fimmtudagur, desember 31, 2009

Áramót enn einu sinni

Ár sem hóf göngu sína undir óveðursskýjum er að renna sitt skeið. Það hefur einkennst af stjórnmálasviptingum og átökum meðal þjóðarinnar og á þannig séð, fáa sína líka. Allt hefur tekið breytingum sem engan óraði fyrir. Ekki allar slæmar heldur á margan hátt góðar. Þó finna megi til með þeim sem verst fara fjárhagslega út úr hruninu stendur upp úr sá ljósi punktur að undan kálinu kemur eitthvað nýtt og betra eins og kartöflubændur þekkja best. það gamla deyr og nýtt verður til.

Maður leyfir sér að vona að lífsgildi landans verði önnur og heilbrigðari nú þegar mesta gruggið sígur til botns og sýn skerpist. Framundan er tími til að byggja upp eitthvað varanlegt og gott. Hver og einn er sinnar gæfu smiður í þeirri byggingastarfsemi.

Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma, er einkunnarorð mitt fyrir næsta ár. Pössum okkur að detta ekki í ormagryfju depurðar og vonleysis, Ísland er engu líkt að gæðum.

Ég þakka öllum samferðamönnum mínum góða samleið á árinu og óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári

sunnudagur, desember 27, 2009

Jólin

Afar friðsæl jól að ganga til viðar. Skemmtileg líka og gefandi samfélag við þá sem mér þykir vænst um. Vikan framundan er að einhverju leiti vinnuvika en er samt slitin sundur af áramótum. Svo tekur við vinna fram að skóla sem hefst 11. janúar. Ég er lukkunnar pamfíll, það get ég svarið.

fimmtudagur, desember 24, 2009

Hátíð í bæ

Aðfangadagur rann upp bjartur og fallegur en kaldur. Mesta hátíð ársins vítt um heim. Dagurinn sem alltaf virðist hafa sömu óþreyju áhrif á börnin okkar. Hvenær opnum við pakkana mamma, er spurning sem flestar mömmur fá að heyra. Minningar úr bernsku bera með sér að ekkert hefur breyst. Minningum og tilfinningum sem tengjast hátíðarskapi og frið þar sem pakkaopnunin var stóra málið eins og í dag en líka sagan um Jesúbarnið í jötu. Jólin eru fjölskyldutími, samverutími sem verður dýrmæt minning þegar fram í sækir.

Ég á bara góðar og ljúfar minningar af jólum. Saga jólanna og minningarnar tengjast saman. Jólin heima snerust um Jesúbarnið. „En svo bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.....“ þetta hefur hljómað í mínum eyrum hver jól í fimmtíu ár. Við höfum það fyrir sið hér á þessum bæ að lesa saman jólaguðspjallið. Það er undanfari pakkaopnunar. Það gefur hátíðinni meira innihald að minna sig á hversvegna við höldum jólin.

Núna er ilmur af jólum í bænum. Hamborgarhryggurinn á leið upp úr potti og enn hangikjötseymur eftir suðu gærkvöldsins. Við erum ekki með smábörn hér lengur en vorum svo lánsöm að Hrundin kom heim frá Þýskalandi öllum að óvörum svo við verðum ekki einí kvöld eins og leit út. Hrund er eins og mamma sín mikið jólabarn og ég fæ að njóta þess með þeim.

Fésbókin virðist vera aðalsamkomustaður vina og vandamanna en þeim ykkar sem lesið enn síðuna mína óska ég gleðilegrar jólahátíðar með friði og fögnuði.

föstudagur, desember 18, 2009

Prófalok o.fl.

Já það er ljúft.
Það er eins og detti á logn eftir storm þegar síðasta prófi lýkur. Vinna við það sem ég kann best, smíðar, er eins og frítími. Kann það allt utanbókar, ekkert að hugsa, bara vinna.
Smíðaði í gær eins og ég ætti lífið að leysa til að geta verið í fríi í dag. Við erum búin að njóta morgunsins út í æsar. Vorum að spjalla um hvort við ættum ekki að fá okkur eins og fjórar hænur til að sjá heimilinu fyrir eggjum, já okkur dettur nú ýmis vitleysan í hug - og látum oft verða af henni líka. Veðrið er svo fallegt núna sól og bjart, frost og alger lognstilla. Áin sallaróleg með íshröngli fljótandi í rólegheitum niður eftir henni. Það er svona friður og kyrrð yfir öllu einhvernveginn, gott andrúm.
Prófin gengu vel... að ég held. Þær einkunnir sem eru í höfn eru í fína lagi allavega.

Ég er að fara út að hengja upp jólaljósin á húsið og trén í garðinum. Það hefur ekki verið tími til þess fyrr en núna, jólabarnið á bænum ætti að kætast vð það.
Svo er það bara vinna í jólafríinu. Ég hef nóg að gera sem betur fer og sýnist mér veiti ekki af tímanum sem ég hef í fríinu til að komast yfir það sem ég er búinn að lofa.

Njótið lífsins vinir - það er gott

sunnudagur, nóvember 29, 2009

Bíddu... eru jólin að koma strax....?

það er engu líkara en að jólin séu á næsta leiti. Ég er búinn að sitja með nefið á kafi í verkefnum undanfarið og varla litið upp. Hrekk svolítið við þegar ég heyri að jólalögin eru komin á fullan snúning hér á bæ. Það þýðir bara að aðventan er að byrja og Erlan komin í jólagírinn. Hún er algjört jólabarn stelpan. Hún fer í annan ham þegar aðventan byrjar. Tekur meira og minna niður allt dótið okkar, pakkar því saman og setur upp allskyns jóladót í staðinn sem við höfum safnað að okkur í gegnum árin. Ég nýt góðs af þessu, því ég er ekki sama jólabarnið og hún. Ég met þó mikils að fá að fljóta með og fá svona jólaland án mikillar fyrirhafnar. Ég reyndar fæ að skreyta húsið að utan sem felst í að hengja jólaseríur hringinn í kringum húsið og í nokkur tré og runna í garðinum. Er að reyna að humma það fram af mér eitthvað meðan ég er í mestu törninni.

Ég er reyndar búinn að vera að gjóa öðru auganu annað slagið út um gluggann hér á skrifstofunni minni og fylgjast með snjóbylnum úti. Gatan er líklega orðin ófær núna. Hér eru bílar búnir að vera að festa sig eða öllu heldur bílstjórarnir bílana sína.
Það er ekki laust við að fari um mig notalegir straumar við að þurfa ekkert að fara af bæ þegar veðrið lætur svona. Naga mig samt svolítið í handarbökin að hafa skilið jeppabúrið eftir í bænum.

Snjórinn úti og jólalögin sem óma um notalegt húsið við ána núna gera andrúmið hér ævintýralegt og fallegt. Meira yndið þessi kona. Held ég verði að taka mér smá pásu - ætla að koma jólabarninu á óvart og hita súkkulaði - sykurlaust...? Nei original.

Njótið aðventunnar vinir mínir.

sunnudagur, nóvember 22, 2009

Annir

Það er orðið nokkuð um liðið síðan hér var settur inn pistill síðast. Það er búið að vera mikill annatími í skólanum. Hvert verkefnið hefur rekið annað og sum hver skarast svo sólarhringurinn hefur stundum orðið of stuttur í annan endann. Nú er kennsla annarinnar að klárast og prófatörn framundan svo þetta er ekki búið. Ég verð, ef að líkum lætur, ekki mjög viðræðuhæfur næstu vikurnar.

Dagurinn í dag er samt frekar í notalegri kantinum. Ég svaf óvenjulengi í morgun sem kannski mótast af því að sumir dagar vikunnar hafa lengst hressilega fram yfir miðnættið, sem hæfir mér illa því ég er morgunmaður og fellur illa að vinna á næturnar. Uppsafnaður lúi. En ég er nú samt búinn að sitja hér niðri dágóða stund yfir morgunmat og dagblöðum.
Við förum bæjarferð á eftir í afmæli Katrínar Töru sem verður fimm ára 3. des nk. Íris er alveg á kafi í námsefninu og próf að byrja, því hentar að hafa veisluna núna.
Það verður gott að geta aðeins slakað á eftir þá törn.

Við Erla erum búin að halda upp á afmælin okkar. Samhjálparsalurinn var leigður og Binni kokkur sá um að elda fyrir okkur. Ég er ánægður með hvernig til tókst. Held allir hafi farið heim saddir og brosandi. Takk, þið sem eydduð kvöldstundinni með okkur.

Jæja, Erlan er komin niður og kaffivélin iðar í skinninu.........

sunnudagur, nóvember 01, 2009

Gæsadagur

Margir veiðimenn láta nægja að skera bringuna af gæsinni áður en henni er hent. Það er sóun. Mér áskotnuðust 80 gæsir sem höfðu verið bringuskornar. Kokkurinn sem aðstoðar okkur við veisluna okkar í nóvember sagði mér nefnilega að hann gæti gert ótrúlega góðan rétt úr gæsalærum ef ég gæti útvegað þau. Nú er ég auðvitað að upplýsa hluta af matseðlinum í veislunni, en það er allt í lagi. Það verður m.a. villibráð, gæs og silungur.
Dagurinn hefur því farið í að slíta læri af endalaust mörgum gæsum, og auðvitað skera þær á kvið og sækja lifrina. Hún er, það sem alvöru sælkerar sækjast hvað mest eftir til að leika sér með í matargerð.
Ég á alveg stórgóða uppskrift að andalifrarkæfu sem ég smakkaði fyrst í Perlunni á villibráðarkvöldi, en við karlarnir í Erlu ætt höfum farið í Perluna í nokkur ár á villibráðarhlaðborð. Þeir kunna að kokka þar. Því miður kemst ég ekki þetta árið, en tek upp þráðinn, væntanlega á næsta ári ....eða þar næsta.
Danni bróðir kom hér um miðjan dag í heimsókn. Ólukkans fyrir hann, lenti hann í gæsaaðgerðinni með mér... óvart auðvitað. Hann er duglegur kallinn og það munaði mig heilmiklu að fá aðstoð, takk Danni minn.
Jú jú nú er maður orðinn fimmtugur eins og ALLIR landsmenn vita. Við Erlan áttum miða í Óperuna í kvöld. Ég var orðinn svo lúinn að ég nennti ekki í bæinn. Aldurinn? Eða bara hreinræktuð leti? Miðana eigum við inni hjá Óperunni svo við gerum okkur dagamun síðar.
Núna erum við að spjalla við Hrundina okkar sem var að koma úr frábærri ferð til Parísar. Skype-ið er algjör snilld.
Hafið það ætíð sem best vinir mínir.

föstudagur, október 30, 2009

Afmæli o.fl.

Já nú er ég orðinn 50 ára. það er aldrei, hefði mamma sagt. Ég er himinlifandi með það, eiginlega í orðsins fyllstu. Það voru nú engar flugeldasýningar á afmælisdaginn. Það var mér að kenna þar sem ég vildi ekkert tilstand þótt tilefnið gæfi kannski ástæðu til þess. Við ætlum nefnilega að halda smá veislu núna í nóvember fyrir okkur bæði. Það hentar vel - ein veisla/tvöfaldar gjafir :0) En svona án gríns þá er stefnan að vera einhversstaðar á erlendri grund á afmælisdaginn hennar Erlu. Verst samt hvað henni leiðist alltaf svoleiðis.

Skólinn er alveg að kæfa mig núna. Endalaus verkefnavinna. Mál tekin fyrir sem eru í deiglunni hverju sinni. Búinn að taka fyrir sr. Gunnars málið, myntkörfulánin, morðmálið í Hafnarfirði í haust ofl ofl. Þetta gengur samt vel og ég er sáttur við að hafa drifið mig í mastersnámið í kreppunni.

Kreppan já, hún snertir víst flesta. það er dýrara að lifa, dýrara að greiða af lánum, keyra bílinn sinn o.fl. Hún bankar víða.
Ég er samt bjartsýnn. Mér finnst þeir menn sem smíðuðu þennan Icesavemonster nálgast að vera landráðamenn. Og ég er alls ekki sáttur við framgang þeirra sem núna stýra þjóðarskútunni. Icesave átti að fara fyrir dóm. Svo finnst mér algerlega ótækt að ríkisstjórnin skuli semja um greiðslu á þessari óráðsíu án þess að gæta til ítrasta, lagalegs réttar þjóðarinnar að þjóðarrétti. Þann rétt er búið að semja frá okkur. Það var hetjulegt.

