hjá þessum höfðingjum og fékk þá flugu í höfuðið að gaman væri að snúa sér meira að fluguveiði en ég hef gert hingað til.
Flott sýning sem ég átti erfitt með að slíta mig frá.

Ég hef ekki enn fundið tjaldvagn fyrir okkur. Nú er svo komið að ég er farinn að kíkja á Combi-camp líka svo ef þú veist um einhvern slíkan máttu gjarnan láta mig vita.
þakka hér með kærlega þeim sem hafa hringt með ábendingar.

Eigið góðan dag.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Kom á óvart.

Ekki reiknaði ég með að gamlir tjaldvagnar væru svona vandfundnir. Ég er búinn að leita og hlaupa til það litla sem hefur verið auglýst af Camplet vögnum en ekkert gengið. Það virðist sem fleiri séu sammála um að þessi tegund sé örðum fremri, því ég gæti verið búinn að kaupa heila kippu af öðrum gerðum.
Gamli sveitavargurinn gefst samt ekki upp. Hann ætlar að finna vagn. Allar ábendingar eru vel þegnar.
Njótið góða veðursins.

laugardagur, júlí 16, 2005

Tók ekki langan tíma

að selja fellihýsið okkar. Ein auglýsing og það var farið, á uppsettu verði n.b.
Svo nú erum við húsnæðislaus ef þannig má að orði komast.
Við nutum góðs af að hafa farið vel með það í gegnum árin. Hjónin sem keyptu keyrðu burt, glöð og ánægð með viðskiptin. Við horfðum á eftir þeim ekki alveg laus við söknuð. Þær eru orðnar margar góðar minningarnar sem tengjast þessu öðru heimili okkar. Notkunin lætur nærri að vera um 180 – 200 gistinætur á sex árum, nokkuð gott.
Ferðalög eru sameiginlegt áhugamál okkar hjónanna, við erum hálfgerðir farfuglar, svo okkur finnst við hálf vængbrotin nú að komast ekki ef viðrar.
Við höfum því ákveðið að leita okkur að gömlum tjaldvagni, það þarf að vera Camplet vagn árgerð í kringum 1990 og ástand frekar gott.
Ef þú veist um slíkan falan máttu gjarnan láta okkur vita. Ég er til í að borga 100 – 150 þúsundkalla fyrir góðan vagn.

Eitt vandamál spratt upp við að selja fellihýsið sem við reiknuðum ekki með. Við erum heima núna að leita að plássi fyrir dótið sem var í því, en það fyllir holið hjá okkur núna. Það má segja að hver fermetri sé vel nýttur hér, svo það er hálfgert púsluspil að koma þessu fyrir. Erla er nú samt glúrin við þetta eins og flest annað sem hún tekur sér fyrir hendur, svo ég reikna með að hér verði allt orðið pússað og fínt áður en sólin sest í kvöld.

Hafið það gott í dag og njótið íslenska sumarsins.

föstudagur, júlí 08, 2005

Morðingjar

af verstu sort. Drepa saklaust fólk með köldu blóði. Halda í heimsku sinni að þeir séu að vinna einhverjum málstað gagn.
Ræflar.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Hamingjan er afstæð.

Mesta hamingjan er að fá að lifa lífinu og líta ný tækifæri hvert sinn sem sem sólin rennur upp. Fyrir mér er hamingjan að fá að vera með mismunandi viðhengjum.
Hamingjan er tilfinning og tilfinningar hafa þá eiginleika að koma og fara eftir hentugleikum. Hún er ekki eitthvað sem hægt er að panta. Hún bara kemur, eða fer.

Oft þegar talað er um hamingjuna virðist tilhneiging til að ætla að peningar færi manni hamingjuna. Í bókinni sem ég vitnaði í í síðasta pistli kom fram athyglisverður punktur. Í fangabúðunum áttu menn enga peninga enda engin þörf fyrir þá. Þar snerist tilveran um að fá að borða. Ef menn voru svo heppnir að ausan í súpunni fór niður á botn í pottinum og færði mönnum gromsið með, en ekki bara gutlið, framkallaði það mikla sælutilfinningu og hamingju.
Ég verð að segja að ég á erfitt með að setja mig í þessi spor og skilja afhverju það skilaði hamingjutilfinningu að fá súpugroms. Það er auðvitað vegna þess að ég hef það svo gott og hef aldrei verið í þessum harðneskjulegu aðstæðum.
Þetta hlýtur að segja manni að maðurinn er oft lítið annað en afsprengi aðstæðna sinna og umhverfis.
Það sem færir mér hamingju er þessvegna ekki endilega það sama og færir náunga mínum sína hamingju. Það fer eftir umhverfinu sem hann hrærist í. Hafa ekki allir í kringum sig fólk sem hefur allt til alls en óhamingjan skín af því.

