.... þrifist vel á því að hafa nóg fyrir stafni. Finnst fátt jafn niðurdrepandi og að hafa lítið að gera. Það leit ekki út fyrir að verða mikið að gera í vetur, svo ég dreif mig í háskólann aftur til að klára mastersnámið. Það lá alltaf fyrir að klára það svo ég er þannig séð að ganga eftir áætluninni sem ég fór af stað með þegar ég byrjaði.
Hinsvegar getur umfang verkefnanna orðið ansi mikið ef þannig verkast. Ég er að koma úr vinnutörn núna sem krafðist eiginlega meira en hollt getur talist. Sérstaklega var einstaklingsverkefni í Auðlindarrétti strembið. Því er lokið sem betur fer...á réttum tíma.
Allt í lagi með það. Var líka í hópaverkefnum í samstarfi við gott og skemmtilegt fólk.
Ég hef samt gaman að þessu. Bætir í sarpinn smátt og smátt.
Hef varla haft tíma til að fylgjast með þjóðmálunum. Sumt fer samt ekki framhjá. Framsókn var að minna á sig. Kannski er það samt þetta sem vantar meira af hjá þingmönnum, svo þingið verði valdameira og skilvirkara. Maður er vanari að þingmenn sitji fast bundnir í sínum flokksböndum og þori ekki að umla sjálfstæða sannfæringu sína. Verð að segja að þetta ýtir aðeins við viðurkenningartakkanum í mér. Næstum sama hvert málefnið væri....þó ekki alveg.
Datt í hug stubbur úr ljóði eftir Árna Grétar Finnson:
Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.
Er samt ekki að kommenta á málefnið með þessu þar sem ég veit varla um hvað það snýst. Veit þó að þessi gírugi framsóknarmaður Höskuldur Þórhallsson vildi bíða eftir niðurstöðu nefndar Evrópusambandsins um breytingar á regluverki um seðlabanka. Sé ekki að það velti einhverju hlassi, finnst það bara skynsamlegt í ljósi þess að við erum nú þegar aðilar að hluta Evrópusambandsins í gegnum EES. m.a. megninu af regluverkinu þeirra.
Sýnist þessi ríkisstjórn ætla að ná að klúðra þessu einstæða tækifæri til að rústa næstu kosningum. - Fengnir til að bjarga málum - eftir klúður fyrri ríkisstjórnar og ætla að renna á rassinn með flest sem þeir hafa haldið á lofti, digurbarkalega. Það fer ekki mikið fyrir alvöru aðgerðum, verð ég að segja, eða hvað?
Annars erum við í góðum gír hér í húsinu við ána. Erla heldur vinnunni sinni sem betur fer. Vinnur fyrir mér svo ég geti látið skóla mig til.
Ég er farinn að hlakka til vorsins hér. Daginn lengir og tíminn líður hratt. Bráðum kemur betri tíð með vor og yl og angan í haga. Þá verður mótorfákurinn tekinn fram og viðraður.... með Erluna aftan á.