Við Erlan njótum samt sem áður daganna. Þeir eru góðir.

þriðjudagur, október 13, 2009

Ekkert volæði núna

Ég var í Vola í gær ásamt Bjössa og Karlott. Nú veiddist..... setti smá pistil í veiðihornið hjá mér.

sunnudagur, október 11, 2009

Tilveran...

...er eins og veðrið. Það þjóta krappar lægðir yfir með stormum og stórsjóum... svo lygnir...!

sunnudagur, október 04, 2009

Allt fram streymir....

... endalaust, ár og dagar líða, nú er komið hrímkalt haust, horfin sumarblíða. Mér finnst nú frysta full fljótt þetta árið verð ég að segja. Við erum búin að fara einu sinni í bæinn í vetrarófærð.
Ég sem á eftir að fara í allavega eina veiðiferð. Ég er að vona að ég fái góðan dag í veiðina en sæmilegt hitastig getur gert útslagið.
Hvað sem haustinu líður þá fer vel um okkur hér í húsinu við ána. Það má segja að hver árstíð gæli við okkur á sinn hátt. Núna eru litir haustsins gríðarlega fallegir þó það verði fljótt að breytast héðan í frá. Veturinn fer að taka yfir.

Hér verður mikið líf og fjör í dag. Sláturdagurinn mikli er í dag. Ég keypti 20 slátur í fyrradag fyrir okkur og stelpurnar. Nú á að reyna að finna réttu samsetninguna með uppskrift sem ég fékk hjá Gerðu systir sem kemst sennilega næst því hvernig mamma gerði slátrið. Mamma var einstaklega lunkin við að gera bragðgóðan mat. Það var eins og hún hefði sérstakt innsæi í það hvernig blanda ætti saman hráefninu til að það bragðaðist vel.
Er ekki alveg frá því að það eymi af þeim hæfileika í genabankanum okkar systkinanna. Allavega eru systur mínar snjallir kokkar.
Ég hlakka til í kvöld en þá verður auðvitað sett upp slátur í pott og haldin uppskeruveisla.
Njótið daganna gott fólk.....

fimmtudagur, september 24, 2009

Þar fór í verra

Ég, veiðiklóin sjálf, kom heim með öngulinn í rassinum. Á ekki við mig, en svona er veiðin, ekki alltaf á vísan að róa. Hlynur fékk tvo fiska, annar ágætur hinn lítill en Hansi fékk einn 12 punda urriða. Flottur fiskur - jafnstór mínum stærsta í fyrra. Ég á annan dag í haust sem vonandi gengur betur.

Þá er bara að venda nefinu ofan í bækurnar aftur.
:0)

þriðjudagur, september 22, 2009

Volinn á morgun

YYYYhaaaa.
Loksins að maður kemst í veiði. Hef verið langt frá mínu besta í sumar. Er að vonast eftir góðri veiði. Set inn myndir af aflanum ef þannig verkast.

sunnudagur, september 06, 2009

Enn að fjallabaki...

Fjöllin heilla okkur Erluna meira en margt annað. Það er gaman að ganga á fjöll. Við byrjuðum á því í vor og höfum gengið á nokkra tinda í sumar. Það er líka gríðarlega gaman að ferðast um íslenska hálendið og skoða þann fjölbreytileika sem þar er að finna. Við fórum í gær með stóran hóp með okkur um Syðri fjallabaksleið að Hungurfit og þaðan suður Fljótshlíðar afrétt.
Það leit ekki vel út með veður fram eftir vikunni en rættist úr og við fengum flott veður í ferðinni.
Við stoppuðum oft við hina og þessa staðina sem vert var að skoða betur en unnt er út um bílgluggann og vegna litla mannfólksins sem var með í för, þau þurfa að hreyfa sig. Ég held að það sé börnunum afar hollt og nauðsynlegt að fá að kynnast Íslandi "eins og það kemur af kúnni" það kemur kannski í veg fyrir að þau búi sér til of neikvæða mynd af landinu sínu, sem mótast af endalausum neikvæðum fréttaflutningi.

Ævintýrin gerast í svona ferðum og brekkurnar verða stundum of brattar. Þá getur verið gott að vera ekki einbíla. Við lentum í ýmiskonar skemmtilegheitum, vöð yfir grýttar ár, klettaklungur þar sem er mjög þröngt og erfitt að koma bíl í gegn, brattar brekkur o.fl. Svona kryddar bara ferðirnar.
Ég heyri af dætrum mínum hvað ferðir þeirra um landið á uppvaxtarárunum hefur haft mikil áhrif á þær, og skapað góðar minningar.
Ferðin í gær var eins og endranær, skemmtileg og nærandi. Bæði var samfélagið við fólkið okkar afar gott og svo virðist landið okkar búa yfir þeim einstöku töfrum að næra sálina og skapa vellíðan þegar maður á samfélag við það.

Góð ferð, í góðra vina hópi, um fallegasta land veraldar - er hægt að biðja um meira?

mánudagur, ágúst 31, 2009

4. fjallið í sumar

Við vorum á Föðurlandi um helgina. Veðrið var snilldargott, miklu líkara júlíveðri en lokágústveðri. Við gengum á Þórólfsfell á laugardaginn. Það var heitt, en sem betur fer strekkings vindur. Útsýnið þarna uppi er alveg stórkostlegt. Við sátum í slakkanum á efsta tindinum sunnan megin með nestið okkar og nutum útsýnisins. Þórsmörk virðist ekki langt í burtu svona ofan frá séð. Eins sáum við inn á Fimmvörðuháls. Jökullónið í enda Gígjökuls sást vel og Eyjafjallajökull var eins og konungur í suðri, Mýrdalsjökull gnæfði í austri og Tindfjallajökull í norðri. Maður fyllist lotningu á svona stundum, sköpunin engu lík. Nesti bragðast líka aldrei eins vel og eftir góða fjallgöngu, það er ég búinn að finna út.

Sunnudagsmorguninn var einstaklega fallegur og hlýr. Algert stillilogn og sól í heiði. Pallurinn varð fyrir valinu þegar við snæddum morgunmat og svo létum við okkur líða vel fram eftir degi, fólk kom til okkar og við heimsóttum fólk í næstu bústöðum... indælt og gott.
Við eigum allavega eina fjallgöngu eftir þetta sumar. Það er nágranni okkar Ingólfsfjall. Næsta góðviðrisdag sem við erum heima verður lagt í hann.
Hafið það gott vinir.

þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Að fjallabaki og fleira

Það líður að skóla. Morgundagurinn í vinnu og svo hefst maraþonið enn einu sinni. Það vill til að tíminn líður hratt þegar mikið er að gera. það verður komið vor aftur áður en maður getur snúið sér við. Ég skal hins vegar viðurkenna fúslega að ég hlakka til þegar ég verð fullnuma með ML gráðu.
Það sem ég ætlaði að gera með þessum pistli er að efna loforð síðasta pistils. Við fórum í dagsferð um fjallabak. Fjallabaksleiðirnar eru tvær, nyrðri og syðri. Við slógum tvær flugur í einu höggi og fórum báðar. Fyrst keyrðum við um Dómadalsleið til Landmannalauga. Við skoðuðum Landmannahelli og Ljótapoll á þeirri leið ásamt endalausri fegurð íslenskra fjalla.

Landmannalaugar skörtuðu sínu fegursta. Litirnir þar eru engu líkir. Það er eins og skaparinn
hafi úthlutað þessu svæði litadýrð og náttúrufegurð af meiri rausn en annarsstaðar, og er þó af miklu að taka.
Þaðan fórum við að Eldgjá og gengum inn að Ófærufossi. Þeim sama og ég málaði mynd af fyrir 30 árum og hefur hangið í stofunni okkar, alla okkar búskapartíð.
Það var virkilega gaman að koma þangað og líta fossinn augum.
Umhverfið var aðeins öðruvísi en ég gerði ráð fyrir. Ekki að það væri ljótara heldur kom á óvart að fossinn væri ekki í enda Eldgjár heldur kemur hann þvert á gjána. Verst að steinboginn skyldi hrynja, það er sjónarsviptir af honum. Samt gríðarlega falleg náttúrusmíð.







Svo fórum við áleiðis í Skáftártungu en ákváðum á leiðinni þangað að fara Álftavatnaleið inná syðri fjallabaksleið. Það er 20 km. vegalengd og yfir eitt djúpt vað að fara, Syðri ófæru. Það gekk allt vel og við komum niður á syðri leiðina við Hólmsá sem er annað djúpt vað. Þaðan fórum við svo yfir Mælifellssand um endalausar jökulsársprænur því það var orðið áliðið, en þá hækkar í öllum jökulám. Þar er ekið eftir stikum um sandinn til að forðast sandbleytur.
Niður í Emstrur komum við svo, þar fórum við yfir Bláfjallakvísl sem var orðin þó nokkuð fljót. Svo komum við niður í Fljótshlíð klukkan að ganga tíu. Gilsáin var þá bara eftir sem okkur þótti eiginlega barnaleikur eftir hinar árnar.
Hér er Erlan við bílinn eftir svaðilfarir dagsins. Bláfjallakvíslin náði upp að listum á hurðunum.

Við vorum himinlifandi með ferðina enda bæði forfallnir ferðaidjótar, sérstaklega um fjalllendi. Svo ánægð að við tókum þá ákvörðun að endurtaka þessa ferð að ári og bjóða þeim sem hafa áhuga á, að slást í för með okkur. Eina sem til þarf er áhugi og jeppi......!
Oft varð okkur að orði þegar fegurð fjallanna snerti innra með okkur viðkvæma föðurlandsstrengi, hvort eitthvað væri til fallegra en landið okkar.

Ég set smá myndasýnishorn hér inn, en við tókum á fjórða hundrað myndir :0)
Svo eru nokkrar komnar inn á Flickr....

föstudagur, ágúst 14, 2009

Tæknivæðing

Hún ríður ekki við einteyming tæknin. Ég sit hér í bústaðnum og var að skoða veðurlýsingar á veraldarvefnum af leiðinni sem við förum í dag, Landmannalaugar og svæðið þar í kring. Við erum að tygja okkur af stað og munum eyða deginum í ferðalag um hálendið. Ég á von á skemmtilegum degi. Hendi inn myndum þegar tækifæri gefst.

laugardagur, ágúst 08, 2009

Frí...

Vikulangt frí er framundan hjá okkur Erlunni. Við ætlum að eiga náðuga daga hér heima og í kofanum. Það er bæjarhátíð hér á Selfossi í dag og á morgun "Sumar á Selfossi". Ýmislegt forvitnilegt sem við ætlum að sjá og taka þátt í m.a. listflug, götugrill, útimessa, kraftakeppni sterkustu manna íslands (ég tek auðvitað þátt), sléttusöngur (Árni Johnsen) flugeldasýning o.fl. Einnig er hugmyndin að skreppa upp í Sólheima í Grímsnesi á markað sem íbúar þar halda. Þar er til sölu allskyns grænmeti ræktað á staðnum og handavinna íbúanna sem flestir eru fatlaðir. Þetta verður svona letidagur með ýmsum uppákomum.

Svo tók ég villigæs úr frystinum til að elda í kvöld. Okkur áskotnuðust nokkrar gæsir frá einum af viðskiptavinum bókhaldsstofunnar sem Erla vinnur hjá. Ekki amalegt það. Villigæs er eitt það besta sem inn fyrir mínar varir kemur. Ætla að reyna að vanda mig við matseldina.

Einhverntíman í vikunni ætlum við svo að fara í ferðalag austur að Jökulsárlóni og hugsanlega gista í Skaftafelli.... í tjaldi. Það höfum við ekki gert í mörg ár. Veðrið ræður deginum sem við förum, svoleiðis er Ísland.
Það er góð tilhugsun að eiga þessa daga framundan.

Rétt að athuga hvort Erlan sé ekkert að rumska á þessum fallega en blauta laugardagmorgni. Nýmalað kaffi hlýtur að hafa vekjandi áhrif.

Þetta var örfrétt héðan af árbakkanum.
Njótið daganna gott fólk.

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Verslunarmannahelgin.....