Það hlýtur því að vera einhver besti staður sem hægt er að komast á að vera hamingjusamur.
Mín kenning er sú að allir geti komist á þann stað með smá Pollíönnuleik. Það er alltaf hægt að koma auga á hversu hlutirnir gætu verið verri og eins hvað tilgangurinn helgar meðalið í öllu. Það er alltaf einhver tilgangur í næsta skrefi, það bíður alltaf eitthvað við hverja sólarupprás.

Ég er allavega mjög hamingjusamur með minn stað í dag og geri mér góða grein fyrir að það er gjöf Guðs til mín.

Njótið helgarinnar

laugardagur, júlí 02, 2005

Það er ekki oft....

sem ég les sömu bókina tvisvar sinnum án þess að gera hlé á. Það gerði ég þó í ferðalaginu okkar í Danmörku. Ég las hana aftur til að reyna að dýpka skilning minn á því sem þar er haldið fram. Eftir tvær yfirferðir mæli ég hiklaust með að allir lesi þessa bók.
Bókin heitir “Leitin að tilgangi lífsins” eftir Viktor E. Frankl. Viktor er geðlæknir að mennt og hefur skrifað fjölda bóka. Af þeim öllum er þessi bók sú langmest lesna eftir hann.
Bókin segir frá hörmulegri reynslu hans í Auswich fangabúðum nasista á stríðsárunum. Þessi reynsla hans þegar hann ásamt samföngum sínum fer út á ystu mörk mannlegrar þolraunar, getur af sér dýpri og trúverðugri hugsanir um tilveru mannsins og tilgang en ég hef áður kynnst.
Bókin er alveg laus við tepru og tildur. Eftir að hafa leitt lesandann um lendur Auswich og gefið honum nasa þef af einum mesta óhugnaði sögunnar, setur hann fram kenningar sínar í seinni hluta bókarinnar. Það gerir hann á hispurslausan og trúverðugan hátt sem einungis maður sem veit af eigin reynslu, getur gert.
Kenningar hans nefnast “logotherapy”. Án þess að reyna að útskýra innihaldið hér get ég þó sagt að það snýst um tilgang og tækifæri framtíðar en lætur vera að gramsa í fortíðinni eins og mörgum hættir til.
Bókin er skrifuð af snillingi, undirstrikuð með hryllingi Auswich sem gefur orðum hennar meira vægi en ella.
Mæli hiklaust með að þú lesir hana.

föstudagur, júlí 01, 2005

"HRUND ERLINGSDÓTTIR,

nemandi í Fellaskóla hlýtur viðurkenningu menntaráðs Reykjavíkur fyrir að vera jákvæð fyrirmynd og sýna frumkvæði og leiðtogahæfileika í skapandi starfi".

Þessi viðurkenning ásamt bókargjöf beið frökenarinnar þegar við komum heim frá Danmörku.
Skólinn hennar tók við þessu fyrir hennar hönd þar sem hún var ekki í landinu. Hún er vel að þessu komin stelpan, hefur staðið sig afar vel og uppsker þess vegna eftir því.
Gaman að nefna það líka að hún sótti um vinnu í dag þar sem Nóatún er að loka búðinni sem hún var að vinna í. Svar barst áðan, hún fékk vinnuna, það skilar sér að standa sig vel.

Til hamingju með þetta elsku Hrundin mín.

laugardagur, júní 25, 2005

Örstutt frá Danmörku.

Eftir verulega góða dvöl í sumabústað á suður-Jótlandi erum við nú komin til Óla og Annette. Við erum búin að flækjast mikið, sjá margt merkilegt bæði sögulegt og nýtt.
Fara í veiðitúr og veiða Geddur, Abborra og Sík, þar af eina stóra Geddu (tæplega 90 cm)