Þá finnst manni alltaf að sumarið sé á lokasprettinum og haustið handan hornsins. Enda er það víst svo, allavega eru ekki nema tvær vikur þangað til að ég sest á skólabekkinn einu sinni enn.
Við áttum afar góða helgi í faðmi fjölskyldu og vina. Dæturnar og þeirra fólk var með okkur á Föðurlandi allan tímann.

Á laugardagseftirmiðdaginn og fram á nótt var haldið ættargrill hjá okkur. Það var fjölmennt, flestir komu þrátt fyrir tilkynningar okkar um að hugsanlega gætu nokkrar litlar dömur verið svínaflesnusmitberar. Flestir létu sér fátt um finnast og mættu í grillið, enda hægt að smitast hvar sem er ef því er að skipta. Snúllurnar eru ekki enn veikar svo hugsanleg hræðsla var óþörf.
Pallurinn milli húsanna sem ég hafði tjaldað yfir rúmaði nánast allan hópinn sem var snilld því nándin þjappaði fólkinu saman. Eftir matinn kveiktum við svo lítinn varðeld í lautinni fyrir framan húsin. Þar voru svo sungin ættjarðarlög fram á nótt við harmoniku undirleik Sigga hennar Gerðu. Þetta var notalegt og nærandi samfélag.

Á sunnudeginum kom svo ættleggur Erlu. Tilefnið var að kveðja Tedda og Kötu sem eru að flytja til Danmerkur. Þar grillaði hver með sínu nefi, afraksturinn lagður á stórt borð og svo fékk fólk sér það sem því leist best á. Þessi grillveisla stóð styttra en kvöldið áður enda fólkið upptekið á Kotmóti og tilefnið annað.

Mánudagurinn var líka góður. Þá var keyrt inn í Fljótshlíð með nesti og nýja skó. Við stoppuðum víða, skoðuðum Gluggafoss og fleiri staði. Enduðum svo í Þorsteinslundi þar sem farið var í leiki með yngsta fólkinu og borðað nesti.
Það eru forréttindi að geta átt svona gott og gefandi samfélag við fólkið sitt. Ég lít á það sem mín mestu auðævi.

Við kíktum á Kotmót. Það fangaði athygli mína að flytja átti sögu kotmóta í máli og myndum. Það var virkilega skemmtilegt að sjá og heyra. Afi og amma eru frumkvöðlar að því starfi sem fer fram í Kotinu. Sagan var lifandi og skemmtileg.
Góð helgi að baki - vinna framundan - smá frí, og svo.....skólinn.

þriðjudagur, júlí 21, 2009

E S J A N............

Við létum loksins verða af því að klifra upp á Esjuna. Ég verð að viðurkenna að hún er hærri en mig minnti (læt líta út að ég hafi farið áður) ok, hærri, en ég hélt. Við fórum með Írisi og Karlott. Það var virkilega gaman að fara upp. Það tók á. Við erum samt að taka okkur á í hreyfingarmálum og hollustunni. Enda má segja að árin krefjist þess og... skólinn, maður situr svo mikið orðið við lestur.
Næst er það nágranni okkar Ingólfsfjall. Það er nú mun lægra en Esjan svo það ætti ekki að verða svo erfitt.

.....Svo er það Þórisvatnið á miðvikudaginn að kitla veiðitaugarnar. Já lífið er ljúft. Ég verð að henda inn eins og einni mynd af frúnni á Esjutoppnum.... til að sanna mál mitt.

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Þríhyrningur og fleira

Vinnuhelgin varð að göngu- og ferðalagahelgi. Við fórum á Þríhyrning með þremur stelpnanna okkar, Eygló Örnu og Hrund. Það var gaman að koma upp einu sinni enn og gaman að skoða gamlar slóðir. Minningar á hverri þúfu nánast. Margt er breytt frá fyrri tíð, sumt til hins betra en sumt í hina áttina. Það er skaði að Kirkjulækjarkots jörðin skuli vera orðin svona uppskipt eins og hún er. Fyrst er safnaðarparturinn sem gefinn var á sínum tíma af bræðrunum í Kotinu. Svo tekur við land sem Veddi eignaðist fyrir allmörgum árum á uppboði, hluti Kotjarðarinnar. Blettir hér og þar. Hinrik náði til sín stærsta hluta túnanna sem Ninni átti. Svona má lengi telja. Ekki nutu þeir bræðurnir mikils af verðmæti jarðarinnar. Gefið eða selt fyrir einhver lambsverð.

Það var fegursta veður og hitinn mikill. Hitinn var ekki sérlegur vinur okkar á leiðinni upp á fjallið. Það var nánast logn og ef hreyfði vind var hann heitur eins og maður á að venjast miklu sunnar á hnettinum. Við fórum samt alla leið á toppinn. Hitamistur aftraði útsýni svo ekki sást eins vítt og venjulega. Það var með sérlegri nautn sem við snæddum samlokur á toppnum. Ekki laust við að þær væru orðnar takmark í sjálfu sér eftir því sem ofar dró.
Við fylltum allar flöskur af lindarvatni úr "lindinni" uppi á brúnum og drukkum það á leiðinni. Það er að sögn besta vatn sem fyrirfinnst. Ískalt beint úr jörðinni og sérlega bragðgott.
Heimleiðin var nokkuð löng enda eiginlega of heitt til að vera að ganga mikið. Það var gott að komast í bílinn og lofa honum að bera okkur síðasta spölinn á Föðurland.
Þar var svo samvera dagsins innsigluð með góðum grillmat sem Karlott og Íris sáu um að mestu.
Gott, hessandi og..... virkilega gaman.

Ísland er óumræðilega fallegt land, gjöfult og gott.

föstudagur, júlí 10, 2009

Labb

Við erum að tygja okkur af stað í Föðurland. Vinnuhelgi, þar sem verður málað og smíðað. Á morgun á svo að leggja í fjallaferð. Þríhyrningur verður klifinn. Hann er alltaf "fjallið okkar" einhvernveginn, þótt við eigum ekki meira í honum en aðrir. Það er formið og nándin sem við höfum eignað okkur.
Brottför er árla morguns til að hafa síðdegið til afslöppunar í sólinni sem er spáð um helgina. það spáir bongóbongó blíðu.
Njótið daganna vinir.....

sunnudagur, júlí 05, 2009

Miðsumar á Ölfusárbökkum

Það hefur verið eindæma gott veður undanfarna daga. Hitastigið hefur verið um og yfir 20 stig flesta daga. Hér á bökkum Ölfusár dansar tilveran vangadans við okkur eins og venjulega. Við vorum í sumarfríi vikuna eftir að við komum frá Danmörku. Dvöldum sitt á hvað hér á bökkunum og á Föðurlandi. Ég seldi mótorfákinn norður í land. Það er auðvitað leiðinlegt að geta ekki farið í útreiðatúr á fallegum degi lengur en svona er tilveran. Hjólið verður "borðað" í vetur með skólanum. Þetta er auðvitað einn liður í að fjármagna skólann....meira í veskið og minna að borga...!

Við Erlan erum svo lánsöm að eiga góða og trausta vini. Við eyddum föstudagskvöldinu í góðra matarklúbbs vina hópi. Við erum öll matgæðingar og kunnum vel að njóta góðs matar. Smjörsteiktur humar í hvítlauk og nýbakað brauð með sterkri hvítlaukssósu var frábær forréttur og svo nautalund með öllu tilheyrandi í aðalrétt og karamelluterta í eftirrétt. Svolítið 2007 en samt ekki dýrt þegar bara hráefnið er keypt en ekki er verið að borga fyrir eldamennsku og þjónustu.

Í dag eigum við von á afkomendum okkar hingað í húsið við ána. Dæturnar koma oft hingað með sitt fríða föruneyti. Það er ég ánægður með. Hef enda stefnt að því leynt og ljóst öll árin að heimilið okkar yrði fastur punktur í tilveru afkomenda okkar. Það eru of oft vanmetin gildi að halda fjölskyldunni þétt saman.

Nágrannar okkar Nína og Geiri hafa ekki haft erindi sem erfiði. Varpið misfórst hjá þeim. Ég veit ekki hvað kom fyrir en þau hættu allt í einu að liggja á hreiðrinu án þess að ungar væru komnir út. Í marga daga komu þau samt á hverjum degi undir miðnættið og annað þeirra lagðist á hreiðrið. Þau eru samt ungalaus og virðast frekar friðlaus og sorgmædd greyin.

Erlan er uppi á efri hæðinni að lesa bók. Ég ætla að láta renna í tvo bolla af kaffi og athuga hvort ég næ henni niður.
Límsófinn heillar hana oft, sérstaklega ef ég beiti kaffi á krókinn líka.

þriðjudagur, júní 23, 2009

Heima

Við erum komin heim eftir tæpa vikuferð í Danmörku. Ferðin var í alla staði góð. Við byrjuðum á Kaupmannahöfn.... það var öðruvísi en venjulega. Reyndar er Köben eins og hún er vön að vera. Við hinsvegar vorum með krónur sem við þurftum að kaupa á uppsprengdu verði. 25 kall fyrir dönsku krónuna er eitthvað sem varla var til í ævintýrabókum fyrir hrun. Hvað þá í veruleikanum. Þetta gerði að verkum að allt var svimandi fáránlega dýrt.

Við svo sem þurftum ekki að kaupa neitt nema eitthvað í magann. Svo buddan fann ekki mikið fyrir því. Það voru ekki mjög fallegar hugsanir sem við sendum landráðamönnunum sem settu landið okkar á hausinn og gerðu þetta að verkum að ekki er hægt að vera þarna lengur.

Dvölin hjá Óla og Annette var góð eins og við var að búast. Við fórum í göngutúra vítt og breytt keyrðum til Skagen sem er nyrsti hluti Jótlands í blíðuveðri. Þar fundum við pálmaströnd.... Við sem héldum að við værum í Danmörku.

Svo heimsóttum við foreldra Annette að Stenum. Pabbi hennar er fárveikur með krabbamein, honum er hjúkrað heima, bæði af þessari dugnaðarkonu mömmu hennar og svo kemur hjúkrunarfólk heim. Krabbamein er óþverrasjúkdómur sem allt of margir falla fyrir.


Þar á bæ fengum við heilan þvottabala af jarðarberjum...... nýtýnd stór og eldrauð.... Það var svo jarðarberjaveisla þegar heim var komið. Ég skil ekki hvers vegna maður fær ekki svona góð jarðarber hér heima. Reyndar verður að segjast eins og er að jarðarberin úr garðinum okkar eru jafngóð á bragðið en ekki eins stór.


Veðrið var líkara Spáni... annað slagið. Við náðum að sólbrenna aðeins, áttum ekki von á svona sólarveðri. Brúni liturinn er annars fljótur að renna af manni í rigningunni.
Danmörk er góð heim að sækja og fólkið okkar þar er enn betra. Það er samt alltaf gott að koma heim. Ég er svoddan þjóðernisremba að í hvert sinn sem ég kem fljúgandi heim frá útlöndum og sé landið mitt, finn ég til einhverrar þjóðerniskenndar sem snertir viðkvæma strengi innra og ég finn hvað landið er mér kært.
Já, Ísland er landið - því aldrei ég gleymi.

föstudagur, júní 19, 2009

God dag

Og nu er vi i Støvring hos Oli og Annette....og höfum það svona stórgott. Það er búið að vera frábært veður í ferðinni. Við löbbuðum mikið í Kaupmannahöfn, fórum á nýja staði sem við höfum ekki komið á áður, mjög gaman. Við flugum hingað yfir til Álaborgar. Það var þægilegt, tók bara 25 mínútur, þotan fór bara upp og strax niður aftur. Við fórum til Silkiborgar í gær með Óla. Hann átti vinnutengt erindi þangað. Við keyrðum svo þar um meðan hann fundaði eitthvað.
Í morgun vöknuðum við við mikinn gauragang, þrumur og eldingar. Ég hafði gaman að því, og ég held Erlan bara líka.
Verðlagið hér er engu líkt. Gengið er 25 krónur á dönsku krónunni. Sem dæmi keypti ég sitthvorn kaffibollann handa okkur fyrir 1250 krónur. Ein pylsa og kók kostar líka 1250 krónur. Það er furðulegt að hafa á tilfinningunni að hafa verið rændur eftir að hafa keypt eina pulsu...

Við ætlum í búðir í dag... :0) Loksins að maður fær að kíkja aðeins í búðarskammirnar.

Hafið það gott vinir mínir heima..... Ég þrauka daginn, það er áralöng reynsla fyrir því.

mánudagur, júní 15, 2009

Danmörk

Það verður flogið til Kongens Köben í fyrramálið. Þetta er ferðin sem við hættum við fyrir jólin í fyrra. Þá var gengið svo svimandi hátt á dönsku krónunni að okkur fannst ekki verjandi að fara. Við áttum flugmiðana áfram og seinkuðum ferðinni fram í júní og vonuðum að gengið yrði skárra. Núna er gengið ennþá hátt, en ferðin endurskipulögð. Við heimsækjum Óla og Annette.
Það er tilhlökkun í okkur. Danmörk hefur alltaf heillað okkur. Það verður gaman að eyða tíma með þeim heiðurshjónum.
Farið vel með ykkur á meðan lesendur góðir.....

laugardagur, júní 13, 2009

Morgunþanki

Yndislegasti tími ársins er runninn upp. Hér sit ég einn og sötra kaffið mitt og horfi út um eldhúsgluggann. Frúin á bænum sefur enn, enda í sumarfríi. Náttúran er iðjagræn og falleg. Ég sat hér, fyrir svo undarlega stuttu síðan og horfði á frostkalda ána bera fram íshröngl og klakastykki og jörðina frosna í frerahrammi. Einstaka hrafn flögrandi framhjá, gargandi og svangur, í leit að æti. Þá hugsaði ég til vorsins með tilhlökkun. Vorsins, þá lifnar allt, þá verður nóg að éta fyrir hrafninn, þá koma Nína og Geiri í hólmann.... Núna finnst mér eins og ég hafi hugsað þetta í gær, tíminn líður afkáralega hratt. Haustið verður komið áður en við verður litið. Þá fer græni liturinn að dofna, laufin að taka á sig annan blæ. Græni liturinn núna, rétt eins eins og haustlitirnir, minna á hið óumflýjanlega, hversu tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring. Ævi mannsins er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi og mamma. Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.

Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann þrátt fyrir krepputíma, er hamingja. Ég horfði hugfanginn á álftina hér í hólmanum verja óðalið sitt. Náttúran er óvægin. Gæsapar með unga hafði villst inn fyrir landamerkin. Það þýddi árás sem endaði með dauða eins ungans. Stórbrotið og óvægið. Ég tók líka eftir dansi fiðrildanna í blágresinu og fylgdist með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi, það væri sönn kreppa. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.

föstudagur, maí 29, 2009

Bjargráð eða hvað

Við erum að byrja að finna til tevatnsins. Þessi ríkisstjórn verður, alveg eins og sú sem fór frá, að horfast i augu við gríðarlegan vanda sem þjóðin okkar er komin í og framkvæma allskyns aðgerðir sem munu falla illa í landann. Sparnaður, auknir skattar og álögur er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að taka á skuldapakka þjóðarinnar. Þegar engin góð leið er til verður að finna illskárstu. Þessi aðgerð að hækka álögur á eldsneyti, áfengi og aðra vöruflokka skila ekki miklu upp í vandann. Til þess verður að fara í miklu meiri og sársaukafyllri aðgerðir. Þetta er aðeins upp í nös á ketti eða 1/40 af því sem liggur fyrir að að ná í kassann.

Þeir ættu samt að hlusta á stjórnarandstöðuna núna og skoða óbeinar afleiðingar þessara gjörninga. þetta getur orsakað að vandi heimilanna aukist um hátt í 9 milljarða meðan þetta færir aðeins um 2.5 milljarð í kassann.
Krafa búsáhaldabyltingarinnar um að nýir aðilar tækju við þjóðarskútunni breytti engu um blákaldan veruleikann sem blasir við í þjóðmálunum. Ný stjórn hefur engin tromp á hendi sem hin hafði ekki. Engin leið er þægileg eða góð, það er bara þannig.
Samt..... er um að gera að halda í bjartsýnina og horfa yfir víðáttumikið landið. Það hefur fóstrað okkur öll árin og mun gera það áfram.

laugardagur, maí 23, 2009

Útskrift

Það var hátíðleg stund í Borgarleikhúsinu þegar 105 stúdentar frá Kvennaskólanum voru útskrifaðir. Hrundin okkar ásamt skólasystkinum sínum setti upp langþráðan hvítan kollinn.
Þetta var flottur hópur efnilegs ungs fólks sem eflaust á eftir að láta að sér kveða.




Hrund fékk verðlaun frá velferðarsjóði barna fyrir góðan árangur í Mentor verkefninu, fékk enda 10.0 fyrir verkefnið. Af máli nemenda skólans og kennara mátti heyra að þessi gamli skóli stútfullur af gömlum hefðum og venjum er mjög sérstakur. Hann nær að tengja fólk órjúfanlegum vina- og tryggðaböndum sem oft endist ævilengt. Nærtækt dæmi er Erla og hennar gömlu skólasystkini sem hittast enn, en Erla gekk í Kvennaskólann í gamla daga meðan hann var enn gagnfræðaskóli.


Við héldum svo veislu í Kefassalnum í Kópavogi og buðum þangað um 90 manns. Veislan tókst vel og virtust allir skemmta sér vel. Þetta var matarveisla. Kalkúnn með fyllingu og sósu og karamelluhúðuðum kartöflum, lax með aspas og ristuðu brauði og fiskur í hlaupi með sósum og grænmeti. Við nutum þessa góða samfélags með fólkinu okkar og vinum. Svo voru matargötin auðvitað ánægð með að fólkinu virtist líka maturinn.Við vorum að rifna úr monti með dótturina, það sást víst langar leiðir sögðu einhverjir.
Hrund fór svo í bekkjarhitting eftir veisluna og kom heim í nótt einhverntíman.
Við tvö ætlum að skreppa í Föðurland í dag og slappa aðeins af.
Hvergi eins notalegt og þar.

miðvikudagur, maí 20, 2009

Bruðl og óráðsía

Ég er sammála Pétri Blöndal og nokkrum skoðanabræðrum hans á Alþingi, að stöðva þarf byggingu tónlistarhússins við höfnina. Þetta fyrirbæri kostar litla 25 milljarða - tuttugu og fimm þúsund milljónir.....!
Meðan við þurfum að skera niður lífeyri gamla fólksins, stytta skólagöngu unga fólksins, fækka lögreglumönnum, skera niður heilbrigðiskerfið og skerða þjónustu á öllum sviðum, getum við ekki haldið áfram svona bruðli eins og ekkert hafi í skorist.

Það má bara setja upp hlið og selja inn í tóma salina til að sýna næstu kynslóðum hvernig sukk kynslóðin hagaði sér. Sama mætti gera víðar. Til dæmis Bakkavararhúsið í Fljótshlíð, kaupþingsforstjórahúsið í Borgarfirðinum o.fl. staði.
Ég veit það af gamalli reynslu að þegar kreppir að skóinn, verður að bregðast við með viðeigandi hætti.
Sparnaður og aðhald er ein góð aðferð til að eiga meira fyrir nauðsynjum.

sunnudagur, maí 17, 2009

Matarklúbbur og júróvision

Það hefur áhrif á stolt manns sem Íslendings þegar okkur gengur vel á erlendri grundu. Ég var feikna ánægður með niðurstöðu söngvakeppninnar í gærkvöldi. Jóhanna var flottur fulltrúi Íslands og söng sig inn í hjörtu þjóðanna. Íslenska lagið var samt flottast. Það var samt eins gott að við leyfðum norðmönnum vinna því það hefði verið þungur baggi í erfiðu efnahagsástandi okkar að þurfa að halda keppnina að ári. Svo niðurstaðan í gærkvöldi var besti sigur sem við gátum fengið. Ekki veitti nú af til að rétta aðeins af hallann á þjóðarstoltinu.

Við vorum líka með matarklúbb í gærkvöldi. Það var gaman eins og alltaf. Maturinn var, þó ég segi sjálfur frá, svakalega góður. Í forrétt var reyktur lax rúllaður upp í rós með eggjakremi á milli og agúrkusósu, ferskum graslauk og ristuðu brauði.
Í aðalrétt voru kjúklingabringur veltar upp úr hunangi og ristuðum sesamfræjum áður en þær voru grillaðar. Bökuð kartafla með kryddsmjöri (hvítlaukur steinselja og graslaukur). Gljáð grænmeti (sætar kartöflur, rauð paprika og kúrbítur) og rjómalöguð ostasósa. - Hvet ykkur til að prófa að fara svona með kjúllann, algjört bragðlaukakitl.
Svo var Créme brulée í eftirrétt. Erlan sér um þann þátt. Hún fékk uppskrift hjá vinnufélaga sínum að alvöru créme brulée. Ég set uppskriftina á matargatið hér á síðunni ef einhver vill prófa. Ég hendi líka að gamni uppskriftunum að laxarósunum og sesamkjúllanum ef þetta freistar einhvars.

Í dag er svo hugmyndin að skreppa í Föðurland í Fljótshlíð. Við gömlu förum á mótorhjólinu en krakkarnir koma bílandi. Þau hafa fæst séð hvað búið er að gera þar, svo þetta er tímabær skoðunarferð.
Kvenfólkið á bænum er ekkert farið að láta kræla á sér ennþá.... ótrúlegt hvað þær geta sofið.
Ég morgunhaninn er alltaf sestur niður löngu á undan þeim.

Njótið daganna gott fólk

föstudagur, maí 15, 2009

Sit sveittur

Má segja í orðsins fyllstu merkingu. Það er heitt utandyra núna. Ég sit yfir tilboðsgerð.... inni. Ég sem hélt að ég kæmist út eftir prófin. Er að reyna að gera einhverja vitlega tölu í verkefni austur í sveitum. Það getur verið hausverkur þegar engar magntölur eru til staðar og verkefnið viðamikið.
Ég var annars í sveitinni í gær. Var að klára ýmislegt sem ég átti eftir að gera í kofanum. Vorverk eiginlega. Þar er alltaf jafn ljúft að vera.
Svo vorum við að fá úthlutað "garði" hjá sveitarfélaginu. Þar er pláss fyrir einhverja grænmetisræktun til að uppskera í haust. Bara gaman að því..... og frábærlega gott auðvitað, beint úr garðinum.

Jæja skyldan kallar. Það verður að vinna fyrir saltinu í grautinn í sumar.

miðvikudagur, maí 13, 2009

Að bóna er líka vorverk

Kraftur, svart stál, mikið króm og...... falleg kona.
Hún er punkturinn yfir i-ið.
Passamynd af króminu.
Ég hef gaman að þessu. Það er mikið verk að bóna eitt svona stykki, svo vel sé.
Að bóna bíl telst varla nokkur skapaður hlutur. Það tók mig góðan dag að fara yfir
hjólið, massa, bóna og pússa. Ég hlakka til að ferðast á því í sumar... auðvitað með
konuna aftan á.

mánudagur, maí 11, 2009

Akureyri

Við keyrðum norður í vetrarfærð. Holtavörðuheiðin var við það að vera ófær, blindbylur og bílar að byrja að festast eða keyra útaf. Við komumst þó vandræðalaust norður. Á Akureyri var svo afskaplega jólalegt með ofankomu sem skreytti tré og runna eins og gerist í desember hér sunnan heiða. Þessum veðurleiðindum lauk þó auðvitað að lokum með því að snjóinn tók upp og sólin skein.

Við kíktum á sýningu nemenda í Listaskólanum á Akureyri. Rúnar hefur verið í þeim skóla undanfarin ár og var með verkin sín á sýningu sem var tengd útskrift nemenda. hann var samt ekki að útskrifast. Hann er að gera ýmislegt þarna m.a. saga í sundur stóla og raða þeim upp í ýmsum stellingum. Svo málar hann myndir með ýmsum aðferðum sem ég kann ekki skil á aðferðafræðilega. Margt mjög flott hjá honum.
Afmælið hans var haldið á laugardeginum. Það var fjölmennt og margir tóku til máls honum til heiðurs. Á máli manna mátti heyra að Rúnari er margt til lista lagt. Fyrir utan listina og smíðarnar hefur hann tekist á við veikindi til 8 ára með aðdáunarverðum hætti. Hann hefur sýnt samferðafólki sínu að lífið er ekki endilega búið þótt krabbamein herji á líkamann. Honum hefur auðnast að líta björtum augum á framtíðina og smita frá sér jákvæðni til samferðafólks síns.