Óli er núna að kynda upp í grillinu og ég hef einhverja hugmynd um að nú eigi að grilla gott stykki af tudda, ættuðum frá norður Jótlandi. Það hljómar alltaf vel í mínum eyrum þegar talað er um að henda á grillið, sérstaklega ef það hefur baulað sem þar lendir.
Vonandi hafið þið það jafngott heima í rigningunni eins og við hér í sólinni, en það hefur verið mæjorkaveður á okkur 25 – 30 stig og mest sól.
Held að samferðafólk okkar sé að kaupa sér hús hérna í götunni (kannski aðeins ýkt). Allavega hefur Danmörk farið mjúkum höndum um þau eins og okkur.
En kannski er þetta bara brosið til okkar af því við erum túristar. Líklega er veruleikinn venjulegri.
Sem sagt, við höfum haft það verulega gott, en besti hlutinn er eftir. Það að koma heill heim er alltaf það besta við hverja ferð.
Hlakka til að sjá ykkur öll vinir mínir og vandamenn.
Bless þangað til.

mánudagur, júní 06, 2005

Þórisvatn

Maður verður að standa við orð sín. Eins og ég sagði ykkur um daginn þá gaf ég Erlu minni loforð um að veiða ekki minna á þessu ári en í fyrra. Lærði það strax á bernskuárunum að standa við það sem ég segi.
Ég ásamt Hlyn bróður mínum og Heiðari frænda mínum vorum að koma úr Þórisvatni eftir velheppnaða veiðiferð.
Veiðin þar var eins og oftast áður, mjög góð. Við bræðurnir fengum sitt hvora fimmtíu fiskana. Á eftir að fá fjöldann hjá Heiðari, veit ekki alveg en hann vildi ekki telja....! verð þó að segja honum til hróss að hann er góður nemandi og hefur mikið lært.
Þórisvatns silungurinn er besti matfiskur sem þetta land elur, um það eru allir sammála sem bragðað hafa, hann er í sérflokki.
Varð að orði þarna uppi á fjöllum að það getur tæpast verið til nokkuð það land sem er betra eða meira að gæðum en landið okkar Ísland, allavega hvað náttúru varðar. Íslenska hálendið, jafn svart og gróðursnautt sem það er, ber með sér töfra sem heilla meira en fegurstu skrúðgarðar.
Kannski má samt segja að þetta hafi verið fullgeist farið af stað í veiðinni. Maður verður jú að eiga afgangskvóta þegar líður á sumarið.

Nú styttist í Danmörku. Á miðvikudaginn leggjum við land (loft) undir fót og heimsækjum frændur okkar Danina. Með okkur fara Heiðar og Sigrún og yngri drengirnir þeirra.
Það má því segja að lífið sé leikur þessa dagana.
Saltfiskurinn tekur samt örugglega við fyrr en seinna. Því lífið snýst um hvort tveggja að sá og uppskera.
Vandinn sem margur slæst við er nefnilega að njóta hvort tveggja, sáningatímans líka.

Gott var að koma heim, líkt og fyrri daginn. Þrjú stykki enduðu á grillinu með hvítlauk og ýmsum kryddblöndum, mmmmmm.

Njótið vikunnar framundan.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Hvað þýðir það eiginlega?

Átta mig ekki á því. Evrópustjórnarskráin líka felld í Hollandi. Þetta plagg upp á þúsundir blaðsíðna sem búið er að eyða ómældum milljörðum í er bara felld.
Ég held þetta hafi meiri áhrif en margan grunar. Þetta var órjúfanlegur þáttur í Evrópusamrunanum.
Ferlið mun stoppa. Einsleitnihugtakið sem allt gengur út á hefur beðið hnekki. Fólkið sjálft hefur sagt stopp, hingað og ekki lengra. Þetta er líkt og púðurtunna hafi sprungið, menn standa sótugir í framan, klóra sér í kollinum og spyrja, hvað gerðist?
Það verður spennandi að sjá hvert útspilið verður eftir þetta.

Varð hugsað til þeirra íslendinga sem vilja ólmir sækja um inngöngu í ESB og halda að við séum svo merkileg þjóð að risarnir þagni bara og sperri eyrun þegar rödd okkar kveður við. Það er fyndinn sjálfbirgingsháttur, en verður ekki lengur fyndinn ef þeir sem þetta kjósa komast til valda í íslenskri pólitík.
Mér hefur skilist að Svíar sem hafa verið í Evrópusambandinu frá 1995 kvarti sáran yfir þessari ákvörðun sinni. Afhverju? Þeir segjast vera svo litlir að rödd þeirra hafi ekkert vægi þegar þeir þurfa að gæta hagsmuna sinna.

Fall stjórnarskrárinnar er kannski samt ljós í myrkri. Norðmenn hafa lýst því yfir að áhugi þeirra hafi minnkað til muna til inngöngu eftir þessa útreið. Vonandi er sama uppi á borðinu hjá Evrópusinnum hér heima.