Það var gaman að geta verið með honum á þessum tímamótum. Ferðalagið var líka skemmtilegt. Okkur hjónakornum hefur aldrei leiðst að ferðast um landið okkar.
Fín helgi að baki. Skólinn búinn, allar einkunnir í höfn.... á reyndar eftir að fá eina. Held hún velti ekki hlassinu mér.
Njótið daganna.

fimmtudagur, maí 07, 2009

Prófalok

Þetta var góð törn. Bráðum sex vikur stanslaust með nefið ofan í tölvunni eða bókunum. Í dag var síðasta prófið þetta vorið. Fyrsta önnin að baki í mastersnáminu. "Bara" þrjár eftir. Það getur verið að ég eigi samt bara eina önn eftir í fögum. Það er ekki alveg útilokað að ég skrifi "stærri" ritgerðina. Ef svo færi, taka skrifin tvær annir. það veltur á hvort ég fæ leyfi til að skrifa um ákveðið efni sem mig langar til að skrifa um. Vandamálið er að það er í frumvarps formi ennþá og gengur ekkert að þoka því í gegnum þingið. Þetta eru ný byggingar- og skipulagslög. BA ritgerðin mín var um svipað efni byggð á núverandi lögum. Það var alltaf hugmyndin að skrifa mastersritgerðina á grunni nýju laganna sem gengur illa að gera að lögum.....

Þetta kemur allt í ljós. Ég er kátur með prófalokin núna hvað sem framhaldið verður. Á morgun verður brunað á Akureyri. Rúnar er að halda upp á fimmtugsafmælið sitt. Það er stór áfangi og vert að halda upp á það.
Svo tekur við að reyna að vinna fyrir næsta skólaári. Ég vona að eitthvað verði að gera hjá mér. Ef þig vantar smið - þá hringirðu í mig. Ef þig vantar lögfræðing sérstaklega varðandi byggingatengd mál - þá hringirðu í mig.....
Einfalt... og þægilegra verður það ekki.

miðvikudagur, maí 06, 2009

Meira um gjaldþrot

Ég næ ekki hvernig sú ákvörðun stjórnarflokkanna að leggja ESB málið fyrir Alþingi getur kallast niðurstaða. Hvernig á Alþingi að samþykkja að ríkisstjórn fari í aðildarviðræður þegar hún er svona gersamlega ósammála um málið. Ef Alþingi segir já - hvað ætla VG þá að gera. Ætla þeir að senda Samfylkinguna suðureftir eina og standa svo fastir gegn öllu sem kemur þar fram. Ég sé ekki annað en að í raun séu þessar stjórnarmyndunarviðræður gjaldþrota.
Fyrir utan hvað það er orðið með öllu óskiljanlegt, hvað þau leyfa sér að vera lengi að þessu.

mánudagur, maí 04, 2009

Gjaldþrot

Það standa margir á þröskuldi þeirra dyra í dag. Ég hef heyrt marga tala um gjaldþrot eins og það sé - valkostur - sem lögin leyfa. Ég heyri þennan grundvallar misskilning hjá mörgum. Það er rétt að gjaldþrot er löggerningur sem lögin auðvitað banna ekki. En eins og nafnið gefur til kynna er gjaldþrot ástand sem ber með sér greiðsluþrot. Að komast í greiðsluþrot er skilgreint þannig að ekki er til fyrir skuldum og ekki fyrirsjáanlegt að úr bætist í sjáanlegri framtíð. Þá er svo komið, fram að þessu allavega, að einungis ein leið er fær og hún er gjaldþrotameðferð. Ein grundvallarbreyting sem gerð hefur verið á gjaldþrotalögunum, greiðsluaðlögunin, er samt leið sem er fær í dag. Hún hefur ekki verið til staðar hér á landi þangað til nýverið. Hún er ekki einu sinni fullmótuð þar sem ráðherra er að smíða reglugerð um framkvæmd laganna.
Það er skoðun mín að best sé að forðast gjaldþrot í lengstu lög. Ég sjálfur myndi skoða þessa leið sem björgunarhring í ólgusjó. Það er gott að geta átt von um að ferlinu ljúki á einhverjum tímapunkti. Hér er linkur á allar upplýsingar um greiðsluaðlögun m.a. hvernig veðskuldir koma inn í dæmið.

Ég skil mjög vel þá sem velja greiðsluverkfall. Margir sem tekið hafa þá stöðu falla undir skilgreininguna að vera komin í greiðsluþrot og sjá ekki að það breytist í sjáanlegri framtíð. Það tel ég nægjanlega ástæðu til að hætta að greiða. En akkúrat þar myndi ég skoða greiðsluaðlögun mjög vel. Um leið og ég skil það svona vel að fólk hætti að greiða, kemst ég ekki framhjá hinni hliðinni á teningnum. Það sem mælir gegn greiðsluverkfalli einstaklinga er spurningin um almannaheill. Ef allir hætta greiðslu lána sinna fer bankakerfið lóðbeint á hausinn aftur og enginn björgunarhringur til staðar eins og síðast. Ef margir hlekkir brotna í þessari keðju sem bankakerfið, eða öllu heldur rústir bankakerfisins, byggir á er voðinn vís.
Það myndi kalla yfir þjóðina allsherjargjaldþrot með gríðarlegu atvinnuleysi, allsherjarsjóðþurrð og alvöru örbirgð heimilanna. Ég held að kreppuástand þjóðarinnar nú yrði talin velsæld á spjöldum sögunnar miðað það ástand sem gæti orðið.
Ábyrgð hvers íslendings nú, er að styðja við skútuna svo henni hvolfi ekki endanlega, þó það sé fúlt hlutskipti miðað við aðdragandann.

Ég hef ekki enn fengið líklega skýringu á fyrirbærinu á myndunum hér að neðan..... Upplýstir runnarnir og staurinn, ýta gufu-, reyk- og andardráttar hugmyndum út af borðinu.
Einhver sem giskar betur?

föstudagur, maí 01, 2009

Hvað er þetta...?

Nú vantar mig einhvern sem getur rýnt í þessar myndir fyrir mig. (Hægt að stækka þær) Þetta eru tvær myndir teknar með 22 sekúndna millibili.
Við vorum í göngutúr í gærkvöldi fjölskyldan með myndavélina með í för auðvitað.
Ég tók þessa kl. 22:25:52



Svo tók ég þessa á nákvæmlega sama stað nokkrum sekúndum seinna eða kl. 22:26:14
Þá kom þessi geisli inná myndina.
Það sem veldur mér heilabrotum er að þetta er ekki linsu tengt því þetta lýsir upp bæði trén og staurinn.





Ég lýsti myndina og þá sést betur hvernig trén og staurinn lýsast upp (græni liturinn).
Ef einhver mér fróðari getur gefið mér skýringu á þessu fyrirbæri -annað en að þetta sé draugurinn úr Stórahelli sem við vorum að koma úr, þá þætti mér gaman að fá komment á það.
Ég er sjálfur búinn að brjóta heilann um hvað þetta sé - án niðurstöðu.

Annars......göngutúrinn var snilld. Hafið það betra en best vinir.

fimmtudagur, apríl 30, 2009

Liggur eitthvað á

Eru þau ekki eitthvað að misskilja hlutina Jóhanna og Steingrímur? Þau tönnlast á því að þau hafi nógan tíma og ekkert liggi á og muni taka sér þann tíma sem þau þurfi til að mynda nýja stjórn. Ég hefði haldið að ef einhverntíman í íslandssögunni hafi legið á að mynda starfhæfa ríkisstjórn væri það núna. Ég veit ekki betur en að þorri heimila og gríðarlegur fjöldi fyrirtækja vegi salt á brún hengiflugs.
Við þannig aðstæður hef ég lært að þurfi einmitt að hlaupa hratt.

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Flensan

Nú er hún kennd við svín. Síðast var hún fugla ættar. Þessi er víst blanda af manna- fugla- og svína erfðum. Þetta var nú tæplega það sem heimurinn þurfti ofan í kreppuna. Enn búum við vel hér norðurfrá. Við búum í strjálbýlu landi. Við getum lokað fyrir ferðalög til og frá útlöndum. Við eigum lyf og heilbrigðiskerfi, eitt það besta í heiminum. Hreina loftið og tæra vatnið. Allt sem kemur að góðum notum.
það er samt mun meiri ástæða til þess nú að fylgjast vel með framgangi þessa vágests, heldur en þegar fuglaflensan setti hér allt á annan endann fyrir ekki svo löngu síðan. Þá var verið að sótthreinsa fólk frá ákveðnum stöðum í heiminum, meðan farfuglarnir komu fljúgandi yfir hafið frá sömu stöðum. Svona getum við verið eitursnjöll.

Ég er við það að fá upp í kok núna af bókalestri. Ég er búinn að sitja stanslaust yfir bókum núna í bráðum mánuð og rúm vika eftir. Næst síðasta próf á morgun. Það verður gott að klára. Alveg að verða komið gott í bili.
Þó skömminni skárra þegar veðrið er eins og í dag, rok og suddi. Gærdagurinn var pína, hörmungarveður.

sunnudagur, apríl 26, 2009

Sáttur

Held að sjálfstæðismenn hafi gott af þessari útreið. Þeir voru höfundar kerfisins sem hrundi og líka kerfisins sem átti að hafa eftirlit með kerfinu. Þetta er pólitíski ávöxtur þeirra af verkum sínum. Alltaf skondið að heyra þá sem tapa í kosningum réttlæta sig. Bjarni Ben var kokhraustur, taldi ekki mikið mál að rétta þetta fylgishrun af. Samfylkingin hefur nú yfirburðastöðu til að koma stefnumálum sínum að. Ef ekki með VG þá með Framsókn og nýliðunum í Borgarahreyfingunni.
Nú er ljóst að við förum í "viðaldaraðræður" við ESB eins og konan mín komst svo skemmtilega að orði. Það verður fróðlegt að sjá afrakstur þess.
Ég kom sjálfum mér á óvart með því að kjósa Samfylkinguna. Það hefði ég ekki gert fyrir nokkrum misserum síðan vegna evrópumálanna, það eru góð réttindi að geta skipt um skoðun.

Annars var ég í munnlegu prófi í morgun í skuldaskilarétti. Gekk nokkuð bærilega þangað til annað sannara kemur í ljós. Á eftir er stefnan sett í sveitina. Christina hans Gylfa er fimmtug í dag og heldur upp á það með hátíð í Goðalandi í Fljótshlíð. Til hamingju með það frú.

Prófalesturinn heldur áfram, vátryggingaréttur á miðvikudaginn og svo réttarheimspekin í vikunni þar á eftir.

Njótið vordaganna gott fólk.....

laugardagur, apríl 25, 2009

Kosningar

Aldrei í íslandssögunni hafa kosningar verið framkvæmdar undir jafn óræðum framtíðarhorfum og í dag. Valdið er í höndum þjóðarinnar, val um fulltrúa til að leiða okkur í gegnum storminn. Þetta er lýðræðið í hnotskurn.
Þjóðarheimilið er undir sömu lögmálum og öll hin heimilin í landinu. Spurningin snýst um að halda sjó, auka tekjur heimilisins og spara, til að eiga í sig og á.

Það er alveg dagljóst að þetta verður ekki gert nema herða sultarólina á velferðarkerfinu. Það er jafnljóst að moka verður upp auðlindunum sem aldrei fyrr. Þjóðin er á barmi gjaldþrots. Hugmyndir fólks um að hvergi megi skera niður er holur hljómur, við höfum ekkert val. Það er sama hvaða flokkar mynda stjórn eftir kosningar. Eitt verkefni blasir við þeim öllum, það er að koma í veg fyrir að þjóðarskútan sökkvi. Ekki voru framsögur formannanna í gærkvöldi til að auka manni tiltrú. Kosningarnar í dag snúast í hnotskurn um hver sé skársti kosturinn, til að finna skársta kostinn, af engum góðum, út úr vandanum.

föstudagur, apríl 24, 2009

ESB

Smá hugleiðing fyrir þá sem eru að velta fyrir sér spurningunni um ESB
Eftir hrun frjálshyggjunnar í haust hefur umræðan snúist mjög um inngöngu í ESB. Fjölmargir eru, eða hafa verið, alfarið á móti inngöngu. Sérstaklega er erfitt að höndla framsal á fullveldinu. Fæstir vita um hvað málið snýst í raun.
Ég skil vel þá sem ekki vilja framselja fullveldið, það kemur við tilfinningar og þjóðarstolt. Ekki er samt allt sem sýnist. Á þessum teningi eru tvær hliðar. Staðreyndir málsins eru þær að í gegnum EES samninginn erum við aðilar að ESB þó ekki fullgildir. Þar höfum við skuldbundið okkur til að, annarsvegar innleiða tilskipanir ESB í íslenskan rétt (aðlaga íslensk lög að tilskipuninni) og hinsvegar að taka upp reglugerðir ESB í íslensk lög (allan textann). Með öðrum orðum þá erum við jafnsett undir lagasetningarvald ESB í gegnum EES og ef við værum fullgildir aðilar. Með EES fór því lagasetningarvaldið árið 1993 til Brussel og við höfum enga rödd þar til að gæta hagsmuna okkar.
Lagalega túlkunin skv. stjórnarskránni er að lagasetningarvaldið sé hér, en pólitískt og í raun er það í Brussel. Við inngöngu í ESB myndum við hafa hjáróma rödd við reglusetningar og tilskipanir á móti engri rödd þar núna. Ég hef alltaf verið harður andstæðingur inngöngu þangað til augu mín opnuðust fyrir því að í reynd er lagasetningarvaldið farið utan og dómsvaldið líka (mannréttindadómstóllinn t.d.) sem dæmir um dóma Hæstaréttar ef Íslendingar telja á sér brotið.

Svo svarið við spurningunni um hvort við séum að selja sál okkar (þjóðarsálina) fullveldið, sjálfstæðið eða hvað annað sem við viljum kalla það, blasir við.

fimmtudagur, apríl 23, 2009

Með sól í sinni, sól í hjarta

Sumar heilsar með vætu og morgunsvala. Vætan er góð fyrir unga frjóangana sem gægjast út í vorið og bera með sér fögur fyrirheit um hækkandi sól og græna tíð. Veturinn, mildur hvað veðráttu varðar, allavega miðað við þann síðasta, hefur kvatt í bili. Brumin á trjánum hér í garðinum og ástarleikir fuglanna hér fyrir opnum tjöldum bera því gleggst vitni.
Vorið er góður tími. Við verðum vitni að hringrás lífsins einu sinni enn og sjáum hvernig lífið í sinni einföldu mynd er eins hjá öllu sem lifir. Að fæðast, lifa um stutta stund, og deyja.

Það eru lífsgæði að fá að vera áhorfandi að þessu fallega undri í kringum sig. Allt er í raun afstætt og tíminn ekki síst þegar fylgst er með heilu æviskeiði á jafnstuttum tíma sem íslenskt sumar er. Æviskeið okkar er jafn afstætt þegar maður hugsar til þess hvað bernskan fjarlægist hratt í árum talið. Ég get farið að tala um hálfa öld. Ég er þakklátur hverju nýju ári sem bætist við. Sumum finnst eitthvað hræðilegt við að eldast, verum fegin að fá að eldast. Ég upplifi lífið eins og spennandi bók þar sem skrifaður er nýr kafli hvern einasta dag.

Auðvitað eru kvartilaskipti í lífinu og veturinn, þó hann hafi verið góður veðurfarslega, hefur verið mörgum erfiður. Atburðir vetrarins í efnahag landsins snerta margan illa. Það er þó ofurnauðsynlegt að gera sér grein fyrir að þrátt fyrir allt búum við í landi fádæma gæða. Það vita innflytjendurnir sem nú streyma til okkar vængjum þöndum frá fjarlægari löndum og sýna okkur með þeirri fyrirhöfn, hvers virði landið er. Þessi eyja sem hefur alið okkur sem þjóð í árþúsund við misjafnan kost, hefur síðustu áratugi opnað fyrir okkur auðlindasjóði sína sem aldrei fyrr, sem allar þjóðir öfunda okkur af. ESB horfir til okkar á biðilsbuxum einmitt vegna þessara gæða landsins. Það er á grundvelli þessara gæða sem við munum rísa fljótt upp úr vandræðunum þrátt fyrir að vandinn sé sennilega allra þjóða mestur. Við búum vel að eiga slíka gersemi.
Njótið sumarsins í hvívetna vinir mínir og munið að áhyggjur auka ekki einum degi við aldurinn.....nema síður sé.
Gleðilegt sumar

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Nína og Geiri mætt.....!

Það var sérstök ánægja fyrir okkur Erluna að sjá þessa vængjuðu nágranna okkar komin á svæðið. Það hefur verið hálfgerður beygur í okkur frá því í vetur eftir að álftin var skotin hér fyrir ofan frosin föst á ísnum. Sem betur fer var það..... ókunnug álft. Við fylgdumst með þeim hjónunum Nínu og Geira koma í dag í hólmann hér úti í á. Þreytt eftir langt flug yfir Atlantshafið, ganga með stóískri ró að ólögulegu óðalinu sínu frá í fyrra. Þau skoðuðu vel hvernig það kæmi undan vetri, spjölluðu saman á lágu nótunum og kroppuðu aðeins og löguðu það eitthvað til. Annað þeirra rölti svo aftur niður að á og fékk sér smá sund og gott í gogginn af botninum meðan hitt hélt áfram að taka til.
Þau virðast hafa allan heimsins tíma og taka lífinu með mikilli stillingu. Lötra niður að á og synda saman í rólegheitum og reigja hálsinn með tignarlegu yfirbragði, taka svo land og rölta upp að óðali, laga það aðeins til, spjalla, lötra svo aftur niður að á, synda og fá sér í gogginn. Allt látbragð þeirra er friðsælt og fallegt. Þau eru kóngur og drottning í ríki sínu. Ég held að þau hafi ekki enn frétt af kreppunni.
Við munum fylgjast grannt með þeim eins og fyrri árin hér við ána.
þetta er óður til lífsins.

sunnudagur, apríl 19, 2009

"Bóndinn" tengdapabbi....

....átti afmæli 9. apríl sl. Í tilefni þess var haldin þessi flotta veisla honum til heiðurs í gærkvöldi. Veislan var í samhjálparsalnum og tókst svona snilldar vel í alla staði.
Lamb var á boðstólum með tilheyrandi. Það var við hæfi, enda hefur mér skilist á Birgi "bónda" að lamb standi höfði og herðum hærra annarri fæðu og er þó af ýmsu góðu að taka. Ásta hans Kidda eldaði matinn sem bragðaðist eins og best verður gert.
Teddi mágur minn stýrði veislunni og fórst það vel. Það er vandi að stýra veislu svo vel sé, vandrataður meðalvegurinn milli hátíðleika og gríns og glens. Að standa á sjötugu er flottur áfangi. Það er enn flottara ef árin hafa skilið eftir sig eitthvað sem hefur snert við lífi fólks. Það var samnefnari þeirra ræða sem haldnar voru í veislunni að tengdapabba hafi tekist það. Það er gæfa sem hlotnast ekki öllum. Það byggir reyndar ekki á neinni heppni heldur á lögmálinu um sáningu og uppskeru. Ýmsir stóðu upp og héldu honum tölu. Ég var ánægður fyrir hans hönd með það sem kom fram í máli manna...og kvenna. Orð sem flest voru án innistæðulauss kurteisisskjalls, heldur meint eins og þau komu af kúnni.
Það er með ánægju og hlýju sem ég get litið yfir árin 33 sem ég hef tilheyrt fjölskyldunni og get sannarlega tekið undir orð einhvers sem tjáði sig, hversu ég er feginn að þau hittust Ella og Biggi....! Það atvik er orsakavaldur mestu gæfu minnar, hvorki meira né minna.
Til hamingju með árin öll,
og enn frekar með uppskeruna sem þú hefur komið í hús.

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Próf

Nú er ég dottinn í prófalestur. Ég er í þremur prófum núna í lok mánaðarins og byrjun næsta. Það er eins og fyrri daginn, bannað að líta upp úr því. Það fer að komast í vana að sitja yfir bókum í stað þess að vera utandyra þegar vorið kallar á mann. Ég sit núna á skrifstofunni við opinn gluggann og hlusta á gæsirnar hér í hólmanum. Þær eru mættar ásamt mörgum farfuglanna. Það var mikilll fuglasöngur hér í gærkvöldi þegar dalalæðan þokaðist yfir. Fallegt og vænt.
Ég þarf að fara í bæinn á eftir. Lokafyrirlestrar í réttarheimspekinni í dag. Ekki þýðir að missa af því. Enda eins gott að safna í sarpinn allri þeirri þekkingu sem hægt er svo prófútkoman verði þokkaleg. Ég nota hjólið núna enda veðrið frábært til þess. Ekki spillir að það kostar langtum minna.
Jæja bækurnar kalla.
Njótið dagsins, það er komið vor.....

mánudagur, apríl 13, 2009

Og allt tekur enda

Páskarnir hafa verið ánægjulegir hjá okkur. Við byrjuðum hátíðina með því að fara í Föðurland í Fljótshlíð á skírdag. Ég kláraði nokkur handtök sem þurfti, til að gera enn notalegra í kofanum okkar. Var m.a. búinn að færa eldhúsið yfir og tengja klósett og handlaug á baðinu. Svo nú er að nálgast að allt sé til alls í nýja kofanum. Heiðar og Sigrún komu svo á föstudaginn og gistu fram á laugardag. Við grilluðum saman og rifjuðum upp góðar fellihýsastundir undanfarinna ára. Danni og Ankie kíktu á okkur á laugardeginum og Benni og Una líka. Við kíktum líka aðeins í heimsókn til Hlyns. Gerða systir rak inn nefið og fleira gott fólk hittum við.
Á páskadag vorum við svo með páskalamb fyrir alla fjölskylduna okkar heima í húsinu við ána. Lambið (læri og hryggur) hafði fengið að vera við stofuhita í nokkra daga til að meyrna. Það var ljúffengt eins og lamb er alltaf, erfitt að klúðra því.

Í dag fórum við svo til Reykjavíkur á mótorfáknum okkar. Það var hressandi og skemmtilegt. Kíktum á tengdó og aðeins til Heiðars og Sigrúnar. Nú erum við komin heim. Tvær dætranna, Arna og Hrund, voru að koma heim . Merkilegt hvað þær nenna að vera með okkur gamla settinu. Við hljótum að vera svona skemmtileg.
Kvöldið verður því notað í spjall og samveru.
Það leiðist mér ekki.

sunnudagur, apríl 12, 2009

Páskar

Og viti menn, þeir koma upp á sunnudegi þetta árið.....! Veistu hver er ástæðan fyrir að páskar færast svona sitt á hvað eftir dagatalinu? Kannski veistu það en svarið er að þeir fylgja tungldagatalinu. Páskadagur er alltaf fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur.

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Greiðsluaðlögun

Loksins....! Ég fagna þessum lögum. Loksins eftir áralanga meðgöngu eru til úrræði fyrir þá sem fara einhverra hluta vegna, fjárhagslega flatt í ólgusjó lífsins.
Gömlu þrælalögin voru ómanneskjuleg. Enginn spurði hversvegna ástandið var til orðið. Engu skipti hvort um var að ræða atvik sem voru algerlega ófyrirséð, sem fólk gat "lent" í og gat á engan hátt snúið sig út úr, eða hvort eitthvað saknæmt eða gruggugt var á ferðinni.
Ég er svo ánægður fyrir hönd þeirra sem nú eru í miklum vanda og sigla stórsjó að geta átt von um höfn, allavega smá skjól.

Það er hörmuleg aðstaða fyrir fjölskyldu að fá ekki skjól eftir brotsjó. Allt brotið sem brotnað getur, allsstaðar skellt dyrum á nefið á þeim, engin úrræði. Svartur listi, annars flokks þegnar.

Að horfa á skuldheimtumenn selja íverustað fjölskyldunnar er reynsla sem skilur eftir spor sem aldrei fennir í. Þannig var einn kaflinn í lífi okkar fjölskyldunnar við ána. Það var okkar kreppa.

Vonandi verða þessi lög til þess að færri þurfi að standa í þeim sporum.

föstudagur, mars 27, 2009

Nær er skinnið

Hvað er góð fjölskyldustefna í nútíma þjóðfélagi? Gylfi frændi minn spurði að þessu á statusnum sínum á Fésbók.
Ég skrifaði á móti það fyrsta sem mér datt í hug. "Nær er skinnið en skyrtan"
Þetta er ekki málsháttur eins og margir halda, heldur er þetta tilvitnun í Jobsbók þegar Satan vildi fá að ganga að Job sjálfum eftir að hafa kramið fjölskyldu hans og allt sem hann átti.
Þessi orð eru þegar að er gáð, afar gildishlaðin, og auðvelt að finna þeim stað í lífinu.
Það er bjargföst trú mín að mikil og náin samvera barna og foreldra sé besta veganesti sem hægt er að gefa þeim. Þau læra fyrst og fremst af foreldrum sínum - ef... þau fá tækifæri til þess.
Ég held líka að þeim sé afar nauðsynlegt að finna að þau eigi óskoraðan forgang að foreldrum sínum umfram aðra, bæði fólk og málefni, ekki í orði, heldur raunverulega - gangi fyrir. Að heimilið sé hreiður fjölskyldunnar, uppspretta ánægju og yndisauka.
Áður fyrr á árunum var fjölskyldulíf miklu samofnara, með húslestrum og spjalli. Í dag er sjónvarpið barnapía meðan börnin eru ung, svo verður það gjarnan eins og hver annar fjölskyldumeðlimur og oftast sá sem fær mesta athyglina. Það veit ekki á gott.
Innihaldsríkar samræður um lífið og tilveruna hefur mikið forvarnargildi. "Hvað ungur nemur gamall temur".

Það veltast margir ósjálfbjarga í brimgarði efnahagsólgunnar núna. Unga fólkið sem alið er upp við að fá hlutina upp í hendurnar strax, á hvað erfiðast með að finna sér viðspyrnu þar.
Ég hef þá trú að ef þessu unga fólki hefði verið kennt af foreldrum sínum hvernig ber að umgangast fé, væri það í öðrum sporum núna.
Fyrir nokkrum árum var ég í svipuðum pælingum hér á síðunni. Pistillinn er hér.
"Oft ratast kjöftugum rétt á munn" þá blöskraði mér sóunin og eyðslan hjá fólki. Þetta var samt hófsamt þarna árið 2004 miðað við það sem átti eftir að verða.
Ég held ég verði að vera sammála pistlinum mínum gamla.... og hvetja fólk til að setjast niður með börnunum sínum og kenna þeim að umgangast lífið með varúð þ.m.t. peninga. Það stendur engum nær en okkur, því nær er skinnið en skyrtan...!

föstudagur, mars 20, 2009

Einn góður fyrir helgina

Mafíuforingi, ásamt lögfræðingi sínum var mættur hjá bókaranum sínum og var ekki kátur. Hvar eru fimmtíu milljónirnar sem þú dróst þér? Bókarinn svaraði engu. Mafíósinn spurði aftur. Hvar eru fimmtíu milljónirnar sem þú dróst þér? Lögfræðingurinn ákvað að skerast í leikinn og sagði. Herra, þú veist að maðurinn er heyrnarlaus og mállaus og getur ekki skilið þig. Ég skal túlka fyrir þig. Lögfræðingurinn notaði táknmál til að spyrja bókarann hvar féð væri og bókarinn svaraði á táknmáli að hann kæmi af fjöllum og vissi ekki hvað hann væri að tala um. Lögfræðingurinn túlkaði aftur til mafíósans - hann veit ekkert hvað þú ert að tala um. Mafíósinn dró þá upp níu millimetra skammbyssu og rak hana í andlitið á bókaranum og sagði reiður - spurðu hann aftur hvar í andskotanum peningarnir mínir séu!
Lögfræðingurinn gerði eins og honum var sagt og logandi hræddur bókarinn svaraði: Ókey ókey. Peningarnir eru faldir í brúnni ferðatösku í skúrnum í garðinum heima hjá mér... Mafíósinn leit á lögfræðinginn óþolinmóður og spurði: - Nú hvað sagði hann...?
Lögfræðingurinn svaraði: - Hann sagði þér að fara í rassgat og að þú þyrðir ekki að skjóta.......!

þriðjudagur, mars 17, 2009

Refresh...

...takkinn er mikið notaður núna. Ég á von á tveimur einkunnum í dag úr málflutningsverkefninu. Önnin styttist óðum í aftari endann. Kennslu verður að mestu lokið viku af apríl. Þá hefst prófalestur. Staðreyndin er samt sú að ég er bara í þremur prófum í vor þó ég sé í fimm fögum. Hin tvö sem eftir standa samanstanda eingöngu af verkefnavinnu.

Það er hiti og þokuloft. Einhvernveginn svo vorlegt. Mótast kannski af því að ég sit við opinn gluggann og heyri náttúruhljóðin svo vel. Hlakka til að fá Erlu og Hrund heim á eftir. þó einvera geti verið góð má hún ekki vera of mikil....þá leiðist manni. Sérstaklega svona fjölskyldukalli eins og mér.

sunnudagur, mars 15, 2009

Hart í bak

Við fórum í leikhús í gærkvöldi. Við erum hálfgerðar leikhúsrottur orðnar svo fólk er farið að gefa okkur miða í leikhús t.d. í afmælisgjafir o.þ.h. Það þykir mér algjör snilld. Það á að gefa fólki á okkar aldri eitthvað sem eyðist. Ekki glingur og skraut.
Hart í bak eftir Jökul Jakobsson er flott leikrit. Hvort tveggja er það vel flutt og sagan er skemmtileg ádeila á þjóðfélagið, sem vafalaust hefur ekki verið hugsun höfundarins þegar þetta leikrit var samið árið 1962, allavega ekki á sama hátt og nú er, enda engin brjálæðisleg peningahyggja búin að tröllríða þjóðinni þá þegar verkið var frumflutt fyrir fullu húsi í Iðnó. Gunnar Eyjólfsson leikari sló í gegn með frábærlega flottri túlkun á gömlum blindum fyrrverandi skipstjóra sem hafði strandað skipinu sínu (Gullfossi) óskabarni þjóðarinnar. Flott dramatík hvernig hann endaði ævina í einsemd og að lokum troðið á elliheimili.

Núna sit ég hér einn niðri, við opinn glugga og hlusta á árniðinn. Hann lætur svo vel í eyrum svona á morgnana. Sérstaklega þegar veðrið er svona stillt og fallegt eins og núna, sól í heiði, svo manni finnst jafnvel vorið vera farið að minna aðeins á sig.
Þessi dagur verður annars notaður í lærdóm. Gærdagurinn var svona kæruleysisdagur, lítið lært. Farið í bæinn í afmæli tengdamömmu og svo leikhúsið í gærkvöld. En svona dagar eru nauðsynlegir inn á milli.

Ég er farinn að fá einkunnir úr þessum endalausu verkefnum og er ekki fallinn enn.
Erlan var að koma niður svo "nú er nóg" eins og einhver sagði. Ætla að fara fram og hella upp á tvo bolla af nýmöluðu kaffi, bjóða henni í stofuna í límsófann og spjalla aðeins.
Lífið er dans á rósum....stundum á rósablöðunum sjálfum.

miðvikudagur, mars 11, 2009

GÆS

Maður fær vatn í munninn bara við að sjá orðið á prenti.....! Í síðasta pistli sagði ég ykkur frá endurnærandi semveru okkar hjónanna í kofanum okkar um helgina. Ég las góða bók þar,
"Með lífið að láni" eftir þá félagana og sálfræðingana Jóhann Inga Gunnarsson og Sæmund Hafsteinsson. Mæli með henni, virkilega góð fyrir þá sem hafa áhuga á mannlegum þáttum tilverunnar.

Eitt atriði bókarinnar fjallar um bættan árangur. Þar segja þeir frá skemmtilegri hugrænni aðferðafræði sem byggir á orðinu GÆS, sem er skammstöfun fyrir - GET - ÆTLA - SKAL!! Sem dæmi um árangur segja þeir eftirfarandi sögu:

Faðir unglingsstúlku hafði áhyggjur af frammistöðu hennar í skólanum, hún var búin að eiga erfitt fyrir próf og stóð sig ekki nógu vel að hans mati. þannig að hann ætlaði að stappa rækilega í hana stálinu. Hann sagði henni frá þessari aðferðafræði GET ÆTLA og SKAL = GÆS.
Hún gæti allt sem hún vildi með því að venja sig á að standa fyrir framan spegilinn og fara með þessi orð, það myndi styrkja sjálfsöruggið.
Svo líður og bíður og stelpan rúllar bókstaflega upp prófunum . Pabbi hennar spyr hana þá, hvað gerðirðu eiginlega?? Þetta er ótrúlegt!!! Þá svarar stelpan.... nú, ég gerði eins og þú sagðir mér að gera, stóð fyrir framan spegilinn og sagði ÖND, ÖND, ÖND!

Máttur trúarinnar er mikill.

sunnudagur, mars 08, 2009

Hver á sér fegra föðurland?

Það eru engar ýkjur, fegurðin í Fljótshíðinni á sér fáa líka. Eftir frekar annasamar vikur undanfarið ákváðum við að skreppa austur á Föðurland. Héðan fórum við í snjóleysi og gæðaveðri. Fljótshlíðin var ekki eins snjólaus. Við sátum föst í skafli, rétt komin á leiðarenda. Ég, öskufúll út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki farið á jeppabúrinu, mokaði snjóinn undan bílnum sem losnaði loksins eftir gott stopp, puð og líkamsrækt. Ég bað Erlu að sækja tvær ca. tveggja metra spýtur sem voru þarna nálægt, til að troða undir hjólin. Hún sótti tvær fimm metra... ó ég hélt að þetta væru tveir metrar sagði hún.......konur!

Kofinn tók vel á móti okkur. Ekki ískaldur eins og vanalega, heldur var smá ylur á ofnum sem við skildum eftir síðast þegar við fórum. Kamínan var kynt og fljótlega var orðið hlýtt og notalegt inni. Þetta eru lífsgæði að geta farið þangað og notið sveitarinnar.
Ég var búinn að bíða lengi eftir tilefni til að elda rjúpur sem ég skaut. Fyrir löngu ákvað ég að það hlyti að vera gott að glóðarsteikja þær á grilli. Ég marineraði þær hér heima og sló svo upp tveggja manna veislu í kofanum. Rjúpurnar voru að mínu mati nálægt því að vera það besta sem ég hef smakkað á minni löngu ævi og hef ég nú smakkað ýmislegt. Sterkt lyngbragð og villikeimur sem mér féll svona svakalega við, lungamjúkt kjöt og bragðmikið rauðvín með. Óóótrúlega góður matur. Gæði, gæði, gæði fyrir bragðlauka.

Við áttum svo algeran rólegheitadag í dag, létum kamínuna malla í rólegheitum, gamla klukkan var trekkt upp til að fá notalegt tikkið í gang og fallegan slátt á heilum og hálfum tíma. Svo var lesið (ég) og prjónað (Erla) og drukkið kaffi þess á milli og spjallað um lífið og tilveruna.
Notaleg helgi í Föðurlandi voru og kreppan úti í móa einhversstaðar.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Er heima í dag.

Ég átti reyndar að vera í fyrirlestri í vátryggingarétti í morgun. Verð að viðurkenna að ég nennti ekki til Reykjavíkur fyrir tvo fyrirlestra í persónutryggingum, fagi sem ég vann við í tvö ár. Það er búið að vera mikið að gera í skólanum undanfarið, endalaus verkefni. Í gær fluttum við "héraðsdómsmál" varðandi ýmsa riftanlega gerninga í bankafallinu. Tilbúin dæmi auðvitað en líkleg til að koma upp í veruleikanum. Skemmtilegt fag.

Ég er núna sestur niður við verkefni í skuldaskilarétti, efnismikið og feitt.
Hugtakið "rannsóknatengt nám" byggir á þessari aðferðafræði, endalaus raunhæf verkefni, praktík, praktík, praktík. Ég er ánægður með þetta, læri meira á einu svona verkefni en lestri margra bóka.

Það er ánægjulegt hvað daginn hefur lengt. Sveitamaðurinn í mér er farinn að hlakka til vorsins. Það kemur alltaf einhver fiðringur í mig á þessum tíma. Eina sem ég kvíði núna er að þurfa að vera inni að lesa fyrir prófin í vor. Hef oft átt svolítið bágt, hlustandi á vorhljóðin úti, fastur yfir bókunum.

Það er svo sem fátt sem bendir til komu vorsins núna, 7 stiga frost og strekkingsvindur. Húsið við ána kúrir hér á árbakkanum í norðangarranum. Áin er illvíg núna með mikinn klakaburð, samt finna álftirnar sér fæðu innan um krapann, kafa með hausinn niður á botn og virðast finna þar eitthvað sem seður.
Feginn er ég að vera ekki álft....!

sunnudagur, mars 01, 2009

Sviðið er stríð....

Hörmungar sem því fylgja þekkjum við ekki af eigin raun sem betur fer. Það var hrollvekjandi að skyggnast inn í hugarheim stríðsmannsins sem hefur misst allt. Manns sem með brjáluðum hug er orðinn svo tilfinningalaus og gersneyddur öllu sem heitir siðferði, að hann viljandi fremur athæfi og virðist njóta þess, sem aðeins lægstu hvatir mannlegs eðlis geta fundið upp á. Hryllingur, settur fram af ótrúlegri list gerir þetta verk ógleymanlegt. Ingvar E. Sigurðsson er bara snillingur. Þau Kristín Þóra Haraldsdóttir og Björn Thors sýndu líka snilldartakta. Þetta er þríleikur í sérklassa.

Rústað, er ótrúleg sviðsetning og alls ekki fyrir viðkvæma. Ef þú hefur áhuga á verki sem skilur ekki bara eftir amerískan graut þar sem allt endar vel og þau gifta sig, heldur einhverju áleitnu sem langan tíma tekur að meðtaka og melta, gæti þetta verið fyrir þig.

Annars var ég í skólanum í dag. Ég viðurkenni fúslega að það var ekki það sem ég vildi eyða þessum góða sunnudegi í. En svona er lífið, ekki alltaf jólin.
Á að vera að skrifa ræðu núna fyrir munnlegan málflutning sem verður á miðvikudaginn. Ætla að sleppa því í kvöld og taka morgundaginn með trompi í staðinn. Kvöldinu verður eytt með Erlunni og dótturinni í límsófunum. Alltaf jafn gaman að sitja þar og spjalla um lífið og tilveruna.

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Meiri samsuðan

Hvernig á að vera hægt að bera virðingu fyrir svona fólki. Ætli Steingrími sé ekki bumbult eftir átið á sínum stóru orðum um getuleysi fyrri ríkisstjórnar. Hann talaði um aumingjaskap og undirlægjuhátt fyrrum stjórnar varðandi málaferli gegn bretunum. Slær svo sjálfur af allar hugmyndir um slíkt, þegar hann er loksins kominn í stöðu til að bretta upp ermarnar og framkvæma sjálfur. Það er ótrúlegt að sjá.

Enn ótrúlegra er að sjá þessa minnihlutastjórn klúðra svona tækifæri sínu, rétt fyrir kosningar, til að sýna takta sem fólk myndi kaupa.
Ef þau sneru sér að alvöru málum, fólkinu í landinu sem er að missa allt sitt. Fyrirtækjum sem eru að fara á hausinn og örva atvinnulífið svo fólkið hafi vinnu.
Þess í stað fer öll orkan í að koma Davíð úr Seðlabankanum, sem þau ráða ekki einu sinni við.

Hlustaði á viðtalið við Davíð í tölvunni áðan. Ég verð að segja, eftir hlustunina, og eftir lestur nokkurra bloggfærslna þar sem fólk er æft út í hann, að reiði þjóðfélagsins út í Davíð er fyrst og fremst leit að blóraböggli og hungur í hefnd.
Auðvitað á hann þátt í þessu öllu eins og aðrir stjórnmálamenn sem setið hafa við völd. En eftir því sem meiri viðbjóður kemur í ljós í bankasukkinu, kemst ég nær þeirri hugsun að útrásarvíkingarnir hafi, upp til hópa, verið ótýndir glæpamenn. Það elur af sér pælingar um sekt eða sakleysi yfirvalda. Kannski svipuð pæling og að það verður seint löggunni að kenna þó fólk fremji glæpi.

Kannski var Davíð eins og Derrick, sá ýmislegt og reyndi að tala við yfirlöggurnar en...... Hver veit hvað er satt eða logið?

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Oft hef ég....

.... þrifist vel á því að hafa nóg fyrir stafni. Finnst fátt jafn niðurdrepandi og að hafa lítið að gera. Það leit ekki út fyrir að verða mikið að gera í vetur, svo ég dreif mig í háskólann aftur til að klára mastersnámið. Það lá alltaf fyrir að klára það svo ég er þannig séð að ganga eftir áætluninni sem ég fór af stað með þegar ég byrjaði.
Hinsvegar getur umfang verkefnanna orðið ansi mikið ef þannig verkast. Ég er að koma úr vinnutörn núna sem krafðist eiginlega meira en hollt getur talist. Sérstaklega var einstaklingsverkefni í Auðlindarrétti strembið. Því er lokið sem betur fer...á réttum tíma.
Allt í lagi með það. Var líka í hópaverkefnum í samstarfi við gott og skemmtilegt fólk.
Ég hef samt gaman að þessu. Bætir í sarpinn smátt og smátt.

Hef varla haft tíma til að fylgjast með þjóðmálunum. Sumt fer samt ekki framhjá. Framsókn var að minna á sig. Kannski er það samt þetta sem vantar meira af hjá þingmönnum, svo þingið verði valdameira og skilvirkara. Maður er vanari að þingmenn sitji fast bundnir í sínum flokksböndum og þori ekki að umla sjálfstæða sannfæringu sína. Verð að segja að þetta ýtir aðeins við viðurkenningartakkanum í mér. Næstum sama hvert málefnið væri....þó ekki alveg.
Datt í hug stubbur úr ljóði eftir Árna Grétar Finnson:

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.

Er samt ekki að kommenta á málefnið með þessu þar sem ég veit varla um hvað það snýst. Veit þó að þessi gírugi framsóknarmaður Höskuldur Þórhallsson vildi bíða eftir niðurstöðu nefndar Evrópusambandsins um breytingar á regluverki um seðlabanka. Sé ekki að það velti einhverju hlassi, finnst það bara skynsamlegt í ljósi þess að við erum nú þegar aðilar að hluta Evrópusambandsins í gegnum EES. m.a. megninu af regluverkinu þeirra.

Sýnist þessi ríkisstjórn ætla að ná að klúðra þessu einstæða tækifæri til að rústa næstu kosningum. - Fengnir til að bjarga málum - eftir klúður fyrri ríkisstjórnar og ætla að renna á rassinn með flest sem þeir hafa haldið á lofti, digurbarkalega. Það fer ekki mikið fyrir alvöru aðgerðum, verð ég að segja, eða hvað?

Annars erum við í góðum gír hér í húsinu við ána. Erla heldur vinnunni sinni sem betur fer. Vinnur fyrir mér svo ég geti látið skóla mig til.
Ég er farinn að hlakka til vorsins hér. Daginn lengir og tíminn líður hratt. Bráðum kemur betri tíð með vor og yl og angan í haga. Þá verður mótorfákurinn tekinn fram og viðraður.... með Erluna aftan á.

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Góðra vina þorrafundur

Þorrablótið árlega hjá okkur systkinunum. Það 32. í röðinni, var haldið hér í Húsinu við ána. Veðrið var gott og allir gátu komið. Að vanda var gaman að hittast. Matnum, sem sumum finnst skemmdur og varla mannamatur, voru gerð góð skil. Hákarlinn var kannski full mildur ef eitthvað er. Annað féll vel í kramið. Ég gerði að gamni mínu að sjóða feitt saltað hrossakjöt og bjóða með hefðbundna þorramatnum. Það féll í góðan jarðveg, enda er saltað hrossakjöt sælkera matur ef það er vel heppnað. Alltaf er það samt samfélagið sem auðgar, þó svo maturinn sé alltaf

mannsins megin. Það er gaman að skiptast á gömlum minningum, segja sögur úr bernsku eða jafnvel rifja upp stundir úr fyrri þorrablótum. Þau eru jú orðin nokkur.

32 ár hafa sett mark á hópinn eins og gengur. Ég set hér inn myndir teknar í gærkvöldi. Efri myndin er af okkur systkinunum, sú neðri af mökum.


Það sést kannski best með samanburði. Þetta er tekið í garðinum Hildar og Jóa í einu af fyrstu þorrablótunum okkar. Gæti verið nálægt 30 ára gömul mynd.
Kannski ekki svo mikill munur? Aðallega háraliturinn :o=)
og motturnar, kannski nokkur kíló líka, sumstaðar allavega.
Gaman að þessu.
Njótið daganna gott fólk......

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Vindasamt

Það er ekki laust við að hlutirnir gerist hratt þessi misserin. Stjórnarfall, og vinstri stjórn í burðarliðnum. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað kemur út úr þessari samsuðu. Þarf kannski ekki að vera svo merkilegt til að vera jafnokar eða betri en fráfarandi stjórn. Allavega eru líkur til að tekið verði til í Seðlabankanum og fleiri stöðum, kannski bönkunum líka, hver veit. VG eru að leggja fram frumvarp um frystingu á fé auðmanna sem settu okkur á kúpuna, gott mál ....ef það stenst!
Jóhanna hefur sýnt og sannað að hún lætur verkin tala, hún er ekki bara orðaflóð eins og pólitíkusum er svo lagið. Líst bara vel á að hún stýri fleyinu um stund.

Svo hefst kosningabaráttan strax á morgun með öllu skruminu sem því fylgir. Það verður úr vöndu að ráða hvað á að kjósa. Sjálfstæðismenn eiga of stóran þátt í þjóðarþrotinu til að fá mitt umboð svo mikið er víst. Nú þarf að grandskoða stefnur flokkanna og fólkið sem stendur að þeim. Einhver hlýtur að vera skárri en annar.

föstudagur, janúar 23, 2009

Og Hörður Torfason....

...er BJÁLFI sem kann ekki mannasiði.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Lögfræðingurinn Obama...

...er ekki öfundsverður. Hann tekur við arfaslöku búi af fyrirrennara sínum Bush. Ekki nóg með að endalaus óleyst vandamál, og ill leysanleg, blasi við vegna herskárrar valdatíðar Bush, heldur er efnahagur landsins í rústum eftir endalaust stríðsbröltið í honum. Og svo sem ekki bara efnahagur bandaríkjanna, heldur alls heimsins. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig svona maður, jafn illa gefinn og óheppinn, skuli í fyrsta lagi, hafa komist til valda, og í öðru lagi, ríkja í tvö kjörtímabil.

En svona er veröldin uppfull af óskiljanlegum hlutum. Vonandi tekst Obama að koma málum í horf aftur, það hefur gríðarleg áhrif út um allan heim hvernig honum tekst til - líka hér.
Ég sjálfur, fagna þessum forsetaskiptum í Bandaríkjunum.

sunnudagur, janúar 18, 2009

Lærdómur

Dagurinn hefur farið framhjá bjartur og góður. Eftir notalegan morgunn við blaðalestur og kaffi fórum við Erlan í göngutúr upp með á. Umhverfið var fallegt eins og venjulega, jafnvel fallegra. Sólin skein og glampaði svo fallega í ánni. Það var gott að fá ferskt loft í lungun, hressti heilasellurnar. Annars hefur síðdegið helgast af lestri og tölvuvinnu fyrir morgundaginn. Málstofa í auðlindarétti í fyrramálið, áhugavert fag um ferli hugmyndar að framkvæmd í íslensku lagaumhverfi. Annars fer skólinn vel af stað. Ein vika liðin og ég er búinn að fara í tíma í öllum fögum annarinnar. Líst vel á þau öll og veturinn leggst vel í mig. Það verður nóg að gera eins og endranær.

Vonandi verður botninum náð hjá okkur í efnahagslífinu í vetur og ég vona líka að bjartsýni og von fæðist með þjóðinni með hækkandi sól. Ég verð samt að taka undir að ástandið er ekki gott. Það hlýtur samt að fara batnandi fyrst svona margir skvetta málningu á opinberar byggingar. Svona lítur nú hver sínum augum á vandann.

Vikan verður fljót framhjá og það er stutt í næstu helgi

Njótið daganna